Bloggfærslur mánaðarins, apríl 2011

Þvílík skelfing (færsla ekki ætluð börnum)

Að krossfesta mann er ein sú viðurstyggilegast aðferð sem hægt er að hugsa sér. Ef þú ert viðkvæm sál þá skaltu ekki lesa lengra. Ef á að fara að lýsa krossdauða eins og hann var á tímum Krists, bæði fyrir og eftir, þá er farið út í að lýsa þvílíkum óskapnaði að það er vart hægt að bjóða fólk upp á slíkar lýsingar frá ræðupúlti. Gagnvart slíkur situr eða stendur áhorfandinn gjörsamlega berskjaldaður. Sérstaklega ef lýsingarnar á dauðdaga manna á krossi eru settar fram á því mun verri veg. Hér er þó hægt að vara menn við.  Eftirfarandi kemur út frá því sjónarmiði að það sé allt í lagi að fólk viti um þessa aftökuaðferð, og hversu ósiðleg hún í rauninni var.  Framundan er oj barasta texti og þú getur ennþá hætt við, bara lokað og gert eitthvað annað. 

Hugsaðu þér ef þú gengir út um borgarhlið snemma morguns, fuglar syngja, allt er kyrrt og hljótt, einstaka maður er vaknaður til að sinna morgunverkefnum en framundan er vegur, skógar, landsbyggðin. Handan við litla hæð sést vegurinn liggja í sveig framhjá trjám sem eru öðru megin vegar en hinum megin við veginn eru margir krossar og á þeim hanga menn. 

Þegar nær er komið þá má sjá að sumir eru þegar dauðir en aðrir ekki. Allir eru mennirnir allsnaktir, skítugir og blóðugir. Fuglar hafa sest á einn manninn og hafa hafist handa við að kroppa í hann dauðan. Daunninn er óbærilegur á þessum stað.  

Þarna má sjá mann sem enn er á lífi. Alveg greinilega lifandi þar sem hann er að berjast við að anda. Það er blóð á líkamanum eftir barsmíðar sem urðu áður en hann var hengdur upp, auk þess er blóð á höndum og fótum og niður allan staurinn.  Neðri partur staursins er ataður samblandi af saur og blóði. Líkast til hefur maðurinn fengið niðurgang.  

Skyndilega kemur spræna frá manni sem hangir á krossi aðeins fjær.  Þvílík skelfing, þvílíkur ódaunn.  Ennþá fjær má greina hermenn sem eru að brjóta fótleggi manna svo þeir deyi fyrr. Því fylgja sársaukafull hljóð úr mönnunum sem finna ofboðslega mikið til í líkamanum á meðan þeir eru að berjast við að reyna að anda. Líkaminn sígur alltaf meira og meira niður og það sker í neglda útlimina. Dauðir menn með brotna fótleggi sjást kross eftir kross.

Seinna sama dag fjölgar á veginum og fjöldi fólks kemur til þess að virða fyrir sér þessi manngrey sem eru að deyja, margir fótbrotnir á báðum, lafandi í sársauka sínum.  Sumir þeirra sem koma gangandi þarna að, eiga  á krossunum vini eða jafnvel ættingja. Það er nekt, það líkamlegur sársauki og það er niðurlægjandi tilfinning að vera nakinn og berskjaldaður fyrir framan alla sem á vilja horfa. Og að verða að sinna frumþörfunum allsber og kvalinn fyrir framan aðra, jafnvel nána ættingja, er í ofanálag andlegur sársauki. 

Svona er þessi aftökuaðferð. Hún er viðbjóðsleg. Mun viðbjóðslegri en flestar aðrar aftökuaðferðir sem framkvæmdar hafa verið. Sérstaklega vegna þess hversu niðurlægjandi hún er.  Að hálshöggva einhvern eða hengja er ekki eins niðurlægjandi ef horft er til þess að það tekur fljótt af. En svona á krossi er hægt að hanga lifandi í nokkra daga.  Svo koma skordýr og finna sér bústað eða fuglar koma og kroppa í skrokkinn.  Skordýr kunna að vera nösk við að finna sér leið inn í þvagrás og fuglar koma og narta í andlit og það er ekki hægt að verjast því. Jarðarför fer ekki fram, líkum er kastað í fjöldagröf eða bara eitthvert afsíðis þar sem hungruð villidýr koma ráfandi til þess að éta.

Frægastur allra til þess að þola þessa aftökuaðferð er Jesús Kristur, nema hvað fætur hans eru ekki brotnir og hann deyr nokkuð snemma, aðeins á örfáum tímum. Þá fær hann gröf til þess að liggja í. Hann er bara lánsamur miðað við marga aðra. Fleiri þúsundir manna voru drepnir svona og meira að segja margir í einu og það meðfram vegum í endalausri röð. 6000 manns voru krossfestir eitt sinn í einum rykk.

Þvílík skelfing að vera krossfestur. Aðferðin er bæði villimannsleg og siðlaus, eins og það sé ekki hægt að fara verr með fólk.  Markmiðið með þessu var félagslegt taumhald; að hræða fólk frá því að fremja lögbrot, en þá myndi það vera drepið með þessum hætti. Enginn rómverskur borgara átti að vera neyddur í þessi örlög en gyðingarnir lentu margir hverjir umvörpum í þessu, en einnig allskonar þrælar og fólk frá skattlöndum Rómverja. 

 Að drepa annað fólk er ljótur verknaður. Það er ekki hægt að gleðjast yfir krossdauða en það er hægt að gleðjast yfir upprisu frá dauðum.  Með upprisu Krists er hægt að segja að allt ofangreint hafi verið sigrað. 


Að vera skuldasafnari og borga skuldir annarra alveg endalaust

 Þjóðin vill ekki semja. Hún vildi það ekki áður og vill það ekki núna. Að hluta til kann það að vera vegna þess hversu þungir þessir samningar eru og það hvílir ákveðin óvissa gagnvart þeim en að öðru leiti þá hlýtur að vaka fyrir fólki einhver tilfinning óréttlætis sem margur er búinn að fá nóg af. 

 Hefðum við átt að segja bara já og fara samningaleiðina? Með því móti tækjum við strax á okkur skuldir til að greiða, samþykktar skuldir. Nóg er samt af þeim fyrir. 

 Það sem við erum að horfast í augu við í dag er sú staðreynd að við erum nú þegar að borga miklar skuldir. Það er ekki lengur hægt að segja að við séum ekki að borga skuldir óreiðumanna eða að við viljum það ekki. Við erum einmitt að því nú þegar og þær skuldir eru fleiri fleiri milljarðar. Hæsta tala sem ég hef séð á prenti er 540 milljarðar. Sú tala kann að hækka verulega á næstu árum. 

 Við þetta á eftir að bætast vandi Orkuveitunnar en þar á bæ ganga hlutirnir ekkert sérstaklega vel. Einnig þar getum við talað um skuldir manna sem eyddu um efni fram. Álögur vegna Orkuveitunnar eru því vel til þess fallnar að ergja landsmenn.  Ef minnst er á vanda þessa fyrirtækis þá dæsir fólk iðulega og segir svo minnstu ekki á það. 

 Svo er það Icesave. Þar dugar í rauninni ekki einhver einföld speki einsog að öll dýrin í skóginum eigi að vera vinir.  Oft verður maður að gæta sín á því að til manns kemur fólk eða maður fer sjálfur og hittir einhvern, ákveðið er að semja um eitthvað en þegar á hólminn er komið þá er samningurinn ekki þess eðlis að hægt sé að sætta sig við hann. Á maður samt alltaf að semja, bara vegna þess að lærdómurinn frá ömmu í æsku hljóðaði upp á það eða að það skuli alltaf halda friðinn. 

 Miðað við allar þessar greiðslur sem verið er að demba á fólk þá er ekki of sögum sagt að fólk verði þreytt á slíku og er þegar orðið það fyrir löngu. Á sama tíma er millistéttin að þurrkast út.  Það er vegna þess (engin ný sannindi í sjálfu sér) að skattbyrði og greiðslálögur eru of miklar, bensín er of dýrt, matvæli líka, allt mögulegt er of dýrt, laun hækka að sama skapi lítið sem ekkert, en lán hinsvegar hækka.  Fólk verður fátækara og fátækara. Á sama tíma er einhver hópur fólks að græða peninga á fullu, er á ofurlaunum, og eyðir peningum eins og því langar til. Manni finnst varla að það sé hægt að ergja sig á slíku alveg endalaust.

 Hver hlustar og hver heyrir. Hroki og ásókn í peninga er upphaf falls. 


Hvað gerir lífið skemmtilegt?

Hvaða leið er hægt að fara ef manni langar til þess að njóta þess að vera til? Mér dettur í hug nokkrir möguleikar og langar aðeins til þess að deila þeim, svona einu sinni.

1. Að taka lífið ekki alltof alvarlega.  Því miður þá tekst þetta ekki alltaf en þetta er ágætis viðhorf samt.  Í þessu felst að leyfa hinu fáránlega sem birtist í lífinu að vera bara og samþykkja það sem hluta af lífinu.  Sumir hlutir er hreint út sagt fáránlegir. Sum samtöl eru asnaleg og sumar uppákomur skrýtnar og háðar tilviljunum. Svo er sumt sem er þess eðlis að það hentar best að setja utan um það sviga ellegar að láta það liggja milli hluta. Vera ekkert að vega það og meta. 

..... en það er gott að velja sér viðhorf. Ég vel mér það viðhorf að lífið sé ekki fullkomið og verði það aldrei. Ekkert er í raun fullkomið nema kannski sumt en það er ekki hægt að krefjast þess að allt sé það.  Svo held ég bara áfram að lifa. 

2. Að halda áfram að lifa.  Það er svo margt í lífinu að það er nóg til að hugsa um. Möguleikarnir eru óteljandi.  En þegar lífið er hins vegar ekkert sérstaklega skemmtilegt þá er ágæt leið að halda bara áfram að lifa og leyfa öðrum að gera það líka.

....stundum lendir maður í leiðinda samtölum,  og atvikum sem eru ekkert sérstaklega skemmtileg. Í staðinn fyrir að velta sér uppúr þeim endalaust og eyðileggja næstu mínútur þá finnst mér ágætt að halda bara áfram að lifa. Að snúa mér að næsta verkefni.  Lífið er samansafn af litlum verkefnum. Maður fer frá einu til annars. 

3. Að leita uppi skemmtilega hluti.  Það að leika sér aðeins þó svo að maður sé orðinn fullorðinn er allt í lagi. Mér finnst að hjón og pör eigi að fara reglulega eitthvert að leika sér, þó það sé ekki nema bara til þess að róla sér eða bara í snjókast. Ég fer í snjókast með vinum mínum, dansa við þá eða fer í bátsferð, ellegar geri eitthvað bara alveg sjálfur, en samt er...

.....fínt að leita uppi eitthvað sem maður hefur ekki gert áður. Ég hef t.d. aldrei prufað að fara í nudd einhversstaðar og ég hef aldrei komið til Parísar. Reyndar þá hef ég aldrei komið við í Vestmannaeyjum en þú lofar að segja ekki neinum frá því ;) 

4. Að endurtaka aldrei neitt sem var sérstakt og skemmtilegt.  Fyrir mitt leiti þá er ég nokkuð inn á þessu. Sumir hlutir eru skemmtilegir aðeins einu sinni meðan hægt er að endurtaka ýmislegt annað mun oftar. 

....þú býrð til minningu úr skemmtilegum atvikum sem þér dettur í hug að framkvæma. Með því að framkvæma suma hluti aftur og aftur, þó að það sé gaman, þá dregur úr gildi upphaflega atviksins sem efalaust var bráðfyndið.    Svo kemur einhverntíma...manstu þegar...? 

5. Að æfa sig í einhverju skemmtilegu.  Hér dettur mér í hug að æfa sig í að spila á eitthvert hljóðfæri (t.d. gítar eða trommur), æfa dans (t.d. salsa), töfrabragð (eitthvað einfalt sem kemur fólki á óvart), tungumál (spænska til að nota óvænt í sólarlandaferðum), eða að lesa vinsæla bók og nota hana til samtals við aðra sem hafa lesið sömu bók (t.d. Ég man þig eftir Yrsu).  Varðandi hið síðastnefnda þá er það ekki vitlaus hugmynd að æfa sig í því að nota bók sem maður hefur til samtals við aðra. 

....þegar maður hittir fólk og hefur eitthvað í farteskinu sem passar inn í aðstæður, að koma með, þá er nokkuð gaman að vera með eitthvað sem maður hefur undirbúið með sjálfum sér. Æft sig aðeins í.  

6. Að vera þakklátur.  Ég er þakklátur fyrir þetta hér: 

...Að vera uppi á þessum tíma í Íslandssögunni, að geta skoppað út í búð og fengið mér eitthvað þegar ég er svangur, eiga góða skó, að geta fengið mér vatn úr krananum, að eiga fullt af góðum vinum, að geta farið á bókasafn og lesið eins og mig langar til, að geta hlustað á alla þessa góðu tónlist, að geta farið til útlanda á þremur tímum eða svo, að geta horft á sjónvarp, að geta valið mér myndefni, að geta farið vikulega og dansað við fullt af skemmtilegu fólki, að eiga góða vinnufélaga, að eiga góða fjölskyldu, að hafa ágætis bragðskyn, að geta keyrt bíl, farið í líkamsrækt, eiga gott húsnæði, hafa farið í háskóla og lært það sem mig langaði til....

Listinn gæti verið miklu lengri og vel getur verið að ég sé að gleyma einhverju. Til mótvægis við þetta þá langar mig til þess að koma með annan lista sem er allt öðruvísi og ekkert skemmtilegur. Allt það sem ég er feginn að skuli ekki vera í lífi mínu og ég býst við að þú sért mér alveg sammála.

.....Að búa ekki í stríðshrjáðu landi, hér skuli ekki vera hungursneyð, ekki þurfi að treysta á uppskeru einhvers akurs, að búa ekki við stanslausan ótta við uppskerubrest, né heldur þrælahald, að ungir menn sé ekki neyddir í herþjónustu, að ekki er neitt minnismerki um fallna íslenska hermenn á Íslandi, að búa ekki við landamæri þar sem hætta er á annarri brjálaðri þjóð sem langar til þess að koma í heimsókn til þess að drepa meirihluta manna og hneppa restinni í þrældóm, að fangabúðir séu ekki sjálfsagður hlutur hjá stjórnvöldum eða geðþótta aftökur, aftökur sé ekki leyfðar á Íslandi, og opinberar flengingar eða aflimanir ekki heldur, að vera laus við einræði og geðþótta handtökur, að búa ekki í landi þar sem ekki má segja skoðanir sínar. Lengi væri ábyggilega hægt að halda áfram.  Sérdeilis frábært að vera laus við þennan pakka. 

7. Að gefa af sér án þess að vænta nokkurs í staðinn.  Heilmikil kúnst stundum, en samt ekki endilega.  Á tímabili þá datt mér í hug að gefa gestum einhverja bók þegar þeir fóru. Samt þá er það að gefa af sér ekki endilega bundið bókum eða einhverjum hlutum.  Gjöf er að finna í orðum líka. 

....einu sinni sat ég í veislu og maður nokkur sagði við mig nokkur orð og ég man þau alltaf. Hann sagði  einfaldlega alltaf hef ég dáðst að þér.  Hann er núna prestur á Laufási, en ég man þetta og mér fannst þessi orð flott og hvernig þau voru sögð. Það er ekki sama hvernig hlutirnir eru sagðir. Einhver augnablik geta verið alveg æðisleg og þau geta verið það fyrir einhverjum þó svo að það hafi verið sagt neitt þá, né heldur síðar, en þeirra atvika er minnst og þeir rifjast e.t.v. upp löngu síðar ellegar geymast í hugskoti góðra minninga. Og það varst þú sem sagðir eða framkvæmdir upphaflega, þú sem gafst af þér. 

Svo er eitt í viðbót sem mig langar að segja þér en það lærði ég í guðfræðinni meðan ég var þar. Ekki segja nokkurntíma að Hebrearnir gömlu hafi verið alslæmir þó svo að textinn í Ritningunni virki stundum fullur af refsingum og manndrápum ;)  Það er hugtakið Hesed. Það er að taka einhvern að sér, af eigin frumkvæði, löngun og vilja, og sjá um hann án þess að hann þurfi að borga neitt tilbaka. Bara aldrei. Það að komast þar að og inn til framkvæmda vekur vissulega ánægju.  Það er mun stærri kirkja en stærsta kirkja og hroki á þar hvergi heima.

Takk fyrir að lesa þetta allt.  Vona að þú hafir notið þess.

Kveðja, Þórður 

 


Fiskur og brauð

Segjum sem svo að þú fengir þær athyglisverðu fréttir að niðrí bæ, nánar tiltekið á Arnarhóli, væri staddur maður nokkur, skeggjaður og skemmtilegur, annálaður fyrir mikla útgeislun, við þá iðju að gefa fullt af fólki brauð að borða og fiska að eta. Hvað myndir þú þá hugsa?

Nú 1. apríl var á föstudaginn þannig að ekki gæti það verið aprílgabb. Miklu fremur gæti þetta verið satt, sérstaklega vegna þess að sést hefði til mannsins áður. Hann hefði reyndar lítið sést í kirkjum en hins vegar miklu oftar meðal útigangsmanna þar sem hann hefði iðulega komið með mat til þeirra. Hann hefði einnig sést á vappi fyrir utan mæðrastyrksnefnd og meðal fatlaðra en á meðal þeirra hefði hann læknað einn eða tvo, en um leið sagt að Guð væri góður og hann elskaði alla menn. 

Upphaflega meðan Jesús var við þessa iðju og fullt af fólki kom til hans, þá gerði hann ekki greinarmun á fólki. Það fengu allir eitthvað hjá honum og það var meira að segja afgangur.  Hann gaf og gaf og gaf. Svo dó hann. 

En hann skyldi ekki eftir sig neinn peningalegan arf. Engin auðæfi sem mæld voru í gulli eða silfri. Maðurinn var í rauninni bláfátækur; hann átti ekki neitt sem einhver á enn þann dag í dag. Sumir vilja meina að kaleikur nokkur sem notaður var við síðustu kvöldmáltíðina hafi verið varðveittur í gegnum tíðina og ýmsir átt hann. Það eru hins vegar bara getgátur eða óskhyggja, annaðhvort. 

 Jesús átti sandala, föt til skiptanna, staf e.t.v. og nokkra góða vini sem fylgdu honum gangandi út um allt.   Hann var svona eins og Sókrates áður. Gangandi um fram og til baka, segjandi hitt og þetta og hvorugur skrifaði einn einasta stafkrók í bók. 

Sumir hlutir eru dýrmætari en gull og silfur. Einhvern veginn samt á allt tal um raunverulega hamingju og hvernig eigi að njóta lífsins orðið að einhvers konar klisjum. Jafnvel margt af því sem Jesús sagði er orðið að klisjum vegna þess að það er búið að tönglast svo mikið á því að það er hætt að eiga einhverja merkingu lengur.  Miðað við allar sjálfshjálparbækurnar þá er eins og það beri í bakkafullan lækinn að tala um það.  En samt það er samt eitt...

Þegar Jesús er að útdeila fiskunum og brauðunum þá er hann bæði gefandi og skapandi. Hann er að búa til augnablik. Augnablik sem er ennþá til.  Mannstu eftir öllum augnablikunum þar sem þú gafst eitthvað af þér og varst skapandi. Öll augnablikin sem þú hugsar um með gleði enn þann dag í dag. Slíka hluti á maður alla ævi. Við köllum það góðar minningar.   

Góðar minningar eru miklu dýrmætari en gull og silfur. 

    


Hvernig hægt er að vera laus við meðvirkni

Ég las einu sinni bók sem heitir Aldrei aftur meðvirkni. Einhver Melodie Beatty skrifaði þessa bók. Ágætis bók fyrir fólk sem vill finna sjálft sig og finnst það vera meðvirkt nema hvað mér fannst skilgreiningin verða alltof víð hjá höfundinum. Ég meina ég las þarna einhvern langan kafla með endalausri upptalningu á meðvirkni. Eru ekki bara allir meira eða minna meðvirkir fór ég að hugsa, en svo kemst maður að öðru þegar skoðun myndast á viðfangsefninu. 

Svo ég dýfi mér beint í viðfangsefnið og eins og ég sé það þá langar mig til þess að varpa fram einni spurningu sem mér finnst gott að spyrja sjálfan mig að öðru hvoru og velta mér uppúr fram og tilbaka. Þetta er í mínum huga miklu fremur sígild spurning heldur en persónuleg:

Hver er sú manneskja sem mig langar til að vera eða verða? 

Ef ég er meðvirk manneskja þá spyr ég ekki að svoleiðis nokk. Í rauninni þá þarf maður ekki að vera neitt mikið meðvirkur til þess að eiga ekki þessa spurningu. Sem er vegna þess að það er auðveldlega hægt að týna því hvað manni finnst gott og líður vel með. Það er hægt að týna því niður hvað manni langar til að gera, og jafn einfaldri spurningu sem - hver vil ég vera? 

Sá sem er voðalega upptekinn af öðru fólki hvort heldur til þess að stjórna því eða þjóna því, velta sér uppúr því, eða lifa fyrir það allsendis getur auðveldlega glatað ákveðnum tilfinningum gagnvart sjálfum sér.   Það er heldur ekki svo auðvelt að elska sjálfan sig ef maður veit lítið um það hvernig eigi að fara að því að elska sjálfan sig. Með hvaða hætti skuli það gert? Með hvaða hætti getur manni liðið vel? Og þá með hvað? Hvað er gott, notalegt, þægilegt, skapar vellíðan, vekur nautn? Það þarf ekki að vera það sama hjá hverjum og einum. Svo er að sjá það fyrir sér. Mynda sér skoðun á því og setja það til hliðar sem passar ekki inní myndina. 

Best finnst mér að sleppa tökum og hafa einskonar - mér er alveg sama viðhorf. Í því felst að vera ekki alltof góður og elskulegur. Að vera tilbúinn til þess að segja nei við hinu og þessu, neita verkefnum, neita því að taka þátt í einhverju, hafna tilboðum, segja nei við sölumenn, neita að umgangast leiðinlegt fólk og fara bara, neita því að hitta sumt fólk eða vilja ekki mæta hér eða þar og vera alveg sama um hvað öðrum finnst eða fannst um það. Ennfremur að neita að leysa verkefni sem öðrum er ætlað að leysa, sem aðrir geta vel leyst og þurfa ekki neina hjálp við (fara jafnvel bara). 

Það væri hægt að halda áfram endalaust að telja upp alls konar tegundir af neitunum við hinu og þessu. En meðvirkt fólk á það til að kunna lítt á slíkt. Sumt fólk segir já við öllu mögulegu og verður síðan reitt við sjálft sig útaf því í tíma og ótíma. Það verður líka sumt of gott og fer að leysa alls kyns viðfangsefni sem það þarf ekkert að leysa.

Þetta viðhorf hentar mér: Ég sagði nei áðan og mér er alveg sama um það hvað manneskjunni fannst um það. Mér líður betur með það sem ég hef nú þegar og þarf ekki þetta tilboð, vil ekki þessa framkomu, þetta vafstur þarna, eða þetta vesen.  Meðvirkur lætur hins vegar allt mögulegt yfir sig ganga. 

Þetta viðhorf hentar mér einnig: Ég gerði það vegna þess að mig langaði til þess. Af því að mér líður betur með það. Þar gildir minn smekkur eins og t.d. að ég vel að vera skegglaus þrátt fyrir að einhverjum finnist að það fari mér betur að hafa skegg.  Meðvirkur er stöðugt að eltast við álit annarra en hefur ekki mikið velt fyrir sér hvað honum langar sjálfan til. 

Svo að lokum kemur aftur sama spurningin og áður. Hver er sú manneskja sem þig langar til að vera eða verða?  Ég vil lifa lífinu svona og með þessum hætti en ekki samkvæmt hugmyndum annarra, smekk eða tísku. Ég er sú manneskja sem mig langar til að vera. Hvað með þig? 

  Að lokum: Meðvirkni er að vita ekki hvað manni sjálfum líður vel með og kunna ekki að setja sjálfum sér eða öðrum mörk. 

 


Höfundur

Þórður Guðmundsson

Þórður Guðmundsson þroskaþjálfi

Nýjustu myndir

  • bill cosby 620x480 cemrf
  • ATI-lower-review-polymer
  • ATI-lower-review-polymer
  • download JFK
  • Aretrov

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (19.3.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku:
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku:
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband