Hvenær drepur maður mann og hvenær drepur maður ekki mann?

Meðan ég lá lasinn af þetta ofsalega leiðinlegum kvef-flensuvírus, liggjandi marflatur upp í sófa með tvöfalt teppi yfir mér þá birtizt mér á sjónvarpsskjánum maður sem býður dóms vegna morðs. Réttarhöldin hófuzt á mánudaginn, en maðurinn sást í handjárnum þar sem hann kom gangandi inn og síðan út aftur.  Ekki það að mig langi til þess að velta mér uppúr þessum þvílíka harmleik. Sumt á maður ekki að fjalla um á neti.

Hins vegar þá kemur upp í hugann, og við vorum að tala um þetta í dag, það að drepa einhvern. Hvernig tilfinning ætli það sé. Hvernig líður fólki sem drepur aðra. Það hlýtur að fá samvizkubit er það ekki.   Að mínu mati reyndar þá er það alltaf rangt að drepa einhvern. Einhver kann að nefna að það væri réttlætanlegt að gera slíkt í sjálfsvörn, en samt þá verður slíkur verknaður aldrei fullkomlega að ásættanlegri niðurstöðu eða m.ö.o.  ég drep mann til að verja mitt eigið líf en samt þá verð ég aldrei sáttur við að hafa þurft að gera það. 

Hér komum við að samvizkunni. Raskolnikov í bók Dostojevskis Glæpur og refsing, ákvað að drepa mann. Það gerði hann bæði vegna þess að hann taldi sig geta grætt  á því og vegna þess og kannski sérstaklega vegna þess að öll stórmenni hafi byrjað á slíkum verknaði sem síðan leiddi þá áfram veginn að mikilmennsku og frægð.  Raskolnikov tók ekki eigin samvisku með í reikninginn. Ekki heldur það að hann myndi þola þjáningar vegna þess að upp um hann gæti komist og hann gæti lent í fangelsi.  Við sjáum hann svo í rusli útaf þessu blaðsíðu eftir blaðsíðu. Ef þú hefur ekki lesið þessa bók þá er hún ein besta bók Fjodors Dostojevskis. 

Raskolnikov hefur samvisku og það alveg heilmikla þegar upp er staðið.Macbeth_illustration14_001_mid Nokkuð sem Makbeð í samnefndu verki Shakespeares hefur ekki.  Makbeð drepur mann. Til þess að komast upp með það að hafa drepið manninn þá drepur hann alla þá sem gætu hugsanlega afhjúpað glæpinn og vandinn vex og vex... Nokkuð sem við getum kallað siðlausa martröð.  Makbeð er siðblindur. Hann sér ekki að hann hafi gert eitthvað rangt og hann heldur áfram sama veginn til þess að geta að lokum komizt upp með upphaflega glæpinn. 

Hver hefur drepið mann og hver hefur ekki drepið mann? Hvenær drepur maður mann og hvenær drepur maður ekki mann? Fari í Helvíti sem ég drap mann. Og þó.   Þannig talar Jón Hreggviðsson eftir að hafa verið ákærður fyrir morð á böðli nokkrum.   Athyglisvert að skoða svar John Locke í þessu samhengi þ.e. til þess að svara spurningum Jóns. Hann segir að ef einhver vilji ná algeru valdi yfir manni og svipta burtu því frelsi sem grundvallarmannréttindi eru byggð á, þá hafi sá hinn sami lýst yfir stríði og sé þá um leið réttdræpur (sjá Ritgerð um Ríkisvald). 

Ef við notum þetta sem niðurlag  til þess að svara spurningum Jóns almennilega og þá sérstaklega þeirri sem sett hefur verið sem fyrirsögn þessarar greinar, þá vil ég segja að ég geti ekki verið Locke sammála nema  að því leitinu til að hjá því verði ekki komizt að drepa manninn og það til að verja eigið líf eða líf einhvers, en samt geti aldrei orðið heil sátt um það að hafa orðið að gera það.  Að drepa mann er voðaverk. Ef hægt er að komast hjá slíku þá skuli sú leið ávallt farin.

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Þórður Guðmundsson

Þórður Guðmundsson þroskaþjálfi

Nýjustu myndir

  • bill cosby 620x480 cemrf
  • ATI-lower-review-polymer
  • ATI-lower-review-polymer
  • download JFK
  • Aretrov

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (19.3.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku:
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku:
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband