8.2.2011 | 13:26
Karlmaðurinn er veikara kynið
Það hefur komið fyrir hingað og þangað í gegnum tíðina að konur hafa haldið því fram við mig að karlmenn væru veikara kynið. Jú þessu er jafnvel mikið haldið fram þvers og kruss. Og meginrökin eru iðulega þau að karlmenn myndu aldrei þola mesta sársauka allra tíma sem á sér stað á hverri sekúndu árið um kring.
Aumingja karlpeningurinn. Þegar hann verður veikur, þá verður hann líka svo mikið veikur. Það er lagzt í rúmið. Svo er legið þar og allt er svo slæmt. Ó guð hvað ég er veikur. Svo kemur konan og færir manninum alles í rúmið og greyið liggur bara. Slíkur maður gæti ábyggilega ekki þolað ofangreindar kvalir. Hvernig yrði hann þá?!
Mikið hvað það hefur verið gaman að lenda í líflegri umræðu við uppvaskið þar sem tönglast hefur verið á því að ef karlmenn gengju með börnin og myndu þurfa að þola þjáningu fæðingarinnar þá myndu þeir deyja! Allir saman! Þar með væru þeir veikara kynið. Raðandi diskunum og glösunum fannst mér ágætt að benda á þá staðreynd að auðvitað myndu þeir drepast, einhverjir af þeim allavega. Náttúruval yrði þá þar eins og annars staðar í þessari náttúru. Þeir gætu þetta á endanum... (út frá staðreyndum um æxlun þá er þessi umræða auðvitað algert bull).
Blessaður karlpeningurinn sem hefur kúgað kvenfólkið í árhundruði, bannað því að eiga sjálfstætt líf, taka þátt í lýðræði, kosningum, að mennta sig, ráða því hverjum skuli giftast, hvar skuli búa og þar fram eftir götunum er allt í einu ekki lengur í slíkri oddastöðu og það eftir meirihluta Íslandssögunnar. Þær ráða þessu öllu núna og þráin er e.t.v. sú að snúa þessu kannski bara við næstu árhundruðin.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
7.2.2011 | 17:41
Gleðileikurinn guðdómlegi eftir Dante - Inferno
Dante Alighieri var ítalskt skáld sem upp var á 13. öld og fram á þá 14. Hann fæðist um 1265 og birtir sitt fyrsta verk 1293. 13. öldin var öld mongóla og sturlunga, tími hins heilaga Francis frá Assisi og Tómasar Aquinas. Dante sem hét réttu nafni Durante degli Alighieri orti sitt frægasta verk ekki á þeirri öld heldur hinni komandi þá líklegast um fertugt. Það er Divina Commedia eða Gleðileikurinn guðdómlegi sem skipta má í þrjá bókarhluta.
Fyrsta hlutann langar mig til þess að fjalla um hér en hann heitir Inferno eða Víti. Dante sjálfur er aðalpersóna sögunnar og ferðast hann um helvíti, ásamt Virgli sem aðstoðar hann, þaðan yfir í Purgatory sem er ferð um hreinsunareld en endar loks í Paradiso sem er himnaríki sjálft.
Texti bókarinnar er þungur. Þú lest þessa bók ekki hratt og þú lest ekki mikið í einu. Ástæða þess er sú að efnistök eru það þung að það er torvelt að taka við miklu af þessu í einu, ekki sízt þegar farið er í gegnum Inferno. Þeir sem hafa virkilegan áhuga á bókmenntum ættu að lesa þessa bók. En það er nokkuð ljóst að hún er ekki fyrir alla að lesa.
Dante hefur að förunaut eins og áður segir Virgil sem leiðbeinir honum um einstigi, yfir ár og dali, meira að segja á bak skrýmslis sem flýgur með þá stuttan spöl. Það hvarflar að manni hvort Dante hafi haft áhrif á Hringadróttinssögu Tolkiens en það skal ósagt látið. Víti er margskiptur staður með alls kyns viðbjóði. Þar finnur Dante alls kyns fólk sem hann áður þekkti og hann spyr sjálfur hvort einhver frá Toscana sé þarna einhversstaðar. Svo er ratað áfram innanum einhverja sem sitja fastir á hvolf eða hinssegin, fláðar sálir og demóna. Ég beið iðulega eftir því að rekazt á einhvern svona frægan í víti og fann þó einn sem er heimspekingurinn Epikúr. En eftir heillanga viðburðarríka skoðunarferð í gegnum helbert ógeð hlutu menn svo að lokum að finna Júdas við ákveðnar aðstæður og það all sérstakar (hér skil ég eftir forvitni handa þér lesandi góður). Ég beið reyndar einnig eftir því að sjá minnst á dauðasyndirnar sjö á einhverri blaðsíðunni en þær voru hvergi sjáanlegar.
Eftir á að hyggja velti ég fyrir mér áhrif Inferno á kvikmyndir og þá sérstaklega What Dreams may Come með Robin Williams í aðalhlutverki. Þar fer aðalpersónan niður til helvítis í þeim tilgangi að leita konu sinnar sem hafði fyrirfarið sér. Til fararinnar hefur hann með sér mann sem leiðbeinir honum, einskonar Virgil. Það sem þeir sjá er keimlíkt Inferno Dantes eins og t.d. staðurinn þar sem fjöldi hausa standa uppúr leðju í einum stórum hnapp eða þá allt rokið og sálirnar sem hvolfa bát þeirra. Áhrif Dantes gætu einmitt verið þar að verki sem og annars staðar ef betur er að gáð.
Hugmyndir um helvíti hafa haft áhrif á fjölda bóka og kvikmynda. Það er alveg klárt, eins og t.d. Kantaraborgarsögur Chauchers. Paradísamissir eftir John Milton er einnig bók sem er af slíkum meiði en heldur ljóðrænni en Dante og torveld til lesturs. Látum staðar numið með það hér.
Ég var feginn þegar ég loks hafði komist í gegnum helju með þeim Virgli. Næst er það Purgatory sem mig langar að blogga um, sem verður þó ekki alveg strax.
Bækur | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
6.2.2011 | 18:59
Silas Marner eftir George Eliot
Bókin Silas Marner eftir George Eliot kom út nú rétt fyrir jólin. Höfundurinn George Eliot var í raun kona sem hét Mary Anne Evans (1819-1880). Hún ákvað að skrifa ekki bækur undir eigin kvenheiti heldur hafa karlkyns skáldskaparnafn. Það gerði hún bæði til þess að geta verið tekin alvarlega sem rithöfundur og til þess að losna við ákveðinn stimpil þess efnis að konur geti bara skrifað léttar ástarsögur. Hún hefur síðan verið sett á sama stall og Jane Austen og Brönte systur.
Silas Marner er þriðja bók Eliot af sjö og fjallar hún um gamlan vefara sem býr afskekkt fyrir utan lítið þorp í Englandi. Það líkar engum við hann og hann heldur sig út af fyrir sig. Með tímanum hafði honum tekizt að eignazt hrúgu af gullpeningum sem hann geymir á góðum stað en leikur sér með og handfjatlar öðru hvoru. Það sem hann veit ekki þá og síðar á eftir að verða, er að hann á eftir að verða fyrir talsverðu óláni og afstaða fólksins í þorpinu á eftir að breytazt gagnvart honum. Þá á eftir að berazt dyrum hans fólk sem á eftir að breyta lífi hans. En í þorpinu hins vegar finnum við óðalseigendur og vel stætt fólk sem hefur ýmislegt að fela; líka menn sem eru ekki ábyrgir gerða sinna. Þar á meðal er Godfrey Cass sem á sér leyndarmál sem hann telur að geti ógnað sambandi sínu við heitkonu sína Nancy Lammeter.
Flétta þessarar sögu er í raun góð þó svo að sagan virðist hæg á köflum. Hún er vel þess virði að lesa hana. Persónusköpunin er góð og ég upplifði stundum raddirnar segjandi hlutina á ensku með ákveðnum tóni. Þetta er ekki ástarsaga eða rómans, ekki spennusaga og ekki harmleikur. Miklu fremur er þetta saga um fólk, heilindi þess og réttlætiskennd. Bókin er 312 bls að lengd.
Bækur | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
5.2.2011 | 02:06
Dauði Ásu eftir Edward Grieg
Dauði Ásu úr tónverkinu Pétri Gaut eftir Edward Grieg er ein angurværasta tónsmíð sem ég hef heyrt. Það er langt síðan ég heyrði það fyrst. Þá virkaði það einungis dapurlegt og öðruvísi tilfinning fylgdi því að hlusta á það.
Edward Grieg samdi þetta tónverk árið 1888. Það vekur ávallt hjá mér einhverja tilfinningu í ætt við bækur Selmu Lagerlöf, fyrstu konunnar sem varð nóbelsverðlaunahafi. Gösta Berlingssaga er bók sem allir velunnarar góðra bókmennta ættu að lesa. Þar eins og í Pétri Gaut, er skógur og fjöll, ómalbikaðir vegir sem hestakerrur rata um í gegnum dimma skóga, ljóstýrur til þess að lesa við og skuggar og ljós blandast saman við kuldalega stemmningu, þá jafnvel við návist dauðans sem er einsog áður óútskýranlegur, sérstaklega þegar ungt fólk deyr.
Hvers vegna deyr ungt fólk, hvers vegna deyr nokkur maður spyr grikkinn Zorba í bók Kazantsakis. Eina svarið sem hann fær er einfaldlega ég veit það ekki. Allar bækur sem ég á segja mér frá kvöl manna sem geta ekki svarað slíkum spurningum. Að spyrja eða vilja svara er manninum eðlislægt. Hér í gamla daga heyrði ég af æðruleysi sjófólksins sem vissi aldrei fyrir víst hvort fyrirvinnan kæmi heim eftir sjóðróður. Þegar bátur fórst varð viðkvæðið oft Drottinn gaf, Drottinn tók. Þetta átti að gerast, þetta átti að fara svona.
En svo gengur illa að sættast við meinleg örlög. Fyrir löngu sagði ég við mann einn einfaldan hlut í tengslum við sorgina. Ekki reyna að gleyma, komast yfir, jafna sig á, ýta frá sér, og ekki heldur að sættast við heldur það eitt að læra að lifa með. Sumir hafa ort ljóð, safnað saman ljósmyndum, skrifað bækur, eða bara haldið dagbók. En jafnvel þar er fátt eitt sagt. Ekkert er einfalt í sjálfu sér í þessum efnum.
Bók Selmu Lagerlöf - Gösta Berlingssaga er ein bezt skrifaðasta bók sem ég hef lesið. Einhverra hluta vegna einnig draugalegasta og kuldalegasta bókin. Dauðinn birtist þar líka, að nóttu til, á sveitavegi sem hlykkjast í gegnum skóglendi. Og það er kalt eins og í verki Griegs.
Selma Lagerlöf hefur skrifað fleiri bækur en nefnda bók. Hún var sænsk og sögur hennar gerast í Svíþjóð. Knut Hamsun er einnig höfundur sem vert er að gefa gaum að. Ef þú hins vegar ert að leita að virkilega góðri bók til þess að lesa þá mæli ég með William Heinesen - Glataðir snillingar.
Tónlist | Breytt 7.2.2011 kl. 21:33 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
3.2.2011 | 19:58
Fyrirlestraröð um Guð í Bókasafni Kópavogs nú í febrúar
Nú er í gangi fyrirlestraröð í Bókasafni Kópavogs þar sem umræðuefnið er Guð. Þessir fyrirlestrar eru auglýstir nú í febrúar á fimmtudögum klukkan 17:15. Alls eru það fjórir fyrirlesarar sem stíga á stokk. Sá fyrsti var í dag og talaði þá guðfræðingurinn og fjölmiðlamaðurinn Ævar Kjartansson um Guð og hvernig hann birtist í fjölmiðlum. Sérdeilis ágætur fyrirlestur. Fannst mér ég vera manna yngstur á staðnum en þó sá eini sem ákvað að standa upp og tala í smástund útfrá þeim forsendum kannski helzt að hafa lært guðfræði og telja mig geta svarað einhverjum vangaveltum í tengslum við hina heilögu þrenningu.
Eftir viku þann 10. febrúar kemur séra Auður Eir Vilhjálmsdóttir og verður efalaust áhugavert að hlusta á hana en hún hefur eins og margir vita orðið að einhverju leiti umdeild vegna kvennaguðfræði sinnar þar sem Guð er settur í kvenkyn og kyngreint þannig hvernig svo sem á að tala um Guð. Á þann fyrirlestur langar mig að mæta. Ekki það að ég setji mig á móti kvennaguðfræði hennar, sem ég þó aðhyllist ekki neitt sérstaklega.
Þann 17. febrúar verður Reynir Harðarson formaður félagsins Vantrúar með sinn fyrirlestur. Þangað langar mig einnig að mæta. Maður rekst mest á fólk þessa félags á netinu sem mér finnst sjálfum persónulega synd því ég er alveg til í að hlusta ýmis sjónarmið þó þau kunni að vera og verða önnur en mín. Ég er spenntur auðvitað að sjá og heyra í Reyni en af þeim manni hef eg ekki vitað af fyrr og veit ekkert hvað hann kann að segja mér nema það helzt að Guð sé ekki til. Annars væri hann auðvitað ekki formaður þessa félags (né heldur í því auðvitað).
Svo hinn 24. febrúar stígur á stokk maður sem ég þekki betur en þau hin en það er vefpresturinn Árni Svanur Daníelsson. Ég er nokkuð viss um að ekki verði komið að tómum kofanum þar frekar en fyrri daginn enda er Árni víðlesinn og sprenglærður í Biblíufræðum. Við hófum guðfræðinám á sama tíma undir lok síðustu aldar. En ég veit lítið um hlutverk vefprests. Er Árni vígður til starfa á internetinu!? Virkar undarlega fyrir mér ef ég er ekki því mun betur að misskilja hlutverk hans. En ætli Árni útskýri þetta ekki bara sjálfur þegar þar að kemur.
Salur Bókasafns Kópavogs er ekki stór. Hann var fullur í dag. Ætli það hafi ekki verið 60 til 70 manns þessa klukkustund sem fyrirlesturinn stóð. Sumt vissi ég ekki sem kom fram hjá Ævari. Ég vissi ekki að hér áður hefðu jarðarfarir verið útvarpaðar á gömlu gufunni. Heldur ekki að Ævar sjálfur hefði verið að fá guðfræðinga og presta til sín í spjall. Það gat svo sem verið. Ekki það að ég telji mig vera missandi af einhverju. Ævar er gamall útvarpsmaður og athyglisvert að hann skyldi velja sér þá leið að verða guðfræðingur. En hvað ég hef ekki verið að hlusta á hann í útvarpi undanfarið eða jafnvel bara yfirhöfuð. Því miður.
Hvort ég hafi hug á því að standa upp á svona fyrirlestrum og tala veit ég ekki. Ég bara greip tækifærið til þess. Stundum koma augnablik, tækifæri sem maður verður endilega að grípa ellegar glata því og hugsa um eitthvað annað allar götur síðan.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
1.2.2011 | 23:22
Mannasiðir - Að fara í bíó. Stutt svar við hugmyndum Gillz
Fór í Egilshöll í kvöld og sá Kings Speech. Nei ég er ekki rasshaus og ég fór ekki að kaupa mér nammi áður en myndin hófst. Ekki heldur í hléinu reyndar. Ég sá um daginn mannasiðaþáttinn hans Gillz þar sem hann talar m.a. um bíóferðir. Orðið rasshaus kemur einnig fyrir í þættinum svo mér dettur helzt í hug að nota það hérna líka, en bara í smástund af því mér finnst orðið fremur asnalegt.
Nokkur orð samt um bíóferðir. Gillz þarf svolítið að tala um það hvenær maður fer og verzlar sér nammi í bíóinu og hversu lengi maður ætlar sér að eyða tíma í það. Allavega þá er mitt ráð annað. Aldrei að fara svangur í bíó. Sá sem fer svangur í bíó er líklegastur allra til þess að fara strax að kaupa sér endemis óhollustu sem er rándýr í þokkabót. Miðstærð af kóki og agnarlítill poki af lakkrís kostar núna 700 kall. Ef þú ætlar að kaupa þér einhver ósköp þá ertu að fara vel yfir upphaflega bíóverðið í áttina að 2000 kallinum. Um að gera að borða bara vel áður en farið er í bíó, vera sæmilega vel saddur og slappa bara af í sætinu.
Hins vegar þá vilja kærustupör og ástfangið fólk auðvitað splæsa í popp og kók sem er allt í lagi; sumum finnst þetta reyndar ómissandi, en hver á það reyndar við sig. Það er dýrt að fara í bíó núna enda kreppa og allt í lagi að sleppa poppi og kóki. Þegar maður hefur sleppt því að verzla í einhver skipti þá kemst það upp í vana eins og annað.
Hléin er best að nota til þess að fara á salernið. Það eru oft raðir ef maður ætlar að kaupa sér kók eða eitthvað og einmitt þegar kemur að manni þá er myndin bara hreinasta að byrja aftur, þannig að þú ert kannski að missa af einhverjum mínútum, bara vegna þess að einhverjir voru óákveðnir í sjoppunni. Ef þú ætlar að verzla þar þá í guðs bænum ekki fara í neina langa röð. Ef þú kemst fljótt að þá skaltu fara, annars ekki. Bezt er að fara ekki yfirhöfuð; allt þetta nammifóður er alveg hrikalega óhollt.
Svo að sýningu lokinni þá er siðsamlegast að henda nammiruslinu sínu ef maður á annað borð var að kaupa eitthvað. Ef þú hendir þessu á gólfið þá ert þú sóði hvort sem þú viðurkennir það eður ei. Það eru stærðar ruslafötur í öllum bíósölum. Sá sem hendir rusli á gólfið í bíóhúsi getur gert það hvar sem er reyndar og með því er maður að sýna af sér ákveðna tegund af kæruleysi og sóðahátt.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
23.1.2011 | 23:53
Rokland - kvikmyndagagnrýni. 4 stjörnur
Það er ekki auðvelt verk að ráðast í bækur Hallgríms Helgasonar og ætla sér að búa til bíómynd. Til þess er Hallgrímur djúpur og fullur af táknum og merkjum sem ekki er auðvelt að sjá. Myndin 101 Reykjavík tókst ágætlega en fáir vita hversu mjög Hallgrímur sækir í Hamlet í því verki. 101 Er yfirfull af nöfnum, hugmyndum og atvikum sem eiga sér rætur í Hamlet Shakespeares.
Rokland er í raun harmleikur. Ef við myndum taka þessa bók og skoða hana ofan í kjölinn myndum við á endanum finna hina miklu vél sem einkennir verk Shakespeares. Þar er t.d. framvindan uppá við þar sem aðalpersónan nær völdum en ræður ekki við þau, eða aðalpersónan hrekst af stalli og leiðin liggur niður á við í stanslausum ósigri. Allt það með tilheyrandi fléttum. Makbeð er til að mynda ekki harmleikur heldur martröð hyldýpis sem aðalpersónan fellur dýpra og dýpra í. Ríkharður III er aftur á móti harmleikur þar sem konungurinn hrekst áfram í ósigri og leggur að lokum á flótta. Sem minnir ögn meira á Rokland en þó ekki að öllu leiti.
Aðalpersónan í Roklandi Böddi er maður sem finnur sér illa stað í tilverunni. Hann hrekst áfram eins og í vondu veðri og hver einasta stoppistöð er mörkuð einhversskonar áfalli og vonleysi eða firringu. Í sjálfu sér minnir hann svolítið á Hamlet sem missir fótanna í tilverunni og verður vitfirringu og stjórnleysi að bráð.
Það er einstaklega gott að sjá að handritshöfundar Roklands hafa áttað sig á einmitt eðli og framvindu harmleiksins í verki Hallgríms. Sagan hefst í Drangey þar sem Böddi er með skólakrökkum í skoðunarferð. Hvað gerist þar á undan skiptir í raun ekki máli. Svartklæddir skólakrakkar í skólastofu eru táknmynd þess harmleiks sem framundan er þar sem fyrsta áfallið hefst með brottvikningu Bödda úr starfi og leiðin liggur niður á við smátt og smátt. Handrit myndarinnar er að mestu leiti gott. Framvindan sögunnar er góð nema hvað einstaka atvik virka órökrétt sem truflar þó ekki söguna neitt sérstaklega.
Böddi er eitthvert sambland af trúði, hallærispeyja, og skáldi. Hann verður að trúði þegar hann er notaður án þess að átta sig á því, að skáldi þegar hann yrkir ljóðin sín og hallærispeyja með úfna hárið sitt sem hann nennir ekki að hirða. Ólafur Darri nær þessu nokkuð vel og ber myndina uppi allan tímann án þess að missa niður dampinn. Elma Lísa á næst stærst hlutverkið sem gellan á staðnum sem sefur hjá öllum. Fínn leikur hjá henni en ég hefði viljað sjá hana aðeins sjúskaðri. Allir leikarar standa sig annars vel að mínu mati.
Myndatakan er góð og sviðsmyndin er fín. Skemmtilegt hvernig teiknimynd er skeytt inn í atburðarrásina til þess að tjá reiði Bödda. Þá um leið birtist athyglisverður böðull (sem líklegast á að hafa ákveðna tilvísun í Gretti Ásmundarson) sem heggur hausinn af hinum og þessum. Grettir er í sögunni eins konar ímynd einhvers konar hetjuskaps sem Böddi á í raun ekki til og þessi ímynd er það eina sem hann í rauninni á og heldur í, einskonar hálmstrá, ásamt ímynduðum hugmyndum um það að hann sé í sjálfu sér eitthvert bloggskáld.
Svo fer Böddi ríðandi af stað í áttina til Reykjavíkur. Vel getur verið að Hallgrímur hafi fengið þá hugmynd frá Ríkharði III sem verður stöðugt veikari og veikari sem persóna og endar á því að flýja burt frá aðstæðum sínum á hestbaki. Leið hans liggur niður á við, alveg eins og gerist í raun hjá Bödda. Hér verður ekki meira sagt enda er myndin mun innihaldsmeiri en sagt hefur verið hér.
Kvikmyndir | Breytt 26.1.2011 kl. 00:00 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
25.12.2010 | 13:19
Stutt tilkynning
Forðist jólaþrengslin og finnið ykkur sæti í kirkjunni snemma í desember! :)
![]() |
160 guðsþjónustur í Reykjavík |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
24.12.2010 | 12:59
Jólahugleiðing
Einu sinni voru fjárhirðar út í haga. Fullt af sögum byrja svona. Einu sinni var ... og svo heldur sagan áfram og leiðir okkur áfram inn í veröld sem við vissum ekki að væri til neins staðar nema bara í bókum. Eða þá að sagan leiðir okkur inn í heim sem við vitum að var einu sinni, fyrir mörgum árum eða öldum. Hvað svo sem sagan segir okkur þá bregður hún fyrir okkur hugmynd, hugmynd um eitthvað.
Einu sinni voru fjárhirðar út í haga sem höfðu ekki hugmynd um neitt sérstakt og áttu ekki von á neinu. Það er eins með okkur hin. Við erum stödd í lífi okkar og eigum ekki von á neinu sérstöku. Ekki neinu sem er öðruvísi en venjulega. Nema hvað óvæntar fréttir geta alltaf borist. Góðar eða slæmar. Ein gleður meðan önnur skelfir. Á einu augabragði getur allt breyst, þó svo að hvorki ég nei nokkur annar vilji það. En svo geta óvæntar breytingar líka verið fagnaðarefni.
Svo segja menn að allt hafi breyst á Betlehemsvöllum fyrir margt löngu síðan. Það fæddist barn inn í þennan heim. Það átti eftir að alast upp og verða 33 ára eða svo. Sem er ekki langur tími. Það er reyndar búið að segja þessa sögu margoft. Hún er bæði gömul og ný. Og þú spyrð hvað sé nýtt. Það eru alltaf að fæðast börn inn í þennan heim. Á hverri mínútu fæðist barn eða jafnvel sekúndu. Það deyr líka fólk á hverri mínútu. Hús eru byggð og þau eyðilögð. Það lifnar við og fellur í sífellu. Ekkert virðist lifa að eilífu.
Nema hvað það það verður alltaf til birta, ljós einhversstaðar frá. Einmitt það er svo gleðilegt. Ég þrái birtu og yl eins og allir aðrir. Án húsaskjóls, ljóssins heima og án þess að geta glaðst með öðrum er mikils farið á mis. Jólin eiga að benda okkur á það sem við í raun höfum. Við höfum fullt af hlutum. Stærsti hluturinn er að við höfum hvert annað. Í því er stærsta ljósið fólgið.
Í myrkri erum við týnd. Við vitum ekki hvar við erum nákvæmlega og við vitum ekki hvar aðrir eru. Nema hvað sem glámskyggn sjáum við kannski útlínur og þekkjum raddir. Við heyrum talað um hið sanna ljós sem kom í heiminn. Það er kertið sem tendrað er í myrkrinu. Sem lýsir upp og um leið þekki ég þig og viðurkenni sem minn vin og jafnvel aðeins meira en það.
Lífið er fullt af atvikum, góðum og slæmum. Inn í það blandast myrkur, ljós og skuggar. En þar innanum höfum við tækifæri til þess að skapa. Þó að við séum misjafnlega góðir smiðir, þá er eitt besta og skemmtilegasta sköpunarverk lífsins það sem við gerum nú á líðandi stundu, nákvæmlega það sem verður að góðum minningum seinna meir.
Það er auður að eiga góða minningar úr lífinu. Ef þú minnist margs sem er gott og ánægjulegt má segja að þú eigir margt. Til er fólk sem minnist ekki margs sem kalla má skemmtilegt, en þó alltaf einhvers. Líka það er til að hugsa um. Hvað vitum stundum ekki hversu mikið við eigum fyrr en einhver bendir okkur á það eða við speglum okkur í því sem er okkur andstætt.
Sagan um Jesúbarnið er gömul saga og ný. Gömul vegna þess að hún hefur verið margoft sögð í gegnum aldirnar. Ný vegna þess að hún minnir okkur á um hver jól hver við erum og hvað við eigum. Við eigum fullt af hlutum en þeir eiga það til að hverfa okkur í önn hversdagsins. Við eigum hvert annað en okkur hættir svo til þess að taka því öllu hversdagslega. Það er gleðin yfir lífinu sem sagan segir okkur frá. Sagan er ný vegna þess að hún fjallar um undur og gleði lífsins. Þannig verður hún tímalaus.
Og hamingjan sjálf er ekki fólgin í peningum heldur góðum hugmyndum. Að skapa og gleði og hamingju fyrir aðra er góð hugmynd. Megir þú eiga góð jól.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 13:19 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
22.12.2010 | 05:35
Að nota facebook
Hvernig notar þú facebook? Á mbl.is er nú frétt um lögreglumann sem notar facebook þannig að hann segir frá starfi sínu og hugmyndum sínum um það, oft á neikvæðan og vafasaman hátt. Um það langar mig ekki að fjalla sérstaklega um hér, nema hvað ef þú ferð að hugsa um það þá hlýtur að vera þagnarskylda einhver í störfum lögreglu í tengslum við hluti eða atvik sem skaðað gætu hagsmuni hennar eða annarra ef kæmust í fjölmiðla. Facebook eru fjölmiðlar hversu marga vini sem þú kannt að eiga.
Ég á um 800 vini og þekki þá ekki nærrum því alla. Hluti af þeim hópi eru ýmis fyrirtæki hvers á bakvið er fólk sem ég þekki yfirhöfuð ekki með nafni. Þetta fólk eins og aðrir fylgjast með færslum mínum. Þess vegna ber manni að vanda sig og draga mörkin. Ekki þar fyrir utan þá er ég í viðkvæmu starfi eins og nefndur í fréttinni. Ef ég setti í statusinn allt það sem mér finndist óæskilegt eða gortaði af eigin verðleikum í starfi þá myndi ég verða litinn hornauga, lenda í félagslegum erfiðleikum á vinnustað eða jafnvel bara rekinn.
Góð samskipti eru ekki sjálfsögð. Það þarf að vinna að þeim og styrkja tengsl. Það að einhverjum líki við þig eða mig er ekki eitthvað sem einfaldlega er hægt að velja sér rétt sísona. Stundum kemur það fyrir að fólki líkar ekki við mann. Það veit e.t.v. ekki sjálft hvers vegna eða þá að það er eitthvað í fari manns sem því einfaldlega líkar ekki. Nær ekki lengra en það. Og það gæti verið erfitt að breyta því eða bara varla. Það er líka eins og við vitum hægt að búa til óvini og fólk sem líkar ekki við mann. Það er minnst málið. Til þess þarf ekki meira en óvarleg skrif sem geta virkað skítleg á viðkomandi, eða baktal sem skilar sér áfram.
Aftur að facebook. Það er svo um hvort heldur sem er facebook eða blogg að margur verður að gæta sín á því að fá ekki útrás fyrir tilfinningar sínar með því að nota netið. Netið er ekki til þess að kasta fram neikvæðum tilfinningum sínum. Betra er að eiga sér stílabók sem enginn kemst í og eyða henni svo seinna. Það sem þú segir verður ekki endilega skilið með sama hætti og þú skilur það. Viðhorf fólks er mismunandi og gildismat einnig. Það sem einum finnst allt í lagi að gera og skrifa um á status facebook síðu sinnar kann að vera fyrir neðan allar hellur fyrir öðrum. Jafnvel grín eins getur orðið að háalvöru fyrir öðrum.
Betra er að segja frá jákvæðum hlutum á facebook fremur en neikvæðum. Ef manni dettur eitthvað skemmtilegt í hug, um að gera að skella því fram. Það gæti komið til umræðu næst þegar fólk hittist á vinnustaðnum. Þú skilur, eitthvað jákvætt og skemmtilegt. Samt ekki um fólkið sem unnið er með eða þá persónuleg mál sem engum kemur við. Oft er gott að hrósa fólki en þá bara allra helst inn á þeirra síðu. En fyrir jólin datt mér í hug að grínast smá og setti eftirfarandi inn á status. Smá léttleiki er allt í lagi í drunga þessa mánaðar. Þetta er auðsjáanlega bara grín og til skemmtunar. Þetta er vitanlega skáldsskapur en samt betra en margt annað eins og að vitna í allar leiðinlegu fréttirnar endalaust eða reyna að vera svo voðalega gáfaður...
Maður hefur ekki við út af öllu þessu jólasveinaflóði ofan úr fjöllum! Þetta guðar á gluggann hjá manni, setur vitlaust í skóinn, skellir hurðum og neyðir mann til þess að setja hengilás á ísskápinn og búrið. Svo þarf ég að muna eftir því að læsa niðri öllum kertum út af einum sem er að koma! Hvað gerði ég til þess að verðskulda allan þennan ófögnuð!!
Að lokum vil ég óska lesendum þessa bloggs gleðilegra jóla með þökk fyrir árið sem er að líða.
Með kærri kveðju,
Þórður
![]() |
Yfirheyrsla án tára er ekki yfirheyrsla |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Vefurinn | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Síður
Tenglar
Mínir tenglar
Eldri færslur
- Júlí 2023
- Maí 2023
- Desember 2014
- Júlí 2014
- Ágúst 2013
- Júlí 2013
- Júní 2013
- Mars 2013
- Janúar 2013
- Desember 2012
- September 2012
- Júlí 2012
- Febrúar 2012
- Desember 2011
- Október 2011
- Ágúst 2011
- Júlí 2011
- Júní 2011
- Maí 2011
- Apríl 2011
- Febrúar 2011
- Janúar 2011
- Desember 2010
- Nóvember 2010
- Október 2010
- September 2010
- Ágúst 2010
- Júlí 2010
- Júní 2010
- Maí 2010
- Apríl 2010
- Janúar 2010
- Desember 2009
- Nóvember 2009
- Október 2009
- September 2009
- Ágúst 2009
- Júlí 2009
- Maí 2009
- Mars 2009
- Janúar 2009
- Október 2008
- Júlí 2008
- Júní 2008
- Maí 2008
- Apríl 2008
- Mars 2008
- Febrúar 2008
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (20.4.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 2
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 2
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar