Bloggfærslur mánaðarins, ágúst 2013

Áhugaverðir vefir á netinu

Internetið er hreint út sagt æðislegt og það verður alltaf betra og betra. Núna um daginn tókst mér að uppgötva tónlistarsíðu sem inniheldur talsvert af skemmtilegri tónlist og það án þess að þurfi að greiða neitt fyrir. Ég er að hlusta á rólega jazztónlist meðan þetta er skrifað.  Sjá https://play.spotify.com.

Þarna er hægt að finna sitthvað um tónlistarfólk. Ég varð reyndar smá hugsi eftir að hafa lesið  um David Bowie. Sá hefur ávallt reynt að vera einskonar kamelljón og breytt útlitinu miðað við tíðarandann hverju sinni. Madonna hefur verið þekkt fyrir þetta líka, en hún hefur margoft breytt útliti sínu, hári, klæðnaði, og yfir heildina framsetningu á sjálfri sér til þess að einhvernveginn endurnýja sig og höfða til aðdáenda sinna eða til þess að krækja í nýja.

Fann annan vef um daginn sem heitir goodreads.com.  Þetta er svona bókavefur sem er býsna skemmtilegur. Þú segir frá því hvaða bækur þú viljir lesa, ert að lesa, eða ert búin að lesa. Svo sér maður hvaða bækur vinirnir eru að lesa og hvað þeir gefa fyrir þær eða segja um þær. Eitthvað er af íslenskum bókum þarna, mætti vera meira. Þessi vefur er fínn fyrir þá sem hafa gaman af bókalestri. Nú á ég mikinn fjölda af bókum þannig að þessi vefur hefur náð að kveikja í mér allavega.

Svo er það fleira. Hefurðu áhuga á að læra annað tungumál? Babbel.com er einkar skemmtilegur vefur á netinu sem hjálpar manni að nema nýtt mál.  Það kostar eitthvað um 1600kr. á mánuði í áskrift að vera þar inni en þú færð fínar leiðbeiningar þarna, talkennslu, málfræðiæfingar, upplýsingar um landið og m.fl.  Ég mæli eindregið með þessu.  

 

  


Hugleíðing um hamingju, lífsgleði, trú og bjartsýni

Það þarf hugrekki til þess að ætla sér að leggja af stað með svo til ekki neitt og ætla sér að gera eitthvað mikið. Eins og að vera með mustarðskorn í hendinni. Smæst er það allra sáðkorna. Svo lítið er það að það er alveg fáránlegt. Með það legg ég af stað og ætla að sigra heiminn eða þannig. 

Sá sem hefur trú á við mustarðskorn. Ég hef velt þessum orðum fyrir mér síðan ég var krakki. Við hvað er átt og hvað svo? Er hægt að flytja fjöll? Væri það eftirsóknarvert? Sú myndlíking að sá sem hafi trú á við mustarðskorn geti sagt við fjall þetta að færa sig, fjallar ekki um það beinlínis og bókstaflega. Hún er einungis að benda á hið smæsta sem hægt er að hafa í lófanum og þess stærsta sem hægt er að sjá í umhverfinu. Restin er vitið þar á milli. Vitið til þess að gera eitthvað úr því sem maður hefur, hversu smátt sem það er.

Enn og aftur legg ég af stað með eitt svona mustarðskorn og ætla að gera eitthvað mikið og hvað finn ég?

Einhver stór markmið til þess að stefna að. Ég fer af stað með svo til ekkert og set mér markmið. Hægt er að setja sér skammtímamarkmið til að byrja með. Einhver stutt skref til þess að framfylgja. Fyrst þetta, síðan þetta hér og svo þetta. Allt það gæti leitt að langtímamarkmiði. Markmiðinu sem ætlað er að ná. Mér dettur í hug peningasparnaður. Að leggja fyrir ákveðinn pening, alltaf á útborgunardegi og byrja á því að leggja hann fyrir. Svo safnast saman og úr verður eitthvað stórt.

Eða ég finn hamingju. Sá sem ætlar að flytja fjöll er bjartsýnn og opinn. Hann trúir því að honum muni takast ætlunarverkið. Hann er jákvæður og segir ég get, ég get það sem mig langar til þess að gera. Ég get það vegna þess að ég trúi því að ég geti það. Guð hjálpar þeim sem hjálpa sér sjálfir lærði ég sem barn.  Það er allavega lítið fólgið í því að gera ekki neitt og með því að segja við eitthvað fjall, færðu þig, þá er maður vissulega lagður af stað.

Af því sem komið er. Ég set mér markið, skammtíma sem langtíma, hugsa jákvætt, er bjartsýnn, en legg af stað með lítið og trúi því að mér gangi það vel.

Svo er það eitt í viðbót sem er að hafa einhvern góðan ásetning. Til hvers að ætla sér eitthvað án þess að hafa nokkurn hag af því sjálfur og ef maður hefur ekki hag af því sjálfur heldur miklu fremur einhverjir aðrir, þá er maður einungis fórnfús, hversu lengi endist það til lengri tíma séð.

Í grautinn vantar síðan lífsgleðina, að finnast þetta allt saman gaman. Þegar manni finnst eitthvað skemmtilegt, þá er heilmiklu náð þá og þegar.  Lífið getur verið eins skemmtilegt og maður gerir það að. Maður er stanslaust að skapa eigin hamingju. Verst af öllu er hins vegar stefnulaust líf án nokkurra markmiða og án nokkurs ætlunarverks. 

Njóttu þess sem þú hefur og ég hvet þig til þess að gera eitthvað gott og skemmtilegt úr því.  


Hugleiðing um lífið og tilveruna

Síðasta freistingin eftir Nikos Kazantzakis fannst á Bókasafni Kópavogs í dag fyrir tilviljun. Það var auðvitað ég sem fann hana og byrjaði umsvifalaust að blaða í henni. Bókin fjallar um Jesú Krist og eitthvað allt annað en það sem stendur í Biblíunni um hann. Bókin var kvikmynduð og um leið og einhverjir áhugasamir sáu hana þá vildu þeir upp til hópa banna hana og á Íslandi var myndin sýnd í Laugarásbíó við lítinn fögnuð fjölda fólks.  Nóg um það. 

Formáli bókarinnar er einungis þrjár blaðsíður en hann hefur nú þegar reynst mér það magnaður að guðfræðilegur þankagangur minn hefur snarbreyst og umbreyst í eitthvað annað. Samt var ég bara að lesa þrjár blaðsíður.  Andinn vill glíma við kröftugt hold, sem veitir öflugt viðnám (bls 6).   

Þar með var ég lentur í einhverri glímu sem ég átti ekki von á. Guð elskar ekki veikgeðja sálir eða lingert hold. Nú veistu hvernig ég hendi þessari bók frá mér og hleyp í burtu. 

Framundan getur allt eins verið vonbrigði, óþægilegar aðstæður, óheppni, og kannski vinslit.  Það er ein góð leið til þess að takast á við slíkt, sem er fólgin í eigin hugsun. Að það sé alltaf til einhver leið, möguleiki, og það sé hægt að koma aftur og byrja uppá nýtt þangað til hlutirnir takast.

Er þetta það sem ég hef mestar áhyggjur af hugsa ég stundum. Er þetta stærsta vandamálið? Margt gæti verið verra. Aðalatriðið er að gefast ekki upp á veruleikanum. Hann getur verið eins skemmtilegur og maður leyfir honum að vera.    

Þar með tek ég bókina upp aftur sem ég áðan fleygði frá mér og les hana. Einhver sagði að maður yrði ekki vitur af því að lesa bækur. Það er fyrir mér alls ekki satt. Maður verður einmitt vitur af því að lesa bækur. Þær geta sagt manni heilmargt. Þær geta líka sagt okkur frá mönnum sem áttu ekki til svörin og gátu engan veginn svarað erfiðustu spurningunum. Sumum spurningum verður aldrei svarað, sem getur allt eins verið allt í lagi og stundum er gott faðmlag miklu betri kostur. 

 


Til eru fræ sem fengu þennan dóm

Ég fór í eina af þessum stóru verkfæraverslunum í dag. Við vorum þarna reyndar tveir saman. Hann á undan mér, þessi ungi áhugasami maður um verkfæri og ég sem var að leita að einhverju sem var allt annarsstaðar í húsinu. Meðan ég var að elta vin minn þá heyrði ég hvernig Haukur Morthens hljómaði í salnum. Til eru fræ er afskaplega angurvært lag. Til eru fræ sem fengu þennan dóm, að falla í jörð og verða aldrei blóm... Í þann mund var vinur minn kominn í garðyrkjudeildina og nærri sestur á viðkvæman bekk sem ég vissi að gat ekki borið hann. 

Hann vinur minn fæddist með ofvirkni, einhverfu, athyglisbrest og þroskahömlun ásamt einhverju fleiru sem ég fer ekki að telja upp hér. Veruleikann sér hann með sínum augum, eins og hann þekkir hann og skilur hann. Það er eins og með okkur öll, ekkert okkar sér veruleikann með sama hætti. Við upplifum heldur ekki alltaf það sama. Þarna sá hann e.t.v. eitthvað sem ég sá ekki og varð ekki var við en var fyrir honum kannski mikilfenglegt.  

Að fæðast heilbrigður er ekki sjálfsagt mál. Að hafa sjón, heyrn, lyktarskyn, að geta talað og tjáð sig er nokkuð sem við skynjum sem alveg sjálfsagt.  En til er fólk sem á erfitt með að tjá sig og getur illa talað um það hvernig því líður. Hversu gott er það ekki að geta verið opinn og geta tjáð sig um hvaðeina í ræðu eða riti.  Þar kemur möguleikinn til tjáningar inn og það sem kallast tjáningarfrelsi.

Ég hef kynnst mörgum í gegnum tíðina sem hafa átt erfitt með að tjá sig, fólki við alls kyns aðstæður, í hjólastólum, sem hefur þurft að mata, klæða, baða, nota táknmál með, sem hefur þurft að sprauta, halda í hendina á, og fara með í löng ferðalög.  Aldrei að dæma heldur skilja að við erum lánsöm ef við getum átt góða heilsu og valið okkur sjálf það líf sem við viljum lifa. 

 


Höfundur

Þórður Guðmundsson

Þórður Guðmundsson þroskaþjálfi

Nýjustu myndir

  • bill cosby 620x480 cemrf
  • ATI-lower-review-polymer
  • ATI-lower-review-polymer
  • download JFK
  • Aretrov

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (19.3.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku:
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku:
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband