Hvað gerir lífið skemmtilegt?

Hvaða leið er hægt að fara ef manni langar til þess að njóta þess að vera til? Mér dettur í hug nokkrir möguleikar og langar aðeins til þess að deila þeim, svona einu sinni.

1. Að taka lífið ekki alltof alvarlega.  Því miður þá tekst þetta ekki alltaf en þetta er ágætis viðhorf samt.  Í þessu felst að leyfa hinu fáránlega sem birtist í lífinu að vera bara og samþykkja það sem hluta af lífinu.  Sumir hlutir er hreint út sagt fáránlegir. Sum samtöl eru asnaleg og sumar uppákomur skrýtnar og háðar tilviljunum. Svo er sumt sem er þess eðlis að það hentar best að setja utan um það sviga ellegar að láta það liggja milli hluta. Vera ekkert að vega það og meta. 

..... en það er gott að velja sér viðhorf. Ég vel mér það viðhorf að lífið sé ekki fullkomið og verði það aldrei. Ekkert er í raun fullkomið nema kannski sumt en það er ekki hægt að krefjast þess að allt sé það.  Svo held ég bara áfram að lifa. 

2. Að halda áfram að lifa.  Það er svo margt í lífinu að það er nóg til að hugsa um. Möguleikarnir eru óteljandi.  En þegar lífið er hins vegar ekkert sérstaklega skemmtilegt þá er ágæt leið að halda bara áfram að lifa og leyfa öðrum að gera það líka.

....stundum lendir maður í leiðinda samtölum,  og atvikum sem eru ekkert sérstaklega skemmtileg. Í staðinn fyrir að velta sér uppúr þeim endalaust og eyðileggja næstu mínútur þá finnst mér ágætt að halda bara áfram að lifa. Að snúa mér að næsta verkefni.  Lífið er samansafn af litlum verkefnum. Maður fer frá einu til annars. 

3. Að leita uppi skemmtilega hluti.  Það að leika sér aðeins þó svo að maður sé orðinn fullorðinn er allt í lagi. Mér finnst að hjón og pör eigi að fara reglulega eitthvert að leika sér, þó það sé ekki nema bara til þess að róla sér eða bara í snjókast. Ég fer í snjókast með vinum mínum, dansa við þá eða fer í bátsferð, ellegar geri eitthvað bara alveg sjálfur, en samt er...

.....fínt að leita uppi eitthvað sem maður hefur ekki gert áður. Ég hef t.d. aldrei prufað að fara í nudd einhversstaðar og ég hef aldrei komið til Parísar. Reyndar þá hef ég aldrei komið við í Vestmannaeyjum en þú lofar að segja ekki neinum frá því ;) 

4. Að endurtaka aldrei neitt sem var sérstakt og skemmtilegt.  Fyrir mitt leiti þá er ég nokkuð inn á þessu. Sumir hlutir eru skemmtilegir aðeins einu sinni meðan hægt er að endurtaka ýmislegt annað mun oftar. 

....þú býrð til minningu úr skemmtilegum atvikum sem þér dettur í hug að framkvæma. Með því að framkvæma suma hluti aftur og aftur, þó að það sé gaman, þá dregur úr gildi upphaflega atviksins sem efalaust var bráðfyndið.    Svo kemur einhverntíma...manstu þegar...? 

5. Að æfa sig í einhverju skemmtilegu.  Hér dettur mér í hug að æfa sig í að spila á eitthvert hljóðfæri (t.d. gítar eða trommur), æfa dans (t.d. salsa), töfrabragð (eitthvað einfalt sem kemur fólki á óvart), tungumál (spænska til að nota óvænt í sólarlandaferðum), eða að lesa vinsæla bók og nota hana til samtals við aðra sem hafa lesið sömu bók (t.d. Ég man þig eftir Yrsu).  Varðandi hið síðastnefnda þá er það ekki vitlaus hugmynd að æfa sig í því að nota bók sem maður hefur til samtals við aðra. 

....þegar maður hittir fólk og hefur eitthvað í farteskinu sem passar inn í aðstæður, að koma með, þá er nokkuð gaman að vera með eitthvað sem maður hefur undirbúið með sjálfum sér. Æft sig aðeins í.  

6. Að vera þakklátur.  Ég er þakklátur fyrir þetta hér: 

...Að vera uppi á þessum tíma í Íslandssögunni, að geta skoppað út í búð og fengið mér eitthvað þegar ég er svangur, eiga góða skó, að geta fengið mér vatn úr krananum, að eiga fullt af góðum vinum, að geta farið á bókasafn og lesið eins og mig langar til, að geta hlustað á alla þessa góðu tónlist, að geta farið til útlanda á þremur tímum eða svo, að geta horft á sjónvarp, að geta valið mér myndefni, að geta farið vikulega og dansað við fullt af skemmtilegu fólki, að eiga góða vinnufélaga, að eiga góða fjölskyldu, að hafa ágætis bragðskyn, að geta keyrt bíl, farið í líkamsrækt, eiga gott húsnæði, hafa farið í háskóla og lært það sem mig langaði til....

Listinn gæti verið miklu lengri og vel getur verið að ég sé að gleyma einhverju. Til mótvægis við þetta þá langar mig til þess að koma með annan lista sem er allt öðruvísi og ekkert skemmtilegur. Allt það sem ég er feginn að skuli ekki vera í lífi mínu og ég býst við að þú sért mér alveg sammála.

.....Að búa ekki í stríðshrjáðu landi, hér skuli ekki vera hungursneyð, ekki þurfi að treysta á uppskeru einhvers akurs, að búa ekki við stanslausan ótta við uppskerubrest, né heldur þrælahald, að ungir menn sé ekki neyddir í herþjónustu, að ekki er neitt minnismerki um fallna íslenska hermenn á Íslandi, að búa ekki við landamæri þar sem hætta er á annarri brjálaðri þjóð sem langar til þess að koma í heimsókn til þess að drepa meirihluta manna og hneppa restinni í þrældóm, að fangabúðir séu ekki sjálfsagður hlutur hjá stjórnvöldum eða geðþótta aftökur, aftökur sé ekki leyfðar á Íslandi, og opinberar flengingar eða aflimanir ekki heldur, að vera laus við einræði og geðþótta handtökur, að búa ekki í landi þar sem ekki má segja skoðanir sínar. Lengi væri ábyggilega hægt að halda áfram.  Sérdeilis frábært að vera laus við þennan pakka. 

7. Að gefa af sér án þess að vænta nokkurs í staðinn.  Heilmikil kúnst stundum, en samt ekki endilega.  Á tímabili þá datt mér í hug að gefa gestum einhverja bók þegar þeir fóru. Samt þá er það að gefa af sér ekki endilega bundið bókum eða einhverjum hlutum.  Gjöf er að finna í orðum líka. 

....einu sinni sat ég í veislu og maður nokkur sagði við mig nokkur orð og ég man þau alltaf. Hann sagði  einfaldlega alltaf hef ég dáðst að þér.  Hann er núna prestur á Laufási, en ég man þetta og mér fannst þessi orð flott og hvernig þau voru sögð. Það er ekki sama hvernig hlutirnir eru sagðir. Einhver augnablik geta verið alveg æðisleg og þau geta verið það fyrir einhverjum þó svo að það hafi verið sagt neitt þá, né heldur síðar, en þeirra atvika er minnst og þeir rifjast e.t.v. upp löngu síðar ellegar geymast í hugskoti góðra minninga. Og það varst þú sem sagðir eða framkvæmdir upphaflega, þú sem gafst af þér. 

Svo er eitt í viðbót sem mig langar að segja þér en það lærði ég í guðfræðinni meðan ég var þar. Ekki segja nokkurntíma að Hebrearnir gömlu hafi verið alslæmir þó svo að textinn í Ritningunni virki stundum fullur af refsingum og manndrápum ;)  Það er hugtakið Hesed. Það er að taka einhvern að sér, af eigin frumkvæði, löngun og vilja, og sjá um hann án þess að hann þurfi að borga neitt tilbaka. Bara aldrei. Það að komast þar að og inn til framkvæmda vekur vissulega ánægju.  Það er mun stærri kirkja en stærsta kirkja og hroki á þar hvergi heima.

Takk fyrir að lesa þetta allt.  Vona að þú hafir notið þess.

Kveðja, Þórður 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Þórður Guðmundsson

Þórður Guðmundsson þroskaþjálfi

Nýjustu myndir

  • bill cosby 620x480 cemrf
  • ATI-lower-review-polymer
  • ATI-lower-review-polymer
  • download JFK
  • Aretrov

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (29.3.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 3
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 2
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband