Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Örvænting í arabalöndunum yfirhöfuð

Ég tel að með tilkomu internetsins þá hafi orðið þvílík upplýsingabylting að engu lagi er líkt.  Það sem við sjáum í arabalöndunum núna er gríðarlegur fjöldi af ungu fólki sem fer inn á facebook og leggur síðan þaðan af stað í mótmæli. Það vill betri kjör.  Með því að halda upplýsingum frá fólki, með því að ritstýra fjölmiðlum, blaðaútgáfu, sjónvarpi og útvarpi þá er hægt að halda fólki niðri. Það veit enginn neitt almennilega. Með interneti þar sem er ekki hægt að ritskoða endalaust þá hverfur sá möguleiki.

Ég óttazt að það eigi eitthvað mikið eftir að gerazt í arabalöndunum á næstunni. Það á allt eftir að fara í bál og brand þarna. 


mbl.is Örvænting í Marokkó
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þetta er ágætt

Það er óþarfi að gera lítið úr því að þjóðfundur sem þessi eigi sér stað.  Samtal eins og á sér stað á þessum fundi er mikilvægt. Okkar samfélag þarf að velta þessu reglulega fyrir sér. Hver eru t.d. grunngildi samfélagsins. Hvert skal stefna og hvert er æðsta viðmiðið.  Þjóðfundur ætti að eiga sér stað reglulega og festa sig í sessi sem eitthvað ákveðið form sem skiptir máli fyrir samfélagið allt. Mig langar síðan sjálfan að geta lesið með einhverjum hætti afrakstur fundarins. Væri hægt að setja það upp í einskonar bók sem hægt væri að sækja og lesa sér til ánægju? 

Annað er þó til þess að gera afrakstur þjóðfundar erfiðan og það er hvernig eigi að fylgja því eftir sem þar er sagt. Er það hægt? Með hvaða hætti er það hægt? Stjórnmál t. a. m. geta í eðli sínu orðið þess eðlis að fleiri en ein leið getur verið fær og réttlætanleg í ákveðnum málum. Staðan getur einnig verið þannig að til eru segjum tvær leiðir og báðar eru slæmar. Valin er ein leið til þess að leysa eitthvert mál og það er óvinsæla leiðin en samt besta leiðin til þess að leysa málið. Svo kemur einhver utanaðkomandi sem hefur ekki kynnt sér hlutina jafnvel og fer að fjalla um óheiðarleika í stjórnmálum. Það sem ég vil meina er að hlutirnir eru kannski ekki alltaf jafneinfaldir og þeir virðast vera og það er mun auðveldara að sitja við borð á þjóðfundi og fjalla um grunngildi í samfélaginu. 

Sem verður allt eins að gera vegna þess að það er líka og hefur verið óheiðarleiki í stjórnmálakerfinu, fjármálum, bönkum og út um allt. Það verður að halda á lofti mikilvægum hugsjónum og koma með breytingar til þess að laga hlutina til betri vegar. Takk fyrir þjóðfundinn.


mbl.is Staðfestir visku fjöldans
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Til hvers?

Þetta er alveg stórfurðuleg frétt. Hvers vegna að hafa lokaða guðsþjónustu? Hvað gæti gerst ef hún væri ekki opin? Hvað ber nú að varast að mati lögreglunnar?  Guðfræðilega séð þá er ekki hægt að viðhafa guðsþjónustu þar sem að búið er að loka dyrunum fyrir almenningi þar sem hann geti ekki verið með einhverra hluta vegna. Þá á ég við að til er nokkuð sem heitir almennur  prestsdómur, að það tilheyra allir kirkjunni sem þangað vilja koma og hafa verið teknir inn í samfélagið með blessun og bæn, en einn er frátekinn til sérstakrar þjónustu og það er presturinn sjálfur. Kirkjan á að vera öllum opin og skjól þeim sem þangað leita. Að loka henni einhverra hluta vegna fyrir fáa útvalda til þess að vera þar er aðför að kirkjulegum athöfnum. 

Ef gert er ráð fyrir of miklum mannfjölda þá verða menn bara að ráða dyraverði og sjá til þess að hægt sé að koma öllum fyrir sómasamlega. Það er því ekki áhyggjuefni í sjálfu sér. Það væri þá einnig hægt að hafa sal í nágrenninu og stóran skjávarpa þar fyrir fólk sem vill fylgjast með og útvarpa þessu svo líka.  Hingað til hefur þetta ekki verið vandamál. Það hlýtur að vera önnur skýring á þessu framferði. 

Þá dettur mér annað í hug en það er að í kirkjunni verði ríkisstjórnin og allir merkilegustu stjórnmálamennirnir mættir til guðsþjónustu og þeir gætu orðið fyrir aðkasti þar. Ekki er ríkisstjórnin vinsæl núna sýnist mér. Sérstaklega meðal þeirra sem eru komnir í skuldavandræði og eru að missa húsin sín, og meðal þeirra sem upplifa aðgerðarleysi í veigamestu þáttunum, svikin loforð og margt fleira. Góð leið yrði þá fremur að hafa nokkurn slatta af óeinkennisklæddum lögreglumönnum í kirkjunni sem staðsettir yrðu á mikilvægum stöðum.  Það teldi ég faglegra en einfaldlega að loka kirkjunni sem er út frá trúarlegum skilningi alveg út í hött. 

 


mbl.is Verður Dómkirkjunni lokað?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ánægður með þessa framgöngu

 

Hér fyrir mörgum árum síðan þá var Ingibjörgu hælt mikið og hún vann glæsta sigra. Þá var hún í borgarmálunum. Það var mikið klappað og húrra fyrir nýjum borgarstjóra.  Það gerðist í tvígang eða jafnvel þrígang að Ingibjörg mætti sigurreif á kosningavöku samfylkingarinnar undir dúndrandi lófaklappi á stærsta skemmtistað landsins.  Enginn borgarstjóri hefur eftir þetta verið borinn jafnmikið á kóngastóli. Að vísu var verið að brjóta aftur veru sjálfstæðismanna á valdastóli til margra ára. En hvað samt er hollt fyrir stjórnmálamanninn sjálfan?  Hann getur farið að hugsa: Ég er frábær leiðtogi í borgarmálunum, hvað með landsmálin? Förum þangað og upplifum klapp og húrrahróp þar líka. 

Ingibjörg stökk nefnilega skyndilega beint  úr borgarmálum yfir í landsmálin.  Henni tókst ekki það sem Davíð tókst að gera, að stökkva úr borgarstjórastól yfir í forsætisráðherrastól. Hún komst þó í ráðherrastól.  Með þeirri ákvörðun brást Ingibjörg sínum kjósendum í borgarmálum og hún bar ekki sitt blak eftir það. Tími húrrahrópa verða liðin tíð og urðu ekki í landsmálunum. Þar sigldi skipið í strand. 

Að ganga  í sjálfa sig eins og Ingibjörg gerði í gær er gott skref og heiðarlegt. Hún kemur heiðarlega fram og viðurkennir mistök sín. Sem er ekki á allra færi að gera.  Þegar fólk kemur fram og gengur svona í sjálft sig, þá finnst mér að við verðum að taka því vel, líka vegna þess að við viljum að fleiri geri það. Að fólk gangist við athæfi sínu. 

Það er gott að fólk skuli koma fram og biðjast afsökunar en það er ekki hægt að krefjast þess og það er ekki hægt að krefjast þess að það geri það eins og skot. Það þarf tíma. Það þarf tíma fyrir stjórnmálamann að hugsa aðeins sinn gang og ganga í sjálfan sig. Það hafa menn gert einn af öðrum og það má halda áfram.  Það er ávísun á heilindi og heiðarleika og telst mönnum móralskt til tekna.    Framtíðin mun vissulega dæma þessa sögu og þá sjá menn hlutina e.t.v. í skýrara ljósi en nú. Það á eftir að vera mikið garfað í þessu af sagnfræðingum og alls konar fræðimönnum sem eru ekki fæddir ennþá. 

Stjórnkerfið og efnahagskerfið er í rúst, og framundan er að byggja upp NýTT Ísland. 


mbl.is „Mér finnst ég hafa brugðist“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sódóma og Gómorra

   Við höfðum hérna á Íslandi hreinan Hrunadans þar sem sukk og svínarí fékk að viðgangast og það í mörg ár.  Það er ekki hægt að neita því að það var fullt af fólki sem horfði á þetta og fæstir sögðu nokkuð, aðrir húrra eins og Davíð Oddsson og Ólafur Ragnar Grímsson forseti Íslands, eða ekki neitt til þess að missa ekki vinnuna, sérstaklega í bönkum og fjármálafyrirtækjum. Já já við létum þetta líðast. En það var talað við fólkið sem dansaði í Kirkjunni í Hruna og það skeytti engu um viðvörunarorð. Svo fór að kirkjan sökk ofan í jörðina með manni og mús á jólanótt.  Þar var svo sannarlega sukkað. Svo sannarlega.  Þeir sem sökkva núna með bönkunum er fjöldi manna, af þingi og í fjármálageiranum. Æran hvarf með hruninu hjá mörgum og með rannsóknarskýrslu hjá öðrum. 

Svo var dansað og sukkað eins og í Sódómu og Gómorru. Sérstakt þegar kemur að afhjúpun á soranum þá fer að gjósa og alltaf meira og meira.  Það rignir ösku og brennisteini. Bráðum fer Katla líka að gjósa en það hefur hún ekki gert síðan 1918. Þá verður svo sannarlega fjandinn laus og enginn flýgur neitt í langan tíma.  Þetta er bara svo táknrænt fyrir hversu djúpt var sokkið í syndugt sódómu líferni og svo gýs, og gjallið kemur og sópast yfir allt og það versnar og versnar ástandið.

 Alveg eins og það verður alltaf verra og verra sem maður fær að uppgötva í öllu þessu misferli. 

 

 


mbl.is „Létum þetta líðast“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þetta er þvættingur

Hvurslags þvæla er þetta eiginlega í formanni framsóknarflokksins!?  Það tæki heillangan tíma fyrir erlendan lögmann (hvað þá hóp lögmanna) að fara í gegnum þessa samninga, kynna sér aðstæður og komast að réttri niðurstöðu.   Þarna er verið að benda á alveg fáránlega langa leið til þess að sannfæra forsetann um ágæti samninga.  Auk þess myndi það sýna okkur fram á einhvern endemis skrípaleik. Forsetinn á að vera fær um að taka sjálfstæða ákvörðun í málinu án slíkrar utanaðkomandi aðstoðar.

Næst þegar verða kosningar er vonandi að margur sem nú er á þingi komist ekki þangað inn aftur! 


mbl.is Forsetinn leiti álits lögmanna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Forsetinn mun skrifa undir þetta

Ég einfaldlega spái því að forsetinn muni skrifa undir þessi lög. Fyrir það mun hann hljóta óvinsældir margra en að vel athuguðu máli þá mun hann skrifa undir.  

Það er gríðarlega erfitt að vera forseti Íslands núna. Aldrei eins erfitt. Nú er forsetinn í þeirri stöðu að það skiptir engu máli hvort hann skrifar undir eður ei. Einhverjir verða svekktir og reiðir með ákvörðunina. Það er alveg vitað mál.  

Það er í sjálfu sér engin leið að vita núna (þegar þetta er skrifað) hvort heldur Ólafur kann að gera. Hvort að 53.000 manna undirskriftalisti (sem er sá stærsti í Íslandssögunni) hefur úrslitaáhrif á Ólaf skal ósagt látið, nema hvað þetta er ekki meirihluti atkvæðabærra landsmanna. Þetta er u.m.b. fjórðungur þeirra.  Ef meira en helmingur hefði skrifað undir þá væri það eðlilega mun sterkara og þess legt að Ólafur yrði að hlýða því og skjóta til þjóðaratkvæðagreiðslu.  Nú vil ég ekki gera lítið úr meiningu InDefence og allra þeirra sem skrifuðu sig á listann.  Það er hins vegar að mínu mati ekki nógu margir á listanum. Ef Ólafur tekur sérstaklega tillit til hans og skýtur til þjóðaratkvæða, þá er það sigur fyrir lýðræðishugsun í landinu, að það hafi ekki þurft fleiri til, til þess að hafa áhrif á það að fá fram einn hornstein lýðræðisins sem er val og ákvörðun fjöldans í þjóðaratkvæðagreiðslu.

Því má ekki gleyma að það er tæplega 77% atkvæðabærra manna sem skráðu sig ekki á listann. Flestöll heimili eru í dag með tölvur og internet. Því hefur ekkert verið að vanbúnaði. Íslendingar eru 320.000 manns, af þeim eru milli 50-60.000 sem vilja þjóðaratkvæðagreiðslu og hafa meldað sig á listann eins og allir vita.  Þarna er þögull meirihluti fólks sem ekki hefur meldað sig á neinn lista. Það er ekki hægt að segja að þessi þögli hópur sé neitt endilega meðmæltur InDefence. 

Ef Ólafur skrifar undir þá munu heyrast reiðiraddir og einhverjir kunna að verða alveg brjálaðir. Lætin munu þá all líklega koma frá æstu fólki sem er á móti samningunum, þeir sem voru samþykkir standa hjá þöglir og segja afskaplega fátt, nema kannski að það sé gott að þetta sé frá.  Þeir fyrrnefndu teljast ekki til meirihluta þjóðarinnar. Það er bara staðreynd. 

Ef hins vegar kæmi til synjunar og til þjóðaratkvæðagreiðslu þá tel ég því mun líklegra að þessir samingar færu í gegn á endanum. Kosningarnar yrðu bara til að tefja það.  Því verr og miður.  


mbl.is Fundi lokið á Bessastöðum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gamli góði Villi

Takk fyrir það. Gamli góði Villi ætlar ekki að vera með í þetta sinnið og líklega aldrei aftur. Nema hann skipti um skoðun og ákveði að vera með eftir allt saman. Það breytir því ekki að Sjálfstæðisflokkurinn er búinn að vera í blússandi vandræðum síðan Davíð Oddsson fór ekki lengur til að bjóða sig fram fyrir flokkinn.

Hvort sem það er borgarstjórn eða landsmálin þá eru vandræðin ótvíræð hjá Sjálfstæðisflokknum við að finna sér góðan leiðtoga til þess að leiða flokkinn til sigurs.  Gamli góði Villi verður ekki þar. Sem er allt í lagi. Hans tími er liðinn. Var hann góður leiðtogi? Því verður ekki svarað hér. 

Ég spái því að fram muni koma sterkur leiðtogi fyrir Sjálfstæðisflokkinn, sem er mun sterkari en núverandi formaður flokksins. Sjáum bara til. Sá tími mun koma. 


mbl.is Vilhjálmur ekki í prófkjör
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

...sem og líf okkar allra, eitt andvarp eða ...

 ....og kreppan er eins og prump í eilífðinni sem og líf okkar allra, eitt stundarandvarp eða smáblóm sem deyr.  Að nota þetta orð "prump" finnst mér ekki alveg nógu smekklegt. Eitthvað annað orð hefði verið betra  eins og andvarp í eilífðinni eða eitthvað þannig.  Til hamingju samt Anna Pála, svo virðist vera sem þú hafir náð eyrum fólks með krassandi orðavali. Kannski var takmarki þínu helst náð þannig. En að ógleymdu miðað við samhengi ræðunnar þá má ekki líta fram  hjá þeirri staðreynd að hræðilegar loftslagsbreytingar í framtíðinni geta orðið okkur verulega þungar í skauti, enn verri en kreppan núna og það þarf að bregðast við gagnvart því. Hverjir hafa samt þrek eða döngun einmitt núna til þess að velta sér upp úr slíku, á þessum síðustu og verstu móðurharðindakrepputímum!?  Það verður einhver allavega að gera.


mbl.is Kreppan eins og prump í eilífðinni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Slæm hugmynd

Svona tveggja vikna greiðsluverkfall leysir engan vanda. Skuldirnar bara bíða og aukast, ekkert annað.  Annað er að það er ekki hægt að fara í svona verkfall og byggja það að einhverju leiti á  móral gagnvart siðspillingu í kerfinu.  Þannig hugsunarháttur má sín lítils þegar gerð er krafa til skulda.   Nú er samt ekki víst að svo margir verði með í nefndu verkfalli, en þeim má vera það fyrirfram ljóst að staðan verður ekkert betri með því,  og enginn kröfuhafi mun nokkurn tíma taka mark á svona verkfalli.  


mbl.is Fara í greiðsluverkfall 1. okt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta síða »

Höfundur

Þórður Guðmundsson

Þórður Guðmundsson þroskaþjálfi

Nýjustu myndir

  • bill cosby 620x480 cemrf
  • ATI-lower-review-polymer
  • ATI-lower-review-polymer
  • download JFK
  • Aretrov

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (19.3.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku:
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku:
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband