Bloggfærslur mánaðarins, september 2009

Stytta af Helga Hóseasyni þjónar engum tilgangi.

Það langar víst einhverjum til þess að settur verði minnisvarði um Helga Hóseason á þeim stað sem hann stóð einatt á Langholtsveginum.  Jú þarna stóð hann til margra ára í öllum veðrum nánast. Ef hann sást ekki á sínu vanabundna horni gat verið að hann hefði fært sig yfir götuna svona til tilbreytingar eða sest niður í strætóskýli þar rétt hjá.  En til hvers samt að búa til minnisvarða um hann?

Handa hverjum og til hvers væri sá minnisvarði?  Einhverntíma verða hér Íslendingar sem aldrei sáu Helga standa þarna í lifanda lífi, vita ekki hvers vegna hann stóð þarna, hvað það var sem hrjáði hann né heldur hvað það var sem dreif hann áfram til þess að vera þarna.  Skiltin verða kannski ennþá til og þá í einkaeigu einhvers, og ævisaga Helga ekki til nema ef vera skyldi að einhver sagnfræðingurinn vildi safna saman ýmsum gögnum um hann.   Vissulega stóð Helgi fastur á skoðun sinni alla tíð og hann var á móti kristinni trú og allri guðstrú yfirhöfuð.  Þannig var hans lífsskoðun og kannski aðeins meira en það.  En hann var einnig á móti stríðinu í Írak og okkar þætti við upphaf þess á sínum tíma, auk þess sem hann var á móti tóbaksreykingum.  

Ekkert af þessu samt gerir Helga að neinni goðsögn né heldur verðugan þess að þarna verði einhver minnisvarði um hann. Hann skilur ekkert eftir nema persónu sína sem var þarna og allt sem verið var að mótmæla verður að hjómi með tímanum og allar hinar hörðu lífsskoðanir hverfa smátt og smátt inn í móðu gærdagsins. Ekkert situr á endanum eftir nema minningin um manninn og einnig það hverfur inn í reykmökk gleymskunnar þegar þeir sem nú lifa hverfa einn af öðrum á braut. Eftir stendur svo stytta eða minnisvarði sem segði fólki í raun ekkert og á endanum yrði hún færð eitthvert burt líka.  

Það mætti minnast Helga með öðrum hætti en því að nota þetta götuhorn til þess að setja þar minnisvarða. Um hann væri hægt að fjalla í bókum og myndir hægt að setja á spilastokka eða listaverk. En sjálfur mætti hann svífa á braut í friði frá þessu lífi og einhverri leiðinlegri styttu eða minnisvarða sem engum tilgangi kann að þjóna. 


Að hætta að hugsa sífellt um stjórnmál!

Það er ótrúlega margt til í lífinu sem vert er að prufa. Eins og að rétt fyrir utan Reykjavík er fjall sem heitir Keilir og ef þú ferð upp þetta fjall þá finnirðu gestabók í járnkassa sem fullt af fólki er búið að skrifa í.  Verst hvað það tekur langan tíma að ganga að þessu fjalli en það er gaman að komast upp á það og sjá allt útsýnið.  Prufaðu einhvern tíma að fara uppá þetta fjall. Kostar ekkert. Nema þá helst bensínið á bílinn. En þetta er ekki svo langt fyrir utan bæinn.

Það er fullt af öðrum hlutum sem gaman er að gera en kostar ekki neitt;  þarf ekki að kosta neitt eða getur verið afar ódýrt. Suma daga er hægt að fara og skoða eitthvert listasafnið ókeypis. Eða ganga einhvern göngustíg sem aldrei hefur verið farinn áður (af manni sjálfum).  Ef það er sólsetur þá er gaman að ganga einhverja skemmtilega leið á meðan maður er að upplifa það. Allt fyrir einhverja tilbreytingu og hugsa um eitthvað annað en sífellt stjórnmál, Icesave, útrásarvíkinga og öll þessi leiðindi. Þessa hluti sem eru svo mikið í umræðunni á Íslandi í dag.

Ein hugmynd væri að þræða allar mögulegustu sundlaugar í Reykjavík yfir eitthvert tímabil. Prufa alls konar heita potta og rennibrautir m.a. nýju rennibrautina í Laugardalnum.  Eða kannski að stofna lesklúbb heima fyrir. Taka einhverja bók fyrir, allir lesi hana og hver segi sína skoðun um hana. Mín uppástunga væri þá að taka Laxdælu fyrir. Það er ein besta bók sem skrifuð hefur verið.  Fóstbræðrasaga er líka afskaplega skemmtileg og fyndin með afbrigðum.   Og hætta á meðan á facebook og Myspace, veita þessum vefum frí í einhvern tíma. Minnka áhorf á fréttir, slökkva hreinlega á sjónvarpinu, draga fram einhver spil eins og fimbulfamb eða actionary. Kannski á einhver ennþá gamla Útvegsspilið.

Einu sinni í sumar var ég staddur í lítilli bókabúð sem heitir Úlfarsfell. Þetta er þægileg verslun  vestur í bæ sem selur bækur og ritföng fyrir utan eitthvað af leikföngum. Þar inná milli bóka og hluta fann ég eitt sinn afskaplega litla bók sem ég hef mikið haldið uppá síðan. Hún heitir Vegir viskunnar og er gjafabók í lítilli öskju. Bókin er í lófastærð en ég er samt ekki búinn að lesa hana alveg alla. Kannski vegna þess að þetta er bók sem maður opnar hér og þar og finnur alls konar vísdóm spekinga liðinnar tíðar.  Mig langar til þess að vitna í þessa bók samhliða því sem ég var að tala um hérna að ofan:

Henry Miller (1891-1980) komst svo að orði eitt sinn: Þroskaðu með þér áhuga á lífinu eins og það birtist þér; á fólki, hlutum, bókmenntum, tónlist - heimurinn hefur svo mikið að bjóða, barmafullur af stórkostlegum dýrgripum, fögrum sálum og áhugaverðu fólki. Gleymdu sjálfum þér.

 


Hugleiðing um lífið á þriðjudagskvöldi

Stundum er erfitt að vera manneskja sagði skáldið eitt sinn. Kannski er það í einhverjum tilvika full vægt til orða tekið. Stundum er himininn ekki blár, grasið grær ekki og það blása engir vindar. Það eða höfuðskepnurnar gerast alveg stjórnlausar og heila óveðrið feykir í burtu öllu því sem ekki var búið að negla niður eða kippa inn.    Hið fyrra er litlaust, átakalaust, ekkert um að vera. Hitt er full mikið af því góða; þannig að við það verður ekki ráðið nema að drífa sig í skjól. 

Hér í gamla daga réru menn í öllum veðrum til að fiska. Fjöllin gátu speglað sig í haffletinum eða hann gat orðið svo úfinn að meira átak þurfti til róa til baka til lands.  Fjöldinn allur af mönnum höfðu lífsbjörg af slíku; ekki fyrir svo löngu síðan. Drottinn gaf og Drottinn tók. Sumir fórust og bátar komu ekki allir til baka eftir vond veður. Hinum datt ekki í hug að gefast upp þótt að bátar hefðu farist heldur héldu áfram að berjast við hafið og ná lífsbjörg í land. 

Kannski var það æðruleysið. Sumum hlutum væri ætlað að eiga sér stað. Það var ein leiðin til þess að takast á við hörku náttúruaflanna.   Það er lífskraftur sem keyrir menn í að róa til sjávar og berjast við óblíð náttúruöfl, vinda sem blása og háar öldur.  Þar þarf trú til, að gefast ekki upp.  Að gefast ekki upp á lífinu þó svo að mótvindur sé mikill, himininn sé grár, það sé kalt og langt til lands.  Einmitt þar getur lífskraftur manns verið miklu meiri en hann vissi fyrir sjálfur.  Hver veit hvað í manni býr fyrr en á hann reynir. Tími er þar fyrir utan munaður sem enginn maður hefur nóg af og þeir fiska sem róa. Til að upplifa lífið og leyfa því að rætast. 

Á morgun er hægt að byrja aftur, vera heill eins og maður er og halda áfram.  Að treysta sjálfum sér til einhvers sem er erfitt er það sama og hafa trú gagnvart því að það geti tekist.  Ef það tókst ekki, þá er að reyna aftur.

Aðdáunarvert er ekki að hrasa heldur að rísa á fætur á ný sagði  Konfúsíus eitt sinn. Og hvers vegna ekki það?

 


Það þarf lítið til þess að gera lífið hamingjuríkt!

Einhverntíma á 2. öld eftir Krist var keisari að nafni Markús Árelíus uppi. Ekki átti hann tölvu, sjónvarp, myndbandsupptökuvélar né gat hann farið í bíó. Kannski þess vegna sem honum datt í hug að segja þetta hér: Hafðu eitt hugfast - það þarf mjög lítið til þess að gera lífið hamingjuríkt. 

Nema hvað hann var uppi á barbarískum tíma þar sem hringleikahús voru vinsæl og dauðinn var stundum framkvæmdur í miðjunni fyrir allra augum. Fótboltavellir eru hringleikahús nútímans en það er önnur saga.   Síðan eru liðnar margar aldir og allt gerbreytt í heiminum frá því sem var á 2. öld. Menn eru hættir að skylmast nema sér til skemmtunar. Byssur og önnur vopn er komið í staðinn.  En á sama tíma er risinn upp heill neysluheimur þarf sem allt mögulegt er á boðstólum. 

Auglýsingar um allt mögulegt venja fólk á neyslu og í framhaldinu á notkun greiðslukorta í stórum stíl. Kannski væri hægt að tala um einhvers konar greiðslukortahamingju þar. Þarfir geta orðið langt umfram það sem er nauðsynlegt og manni er auðvitað spurn hvort ekki sé hægt að fækka þeim.  Kínverska skáldið Lin Yutang komst svo að orði einu sinni að  lífsviskan feldist í því að losa sig við allt hið ónauðsynlega.  Sem minnir óneitanlega á orð sem Ralph Waldo Emerson lét eitt sinn falla um vin sinn látinn - hann bjó sér til ríkidæmi með því að fækka þörfunum.

Ef hugsað er um það að fækka þörfunum og spá í allar óþarfar neysluvenjur - hvað situr þá eftir? Vanalegast er það þannig að við græðgin erum sérstakir vinir og ekkert er nógu gott nema óseðjandi kortaflandur í verslunum fær að njóta sín. Jafnvel þótt góðærinu sé löngu lokið. En þegar allt mögulegt er skorið af í neysluþörfunum þá er þó alltaf eitt sem situr eftir, alltaf jafn mikilvægt samtalið við aðra. Eins og stendur í Hávamálum: Auðigur þóttumst  er eg annan fann: Maður er manns gaman.  Æi hvað lífið er stutt og maður veit aldrei hvenær þetta var okkar síðasta samtal eða síðasta stund.  En margir og sömuleiðis ég eiga það til að hugsa þannig að allt vari eins og að eilífu og breytist ekki, alla vega ekki í bráð.

Allt sem þarf til þess að finnast hamingjan hér og nú er einlægt nægjusamt hjarta sagði gríski rithöfundurinn Nikos Kazantzakis eitt sinn. Að vera nægjusamur er að þurfa ekki ósköpinn öll af hlutum til þess að láta sér líða vel.  Eitt orð þá, eitt bros og mér líður betur en áður :)

 

 


Regndropar falla...

Þessa dagana er rigningarsuddi með litlum hléum í Reykjavík og tími til þess að klæða sig í regngallann og njóta úðans. Hann er skemmtilegastur lóðrétt niður með stórum dropum sem smella síðan á manni stöðugt uns maður er orðinn alveg hreint blautur. Án regngalla er skemmtilegt líka að fara með regnhlíf út í svona veður. Verst er samt eins og gerist oft og gengur þegar regnið er samfara vindi og regnhlífin virkar ekki neitt. Þá er auðvitað gengið undan vindi eða með regnið í fangið uns alveg blautur.  Líf og fjör.

Svo eru það allir regnssöngvarnir sem ég nenni aldrei að raula með sjálfum mér vegna þess að ég man aldrei alveg textana. Raindrops keep falling on my head..I´m singing in the Rain...Here comes the rain again...It´s raining again....

Svo er aðeins að pæla smá í tengslum við rigninguna.  Einu sinni héldu menn að himinninn væri bara hjúpur með svona lokum á. Fyrir ofan hjúpinn væri allt vatnið, þú skilur enginn útgeimur eða neitt svoleiðis. Tunglið væri hengt á hjúpinn og sólin líka.  Síðan þegar Guði þóknaðist að opna einhverjar gáttir, þá féll rigningin niður. Seinna fylltist síðan allt eins og í baðkari þegar Nóaflóðið varð.

Blessuð rigningin sem vökvar allt og var fólki svo bráðnauðsynleg fyrir botni Miðjarðarhafs að heimsýn þess var svona. Þegar lífsbaráttan er þannig að það er ekki til neitt sem heitir Hagkaup eða Bónus til að sækja brauð til, heldur byggist allt á jarðyrkju og uppskeru þá verða þessir rigningardropar allir saman svo margfalt meira virði. 

Það er tími í dag fyrir rigningu, á morgun kemur e.t.v. aftur rigning og síðan koma kannski hlýindi eftir það. Hver veit. Þess vegna skal farið út, öllum mögulegustu leiðindum veitt frí, regnið látið falla á líf og limi, verandi í pollagalla, regnstakk eða regngalla, þannig að allt verð hundvott þegar inn er komið á nýjan leik.  

Um að gera að njóta lífsins meðan maður hefur það :)   


Það þarf að herða reglur í tengslum við blogg

Burtséð frá því hvernig Björgvin hefur staðið sig í starfi þá gefur það ekki einhverjum nafnlausum bloggara (ekki undir nafni heldur) rétt til þess að búa til þvættingssögur um hann, níða hann eða kalla hann ljótum nöfnum. Sama er með aðra ráðherra, þingmenn, þekktar persónur eða fólk í þjóðfélaginu yfirhöfuð.  Það má ekki gleyma því að blogg lesa börn og unglingar og gagnvart þeim er orðljótt níðingsblogg ekki til fyrirmyndar. Skemmst er að minnast eineltismála sem komið hafa upp í skólum í tengslum við blogg. 

Það þarf að herða reglur um blogg og það þarf að vera hægt að sækja fólk til saka fyrir skrif á neti. Ef bloggarinn er nafnlaus þá ætti að lögsækja bloggvefinn sjálfan eins og gert hefur verið í Bandaríkjunum.   Þetta getur ekki gengið svona endalaust.  

  


mbl.is Björgvin G.: „Ný vídd í nafnlausu níði“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hugleiðing um facebook.

Það má vel segja að facebook sé ein skemmtilegasta bóla sem komið hafi upp á undanförnum árum.  Fyrir tilstilli þessa samskiptavefs hefur fjöldi fólks endurnýjað kynni sín við gamla vini eða myndað tengsl við áður ókunnugt en áhugavert fólk.  Fyrir vikið hefur vefurinn orðið ávanabindandi. Mörgum finnst þetta það skemmtilegt að þeir dvelja þarna öllum stundum við allt mögulegt. Að finna gamla vini, skólafélaga, starfsfélaga, eða að segja frá sér og sínum. Ef ekkert er um að vera þá er hægt að finna sér einhverja skemmtilega leiki til þess að fara í.

Vefurinn dregur upp mynd af þeim sem notar hann. Passamynd er í horninu eða af börnunum, allt eftir smekk. Áhugamál, trúar og stjórnmálaskoðanir eru e.t.v. rétt fyrir neðan ásamt hjúskaparstöðu.  Það sem ergir þó margan er að allar þær upplýsingar sem lagðar eru fram í sakleysi gagnvart vinum geti tvístrast og lent á vefsvæði annarra, annars staðar í heiminum, í einhvers konar upplýsingasafni.

Það er nú samt svo að þegar milljónir manna nota þetta vefsvæði á hverjum degi með milljóna uppfærslum og sögum um hvað var gert í gær eða á að gera á morgun, þá virðist sem upplýsingarnar séu það miklar að það sé happadrætti þegar og ef einhver lendir í því að verið sé að misnota á einhvern hátt upplýsingar um sig.  Þó er aldrei að vita.

Einhverntíma hverfur áhuginn fyrir svona samskiptavef eins og facebook, eða nýrri og flottari vefir taka við.  Fyrir tíu árum voru margir á spjallrásum (mIRC) og hjónabönd urðu til út frá spjalli þar. Þannig spjall þótti ávanabindandi, en fleira hefur komið á vefnum síðan eins og msn, blogg,  myspace, facebook og twitter. Sjálft irkið með sínum spjallgluggum var í gamla daga jafnvinsælt og facebook er núna. Spurning hvort að örlög facebook verði ekki eins. Þar verði örfáir áhangendur eftir en flestir farnir eitthvað annað að leika sér.  

Að vera á facebook hefur sína kosti og galla.  Í heimi þar sem ekkert mál er að hverfa í fjöldann, týnast innan um fólk, eða vera "nobody" sem enginn þekkir eða kannast við, skipta einhverjar upplýsingar á facebook alveg eins máli.  Það að segja frá sjálfum sér,  koma sér á framfæri við aðra er ekki óvitlaust og jafnvel sóknarfæri ef eitthvað er. Þó að einhverjar upplýsingar berist eitthvert breytir það litlu í þessum heimi ofboðslegs fjölda ókunnugra, sérstaklega miðað við þá staðreynd að fólk sem þekkir ekki marga fær tækifæri til þess að vera til og tengjast öðrum.  Aðrir þurfa ekki á slíku að halda svona eins og gerist og gengur með flóru mannlífsins. 


Hvers vegna að sviðsetja tunglferðir?

Ef við kannski skoðum þetta út frá öðrum vinkli. Hvers vegna að sviðsetja þetta? Hvert væri markmiðið hjá Geimferðarstofnun NASA að búa til svoleiðis leikrit?   Rándýrt sjónvarpsefni þá, leikrit nánast í anda Orson Welles nema hvað menn eru í "þykjustunni" komnir til tunglsins. Allt til þess að skemmta fólki.  Fara síðan aftur af stað og segjast vera að senda menn til tunglsins. Allt í plati aftur. Nei vitið þið, það er hreint ekkert vit í slíkum leikaraskap. Gróðinn? Enginn sérstakur (miðað við það sem það kostar að fara til tunglsins).  Að sýnast fyrir Sovétmönnum? Ekki viturlegt ef ske kynni í rauninni að þeir yrðu á undan til tunglsins og þá hefðu menn skammast sín endalaust hjá NASA.

Það hafa verið skrifaðar bækur um fyrstu tunglferðina þar sem látið er í veðri vaka að þarna búi geimverur og þetta sé geimstöð, úr málmi, holt að innan, eins og dauðastjarnan í Star Wars IV, hinum megin á tunglinu sé eitthvað ljótt og enginn hafi þorað til tunglsins eftir þessa einu ferð.  Einnig að tunglið eigi ekkert að vera þarna og það sé undarleg viðbót við jörðina. Hver sá sem vill trúa þannig sögusögnum og tilheyrandi dellutilgátum getur gert það á eigin ábyrgð.  En það er staðreynd að það var komið með grjót til að rannsaka af tunglinu og það voru farnar fleiri ferðir.  

Einhver geimfarinn fór víst í golf þarna. Einhvers staðar á tunglinu liggja golfkúlur! Að hugsa sér. 


mbl.is Báðust afsökunar á fréttaklúðri
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Full langt gengið

Bloggheimur er einum of orðljótur í tengslum við þessa frétt og forseta Íslands. Það eru margir hérna sem fara all hressilega yfir strikið í bloggfærslum sínum.  Það er ekki hafandi eftir allt það ljóta sem fólki hefur dottið í hug að segja um forseta Íslands, ekki bara í bloggfærslum, heldur líka í fyrirsögnum og ummæli við sumar bloggfærslur eru sums staðar ansi orðljótar. Það er ekki sæmandi nokkrum siðmenntuðum manni að haga sér svona. Það ætti að leggja fram kærur á suma bloggara hér fyrir ærumeiðingar og loka nokkrum bloggsíðum í kjölfarið. Það er ekki hægt að bjóða fólki upp á svona lagað.  


mbl.is Forsetinn staðfestir Icesave-lög
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Höfundur

Þórður Guðmundsson

Þórður Guðmundsson þroskaþjálfi

Nýjustu myndir

  • bill cosby 620x480 cemrf
  • ATI-lower-review-polymer
  • ATI-lower-review-polymer
  • download JFK
  • Aretrov

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (19.3.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku:
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku:
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband