Hvað er sannleikur?

Ég fór í bæinn í gær og hitti mann. Alveg dæmigert að gera svoleiðis. Lífið er að má segja vegferð milli manna, þú hittir einn, síðan þann næsta og svo koll af kolli. Nema þegar þú skoppar inn á eitt stykki fund, þá ertu að hitta marga í einu, en síðan kemur að því að fundi líkur og þú ferð af stað aftur og hittir næsta mann eða talar við hann í síma, og svo koll af kolli. 

En aftur að þessum manni sem ég hitti. Málið er að ég fer stundum í bæinn eftir miðnættið og labba inn á skemmtistaði. Ekki til þess að fá mér í glas heldur til þess að gá hvort þar séu e.t.v. einhverjir skemmtilegir til þess að endurnýja kynni við, eða hreinlega til þess að kynnast. Stundum ber vel í veiði og á barnum eru einhverjir snillingar sem ég spjalla við í lengri tíma eða stelpur sem ég síðan dansa við allsgáður. Þessi maður var ekki inni á skemmtistað heldur fyrir utan. Við erum vel málkunnugir og tölum oft saman. Hann er einn af þeim mönnum sem tilheyra frjálsum söfnuðum í Reykjavík.  Það var fáranlega hlýtt í gær miðað við árstíma. Ég gat leyft mér að vera gangandi um í stökum jakka með svörtum bol við og það án þess að verða neitt of kalt. Þess vegna gátum við staðið þarna á götuhorni og spjallað í lengri tíma án þess að frjósa.  En allavega vinur minn hafði frá ýmsu að segja og fljótlega kom að máli málanna, Gunnari í Krossinum.  

 Vinur minn sagði mér þarna að þetta væri allt saman uppspuni um Gunnar blessaðan. Til þess gert að koma honum frá sem forstöðumanni. Markmiðið væri að koma öðrum að í hans stað, sem væri þá fyrrum forstöðumaður Vegarins hér í eina tíð. Sá hafði reyndar verið í Krossinum í fyrra og talsvert við það að prédika en virðist nú hafa horfið á braut eftir sumarið.  Allt snérist þetta um safnaðarpólítík og ekkert annað.  Kvaðst hann vera innsti koppur í búri við að skoða þessi mál og vita heilmargt. Meira að segja kvaðst hann hafa verið hægri hönd Gunnars að einhverju leiti.  Á endanum kvaðst hann alveg geta farið í blöðin og losað Gunnar undan vandanum í eitt skipti fyrir öll ef þetta héldi svona áfram eins og verið hefur. 

Það sem maður heyrir sagt af götunni getur verið æði sérkennilegt. Fyrir mér þá er ég ekki viss um allt það sem þessi maður er að segja mér.  Ég vissi t.a.m. ekki til þess að hann væri í Krossinum, heldur einmitt í öðrum söfnuði.  Og sá sem stendur Gunnari næst og er bersýnilega hægri hönd hans er eldri dóttir hans sem jafnframt er framkvæmdastjóri safnaðarins.  Það er rétt að nefndur prédikari hvarf eftir sumarið en hvort það er vegna þessa eða hins veit ég ekki. Hingað til hefur hann ekki verið bendlaður við málið á neinn hátt.  Þá vilja þær konur sem standa fyrir ásökunum þeim sem um er rætt hafnað því að um safnaðarpólítík sé að ræða (er ég þá ekki að vitna í sjónvarpsviðtöl einvörðungu).  Málið er þess heldur flóknara en svo að hægt sé að leysa það með einni blaðagrein. Hún þyrfti þá að vera alveg ferlega góð og marktæk fyrir alla; afhverju er hún þá ekki bara þegar komin!?

Það er ekki hægt að taka mark á öllu sem manni er sagt.  Mér fannst til dæmis ekki hægt að taka fyllilega mark á Kastljósinu um daginn þar sem þær komu fram systurnar og ásökuðu Gunnar.  Eitt af því sem sló mig var hversu léttar þær gátu orðið á settinu.  Þegar spurt var um safnaðarpólítíkina þá fóru þær bara að hlæja rétt svona aðeins.  Önnur þeirra átti auk þess í örlitlum vandræðum með að útskýra samskipti sín við Gunnar undanfarið.  Hvorug þeirra ætlaði síðan upphaflega að rifja þetta mál upp.  Þarf ekki aðeins þá að spá í því að verið er að rústa bæði lífi og ævistarfi viðkomandi, og kannski hjónabandi líka með hartnær 25 ára gömlum minningum?  Já og á sama tíma segist fólk bera virðingu fyrir manninum og leitin að föðurímynd standi yfir!

Maður á að gagnrýna með sjálfum sér það sem manni er sagt.  Sumt fólk er þannig að það lýgur alveg stanslaust. Ekki vegna þess að það ætli sér það heldur vegna þess að það er þannig að upplagi. Sumir búa sannleikann einfaldlega til. Stundum til þess að forðast eitthvað sem er sárt að hugsa um eða einfaldlega vegna þess að það er þægilegra.  Í annan stað getur ákveðinn sannleikur orðið til þess að sumum finnst þeir hafa ákveðin völd umfram aðra.  Sá sannleikur gæti þess vegna verið í reynd alveg haugalygi en gefið viðkomandi samt eitthvað. Það sjá ekki allir heiminn með sömu gleraugunum og það sem er sannleikur fyrir einum er það hreint ekki fyrir öðrum.

Það er til í dæminu að fólk ljúgi til þess að komast út úr hlutunum, losna við þá, helst umræðuna alla eða bara einfaldlega til þess að losna út úr samtali. Þannig lagað séð þá getur verið flókið að skyggnast inn í mannlegt eðli. Ef þú kafar nógu djúpt þá munt þú alveg pottþétt finna eitthvað vont og það hjá hverjum sem er. 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Takk fyrir skemmtilegt blogg Þórður. Ég les bloggið reglulega en hef aldrei tjáð mig hér áður.

Ég veit nú ekki hvern þú hittir en það er greinilegt að maðurinn telur sig hafa puttann á púlsinum. Björn Ingi hefur vissulega predikað mikið upp í Krossi á síðustu mánuðum en skyndilega er hann horfinn. Hvað veldur? Það eitt veit ég því ég var í húsinu þegar hann kynnti hvaða köllun hann væri með. Hann sagði að Guð hafi talað skýrt inn í líf sitt þegar hann var í bæn og biðja Guð um að sýna sér hvað hann ætti að gera í sínu trúarlífi. Hann hélt að Guð væri að kalla hann til að opna nýjan söfnuð en allt kom fyrir ekki Guð sýndi honum enn og aftur að hans köllun væri að starfa í Krossinum. Björn Ingi sagði að honum þætti þetta skrýtið þar sem Gunnar væri nú forstöðumaður og söfuðurinn þyrfti ekki annan. Samt sem áður vildi hann ganga út á köllun sína og hóf að starfa í Krossinum.

Síðan þá hafa hlutirnir hrunið í Krossinum og ég og fleiri sagt skilið við söfnuðinn. Annað hvort var Guð í alvöru með plan fyrir Björn Inga að taka við Krossinum þar sem Gunnar þyrfti að víkja eða var Björn Ingi með undirlægjuhætti að reyna að ræna Krossinum frá Gunnari.  Ég ætla ekki að dæma um það en eitt veit ég að Gunnar Þorsteinsson, sá mikli maður, mun halda dauðahaldi í söfnuð sinn þótt það kosti það að söfnuðurinn tæmist.

Haltu áfram svona skemmtilegum skrifum

 Hrafnhildur

Hrafnhildur (IP-tala skráð) 11.12.2010 kl. 23:39

2 Smámynd: Þórður Guðmundsson

Takk fyrir gott comment Hrafnhildur. Gott að heyra að þú hafir ánægju af að lesa það sem ég hef verið að skrifa.  Ég blogga öðru hvoru eftir því sem mig langar til og þá helst um eitthvað sem ég tel mig hafa vit á eða geta fært rök fyrir.  Merkilegt nokk hversu sjaldan eða bara aldrei ég fæ heiftarleg viðbrögð miðað við bloggheiminn þar sem leynist mikill fjöldi af kjaftforu fólki. 

Ég veit meira um mál Krossins en ég vil blogga um. Það er vandi að blogga um þetta eins og um svo margt annað. Mér lærðist það fyrir löngu að sletta ekki til hendinni við bloggskrif og hafa það eins vandað og hægt væri. 

Kv. Þórður 

Þórður Guðmundsson, 14.12.2010 kl. 00:37

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Þórður Guðmundsson

Þórður Guðmundsson þroskaþjálfi

Nýjustu myndir

  • bill cosby 620x480 cemrf
  • ATI-lower-review-polymer
  • ATI-lower-review-polymer
  • download JFK
  • Aretrov

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (23.4.): 2
  • Sl. sólarhring: 2
  • Sl. viku: 15
  • Frá upphafi: 29600

Annað

  • Innlit í dag: 2
  • Innlit sl. viku: 15
  • Gestir í dag: 2
  • IP-tölur í dag: 2

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband