Bucket list

Hefur þú búið til Bucket list þ.e. lista yfir allt mögulegt sem þig mynd langa til þess að gera í lífinu? Það eru til síður á netinu sem aðstoða mann við að setja slíkt upp, með myndum og öllu. Mér nægir allt eins að skrifa niður á blað.  Minn lá yfir þessu á nýársnótt og úr urðu ýmsar hugmyndir. 

 Manstu eftir mynd sem gerð var fyrir nokkrum árum sem fjallar um tvo eldri menn sem vita að þeir eiga stutt eftir og ákveða að búa til Bucket list. Svo fara þeir út um allt, í fallhlífarstökk, safarí, kappakstur,  ferðalög, einsog til Indlands, og allskonar eitthvað... Ég horfði á þessa mynd aftur í kvöld og hún er bæði falleg og þægileg mynd, e.t.v. þriggja klúta fyrir suma. 

220px-Bucket_list_poster

Það hefur annars komið mér virkilega á óvart hversu möguleikarnir geta verið miklir í lífinu. Maður á það til að hreinlega gleyma því. Það er hreint út sagt óteljandi hvað hægt er að gera.  Á móti kemur hversu frjáls maður er og hvað fjárhagurinn í rauninni. Þessir tveir hérna til hliðar hafa úr nægum peningum að spila, þannig að það er í sjálfu sér ekki mikið að marka þá. Þarf samt svona áhugalisti endilega að kalla á mikla peninga? 

 Það er ekki fyrir alla að fara í fallhlífarstökk og svo er það svolítið dýrt sport.  En allavega minn listi er svona:  

 Læra Bachata - mjög skemmtilegur dans sem er að ryðja sér til rúms núna í bænum.   

Klífa Esjuna. Sem ég minntist á hérna að ofan. Mikið svakalega er spenntur fyrir útsýninu þarna uppi. Sjáumst á toppnum.  
 
Prufa sjósund. Ég hef reyndar verið varaður við þessu sporti...
 
Taka þátt í Jónsmessuhlaupi, og hinu og þessu hlaupinu yfir árið. Talandi annars um Jónsmessunótt, ég hef aldrei prufað að velta mér uppúr dögginni. Hefur þú prufað það?
 
 
Síðan, að fara í spinning - nokkuð sem ég hef aldrei prufað að gera.
 
 Fara í riverrafting - hlýtur að vera spennandi, sigla með Norrænu, skoða Noreg, fara í finnskt sauna, fara á sjóskíði, skoða París, Róm, píramídana í Egyptalandi.... það er endalaust hægt að upplifa á ferðalögum. 
 
Annað væri allt eins hægt að hafa á svona lista, sem er að endurnýja samskipti við einhvern sem maður hefur ekki séð lengi, gera sér far um að reisa við það sem áður virkaði brotið, eða biðjast afsökunar þótt seint sé. Það er allt hægt ef viljinn er fyrir hendi. 
 
Njótum lífsins meðan við höfum það :)  
 

 


Jákvæðir hlutir

Þegar við leggjum af stað að morgni dags, keyrum bílnum í vinnuna, tökum strætó eða göngum, hvernig svo sem því er háttað, þá vitum við svo til ekkert um hvað dagurinn kann að bjóða okkur uppá. Það er alltaf þessi óvissa þarna. Þó svo að dagarnir virki allir eins á stundum, þá getur alltaf skotist að okkur dagur sem er allt öðruvísi.

Við erum stöðugt að upplifa eitthvað, góða hluti, býsna jákvæða, neikvæða, eða jafnvel ekkert af áðurnefndu. Verst með þetta neikvæða, það er alltaf að gerast og því miður, þegar við búumst ekki við því. Þá spyr ég hversu auðvelt það sé að vera jákvæður í heimi sem er virkar svo oft svo ferlega neikvæður. Mig langar að benda á ýmsar leiðir og fyrst þessa hér:

Þegar dagurinn verður strembinn, dimmur, leiðinlegur og neikvæður, þá hafa sumir prufað að vera með positive triggers eða svona jákvæða hluti. Sem getur verið mynd af einhverju eða einhverjum sem manni er kær, innblásin orð á miða, eða hlutir sem veita góðar minningar. Ég er sjálfur að hugsa um að hafa fleiri myndir í veskinu mínu :)


Um gleðina

Hversdagsleikinn er voðalega mikið eins, svona frá degi til dags. Við förum á fætur, morgunmatur, klára morgunverkin, drífa sig í vinnu, aftur heim, sjónvarp eða námskeið. En er gleði í þínu lífi? Eitthvað sem er og hægt er að viðhalda eða trekkja af stað. 

Mér hefur dottið sumt í hug varðandi þetta. Eins og það að fara rösklega af stað á morgnana. Opna hurðir með gleðisvip, þ.e. að velja sér að vera glaður um leið og hurðin er opnuð. Síðan að bara valsa inn. Prufa jafnvel að labba glaðlega og brosa í leiðinni. Bjóða góðan daginn glaðlega. Allt þetta þó svo að maður sé ekkert sérstaklega glaður. Málið væri einungis að keyra hlutina í gang.

Hvers vegna ekki að prufa eitthvað svona :) 


Um þjáninguna

Þessi færsla fjallar um trúarlegar öfgar. Eins og gengur og gerist með menn þá hneigjast þeir iðulega til öfga. Mikilla öfga jafnvel.  Trúin á guð kann að vera þar á meðal. Tölum bara um guð kristinna manna hér og látum annað liggja milli hluta, í bili allavega. 

 Í þessum venjulega hversdagsleika upplifir margur ekkert sérstakt sem beinir honum að einhvers konar guðdómi.  Í friðsömu þjóðfélagi eins og á Íslandi, sem er nota bene án hers og væntanlegra styrjalda, þá virkar kristin trú annaðhvort sem aðlaðandi barnatrú eða athafnatrú, þ.e. þegar einungis eru sóttar messur á hátíðisdögum, vegna jarðarfara, hjónavígslna, skírna o.s.frv.  2svar á ári er farið til kirkju og ekki einu sinni það oft á tíðum.

Þegar síðan fýkur í öll skjól þá leitar margur í trúnna og ýmsir fara þá að upplifa Guð. Kristin trú virkar einhvernveginn best í þrengingum; þegar fólk upplifir mikinn sársauka, þjáningar og trúnna um leið.  Ef við förum aftur í tímann og sjáum fyrir okkur hina fyrstu kristnu þá voru þeir þannig að þeir vildu þjást og ganga í dauðinn. Frelsun margra þeirra fólst í því að deyja kvalafullum dauðdaga ásamt Kristi og rísa síðan upp með honum.  Þannig náðu menn að upplifa Guð fyrir tilstilli þjáningarinnar.  Það er reyndar eins og margur finni hann helst með því móti, með þjáningu. Sorgmæddir gera það, einmana fólk, sjúklingar, andlega veikir, fólk sem er að koma úr harðri neyslu eins og dópistar og alkóhólistar. Hinn hversdagslegi maður tilheyrir ekki neitt sérstaklega þessum hópi. 

Hversdagsmaðurinn heldur áfram sinni göngu til og frá og er ekkert endilega að hugsa um Guð. Þegar lífið gengur fínt, er þá þörf á einhverju fleiru? Hvers vegna að trúa á eitthvað sem sést ekki, heyrist ekki í og er ekki hægt að sanna að sé til? Nú orðið er alveg dæmigert að hugsa þannig. En svo gerist iðulega eitthvað erfitt hjá okkur öllum fyrr en síðar. Fólk skilur, veikist, deyr o. m. fl. 

Væri þess vegna hægt að taka þjáningunni fagnandi? Að hún færi mann nær einhvers konar guðdómi og andlegri frelsun. Margur þjáður hefur upplifað eitthvað honum æðri, sem birtist honum eða virðist vilja mæta honum með einhverjum hætti.  Eins og meiri líkur séu á því að hinn þjáði upplifi guðdóminn heldur en sá sem lifir góðu lífi. Sem má vel vera.  Rasputin syndgaði ítrekað upp á náðina, þjáðist vegna þess og iðraðist svalls síns. Síðan syndgaði hann aftur og þjáðist.  Með þessum hætti taldi hann sig upplifa Guð mun sterkar.

Hvernig er það, ætti maður ekki bara að halda sér innan þægindarammans, eða hvað finnst þér? 


Himnaríki

Mér vitraðist himnaríki eitt sinn að kvöldi.  Nú spyrð þú kannski hvort slíkur staður sé til og hvers vegna ekki spyr ég á móti.  Er okkar veruleiki endilega sá eini, geta þeir ekki verið fleiri og allavegana? Hvað vitum við annars út fyrir okkar eigin rann nema það eitt að við deyjum einhvern daginn og við tekur eitthvað annað, önnur vídd eða veruleiki, ellegar ekki neitt. Hvað vitum við svo sem?  En hér kemur sú vitrun sem ég sá fyrir mér og sem mér leið svo vel með. 

Himnaríki er til. Þar eru engir veggir og engin hús. Það er vegna þess að ekkert girðir af annað og lásar eru óþarfir, enginn þarf að loka sig af og þörfin á eignum er ekki til staðar.  Ekkert er til sem heitir hægri og vinstri, upp né niður.  Þar eru litirnir svo fallegir og margir þeirra eru ekki til á jörðinni. Fátt eitt af þeirri fegurð sem þarna finnst er raunverulega til á jörðu.  Þær verur sem flæða þarna um í mikilli vellíðan búa yfir meiri fegurð heldur en nokkurn tíma hefur fyrirfundist meðal manna. Og það er hægt að gera allt mögulegt í þessu óendanlega stóra rými, þar sem að vonbrigði og særindi eru ekki til. Þarna er hægt að semja hina fegurstu tónlist og flytja hana. Allt er hægt, eins lengi og það er fallegt og flott.  Það er líka hægt að búa til nýja undursamlega liti. 

 Þetta er bara önnur vídd, veruleiki sem er annars konar, öðruvísi, fegurri en mannheimar nokkurn tíma. 

 


Brotið þjóðfélag

Það er verið að pota í kýlin og hleypa heilmiklum greftri upp.  Tímabil afhjúpunar er virkilega hafið og nú hafa verið afhjúpaðir nokkrir illskeyttir menn.  Menn sem höfðu komið sér fyrir hingað og þangað. Einn hafði t.d. komið sér fyrir á hóteli um skeið, en annars verið hingað og þangað við iðju sína, þ.e. að misnota annað fólk kynferðislega. Á sama tíma var skólastjóri barnaskóla við nákvæmlega sömu iðju og enn annar notaði tölvuna sína til þess að komast í kynni við börn. 

Þetta er þyngra en tárum taki. Þvílík hörmung. Hver verður síðan afhjúpaður næst? Hvar enda allar þessar afhjúpanir? Þær eru vissulega mikilvægar, líka til þess að stemma stigu við þeim alvarlega glæp sem misnotkun er.  En svo er annað, sem er hvort að allt tal um kynferðislega áreitni geti farið út í öfgar og langt út fyrir hvers kyns þjófabálk.

Þegar allt mögulegt fer að teljast áreitni, sem var það ekki áður. Eða þegar að þörfin fyrir að afhjúpa hinn illa fer að vera svo mikil að einhver saklaus verður fyrir barðinu á því. Líka þegar karlmenn mega ekki lengur koma nálægt hinu og þessu, eins og ekki yfirhöfuð nálægt börnum annarra, hvar sem er.  Sbr. leikskólakennarar í Danmörku mega ekki lengur fara á Wc með börn. 

Okkar er að skapa kærleiksríkt þjóðfélag. Við getum að sama skapi búið til óttaslegið þjóðfélag. Þá á ég við þjóðfélag þar sem að ótti hefur læðst svo að fólki að það er stöðugt á varðbergi. Á endalausu varðbergi gagnvart öllu mögulegu eins og bara öðru fólki yfirhöfuð og þá sérstaklega karlmönnum sem eru einir á vappi einhversstaðar. Á varðbergi gagnvart hugsanlegum glæpum og perraskap. Auðvitað þurfum við að vera varkár í lífinu, en hér er ég að tala um því mun meiri ótta við hið vonda.

Hið vonda á heima í skúmaskotum og á erfitt með að horfast í augu við sjálft sig. Pukur og makk í skjóli myrkurs er hinu illa mikilvægt til þess að dafna. Með öllu því sem ekki má komast upp.  Leið ljóss og heiðarleika er að gera ekkert sem aðrir mega ekki vita um  og vera þekktur fyrir þá viðleitni. Sú leið er góð. 

 


Um meðvirkni

Ég hef verið að velta fyrir mér hugtakinu meðvirkni. Það hefur mikið til verið notað meðal fólks sem hefur með einhverju móti tengst alkóhólisma eða einhverri annarri fíkn, hvort heldur sem það sjálft er fíkillinn eða einhver aðstandandi. Hér koma nokkrar hugmyndir um meðvirkni sem ræddar hafa verið og margur kannast e.t.v. við eitthvað af þessu.

Meðvirkur sveiflast með geði annarra. Hann verður glaður þegar annar er glaður og alveg eins leiður þegar hinn er leiður. Meðvirkur vill gjarnan segja nei við hinu eða þessu en á í vandræðum með það og verður innst inni reiður yfir því að hafa ekki staðið með sjálfum sér.

Meðvirkur getur verið svo upptekinn af þörfum annarra að hann er búinn að glata ákveðinni tilfinningu fyrir sjálfum sér. Hver er ég, hvað finnst mér gott, hvað langar mig til, hvað vil ég?

Meðvirkur veltir mikið fyrir sér svipbrigðum og hegðunarmynstri annarra og finnst iðulega að þessi eða hin hegðunin tengist sjálfum sér, þ.e.a.s að aðrir séu að hugsa um sig þegar þeir eru ekki að því.

Meðvirkur býr til leikrit í kringum sig þar sem hann sjálfur er aðalleikarinn og aðrir ættu að fylgja hans forskrift (vera svona eða hinssegin) annars fari allt í klessu, leikritið ónýtt og vont að lifa.

 

Til þess að forðast þetta er að mínu mati gott að æfa sig í ákveðnum hlutum:

1) Að eiga til jákvæða umsögn um sjálfan sig og nota daglega góð og jákvæð orð um sig.

2) Að safna saman lista yfir allt mögulegt það sem maður er stoltur af. Lesa hann síðan oft.

3) Að eiga trúnaðarvin sem hægt er að treysta, sem hlustar og tala um allt mögulegt við. Það er gott líka að tappa af annað slagið.

4) Að taka einn dag í einu og slappa af "einhvern veginn" á hverjum degi.

5) Að gera reglulega hluti sem maður hefur aldrei gert áður, þarf ekki að vera merkilegt, eitt væri að fara annars staðar inn eða út, fara þangað í fyrsta skipti, skipta einhverju út, setja annað inn o.s.frv.

6) Svo er að sleppa tökum á öðrum fólki, fari sá sem fara vill, komi sá sem koma vill, mér og mínum að meinalausu. Það fólk ætti að vera í lífi þínu sem á raunverulega heima þar, aðrir ættu að vera annarsstaðar.

7) Að æfa sig í sjálfsstjórn. Að vera ekki að velta öðru fólki of mikið fyrir sér.

8) Að slappa enn og aftur af og leyfa öðru fólki að lifa og hafa sínar eigin skoðanir. Heimurinn er einn risastór skoðanagrautur akkúrat núna. Best er að hafa sínar eigin skoðanir á hlutunum.

9) Um að gera að eiga uppbyggilega og góða vini. Ef vinurinn brýtur þig niður, finndu þér annan vin. Betra er jafnvel að vera einn fremur en að eiga kjána fyrir vin.

10) Að æfa sig í einveru. Að upplifa sjálfan sig einan og æfa sig í því að geta verið einn. Það geta ekki allir verið einir. Sumu fólki er það nær ómögulegt.

11) Vertu sú manneskja sem þig langar til að vera eða verða.

Taktu það sem þér líkar af þessu, láttu annað liggja milli hluta ;)


Einkennilegur flótti

Nú veit maður ekki alveg alla þætti máls og hefur það aðallega sem kemur fram í fjölmiðlum en það sem stendur þar er athyglisvert.

Einsog að svelta sig og borða svo mikið. Maðurinn er þess fullviss að hann geti skotist í burtu. Litla-Hraun er ekki rammgerðara en svo að menn geti farið að ákveða það að nú sé best að fara bara og strjúka í burtu af svæðinu. Tja, það hefði vissulega verið mun verra ef ennþá hættulegri fangi hefði látið sér detta þetta í hug.

Svo fer maðurinn og finnst ekki í nokkra daga. Hvert var ferðinni heitið? Svona að vetri til? Það getur ekki verið spennandi að vera í einum risastórum göngutúr svona um hávetur, á leiðinni eitthvert og með hóp af fólki á eftir sér. Leiðin liggur síðan um landsbyggðina með viðkomu í mannlausum húsum þar sem fundinn er matur og vopn.

Hvað ætlaði maðurinn að gera við allan þennan vopnabúnað til að byrja með? Ekki séns að húkka sér far í bæinn með þetta. Né heldur að ganga þangað. Hvert á svo að fara? Hvað síðan ef og ef. Nú eru fjölskyldumenn í björgunarsveitunum sem eru að fara að halda jól með börnunum sínum, allavega flestir, við skulum orða það ennþá betur og segja með ástvinum sínum, sem er mikið til að tala um, ef út í það er farið. Síðan er þessi maður þarna með vopn og hvað ef hann hefði nú ákveðið að verja sig aðeins og skotið á þessa menn sem eru á annað borð að leita að honum? Breytir svo sem engu hvað við gætum týnt til, björgunarsveitarmenn, sérsveitarmenn, lögreglumenn, eða bara menn.

Eftir þetta liggur svo leiðin í fangelsið aftur og í einangrun. Við það anda allir léttar, hinn "stórhættulegi maður" er nú fundinn og best að fara að hætta að hafa áhyggjur af þessu og njóta jólanna. Dapurlegt samt. Þetta er ungur maður og ætti að vera annars staðar í lífinu en þarna.

Eftir á að hyggja þá er margt vont við svona flótta. Hann er kaldur og dumbungslegur, liggur um eitthvert hjarn, og endar hvergi. Á sama tíma vita allir allt um strokufangann og nafnið festist hreinlega í minni. Nú er refsitími umrædds 5 ár og fangelsisárið er styttra þannig að hann hefði getað verið rólegur þarna inni í þessa mánuði og komið svo út án þess að fólk væri almennt séð með nafnið hans á takteinum. Svo að segja þá er dómstóll götunnar mun harðari en Hraunið sjálft. Það er þannig séð betra í þessu litla landi að fangar einmitt hagi sér vel og að þeir lendi ekki með mynd af sér, nafnið sitt og almennt séð um sig í fjölmiðlum út af einhverju eins og svona stroki.

Við skulum eftir sem áður óska Matthíasi Mána þess að hann komist aftur á beinu brautina í lífinu.


mbl.is Matthías svelti sig í viku
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Dæmi um algera dellu og haugalygi :)

Geltir menn lifa miklu lengur en aðrir menn. Hér áður fyrr á hirðlífistíma keisaraætta þá þurftu menn ekki að hafa svo mikið fyrir lífinu. Allavega ekki eins og hinir sem voru bændur eða í harðari vinnu og sáu um barnauppeldi sem auðvitað hefur verið slítandi eða þeir lögðu í bardaga sem hermenn, þeirra líf hlýtur að hafa verið styttra líka. Líf kvenna hefur einnig verið styttra þar sem að þær þurftu að eignast krakkana og það er erfiðara að stunda svoleiðis heldur en að lifa áhyggjulausu hirðlífi.

Geltir menn lifa ekki neitt endilega lengur en aðrir menn. Sá sem er geltur er ekki með eistu annars telst hann ekki geltur. Í eistunum er framleiðsla testósteróns sem er kynhormón karlmanna. Það hefur verið rannsakað hversu mikilvægt þetta efni er. Án þess geta menn lent í vanda með líkamlegt heilbrigði. Skortur á testósteron getur valdið t.d. þreytu, depurð, minni vöðvamassa og stærri ístru, og hætta er á aukinni beinþynningu. Sem þýðir að áðurnefndir hirðmenn gætu hafa verið þreytulegir, þunglyndir, lítt sterkir, feitir og með léleg bein. Spennandi mannskapur, ekki satt...

Getur verið að gríðarleg fólksfjölgun í heiminum sé farin að þrýsta einhverjum kolvitlausum vísindamönnum af stað í að rannsaka gelt líf karla og um leið eru þeir óbeint að benda á þennan möguleika sem spennandi fyrir einstaklinga sem vilja lifa lengur. Rannsóknin sjálf er auðvitað tóm della en hvað eiga menn að gera þegar allt of mikið er til af fólki og það fer að verða allt of lítið pláss fyrir allan þennan fjölda. Jú um að gera að benda á þennan frábæra möguleika. Hættið að eignast börn og látið gelda ykkur, þar með gætu lífslíkurnar aukist um 15-20 ár eða svo. Vísindamenn ljúga líka að fólki í tíma og ótíma. Sérstaklega að fólki sem trúir öllu því sem að því er sagt.


mbl.is Geltir menn lifa lengur en aðrir menn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Prédikun flutt í Grafarvogskirkju sunnudaginn 24. júní 2012

Bæn:    Ó, Jesú, gef þinn anda mér,

             allt svo verði til dýrðar þér

             uppteiknað, sungið, sagt og téð.

             Síðan þess aðrir njóti með.

Náð sé með yður og friður frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi. Amen.

Því hefur verið fleygt að dýr velti ekki hugsunum sínum fyrir sér, að þau hugsi ekki um hugsanir sínar. Það geri menn hins vegar og jafnvel í stórum mæli, þeir eigi það til að flækja hlutina og hafa þá svo gáfulega að það gengur illa fyrir ýmsa aðra að skilja listaverk þeirra.  Leikrit Shakespeare eru t.a.m. mörg hver flókin og það þarf ákveðið grúsk til þess að skilja flækjurnar þar.    Nokkrar aldir eru síðan þau verk voru rituð. Bækur James Joyce eru einnig þannig, sérstaklega Ódysseifur – Ulysses, sem margir hafa gefist upp á að lesa. Bækur Dostojevski eru líka flóknar og erfitt að rýna í þær. 

Dæmisögur Jesú eru miklu eldri, hann skráði þær reyndar ekki sjálfur á bókfell, það gerðu lærisveinar hans.  Þær eru myndrænar, og tengjast iðulega nánasta umhverfi hlustandans.

Við sjáum fyrir okkur fjöll, dali, tún og garða. Sauði innan girðingar, og fólkið sem dvelur þarna á þessu tiltekna svæði.  Eðlisávísun er hægt að rækta með sér, tengsl við náttúruna en svo virðist samt oft vera að sumir séu náttúrubörn að upplagi, á meðan aðrir eru það ekki. 

 Hefur þú einhverntíman villst? Í stórborg? Ókunnu landi? Eða kannski einhversstaðar þar sem enginn er, þ.e. í óbyggðum?  Hvort heldur sem er, þá er það býsna ónotaleg tilfinning að vita ekki lengur hvar maður er staddur, hvaða leið skuli fara, í hvaða átt.   Dæmi er um að maður leggi af stað frá einum reit í frumskógi, gangi í þó nokkurn tíma en endi síðan á sama reitnum eða m.ö.o. hann gekk í hring án þess að gera sér grein fyrir því.

Í stórborg er það sínu betra að vera villtur, miðað við þá staðreynd að hægt er að spyrja til vegar, kannski að  finna sér leigubíl og fá hann til að hjálpa sér,  eða finna sér vegakort.  Málið vandast reyndar í Kína þar sem fáir kunna ensku og allt stafaletur er með öðrum hætti.  

Sem minnir mig á nóttina sem mér sjálfum tókst að villast svo um munaði.  Einhvernveginn tókst mér að velja ranga götu á leiðinni heim frá næturrölti á Spáni og vissi síðan ekkert hvert kominn var.  Að halda áfram að ganga virtist stöðugt auka á villuna því engin leið til baka virtist vera sú rétta.  Þarna birtist einhverntíma leigubíll en hann vildi ekki taka mann um borð einhverra hluta vegna, hins vegar vildi hann segja mér með vegakorti hvert ætti að fara, sem hjálpaði mér í sjálfu sér ekkert.  Veður var milt, húsin flestöll hvítmáluð, eða svo að segja öll eins.  Himininn var stjörnubjartur og það sást öðru hvoru hvar ströndin lá, eða var þetta kannski einhver allt önnur strönd en ég hafði farið á deginum áður.   Eftir  meira en klukkutíma gang birtist annar leigubíll sem tók farþega og  takk, minn komst heim.

Að vera týndur upp á fjalli er allt annað mál.  Í guðspjallinu í dag finnum við dæmisöguna um týnda sauðinn og hirðinn sem fer að leita að honum.  Margir smalar, kotbændur, landsbyggðarmenn, menn með rollur, hljóta á liðnum öldum að hafa geta tengt sig við þannig frásagnarmáta.  

Og margur hefur ábyggilega upplifað aðra hluti en þá gleði að finna sauðinn, setja hann á herðar sér og halda heim á leið.   Á Íslandi eins og við munum hafa menn t.a.m. þurft að fara upp á fjall, þetta fjall þarna og eða hitt fjallið.  Fara einstigi, niður í gil, dældir,  niður í snarbrattar hlíðar. Alls staðar hafa rollur getað komist.  Stundum hefur mátt finna þær dauðar (það hrapaði til bana eða það drap það eitthvað), slasaðar,  eða ekki nokkur leið að nálgast þær, (hlíðin er of brött til að fara á eftir henni).  Þá hefur verið gott að hafa trúna sér til huggunar.

Á hendur fel þú honum sem himna stýrir borg, það allt er átt í vonum og allt er veldur sorg, hann bylgjur getur bundið og bugað stormaher, hann fótstig getur fundið sem fær sé handa þér.  Sb.38.

Þannig má allt eins lýsa trúnni í örfáum orðum eins og sálmaskáldið gerir í sálmi 38, sem finna má í sálmabókinni.  Að vera einn á ferð í myrkri, þoku, vita ekki alveg áttirnar, en upplifa samt hið innra að æðri máttur sé samferða, með í för, og trúa því að það sé lausn framundan, var til að komast í, skjól, leið úr vandanum, það hlýtur að geta hjálpað.    

 

Óvissutilfinning er ekki góð tilfinning. Hana getum við einnig fundið í daglega lífinu. T.d. í óvissu um framtíðina, við vitum reyndar ekkert hvað hún ber í skauti sér.  Daglega stöndum við frammi fyrir vali. Vali um hvað skuli gera og við búum við ýmsa kosti.   Af slæmum kosti getur seinna birst eitthvað gott.  Eða við veljum það sem við teljum góðan kost, en síðar kemur í ljós eitthvað sem við annars vildum ekki.    

Stundum er erfitt að vera manneskja eins og skáldið sagði forðum.  En ef við horfum til Krists þá sjáum við kærleikann holdi klæddan sem hvetur okkur til þess að vera hugrökk og gleðjast yfir því sem við í raun höfum.  Boðskapur Krists er handa öllum mönnum, á öllum tímum.  Hann birtir einnig mynd af Guði sjálfum sem leitar mannsins  fyrir tilstilli kærleika , til þess að vera samferða, og vera með í bæði raunum og gleði. 

Nú hefur margur ferðamaðurinn farið upp á fjall og  týnst.  Slíkt virðist gerast einum of oft á Íslandi. Fólk finnur sér fjallabíl, fer upp á fjall, festir bílinn, villist, veit ekki hvar það er statt og síðan er kölluð út björgunarsveit.  Hversu oft hefur slíkt ekki gerst?

Þeir sem villast þannig eru samt ekki svo margir miðað við þann fjölda sem er að ferðast um landið á hverju ári.   Að vera týndur þannig er samt annað en að vera týndur hið innra.

Það er að kunna ekki lengur að láta sér líða vel með sjálfum sér án þess að þurfa að notast við hjálpartæki til þess eins og sjónvarp, tónlist, tónleika, ýmiss konar afþreyingu í tómstundum, allt það sem gert er til þess að lyfta sér upp.  Ekki það að ég sé að segja að allt það sé rangt heldur hitt að allt það virðist  lífinu svo yfirmáta mikilvægt að án þess væri lífið tilgangslaust eða hræðilega leiðinlegt.

Að upplifa kærleikann innra með sér  er góð eftirsóknarverð tilfinning sem ber að   varðveita ef fyrir er.  Að hafa góð orð um sjálfan sig, góða umsögn, velvild, gleði og geta jafnvel gert grín að sjálfum sér á köflum þannig höfum við líka eitthvað að gefa öðrum og hjálpa  í kærleikanum sem Jesús boðaði. Öll erum við Guðs börn.

Týndur er sá sem sér hvorki eigin kosti,né annarra , eða vill forðast að sjá þá, sem er stöðugt á flótta frá sjálfum sér og öðrum týndur á eigin fjalli, eða bara eigin hól,  sem hangir yfir einskis verðri afþreyingu, til þess að vera fjarverandi frá sjálfum sér.     Allt er gert til þess að deyfa sjálfið.

Einhver gæti sagt að trúin sé allt eins flóttaleið líka. En þannig ætti hún einmitt ekki að vera heldur miklu fremur leið til góðs samfélags, bæði við sjálfan sig og við aðra.  Það er góð tilfinning að manns  sé leitað af Guði sjálfum, eins og Jesús vill birta hann. Af Guði sem vill að maður sé frjáls til þess að vera maður sjálfur og sú mannvera sem maður vill vera, sú manneskja sem er reiðubúinn til þess að horfast í augu við sjálfan sig hefur kjark og þor og það sem mest er um vert trú á það góða, á Guð Almáttugan og Jesú Krist sem kom til okkar mannanna að boða okkur kærleiksboðskapinn.

 

Eigi stjörnum ofar, á ég þig að finna, meðal bræðra minna, mín þú leitar Guð.

Amen

 

Takið postullegri blessun: Náðin Drottin vors Jesú Krists og kærleiki Guðs og samfélag heilags anda sé með oss öllum. Amen.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Þórður Guðmundsson

Þórður Guðmundsson þroskaþjálfi

Nýjustu myndir

  • bill cosby 620x480 cemrf
  • ATI-lower-review-polymer
  • ATI-lower-review-polymer
  • download JFK
  • Aretrov

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (29.3.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 3
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 2
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband