Bloggfærslur mánaðarins, maí 2008

Hvernig er þetta hægt!

Þessi frétt er alveg ótrúleg. Heimilislaus kona hreiðrar um sig í skáp! Það getur ekki hafa verið mikið rými.  Var konan þá í sömu fötunum allan þennan tíma og þurfti ekkert að þvo af sér? Ekki hafa hrotur eða önnur hljóð borist úr skápnum meðan hún lá þar í svefni!? Eða þegar henni hefur allt í einu orðið mál. Hvernig fór hún að því að skutlast á salernið án þess að húsráðandinn vissi? Eða í ísskápinn?  Ekki það að hann hafi komið óvænt heim og þessi kona hafi þá verið í baðkarinu hans! Né heldur að hann hafi verið að brölta á næturna og rekist óvart á konuna. Það er greinilegt auk þess að maðurinn hefur ekki kíkt í þennan skáp né heldur að hann hafi þurft á honum að halda allt sl. ár. Á sama tima hverfur brauð og allt mögulegt úr ísskápnum. Hvernig stendur á því að maðurinn er heilt ár að kveikja á perunni? Undarlegt mál.
mbl.is Fann konu í skápnum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Göngutúr í rigningu og vangaveltur um bók Eckhart Tolle - A New Earth.

Göngutúrinn í rigningunni geymdi fjölda augnablika þar sem hugsað var um þessa einu bók. Hundurinn skoðaði á sama tíma allan þann gróður sem náð hafði að fanga athygli hans. Hann þefaði, skoðaði betur, pissaði á völdum stöðum og hélt svo áfram í áttina að næsta áhugaverða stað. 

Hugurinn er brjálaður segir Tolle. Hann æðir áfram í sífelldri þörf fyrir allt það sem hann telur að fullnægi þörfum hans, en hann getur ekki staldrað við og notið augnabliksins eða þess að njóta þess einfalda í náttúrunni. 

Hundurinn nýtur þess að staldra við og skoða. Þessi stóri brúni íslenski rakki með hringaða skottið sem er ekkert að spá í því að hann sé að þefa af blómi sem óx um daginn og deyr kannski á morgun.  Né heldur er hann að velta því fyrir sér að þarna sé eitthvað sem hafi eitthvert heiti meðal manna.  Eins og það í rauninni skipti nokkru máli. 

Bókin hans Tolle er aftur og aftur í huga mínum. Tolle hefur bókina á því að tala um fyrsta blómið sem varð til fyrir einhverjum milljónum ára. Eitthvað sem upplifði sólarupprás og sólarlag. Upphaf eilífrar hringrásar sem nær til okkar dags. Og í nútímanum höfum við heiti yfir fleiri þúsundir plantna og öll hafa þau einhver latnesk heiti sem helst má finna í uppflettiritum. Tolle er alveg sama um nöfn. Þau trufla alla upplifun. Það er miklu betra að staldra við og upplifa, finna ilm eða mýkt eins og mýktina af rósablaðinu. Gleyma sér síðan og vera bara.

 


Eckhart Tolle. A New Earth.

Það var kvöld eitt í apríl eftir leikhúsferð að mér var gefin bók. Það var nokkuð hlýtt veður en aðeins tekið að skyggja í einu af þægilegri hverfum þessa heims, hverfinu þar sem allt er alltaf svo rólegt og laust við asa og læti. Þar var mér gefin þessi gjöf frá frænku minni sem á heima í útlöndum. Þetta skyldi vera eins konar skilnaðargjöf þangað til við hittumst næst.  Úr bréfinu kom appelsínugul bók eftir Eckhart Tolle sem heitir A New Earth. Láttu mig vita hvað þér finnst um þessa bók sagði frænka mín við mig um leið og hún kvaddi mig. Fylgi þér alltaf farsældin. 

Tolle! Kom upp í huga minn. Maður sem er á fullu við að segja viturlega hluti. Aðallega í míkrafón. Það er hægt að finna hann á Youtube þar sem hann situr á stól og talar rólega til fólks. Í lengri tíma. Aleinn og enginn með honum.  Mér hafði verið bent á þennan mann einu sinni áður. Það var sl. vetur og þá var kveikt á honum í smástund og slökkt á honum nánast jafnharðan. Svo varð einnig um þessa bók að hún fékk að vera óáreitt í hillu þangað til í fyrir þrem dögum að smá uppgötvun leiddi mig til hennar aftur. 

anewearth_cover_90x90Þetta er bók sem maður les hægt. Suma kafla oftar en einu sinni. Án þess að grípa allt hrátt sem Tolle segir þá er margt mjög athyglisvert. Hann er t. a. m. með ágætan skilning á orðum Krists og hugmyndir hans eru djúpar og hann sér hlutina út frá ákveðinni rósemd. Okkur hættir víst til að vilja fara of hratt og að við náum ekki að njóta augnabliksins. Kannski að það eigi einmitt erindi til nútímamannsins sem alltaf er á fleygiferð og finnur sér aldrei stund til að staldra við vegna þess að það er alltaf svo mikið að gera og í svo mörg horn að líta. 

Youtube. Þar er Eckhart Tolle að tala í míkrafóninn sinn og það oftar en einu sinni. Þar er hann reyndar einnig að gera svolítið annað. Sem kom nokkuð á óvart og varð kveikjan að meiri áhuga hjá mér. Hann er víst í miklu uppáhaldi hjá Oprah Winfrey og þau eru með kennslustundir saman sem hófust í mars og stóðu samfleytt í 10 vikur.  Sem þýðir að það er hægt að sitja nokkuð lengi við tölvuna og fylgjast með kennslustundum þar sem þau tvö sitja í hvítum hægindastólum, spjalla um bókina og svara spurningum frá hlustendum. Það er samt með þetta eins og svo margt annað. Hvernig borðar maður fíl?  Með því að taka einn bita í einu. 


Lindsay Lohan kvænist annarri konu

Í íslensku máli þá er það svo að konur kvænast aldrei, þær giftast. Þar sem um lesbískt hjónaband er að ræða þá er Lohan í rauninni að kvænast, hún er að ganga í hjónaband með annarri konu sem verður væntanlega í Kalíforníu. Það eru bara tvö ríki í U. S. sem leyfa hjónabönd samkynhneigðra. Massachusettes leyfði þau 2004 og nú Kalífornía um miðjan þennan mánuð. Hvað gerist í þessum málum hjá Lohan verður spennandi að sjá. Svona eins og í dæmigerðri sápuóperu!   
mbl.is Lohan vill kvænast Samönthu Ronson
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vandræðagangur og vitleysa hjá Dr. Phil

Hversu oft hefur maður ekki horft á Dr. Phil og dáðst að því hversu frábær hann er að tala við fólk og hvernig honum tekst að leysa alls konar vanda með gestum sínum.  Það hefur þó komið fyrir að hann hefur vísað viðmælanda úr sjónvarpssal.  Þetta gerðist einu sinni hjá Dr. Phil: 

 

  

Svo er það viðtalið þar sem Dr. Phil lendir í hálfgerðum vandræðum og missir viðmælanda sinn alveg frá sér.  Ekki bjóst maður við því að sjá eitthvað þessu líkt: 

Endemis vandræðagangur! Ætli Oprah Winfrey hafi einhverntíma lent í einhverju svona? 

 


Heitasta umræðan á YouTube!

Það er heilmikil umræða í gangi á YouTube í tengslum við það sem þú getur séð á þessu myndsskeiði.  Dæmi hver fyrir sig. 

 

 

 

 


Þetta er margfalt maraþon!

Hlaupið milli Aþenu og Spörtu er rosalega langt!  Menn hafa 36 klukkutíma til þess að klára það. Þetta er allt annað en að hlaupa um á Borgundarhólminum. Leiðin liggur m.a. yfir 1.200 metra hátt fjall þar sem göngustígur er enginn og þar er mjög vindasamt, auk þess sem það er komin nótt þegar menn ætla að fara yfir fjallið. Þá er hlaupið yfir akra, meðfram hlíðum og yfir drullusvað, en það rignir iðulega á meðan á hlaupinu stendur. Aðeins þriðjungur þeirra sem hefja hlaupið ná að klára það. Það eru engin verðlaun í þessu hlaupi.  Aðalatriðið er einungis að ná að klára það. 

Það er nógu erfitt fyrir flesta að komast í þann gírinn að geta hlaupið 10 kílómetra, en hvað þá að hlaupa í heilan sólarhring og það margfalt maraþon.  Best að óska Gunnlaugi Júlussyni góðs gengis í þessu hlaupi. 


mbl.is Hljóp 218 km á 24 klukkustundum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vandræðalegt viðtal við David Schirmer

Hefur þú lesið bók sem heitir The Secret?  Þessi bók hefur  vakið heimsathygli og verið  þýdd á ótal tungumál. Á íslensku heitir hún Leyndarmálið. Samhliða þessari bók hefur verið gefinn út DVD diskur þar sem sama fólk og birtist í bókinni er að segja frá leyndarmáli sem hefur verið til í 2000 ár. 

Til þess að rifja í stuttu máli upp hugmyndina um þetta leyndarmál, þá snýst það um það að þú getir fengið allt það sem þig langar í. Það eina sem þú þarft að gera er að óska þér, trúa því að þér hafi hlotnast það og þvælast svo ekki fyrir alheimskraftinum meðan hann er að framkvæma óskina. Þannig getur þú óskað þér hvers sem er, spurningin er einungis hvað það er sem þú vilt að þér hlotnist. Ást, hamingja, betra hjónaband, peningar, hús eða frægð. Þú ert þannig það sem þú hugsar og dregur að þér hluti samkvæmt þínum eigin hugsanagangi. Alheimurinn gerir engan greinarmun á neikvæðum eða jákvæðum hugsunum. Þú færð það sem þú biður um, hvort sem þú hefur vitund um það eður ei. Þess vegna er best að vera jákvæður og draga að sér eitthvað gott! Eða svo segir þessi speki. Ok, dók. 

Þá er það vandræðagangur sumra sem tengjast Leyndarmálinu. Einn af þeim sem sjást á DVD disknum og birtist einnig í bókinni er David Schirmer. Þessi maður er þekktur fjárfestir í Ástralíu og milljónamæringur. Hann á stórt hús, tennisvöll, sundlaug, og fallegan garð svo eitthvað sé nefnt. 

Það sem skeði á síðasta ári í lífi þessa manns er að hann tók að fjárfesta fyrir fólk fyrir tugi þúsunda og jafnvel allt að 100.000 dollara. Öllu þessu fólki lofaði hann hagnaði en síðan gerðist ekki neitt og það veit enginn hvað varð um alla peningana. Í íslenskum krónum þá erum við að tala um fleiri milljónir íslenskra króna.  Þá skuldar hann einnig starfsfólki sínu laun.  

Sjónvarpsviðtal sem tekið var við Schirmer á síðasta ári í tengslum við þessi fjármál  er hið vandræðalegasta sem hægt er að finna á YouTube svo víða væri leitað. Undir lok þessa viðtals lofar Schirmer því að borga fólkinu til baka þann pening sem hann skuldar því, en heilu ári eftir þetta viðtal, hefur ekkert bólað á endurgreiðslum og hann neitar öllum viðtölum. 

 

 

Það er eins og það vanti alla hugmynd um kærleika gagnvart náunganum í leyndarmálið. Allavega virðist það vera svo hjá David Schirmer. 


Til hamingju með frábæran flutning Friðrik og Regína.

Eurobandið var mjög flott á sviðinu og það var greinilegt að þau nutu þess í botn að vera þarna. Lagið er taktfast og flott. Þess vegna var það eitthvað svo skrítið að horfa á atkvæðagreiðsluna og sjá Röðul rugludall frá Spáni vera með fleiri stig eða alveg þangað til Danirnir komu og gáfu okkur 12 stig. Lag Spánar er mun nær gríni heldur en alvöru og alls ekki eins taktfast og vel sungið og hið íslenska.  Athyglisvert að bæði Frakkar og Þjóðverjar skuli syngja á ensku, eins og þessar þjóðir eru stoltar af tungumálinu sínu. Hvað er síðan orðið af Ítalíu í tengslum við þessa keppni? Eitthvað fer lítið fyrir þeim þessi árin. 

Að hugsa sér hvað löndum hefur fjölgað í þessari keppni. Við erum komin alveg að Kaspíahafi hvað varðar fjarlægðir. Hvenær skyldi Kazaksstan koma og taka þátt? eða Sýrland? Það land er bara rétt fyrir ofan Ísrael og við landamæri Tyrklands.

 


mbl.is Íslenska lagið átti betra skilið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hinn mikli sjónvarpsprédikari og gróðafíkill

Sumarið 1995 kom sjónvarpsprédikarinn Benny Hinn til Íslands og stóð fyrir samkomum í Laugardalshöllinni. Fjölmargir lögðu þá leið sína í höllina og var hún strax á fyrstu samkomu smekkfull af fólki.  Benny Hinn hafði þá til þess dags og gerir enn, staðið fyrir lækningaherferðum þar sem margur hefur talið sig hafa fengið bót meina sinna, og mætt upp á svið til Hinn grátandi eða í ofboðslegri gleði. Á meðan fullt af fólki mætti í höllina til að sjá þennan athyglisverða prédikara,  þá fóru ýmsir aðrir beinustu leið og skrifuðu viðvörunarbréf í Morgunblaðið þess efnis að Hinn væri maður sem fólk ætti ekki að fara og sjá. Þarna væri kominn hinn mesti svindlari og miklu verra en það. 

Nú er Benny Hinn víst enn að störfum og það er hægt að fylgjast með honum á sjónvarpsstöðinni Omega á hverjum einasta degi. Og það er ekki bara Omega sem hefur Hinn á dagskrá hjá sér heldur ná sýningar frá samkomum hans til tæplega 200 landa og fleiri þúsundir manna sækja samkomur hans ár hvert. Fæstir vita hins vegar um það hversu mikil velta er í kringum þessa starfsemi. 

Samkvæmt bandarískum skattalögum þá þarf Hinn ekki að veita upplýsingar um bókhaldið hjá sér og sínu fyrirtæki þar sem fyrirtæki hans kallast trúarleg stofnun.  Þrátt fyrir það hafa lekið út ýmsar upplýsingar um eignir og eiginfjárstöðu Hinn og hversu miklu honum hefur tekist að eyða og þá meðal annars á dýrum hótelum. Þá erum við að tala um flottan lífsstíl. 

Benny Hinn er ekki fátækur maður. Hann á tveggja hæða einbýlishús við Kyrrhafið,  með 7 svefnherbergjum og 8 baðherbergjum, risastóran garð og sundlaug (svo eitthvað sé nefnt) sem metið er á 700 milljónir króna.  Hann ferðast um á einkaþotu sem kostar 8 milljónir íslenskar í rekstri á mánuði. Með henni fer Hinn í fjölda trúboðsferða á hverju ári, en hann lætur sér þá ekki duga að gista á ódýrum hótelum. Hann er þekktur fyrir að gista í konunglegum lúxussvítum þar sem ein nótt kostar allt að hálfa milljón eða meira.  Árið 2003 gisti hann t. d.  í stærsta hótelrými Evrópu sem staðsett er í Mílanó. Það er m. a. með arineldi, tyrknesku gufubaði, sánu og sundlaug. Nóttin þar kostar 10.800 dollara sem gerir svo lítið sem tæpar 800.000 krónur nóttin. 

Benny Hinn velur sér ekki ódýr föt til þess að fara í. Hann er þekktur fyrir að fara reglulega í dýrar fataverslanir í Beverly Hills svo sem Versace, Louis Vuitton og Bijan.  

Talið er að Benny Hinn Industries velti 100 til 150 milljónum dollara á hverju ári. Miðað við núverandi gengi þá gerir það árlega 7 til 10 milljarða íslenskra króna. Í hvað allur þessi peningur fer vita fæstir; það má ekki gefa það upp og Hinn neitar að mæta í viðtöl við sjónvarpsstöðvar.

Á sama tíma og Hinn ferðast um heiminn og eyðir stórfé á dýrum hótelherbergjum þá verður það enn undarlega sem hann segir við fólk á samkomum.  Hér koma nokkur dæmi:

Hinn spáði því fyrir 10 árum eða svo að mikil kreppa og erfiðleikar myndu eiga sér stað árið 2000. Aðeins þeir sem gæfu í ríki Guðs myndu lifa góðu lífi. Strax eftir þau orð voru tekin samskot...

Hinn hefur spáð því að Jesús komi til með að birtast líkamlega á sviðinu hjá sér á einhverri samkomunni. Reyndar hefur hann einnig spáð því að Jesús muni birtast líkamlega í ríkjum múslima.  

Hinn stóð ekki alls fyrir löngu á sviði fyrir framan fleiri þúsundir manna og lagði bölvun á alla þá sem myndu voga sér að segja nokkuð ljótt um starfsemi sína.

Svo að endingu hefur mönnum einhvern veginn tekist að finna kvittun sem hljóðar upp á 20 dollara frá Benny Hinn til heimilislausrar konu með eitt barn!

 


Næsta síða »

Höfundur

Þórður Guðmundsson

Þórður Guðmundsson þroskaþjálfi

Nýjustu myndir

  • bill cosby 620x480 cemrf
  • ATI-lower-review-polymer
  • ATI-lower-review-polymer
  • download JFK
  • Aretrov

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (19.3.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku:
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku:
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband