Færsluflokkur: Trúmál og siðferði

Prédikun flutt í Grafarvogskirkju sunnudaginn 24. júní 2012

Bæn:    Ó, Jesú, gef þinn anda mér,

             allt svo verði til dýrðar þér

             uppteiknað, sungið, sagt og téð.

             Síðan þess aðrir njóti með.

Náð sé með yður og friður frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi. Amen.

Því hefur verið fleygt að dýr velti ekki hugsunum sínum fyrir sér, að þau hugsi ekki um hugsanir sínar. Það geri menn hins vegar og jafnvel í stórum mæli, þeir eigi það til að flækja hlutina og hafa þá svo gáfulega að það gengur illa fyrir ýmsa aðra að skilja listaverk þeirra.  Leikrit Shakespeare eru t.a.m. mörg hver flókin og það þarf ákveðið grúsk til þess að skilja flækjurnar þar.    Nokkrar aldir eru síðan þau verk voru rituð. Bækur James Joyce eru einnig þannig, sérstaklega Ódysseifur – Ulysses, sem margir hafa gefist upp á að lesa. Bækur Dostojevski eru líka flóknar og erfitt að rýna í þær. 

Dæmisögur Jesú eru miklu eldri, hann skráði þær reyndar ekki sjálfur á bókfell, það gerðu lærisveinar hans.  Þær eru myndrænar, og tengjast iðulega nánasta umhverfi hlustandans.

Við sjáum fyrir okkur fjöll, dali, tún og garða. Sauði innan girðingar, og fólkið sem dvelur þarna á þessu tiltekna svæði.  Eðlisávísun er hægt að rækta með sér, tengsl við náttúruna en svo virðist samt oft vera að sumir séu náttúrubörn að upplagi, á meðan aðrir eru það ekki. 

 Hefur þú einhverntíman villst? Í stórborg? Ókunnu landi? Eða kannski einhversstaðar þar sem enginn er, þ.e. í óbyggðum?  Hvort heldur sem er, þá er það býsna ónotaleg tilfinning að vita ekki lengur hvar maður er staddur, hvaða leið skuli fara, í hvaða átt.   Dæmi er um að maður leggi af stað frá einum reit í frumskógi, gangi í þó nokkurn tíma en endi síðan á sama reitnum eða m.ö.o. hann gekk í hring án þess að gera sér grein fyrir því.

Í stórborg er það sínu betra að vera villtur, miðað við þá staðreynd að hægt er að spyrja til vegar, kannski að  finna sér leigubíl og fá hann til að hjálpa sér,  eða finna sér vegakort.  Málið vandast reyndar í Kína þar sem fáir kunna ensku og allt stafaletur er með öðrum hætti.  

Sem minnir mig á nóttina sem mér sjálfum tókst að villast svo um munaði.  Einhvernveginn tókst mér að velja ranga götu á leiðinni heim frá næturrölti á Spáni og vissi síðan ekkert hvert kominn var.  Að halda áfram að ganga virtist stöðugt auka á villuna því engin leið til baka virtist vera sú rétta.  Þarna birtist einhverntíma leigubíll en hann vildi ekki taka mann um borð einhverra hluta vegna, hins vegar vildi hann segja mér með vegakorti hvert ætti að fara, sem hjálpaði mér í sjálfu sér ekkert.  Veður var milt, húsin flestöll hvítmáluð, eða svo að segja öll eins.  Himininn var stjörnubjartur og það sást öðru hvoru hvar ströndin lá, eða var þetta kannski einhver allt önnur strönd en ég hafði farið á deginum áður.   Eftir  meira en klukkutíma gang birtist annar leigubíll sem tók farþega og  takk, minn komst heim.

Að vera týndur upp á fjalli er allt annað mál.  Í guðspjallinu í dag finnum við dæmisöguna um týnda sauðinn og hirðinn sem fer að leita að honum.  Margir smalar, kotbændur, landsbyggðarmenn, menn með rollur, hljóta á liðnum öldum að hafa geta tengt sig við þannig frásagnarmáta.  

Og margur hefur ábyggilega upplifað aðra hluti en þá gleði að finna sauðinn, setja hann á herðar sér og halda heim á leið.   Á Íslandi eins og við munum hafa menn t.a.m. þurft að fara upp á fjall, þetta fjall þarna og eða hitt fjallið.  Fara einstigi, niður í gil, dældir,  niður í snarbrattar hlíðar. Alls staðar hafa rollur getað komist.  Stundum hefur mátt finna þær dauðar (það hrapaði til bana eða það drap það eitthvað), slasaðar,  eða ekki nokkur leið að nálgast þær, (hlíðin er of brött til að fara á eftir henni).  Þá hefur verið gott að hafa trúna sér til huggunar.

Á hendur fel þú honum sem himna stýrir borg, það allt er átt í vonum og allt er veldur sorg, hann bylgjur getur bundið og bugað stormaher, hann fótstig getur fundið sem fær sé handa þér.  Sb.38.

Þannig má allt eins lýsa trúnni í örfáum orðum eins og sálmaskáldið gerir í sálmi 38, sem finna má í sálmabókinni.  Að vera einn á ferð í myrkri, þoku, vita ekki alveg áttirnar, en upplifa samt hið innra að æðri máttur sé samferða, með í för, og trúa því að það sé lausn framundan, var til að komast í, skjól, leið úr vandanum, það hlýtur að geta hjálpað.    

 

Óvissutilfinning er ekki góð tilfinning. Hana getum við einnig fundið í daglega lífinu. T.d. í óvissu um framtíðina, við vitum reyndar ekkert hvað hún ber í skauti sér.  Daglega stöndum við frammi fyrir vali. Vali um hvað skuli gera og við búum við ýmsa kosti.   Af slæmum kosti getur seinna birst eitthvað gott.  Eða við veljum það sem við teljum góðan kost, en síðar kemur í ljós eitthvað sem við annars vildum ekki.    

Stundum er erfitt að vera manneskja eins og skáldið sagði forðum.  En ef við horfum til Krists þá sjáum við kærleikann holdi klæddan sem hvetur okkur til þess að vera hugrökk og gleðjast yfir því sem við í raun höfum.  Boðskapur Krists er handa öllum mönnum, á öllum tímum.  Hann birtir einnig mynd af Guði sjálfum sem leitar mannsins  fyrir tilstilli kærleika , til þess að vera samferða, og vera með í bæði raunum og gleði. 

Nú hefur margur ferðamaðurinn farið upp á fjall og  týnst.  Slíkt virðist gerast einum of oft á Íslandi. Fólk finnur sér fjallabíl, fer upp á fjall, festir bílinn, villist, veit ekki hvar það er statt og síðan er kölluð út björgunarsveit.  Hversu oft hefur slíkt ekki gerst?

Þeir sem villast þannig eru samt ekki svo margir miðað við þann fjölda sem er að ferðast um landið á hverju ári.   Að vera týndur þannig er samt annað en að vera týndur hið innra.

Það er að kunna ekki lengur að láta sér líða vel með sjálfum sér án þess að þurfa að notast við hjálpartæki til þess eins og sjónvarp, tónlist, tónleika, ýmiss konar afþreyingu í tómstundum, allt það sem gert er til þess að lyfta sér upp.  Ekki það að ég sé að segja að allt það sé rangt heldur hitt að allt það virðist  lífinu svo yfirmáta mikilvægt að án þess væri lífið tilgangslaust eða hræðilega leiðinlegt.

Að upplifa kærleikann innra með sér  er góð eftirsóknarverð tilfinning sem ber að   varðveita ef fyrir er.  Að hafa góð orð um sjálfan sig, góða umsögn, velvild, gleði og geta jafnvel gert grín að sjálfum sér á köflum þannig höfum við líka eitthvað að gefa öðrum og hjálpa  í kærleikanum sem Jesús boðaði. Öll erum við Guðs börn.

Týndur er sá sem sér hvorki eigin kosti,né annarra , eða vill forðast að sjá þá, sem er stöðugt á flótta frá sjálfum sér og öðrum týndur á eigin fjalli, eða bara eigin hól,  sem hangir yfir einskis verðri afþreyingu, til þess að vera fjarverandi frá sjálfum sér.     Allt er gert til þess að deyfa sjálfið.

Einhver gæti sagt að trúin sé allt eins flóttaleið líka. En þannig ætti hún einmitt ekki að vera heldur miklu fremur leið til góðs samfélags, bæði við sjálfan sig og við aðra.  Það er góð tilfinning að manns  sé leitað af Guði sjálfum, eins og Jesús vill birta hann. Af Guði sem vill að maður sé frjáls til þess að vera maður sjálfur og sú mannvera sem maður vill vera, sú manneskja sem er reiðubúinn til þess að horfast í augu við sjálfan sig hefur kjark og þor og það sem mest er um vert trú á það góða, á Guð Almáttugan og Jesú Krist sem kom til okkar mannanna að boða okkur kærleiksboðskapinn.

 

Eigi stjörnum ofar, á ég þig að finna, meðal bræðra minna, mín þú leitar Guð.

Amen

 

Takið postullegri blessun: Náðin Drottin vors Jesú Krists og kærleiki Guðs og samfélag heilags anda sé með oss öllum. Amen.


Jólahugleiðing

Þeir hétu víst Caspar, Melkíor og Baltasar, vitringarnir sem komu frá austurlöndum til þess að færa Jesúbarninu gjafir. Þeir komu með gull, reykelsi og myrru, og hafa að öllum líkindum verið voða fínir og flottir.  Gullið hefur átt að tákna konungdóm, reykelsið vísdóm en myrran þeirra örlaga sem biðu þess.

Alveg hefur það verið yndislegt að þessir menn gátu komið með þetta allt. Ætli þeirri hefðu ekki annars getað verið ákjósanlegt skotmark ræningja þessa tíma. Svona skrautmenni með gull í farangrinum, sem í þokkabót hafa verið svo uppteknir af stjörnu að þeir geta alveg ómögulega hafa verið á varðbergi gagnvart einhverjum hættum.

Svo sjáum við þá alltaf fyrir okkur á úlföldum.  Það er eins og þeir séu einu mennirnir í allri Biblíunni sem séu verandi á úlföldum, allir aðrir eru fótgangandi eða setjast á asna.  En allavega þá komu þeir langt að og sáu stjörnuna einhversstaðar í fjarska og eltu hana.  Ef þeir hafa upphaflega verið staddir í öðru landi, nota bene heima hjá sér,  þá hefur það tekið þá marga daga að fylgja stjörnunni, svo marga að María sjálf hlýtur að hafa verið stödd annars staðar en í Betlehem þegar stjarnan fór að skína, þ.e.a.s. miðað við að þeir þurftu tíma til þess að koma og hitta fyrir hið nýfædda barn.  Sem hljómar einhvernveginn einkennilega.

Það er miklu fremur sem að þarna séu þessar persónur í startholunum, í landinu sjálfu, bíðandi þess að geta fylgt stjörnu, jafnvel mjög auðveldlega, til að finna lítið barn vafið reifum með hraði. Þetta eru jú þrír vitrir menn. Vitringar, snillingar, gáfumenni síns tíma. Eða hreinlega miklar hetjur að vilja leggja á sig alla þessa leið, grýtta braut, framhjá ræningjum og villidýrum, fyrir þetta litla barn. 

Þessir menn eru gjafmildir, til í slaginn, grípa tækifærið þegar þeir sjá það og fylgja innsæi sínu.   En svo hverfa þeir eins og í skyndi. Þeir urðu víst að flýta sér úr landi blessaðir mennirnir og sjást aldrei framar á þessum slóðum. Það kannast allavega enginn við þá meira.  

En mikið svaðalega hafa þessir menn verið ríkir. Í dag vilja fæstir rjúka til og gefa ókunnugum svo mikið.  Í því felst samt boðskapur jólanna, að sýna gæsku, velvild, gjafmildi, að leggja sitthvað á sig til slíks, að mæta til leiks og koma á óvart. Tími gleði og undrunar er ekki liðinn. Sá tími er einmitt núna. 


Hvenær drepur maður mann og hvenær drepur maður ekki mann?

Meðan ég lá lasinn af þetta ofsalega leiðinlegum kvef-flensuvírus, liggjandi marflatur upp í sófa með tvöfalt teppi yfir mér þá birtizt mér á sjónvarpsskjánum maður sem býður dóms vegna morðs. Réttarhöldin hófuzt á mánudaginn, en maðurinn sást í handjárnum þar sem hann kom gangandi inn og síðan út aftur.  Ekki það að mig langi til þess að velta mér uppúr þessum þvílíka harmleik. Sumt á maður ekki að fjalla um á neti.

Hins vegar þá kemur upp í hugann, og við vorum að tala um þetta í dag, það að drepa einhvern. Hvernig tilfinning ætli það sé. Hvernig líður fólki sem drepur aðra. Það hlýtur að fá samvizkubit er það ekki.   Að mínu mati reyndar þá er það alltaf rangt að drepa einhvern. Einhver kann að nefna að það væri réttlætanlegt að gera slíkt í sjálfsvörn, en samt þá verður slíkur verknaður aldrei fullkomlega að ásættanlegri niðurstöðu eða m.ö.o.  ég drep mann til að verja mitt eigið líf en samt þá verð ég aldrei sáttur við að hafa þurft að gera það. 

Hér komum við að samvizkunni. Raskolnikov í bók Dostojevskis Glæpur og refsing, ákvað að drepa mann. Það gerði hann bæði vegna þess að hann taldi sig geta grætt  á því og vegna þess og kannski sérstaklega vegna þess að öll stórmenni hafi byrjað á slíkum verknaði sem síðan leiddi þá áfram veginn að mikilmennsku og frægð.  Raskolnikov tók ekki eigin samvisku með í reikninginn. Ekki heldur það að hann myndi þola þjáningar vegna þess að upp um hann gæti komist og hann gæti lent í fangelsi.  Við sjáum hann svo í rusli útaf þessu blaðsíðu eftir blaðsíðu. Ef þú hefur ekki lesið þessa bók þá er hún ein besta bók Fjodors Dostojevskis. 

Raskolnikov hefur samvisku og það alveg heilmikla þegar upp er staðið.Macbeth_illustration14_001_mid Nokkuð sem Makbeð í samnefndu verki Shakespeares hefur ekki.  Makbeð drepur mann. Til þess að komast upp með það að hafa drepið manninn þá drepur hann alla þá sem gætu hugsanlega afhjúpað glæpinn og vandinn vex og vex... Nokkuð sem við getum kallað siðlausa martröð.  Makbeð er siðblindur. Hann sér ekki að hann hafi gert eitthvað rangt og hann heldur áfram sama veginn til þess að geta að lokum komizt upp með upphaflega glæpinn. 

Hver hefur drepið mann og hver hefur ekki drepið mann? Hvenær drepur maður mann og hvenær drepur maður ekki mann? Fari í Helvíti sem ég drap mann. Og þó.   Þannig talar Jón Hreggviðsson eftir að hafa verið ákærður fyrir morð á böðli nokkrum.   Athyglisvert að skoða svar John Locke í þessu samhengi þ.e. til þess að svara spurningum Jóns. Hann segir að ef einhver vilji ná algeru valdi yfir manni og svipta burtu því frelsi sem grundvallarmannréttindi eru byggð á, þá hafi sá hinn sami lýst yfir stríði og sé þá um leið réttdræpur (sjá Ritgerð um Ríkisvald). 

Ef við notum þetta sem niðurlag  til þess að svara spurningum Jóns almennilega og þá sérstaklega þeirri sem sett hefur verið sem fyrirsögn þessarar greinar, þá vil ég segja að ég geti ekki verið Locke sammála nema  að því leitinu til að hjá því verði ekki komizt að drepa manninn og það til að verja eigið líf eða líf einhvers, en samt geti aldrei orðið heil sátt um það að hafa orðið að gera það.  Að drepa mann er voðaverk. Ef hægt er að komast hjá slíku þá skuli sú leið ávallt farin.

 

 


Mín sýn á Gunnar

Fyrir mitt leiti þá er það alveg ótrúlegt að Gunnar Þorsteinsson skuli vera borinn þeim sökum að hafa brotið kynferðislega á kvenfólki. Á ýmsu átti maður von en ekki þessu. Í rauninni var ekki að sjá annað en að það væri verulega bjart framundan hjá þeim Jónínu og þau hamingjusömust allra. En svo gerist þetta.

Á þeim 20 árum sem ég hef fylgst með Gunnari, þó svo að ég hafi aldrei verið meðlimur í Krossinum, en samt hlustað á skoðanir hans, í sjónvarpi líka, og oft hitt hann, þá hefur það ekki farið framhjá mér að Gunnar hefur fordæmt kynferðislega lesti, alla kynferðislega lesti, hórdóm og saurlifnað ýmiss konar, og það svo mjög að harðari mann í þeim efnum hef ég ekki getað fundið.  Svo mjög hefur mér fundist hann harður að samkynhneigðir áttu sér ekki viðreisnar von lengi vel.  Og Krossinn hefur í gegnum tíðina verið allverulega harður í tengslum við hvað væri rétt kynferði. Sami söfnuður og Gunnar sjálfur hefur mótað frá upphafi.  Máli sínu til stuðnings hefur hann óspart vitnað í Pál og tekið þar vers sem eru ýmsum kynferðislegum löstum til fordæmingar.  Hvað segiði? Var Gunnar svo að laumast eitthvað á sama tíma? 

Þess vegna virkar það svo furðulegt og útúrsnúið að sami maður skuli hafa, á sama tíma og hann er hvað harðastur í kynferðislegri lastafordæmingu, staðið í einhverju káfi og þukli á fólki.   Þessi skapmikli og harði prédikari sem var jafnvel enn harðari þegar hann var yngri er þannig skotinn niður af færi í fjölmiðlum samkvæmt ásökunum kvenna sem dúkka skyndilega upp hver af annarri.  Og þessar ásakanir eru þar með að segja að þessi trúmaður sé í raun og hafi verið, afskaplega ósamkvæmur sjálfum sér að eðlisfari.  Sem hittir ekki í mark fyrir mér. Nema að einhver vilji meina að hann hafi verið að fela eitthvað og einmitt þetta allan þennan tíma. En það gengur heldur ekki alveg ef tekið er mið af því maðurinn er þrusugóður í guðfræði og því sem stendur í Biblíunni og lifir beinlínis eftir því sem þar stendur eða þannig hef ég kynnst honum allavega. 

 Gunnar hefur einmitt alla tíð verið býsna harður og fylginn sér í skoðunum. Einu sinni var talað um hann í fjölmiðlum hvernig hann hefði orðið ef hann hefði kosið sér stjórnmál í staðinn fyrir trúmál. Hvernig hefði Gunnar orðið á þingi? Þá var talað um mann sem hefði verið flottur og fylginn sér. Sennilega leiðtogi einhvers stjórnmálaflokks.  

Það er mín sýn á Gunnar sem setur mig í það að skrifa þessa grein. Ekki það að ég tilheyri hans vinahópi eða þeim sem standa honum næst. Ekki hefði ég getað skrifað slíka grein um Ólaf Skúlason þó svo að ég reyndi meðan hann sat undir svipuðum ásökunum, né heldur um prestinn sem sakaður var um daginn um kynferðisofbeldi, og fór til Noregs; hann þekkti ég þó persónulega. 

 Ekkert af því sem ég hef heyrt til þessa um sekt Gunnars, sannfærir mig um sekt hans, og þá um leið með tilliti til þess sem ég hef skrifað hér að ofan. Hingað til hef ég þekkt Gunnar af góðu og ég hef kynnt mér safnaðarstarf hans nokkuð vel sem guðfræðingur. 

Nú hefur Gunnar ákveðið að stíga til hliðar sem forstöðumaður. Ef hann hættir sem forstöðumaður Krossins þá tel ég það ákaflega vont fyrir söfnuðinn. Gunnar er nefnilega það sem kallast karismatiskur leiðtogi og slíkir menn eru ekki á hverju strái. 


mbl.is Gunnar stígur til hliðar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Verður seint bannað hér á landi

 Ekki veit ég hversu mikið fólk almennt veit um kaþólskar jarðarfarir en þær eru frábrugnar því sem maður sér í lúterskum kirkjum.  Það er nefnilega alltaf altarisganga.  Lúterskar jarðarfarir eru ekki þannig eins og allir vita.  En talandi um kaþólskuna þá finnst mér í sjálfu sér nokkuð sérstakt að hafa altarisgöngu, jarðarfararathöfnina sjálfa og popptónlist. Fyrir mér þá er það nokkuð sérkennileg blanda.  Það er heldur engin líkræða í kaþólskum kirkjum. Það telst ekki við hæfi að prestur flytji einhverja tölu svoleiðis um hinn látna.  

Hingað til hefur verið eðlilegt að hafa ýmiss konar tónlist í kirkjunum okkar eins lengi og tónlistin er við hæfi. Engum dytti í hug að hafa lag eins og Komdu og skoðaðu í kistuna mína við jarðarför og enginn prestur myndi leyfa það býst ég við. Það gerðist þó fyrir einhverjum árum að líkfylgd átti sér stað einhversstaðar fyrir norðan, veður var kalt og menn tóku að skvetta í sig á leiðinni til kirkju. Þegar komið var að kirkjunni með kistuna þá voru menn orðnir vel hífaðir og byrjaðir að syngja nefnt lag og það alveg hástöfum. Þannig ultu menn út úr bílunum og svaka fjör hlaupið í menn. Það datt hins vegar engum í hug að syngja lagið í kirkjunni þegar þangað kom inn. Þar kunnu menn sig.

Það er hægt að velja sér hvaða prest sem er nánast fyrir athöfn. Velja kirkjuna og söngfólkið, allt svona nokkuð eftir smekk en það eru takmörk samt í kirkjunni hvaða tónlist þú velur að hafa, hvort heldur sem á að vera hjónavígsla eða jarðarför. Eitt sinn vildi par nokkurt hafa lagið Einskonar ást með Brunaliðinu við hjónavígsluathöfn.  Jú það byrjar alveg hrikalega vel. Þig vil ég fá til að vera mér hjá....vertu nú vænn og segðu já....(hljómar brúðkaupslega)....því betra er að sjást en kveljast og þjást af eins konar ást.... en svo þegar tekur að líða á textann þá fer hann að hætta að vera brúðkaupslegur ....þar sem við tvö! Getum vakið upp draug, af eldgömlum haug....hættum að slást og reynum að finna einskonar ást!  Málinu var vísað frá. Textinn passaði ekki við nefnda athöfn. Fjöldi laga býst ég við að hafi ekki hlotið náð hjá sóknarprestum í gegnum tíðina hvernig svo sem átti að nota tónlistina. 

 Sum lög í dag eru orðin sígild við jarðarfarir eins og When I think of Angels með KK.  Við breytum líkast til seint slíkri menningu. Svo eru það tónlistarmenn sem hafa lifibrauð af þessu sem og eru þekktir í poppbransanum. En það máttu vita að það verður rýnt í textann ef þér dettur í hug eitthvað lag sem engum hefur dottið í hug áður. 


mbl.is Popptónlist bönnuð í jarðarförum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Atvik í kirkju - barn við altari

Mér var eitt sinn sögð saga sem er mér enn í fersku minni. Hún er stutt og það er alls ekki margt að gerast; í rauninni ekki neitt en samt heill hellingur.  Það er enginn að hreyfa sig neitt sérstaklega og það er allsendis friður. Sagan gerðist í kirkju eitt sinn.

Svo var að kirkjan var tóm en samt opin öllum sem þangað vildu koma. Presturinn var þarna á ferli eitthvað að stússast, sá hinn sami og sagði mér söguna, grandvar og góður maður, reyndar ekki staddur á Íslandi þarna heldur útí heimi. Í eitt skipti þegar hann leit fyrir horn inn í kirkjuna sá hann litla stúlku sem kraup alein og bað fyrir framan altarið. Hendurnar hafði hún útbaðaðar, hnén voru á nöktu gólfinu og hún var á bæn. Það var mikil kyrrð í kirkjunni, sólin skein í gegnum rúðurnar og það koma falleg birta yfir kirkjubekkina.  En vinur minn hreyfði sig ekki. Það var eitthvað svo fallegt og heilagt við þetta. Eitthvað svo mikil auðmýkt, barnsleg auðmýkt. Hann lét aldrei vita af sér og stúlkan fór á endanum án þess að vita að prestur hafi litið inn og séð til hennar. Í huga hans var engin vilji til þess að trufla þessa andakt. Ekki nokkur.  Svo kom þessi friður sem lagðist yfir allt.  Þögn.


Sá þetta viðtal

  

Ég sá Sigrúnu í Kastljósinu í kvöld og mér fannst hún komast nokkuð vel frá þessu viðtali. Þvílík hörmung sem hún hefur gengið í gegnum á þessum umliðnum árum. Það vakti t.d. sérstaka athygli mína þegar hún talaði um að hafa lent í leiðindum niðrí bæ, eins og að fólk hefði gengið á hana og sagt dónalega hluti.  Flóki Kristinsson segist einnig,  í viðtali við DV, hafa lent í svipuðum hlut en hann studdi Sigrúnu á sínum tíma eins og hann gat og var Ólafi ekki vilhallur. Svo segir Sigrún að það hafi verið talað  inn á símsvarann alls konar óþverra og dónaskap.  Allt vegna þess að fólk stóð með biskupi Íslands herra Ólafi Skúlasyni.  

Og menn gátu þar fyrir utan greinilega ekki staðið upp í hárinu á Ólafi né komist neitt áleiðis með hann. Til þess var Ólafur of harður maður og of karismatiskur. Sumir menn eru þannig. Þú kemur inn í herbergi og þekkir engan en tekur samt eftir einhverjum einum umfram annan. Ólafur var slíkur maður sem allir tóku eftir þó svo að menn þekktu hann ekki fyrir í tengslum við neina frægð. Útgeislun fólks er misjöfn en sterkir leiðtogar hafa að öllu jöfnu mikla útgeislun. Að ganga inn í eitthvað herbergi og ætla að sannfæra slíka menn um eitthvað bara gengur ekki.  Hitler var alveg eins, menn ætluðu að sannfæra hann um hitt og þetta og urðu strax komnir á öndverða skoðun (þá er ég að tala um dæmi um karisma, ekki að bera þá Ólaf almennt saman). Alveg eins væri hægt að taka Davíð Oddsson sem dæmi um slíkan leiðtoga. En fyrst að Ólafur valdi þá braut að verða prestur þá má kannski segja að það hefði alls ekkert komið í veg fyrir það að hann yrði biskup. 

Áður en Ólafur mætir til leiks sem biskup þá er fólk í rauninni vant öðru. Sigurbjörn Einarsson hafði verið andlegur leiðtogi til fjölda ára, dýrkaður og dáður. Síðan kemur Pétur Sigurgeirsson, bæði rólegur og elskulegur. Og svo er það Ólafur sem sest í embætti sem forverar hans höfðu sinnt af þvílíkum heilagleika, ekki síst Sigurbjörn sem hafði gríðarleg áhrif á mótun kirkjunnar á 20. öldinni.  Þá allt í einu er biskupinn Ólafur sakaður um að hafa nauðgað einhverju fólki!  Á þeim tíma vildu margir heldur ekki trúa þessu enda alveg gjörsamlega úr takt við Sigurbjarnar-heilagleikann.  Maður í þessu helga embætti og ásakanir um eitthvert kynferðislegt ofbeldi er líkast til meira en margur gat þolað. Eða með öðrum orðum: þetta gat ekki farið saman. E.t.v. skýrir það viðbrögð sumra gagnvart Sigrúnu og öðrum konum; ekki það að ég vilji verja gerðir fólks þannig, en sitthvað í sögunni kann að skýra ferlið þannig.

Svo er það þetta með völdin. Menn í háum stöðum eiga sér net vina og skiptir þá engu hvað eða hvað kemur uppá, það er hægt að bjarga  málunum fyrir horn, dæmigert fyrir Ísland. Og Ólafur Skúlason var orðinn of voldugur til þess að hægt væri að sigra hann með ákærum um kynferðisglæpi rétt sísona. Margir studdu hann enda karismatiskur (sterkur leiðtogi) með afbrigðum sem hafði hæfileika til þess að stjórna öðru fólki all hressilega í kringum sig. Ætli það hafi ekki verið hvað helst árásir dagblaða sem gengu frá hans ferli sem biskup þannig að hann hætti fyrr en hann hafði ætlað sér. 

Það var samt engin hetja sem stóð upp og mótmælti biskupi nema ef vera skyldi Geir Waage. En Pálina leitaði aldrei til hans. Hún leitaði til manna sem gátu einhverra hluta vegna ekki hjálpað henni.  Sú tegund af manni sem stendur fast á meiningu sinni, hvikar ekki frá henni og hættir öllu fyrir skoðun sína, trú og sannfæringu, hún fannst ekki hjá kirkjunni á þessum tíma (kannski núorðið,  hvað veit ég).  Marteinn Lúter og nafni hans King voru báðir þannig,  Sókrates og Jesús Kristur.  Manstu líka eftir unga fólkinu sem mótmælti nasismanum og Hitler og kölluðu sig Hvítu Rósina, en voru síðan tekin af lífi fyrir mótmæli sín (tek það samt skýrt fram að ég er ekki að líkja kirkjunni saman við nasista).  En það vildi engin fórna sér fyrir Sigrúnu Pálínu eða málstað þeirra. Ef einhver hefði gert það þá, þá væri hann eða sá hetja í dag eða hvað heldur þú? 

Í dag er það á tæru meðal allavega flestra að Sigrún Pálina var að segja satt um afbrot biskups gagnvart sér og hún nefnir 6 aðrar konur sem hafa sams konar reynslu að segja. Ég trúi henni alveg og þeim öllum.   

 


mbl.is Veit um sex aðra þolendur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ósammála Geir Waage

Prestar verða að kunna að þegja. Það er sannleikur í sjálfu sér. Kynferðisafbrot er hins vegar enginn venjulegur hlutur. Nú fer maður til prests og segist hafa misnotað barn og vilji ekki gera slíkt en ráði ekki við sig og vilji hætta þeirri iðju.  Hvað myndi presturinn gera í slíku máli? Er hann fær um að hjálpa manninum út úr vandanum einn og óstuddur án annarra fagaðila. Væri ekki betra fyrir hann að fá aðstoð frá öðrum sem vita hvernig eigi að taka á slíkum málum? 

Síðan er það börnin sem maðurinn hefur misnotað. Presturinn vill ekki rjúfa trúnað en samt verður hann að gá að sálarheill þessara barna ekki satt? Hvernig ætlar hann að gera það án þess að hafa aðra fagaðila með sér og án þess að ræða við aðstandendur viðkomandi barna þannig að þeir viti um hvað málið snúist? 

Segjum að ég vilji leita til prests með eitthvað allt annað mál. Persónulegt vandamál sem enginn veit um en tengist depurð eða einhverjum andlegum erfiðleikum. Þar myndi ég segja að presturinn þyrfti ekki á öðrum að halda, ég hefði hann einan og hann gæti leiðbeint mér með einhverjum hætti. Hann gæti líka vísað mér annað til annarra góðra fagaðila sem hann teldi að gætu hjálpað mér betur (tek þetta bara sem dæmi).  Ef ég vildi ekki að hann segði frá okkar samtölum þá yrði hann að virða það. Hinsvegar ef hann teldi víst að ég færi mér að voða, dræpi mig eða annan mann? Hvað þá? Hér læt ég staðar numið með þessa umræðu en vísa því til þín lesandi minn að svara þessari spurningu þó ég hafi sjálfur svarað henni í eigin huga. 

Fagleg vinnubrögð prests eru ekki bundin við eitthvað svart og hvítt. Kristin kirkja getur ekki lifað bara í einhverju regluverki. Hún verður að vera lifandi og þjóna fólkinu sem til hennar leitar með réttum hætti. Prestur verður að hafa dómgreind til þess að vega og meta aðstæður. Ef hann situr einvörðungu í trúnaði, sama hvað, þá er hann um leið að girða sig af frá öðrum fagstéttum og um leið er jafnvel sá möguleiki fyrir hendi að hann læri ekki af öðrum í tengslum við ýmis mál. 

Prestur einn og sér á að búa yfir getu til að takast á við ýmis erfið mál, sum mál er hins vegar þess eðlis að vegna stærðar þeirra og alvarleika getur presturinn ekki höndlað þau einn og sér. Kynferðisafbrotamál eru þar á meðal.  Ég hafna því alfarið og er því ósammála að trúnaður við presta verði að engu ef trúnaðarskylda við presta sé ekki algjör.  Fólk mun ekki hætta að leita til presta með trúnaðarmál. En það gæti að vísu gert það gagnvart einstaka presti sem kann ekki fagleg vinnubrögð og kann ekki að þegja þegar hann á að gera það. 

Það skiptir máli fyrir kirkjuna að hún sé þess meðvituð hvaða fagleg vinnubrögð hún ætlar að viðhafa í kynferðisafbrotamálum. Líka að þeir sem koma nýir inn sem prestar viti hvernig þeir eigi að bregðast við gagnvart slíkum málum. Eftir sem áður verða menn að kunna að þegja og ræða um það sem máli skiptir við rétta aðila. 

Að lokum vil ég óska Geir Waage velfarnaðar og ég vil nefna að ég kýs málefnalega umræðu. 

 


mbl.is Ríkari trúnaðarskylda samkvæmt lögum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Spurning Geirs Waage er óásættanleg að öllu leiti

 Það var svo sem ekki ætlunin hjá mér að fara að fjalla um þetta mál, nema hvað að ég hnaut um þessa spurningu hér hjá Geir Waage:

 Hvert á brotamaður að leita ef hann getur ekki lengur einu sinni leitað til prests, og treyst því að hann fari ekki með allt til lögreglunnar? 

 Jæja já segir maður nú bara og það sem kemur upp í hugann er ýmislegt eins og: 

 Af hverju ætti kynferðisafbrotamaður að leita til Geirs Waage? Þessir menn eru nú í því að fela þessa hluti og reyna að komast upp með þá sem allra lengst. 

Gerir Geir Waage virkilega ráð fyrir því að brotamaður ætli sér eða vilji  yfirhöfuð leita eitthvert með glæp sinn til þess að fjalla um hann?

Sú staðreynd að með því að þegja yfir kynferðisafbroti verður maður í raun samsekur með glæp. Þú leyfir honum að halda áfram og viðgangast með því að þegja. 

Það er ekki hægt að fara í prédikunarstól og prédika um réttlæti og rétta breytni meðan maður á sama tíma er að hylma yfir því sem er rangt og eyðileggur, eins og hér, börn fyrir lífsstíð þannig að þau verði ALDREI hamingjusamir einstaklingar. 

Þagnarskylda í huga Geirs Waage skiptir meiru máli en sál barns sem verið er að rústa einhversstaðar í nágrenninu. 

Ef ég fer nú til Geirs og segi honum að ég hafi misnotað barn og sé  enn að, geti ekki hamið mig gagnvart börnum, lemji barnið mitt og önnur börn, já og láti þau jafnvel hafa vímuefni, bara eitthvað af þessu. Þá væri ég að tala um, hvað svo sem ég nefndi af þessu, alveg heljarinnar óréttlæti í verki sem miðaði að því að sprengja fjölda fólks í loft upp. Vilja menn hafa það á samviskunni að hafa vitað af slíku en ekkert gert til þess að sporna við því? Allt í nafni einhverrar þagnarskyldu sem á þá að hafa meira vægi. 

Spáðu svo í því ef þú værir sóknarbarn Geirs og þú kæmist að því að einhver bóndi í sveitinni hefði misnotað barnið þitt kynferðislega til fjölda ára og Geir Waage af öllum hefði vitað af því allan tímann og ekkert gert né sagt til að sporna við því.  

 Það er rosalega margt rangt við þessa spurningu hjá Geir. Hún er óásættanleg að öllu leiti og á ekki heima neins staðar. Hvorki í starfi prests né í fjölmiðlum. Bara hvergi. 

 


mbl.is Þagnarskyldan er algjör
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Er það ekki bara einlífið sem veldur þessu?

Hvað er það sem veldur því að kaþólska kirkjan lendir í svona harmleik? Á undanförnum árum hafa komið upp mál þar sem prestar hafa gerst uppvísir af barnamisnotkun eða einhvers konar óeðlilegri kynhegðun.  Hér höfum við Írland; einhverntíma alls ekki fyrir löngu höfðum við Bandaríkin.

Það er kannski eitt sem vert er að benda á í þessu samhengi og það er einlífi presta. Ástæða þess að kaþólskir prestar eru skírlífir fylgir þeirri trú að Jesús Kristur hafi verið það og hann kvæntist ekki. Prestarnir gegna erindum hans og ganga inn í stöðu hans, eru í hans hlutverki við messugjörð og  að þeir eiga að lifa með hann sem fyrirmynd. Það er ekki rétt sem einhver sagði við mig í gær að kaþólsk trú horfi framhjá Kristi og einblíni á dýrlinga. Sú trú er fyrir hendi að Kristur sé lifandi hluti kirkjunnar og það sé horft tll hans og hann meðtekinn í heilögu sakramenti þ.e.a.s. við altarisgöngu.  

Vegna þess að Jesús var karlmaður þá hefur konum ekki hlotnast sá heiður að verða prestar innan kaþólsku kirkjunnar.  Aðeins karlmenn fá að gegna því hlutverki. Þar að auki er ekki litið á þetta sem starf eða vinnu heldur sem lífstíl, ákveðið líferni sem presturinn hefur verið kallaður til. Þetta er köllun til þjónustu, ekki ráðning í starf og launin eru ekki neitt gríðarleg eins og einhver hafði áhyggjur af nú fyrir ekki svo löngu síðan.   

Þá er von að maður spyrji hvers vegna í ósköpunum fara menn í þessu hlutverki út í það að misnota börn?   Það er ekki auðvelt að svara því með beinum hætti. E.t.v. er það einlífið sem fer ekki vel í menn.  Það að prestar séu almennt séð kvæntir er að mínum dómi ábyggilega hollara fyrir þá en þá um leið þarf að verða einhver viðhorfsbreyting innan kaþólsku kirkjunnar varðandi einlífið og á þessari trúarlegu sýn á Krists-hlutverki presta. Ég er ekki viss um að slíkar breytingar verði í bráð eða jafnvel nokkurn tímann en sjáum samt til með það. 

Skrítið samt að biskupar, bæði á Írlandi og í Bandaríkjunum hafa þagað um misnotkun presta í staðinn fyrir að taka á málunum með einhverjum áþreifanlegri hætti. Hvort það er kjarkleysi, þeir trúa þessu ekki eða það er logið stanslaust að þeim skal ósagt látið. 

  


mbl.is Annar írskur biskup segir af sér
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta síða »

Höfundur

Þórður Guðmundsson

Þórður Guðmundsson þroskaþjálfi

Nýjustu myndir

  • bill cosby 620x480 cemrf
  • ATI-lower-review-polymer
  • ATI-lower-review-polymer
  • download JFK
  • Aretrov

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (19.3.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku:
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku:
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband