Færsluflokkur: Trúmál

Um þjáninguna

Þessi færsla fjallar um trúarlegar öfgar. Eins og gengur og gerist með menn þá hneigjast þeir iðulega til öfga. Mikilla öfga jafnvel.  Trúin á guð kann að vera þar á meðal. Tölum bara um guð kristinna manna hér og látum annað liggja milli hluta, í bili allavega. 

 Í þessum venjulega hversdagsleika upplifir margur ekkert sérstakt sem beinir honum að einhvers konar guðdómi.  Í friðsömu þjóðfélagi eins og á Íslandi, sem er nota bene án hers og væntanlegra styrjalda, þá virkar kristin trú annaðhvort sem aðlaðandi barnatrú eða athafnatrú, þ.e. þegar einungis eru sóttar messur á hátíðisdögum, vegna jarðarfara, hjónavígslna, skírna o.s.frv.  2svar á ári er farið til kirkju og ekki einu sinni það oft á tíðum.

Þegar síðan fýkur í öll skjól þá leitar margur í trúnna og ýmsir fara þá að upplifa Guð. Kristin trú virkar einhvernveginn best í þrengingum; þegar fólk upplifir mikinn sársauka, þjáningar og trúnna um leið.  Ef við förum aftur í tímann og sjáum fyrir okkur hina fyrstu kristnu þá voru þeir þannig að þeir vildu þjást og ganga í dauðinn. Frelsun margra þeirra fólst í því að deyja kvalafullum dauðdaga ásamt Kristi og rísa síðan upp með honum.  Þannig náðu menn að upplifa Guð fyrir tilstilli þjáningarinnar.  Það er reyndar eins og margur finni hann helst með því móti, með þjáningu. Sorgmæddir gera það, einmana fólk, sjúklingar, andlega veikir, fólk sem er að koma úr harðri neyslu eins og dópistar og alkóhólistar. Hinn hversdagslegi maður tilheyrir ekki neitt sérstaklega þessum hópi. 

Hversdagsmaðurinn heldur áfram sinni göngu til og frá og er ekkert endilega að hugsa um Guð. Þegar lífið gengur fínt, er þá þörf á einhverju fleiru? Hvers vegna að trúa á eitthvað sem sést ekki, heyrist ekki í og er ekki hægt að sanna að sé til? Nú orðið er alveg dæmigert að hugsa þannig. En svo gerist iðulega eitthvað erfitt hjá okkur öllum fyrr en síðar. Fólk skilur, veikist, deyr o. m. fl. 

Væri þess vegna hægt að taka þjáningunni fagnandi? Að hún færi mann nær einhvers konar guðdómi og andlegri frelsun. Margur þjáður hefur upplifað eitthvað honum æðri, sem birtist honum eða virðist vilja mæta honum með einhverjum hætti.  Eins og meiri líkur séu á því að hinn þjáði upplifi guðdóminn heldur en sá sem lifir góðu lífi. Sem má vel vera.  Rasputin syndgaði ítrekað upp á náðina, þjáðist vegna þess og iðraðist svalls síns. Síðan syndgaði hann aftur og þjáðist.  Með þessum hætti taldi hann sig upplifa Guð mun sterkar.

Hvernig er það, ætti maður ekki bara að halda sér innan þægindarammans, eða hvað finnst þér? 


Himnaríki

Mér vitraðist himnaríki eitt sinn að kvöldi.  Nú spyrð þú kannski hvort slíkur staður sé til og hvers vegna ekki spyr ég á móti.  Er okkar veruleiki endilega sá eini, geta þeir ekki verið fleiri og allavegana? Hvað vitum við annars út fyrir okkar eigin rann nema það eitt að við deyjum einhvern daginn og við tekur eitthvað annað, önnur vídd eða veruleiki, ellegar ekki neitt. Hvað vitum við svo sem?  En hér kemur sú vitrun sem ég sá fyrir mér og sem mér leið svo vel með. 

Himnaríki er til. Þar eru engir veggir og engin hús. Það er vegna þess að ekkert girðir af annað og lásar eru óþarfir, enginn þarf að loka sig af og þörfin á eignum er ekki til staðar.  Ekkert er til sem heitir hægri og vinstri, upp né niður.  Þar eru litirnir svo fallegir og margir þeirra eru ekki til á jörðinni. Fátt eitt af þeirri fegurð sem þarna finnst er raunverulega til á jörðu.  Þær verur sem flæða þarna um í mikilli vellíðan búa yfir meiri fegurð heldur en nokkurn tíma hefur fyrirfundist meðal manna. Og það er hægt að gera allt mögulegt í þessu óendanlega stóra rými, þar sem að vonbrigði og særindi eru ekki til. Þarna er hægt að semja hina fegurstu tónlist og flytja hana. Allt er hægt, eins lengi og það er fallegt og flott.  Það er líka hægt að búa til nýja undursamlega liti. 

 Þetta er bara önnur vídd, veruleiki sem er annars konar, öðruvísi, fegurri en mannheimar nokkurn tíma. 

 


Ósammála þessum manni

Mér finnst þessar hugmyndir Pat Robertson vera full einfaldar. Það er engin almennileg dýpt í þessu. Miklu fremur of mikil einföldun. Ég er þar að auki ósammála þessum manni. 

Ef við skoðum aðeins guðsmyndina þá er þarna refsandi guð. Mennirnir haga sér illa og þá kemur guð og refsar.  Að sama skapi ef menn haga sér vel þá er guð góður og gefandi.  Þessa hugsun er að finna á ýmsum stöðum í gamla testamentinu og þá sérstaklega í 5 Mósebók,  Jósúabók og í Dómarabókinni. 

Jobsbók er með aðeins öðruvísi hugsun vegna þess að þar er maður, sem heitir Job, sem er búinn að vera ofboðslega góður allt sitt líf og á allt gott skilið sökum góðmennsku sinnar. Samt missir hann allt sem hann á, fjölskylduna, húsið og næstum heilsuna líka. Eins og hann hafi lent í ósanngjarnri refsingu; miðað við þá hugsun hér að ofan að allar hamfarir (m.a. þar sem maður missir allt) hljóti að vera refsing frá guði - vegna einhvers.  Tökum nú þessa hugsun þannig að við heimfærum hana upp á hamfarir á Haíti.  Ætli við hljótum þá ekki að geta fundið fólk sem er alveg eins og Job.

Ef við höfum refsandi guð sem er að valda náttúruhamförum í refsingarskyni vegna einhvers sem átti sér stað árið 1804 þá er hann um leið að ráðast á saklaust fólk (sem er sumt hvert e.t.v. eins og Job) sem ekkert hefur til saka unnið og á það ekki skilið að lenda í einhverri 200 ára gamalli "bölvun".  Að þessu viðbættu má áætla að Robertson meini það að guð stýri sköpun sinni og valdi uslanum. Fyrir mitt leiti er þá er slíkur guð lítt traustvekjandi og skeytingarlaus um líf manna. Slíkt boðar kristin trú að mínu mati í rauninni ekki.  

Pat Robertson er fyrir mitt leiti ekki góður kennimaður. Hann hefur hins vegar náð eyrum fólks og hann hefur haft áhrif á stjórnmál í Bandaríkjunum þannig að honum hefur tekist að brjóta sér leið í áttina að Hvíta húsinu.  Mig grunar að hugmyndir þessa manns hafi haft áhrif á George W. Bush en ég sel það ekki dýrar en ég keypti það. 

 


mbl.is „Haíti-búar sömdu við djöfulinn"
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvað segir þessi mynd þér?

Ekki langar mig til þess að taka þátt í harðri deilu um svona auglýsingaskilti.  Kemur samt ekki á óvart þótt einhverjir móðgist vegna þessa.  Myndin virkar kynferðisleg og meðal fólks sem tilbiður Maríu mey sem hina heilögu óspjölluðu guðsmóður þá verður þessi mynd að helberu guðlasti.  Þeir sem ekki hafa slíka viðkvæmni gagnvart Maríu mey eru líklegri til þess að sjá húmorinn í myndinni. Það er þessi trúarlega helgi sem skapar deiluna.  María mey er sterkur hluti af kaþólskri trú og þess vegna getur það alveg eins orðið erfitt að sjá hana í þessu ljósi þ.e.a.s með einhverju sem tengist hinu kynferðislega. 

Auglýsingaskiltið skapar umræðu. Það er engin spurning. Hvers vegna ekki að hreyfa við fólki og skapa umræðu? Eðli góðrar prédikunar er að hún hreyfir við fólki og fær það til að hugsa, sjá líf sitt í nýju ljósi, eða annarra. Hún er jafnvel til þess að fá fólk til þess að hugsa um hluti sem hafði áður ekki hvarflað að því.  Þannig getur þetta skilti í eðli sínu verið eins og prédikunin. Hún fær fólk til að hugsa og hún skapar umræðu. Hreyfir við.

Hvað segir þessi mynd þér? Beinir hún sjónum að einhverju kynferðislegu, að tilfinningalegu ójafnvægi Jósefs og kynvanda, eða að ástinni og hversu viðkvæm hún getur verið en samt mikilvæg hverjum manni. Að elska og vera elskaður er öllum mikilvægt en það getur líka verið sumum erfitt á köflum að elska aðra manneskju. Svona mynd getur fyrir mér sagt fullt af hlutum sem tengjast lífinu sjálfu.  Það er svo margt í spilunum þegar við tölum um náið samband fólks. Ástin er dýrmæt en líka um leið brothætt og viðkvæm. Hún er mönnum gefin og jólin minna okkur á mikilvægi þess að varðveita ástina og hið góða í lífi okkar.  
mbl.is Deilt um meydóm Maríu í Nýja-Sjálandi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Höfundur

Þórður Guðmundsson

Þórður Guðmundsson þroskaþjálfi

Nýjustu myndir

  • bill cosby 620x480 cemrf
  • ATI-lower-review-polymer
  • ATI-lower-review-polymer
  • download JFK
  • Aretrov

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (19.3.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku:
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku:
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband