Færsluflokkur: Bækur

Ekki líta undan eftir Guðrúnu Ebbu Ólafsdóttur

Bókin Ekki líta undan er komin út. Það þarf kjark, styrk og talsvert þrek til þess að gefa frá sér þvílíka bók. Á undanförnum árum hefur það færst í vöxt að gefnar hafa verið út bækur eftir konur þar sem þær lýsa þungbærum minningum úr lífi sínu. Skemmst er að minnast bókarinnar Myndin af pabba eftir Thelmu Ásdísardóttur sem gefin var út fyrir nokkrum árum. Sú bók lýsir uppvexti Thelmu í Hafnarfirðinum þar sem faðir hennar misnotaði hana ítrekað sem og um leið systrum hennar.

Bók Guðrúnar Ebbu er af sama toga, nema hvað að faðir hennar var Biskup Íslands. Enginn talaði um það að verið væri að sverta minningu föður Thelmu á sínum tíma en sú umræða hefur hins vegar komið upp varðandi bók Ebbu.  Eftir sem áður þá eiga allir sína sögu, sína minningu og sumir eiga ekki skilið lofræður að öllu leiti. Og gagnvart sumum hlutum er ekki hægt að loka augunum. Það verður stundum að horfast í augu við staðreyndir. 

Þegar þú lest þessa bók þá færðu engar lýsingar á afbrigðilegri kynlífshegðun. Þú færð ekkert að vita hvað raunverulega skeði í bíltúrum þeirra Ólafs, hvað það var sem hann gerði raunverulega. Mig grunar að sumir vilji ekki lesa bækur af þessum toga einmitt út af því.  Það er óþarfi að hafa áhyggjur af því að verið sé að fara illa með lesandann með grófum athafnalýsingum. Hins vegar þá fer talsverður tími í að lýsa Ebbu sjálfri, veikindum hennar og neikvæðri framkomu gagnvart öðru fólki; sem hún hefur þegar beðist fyrirgefningar gagnvart. Og þessi bók er ekki bara eitthvað eitt. Hún er einnig fræðilegs eðlis hvað varðar kynferðisofbeldi, hver séu eftirköst kynferðisofbeldis á líf fólks.  

Það er fyrir mér þröngsýn skoðun að segja að falskar minningar ráði för í þessari bók. Það er miklu meira þarna en bara minningarnar. Það eru einnig fjallað ýtarlega um vandamál sem eru bæði sálræn og geðræn. Hvers vegna koma þessu vandamál? Hverju eru þau tengd? Ef um falskar minningar væri að ræða og einvörðungu það, þá myndi vanta tengingar í þessa sögu. Hana verður að skoða sem heild. Það dugar ekki að taka út eitthvað eitt og efast um sannleiksgildið  þess vegna.

Ef þú hafðir ánægju af að lesa  æviminningar Lindu Pé, Erlu Bolla, Ruth Reginalds og Thelmu Ásdísar,  þá er þessi bók eitthvað fyrir þig. 


Gleðileikurinn guðdómlegi eftir Dante - Inferno

Dante Alighieri var ítalskt skáld sem upp var á 13. öld og fram á þá 14. Hann fæðist um 1265 og birtir sitt fyrsta verk 1293.  13. öldin var öld mongóla og sturlunga, tími hins heilaga Francis frá Assisi og Tómasar Aquinas.  Dante sem hét réttu nafni Durante degli Alighieri orti sitt frægasta verk ekki á þeirri öld heldur hinni komandi þá líklegast um fertugt. Það er Divina Commedia eða Gleðileikurinn guðdómlegi sem skipta má í þrjá bókarhluta. 

Fyrsta hlutann langar mig til þess að fjalla um hér en hann heitir Inferno eða Víti.  Dante sjálfur er aðalpersóna sögunnar og ferðast hann um helvíti, ásamt Virgli sem aðstoðar hann, þaðan yfir í Purgatory sem er ferð um hreinsunareld en endar loks  í Paradiso sem er himnaríki sjálft. 

Texti dante_alighieribókarinnar er þungur. Þú lest þessa bók ekki hratt og þú lest ekki mikið í einu. Ástæða þess er sú að efnistök eru það þung að það er torvelt að taka við miklu af þessu í einu, ekki sízt þegar farið er í gegnum Inferno.  Þeir sem hafa virkilegan áhuga á bókmenntum ættu að lesa þessa bók. En það er nokkuð ljóst að hún er ekki fyrir alla að lesa.

Dante hefur að förunaut eins og áður segir Virgil sem leiðbeinir honum um einstigi, yfir ár og dali, meira að segja á bak skrýmslis sem flýgur með þá stuttan spöl. Það hvarflar að manni hvort Dante hafi haft áhrif á Hringadróttinssögu Tolkiens en það skal ósagt látið. Víti er margskiptur staður með alls kyns viðbjóði. Þar finnur Dante alls kyns fólk sem hann áður þekkti og hann spyr sjálfur hvort einhver frá Toscana sé þarna einhversstaðar.  Svo er ratað áfram innanum einhverja sem sitja fastir á hvolf eða hinssegin, fláðar sálir og demóna. Ég beið iðulega eftir því að rekazt á einhvern svona frægan í víti og fann þó einn sem er heimspekingurinn Epikúr. En eftir heillanga viðburðarríka skoðunarferð í gegnum helbert ógeð hlutu menn svo að lokum að finna  Júdas við ákveðnar aðstæður og það all sérstakar (hér skil ég eftir forvitni handa þér lesandi góður). Ég beið reyndar einnig eftir því að sjá minnst á dauðasyndirnar sjö á einhverri blaðsíðunni en þær voru hvergi sjáanlegar. 

Eftir á að hyggja velti ég fyrir mér áhrif Inferno á kvikmyndir og þá sérstaklega What Dreams may Come með Robin Williams í aðalhlutverki. Þar fer aðalpersónan niður til helvítis í þeim tilgangi að leita konu sinnar sem hafði fyrirfarið sér. Til fararinnar hefur hann með sér mann sem leiðbeinir honum, einskonar Virgil. Það sem þeir sjá er keimlíkt Inferno Dantes eins og t.d. staðurinn þar sem fjöldi hausa standa uppúr leðju í einum stórum hnapp eða þá allt rokið og sálirnar sem hvolfa bát þeirra. Áhrif Dantes gætu einmitt verið þar að verki sem og annars staðar ef betur er að gáð.

Hugmyndir um helvíti hafa haft áhrif á fjölda bóka og kvikmynda. Það er alveg klárt, eins og t.d. Kantaraborgarsögur Chauchers.  Paradísamissir eftir John Milton er einnig bók sem er af slíkum meiði en heldur ljóðrænni en Dante og torveld til lesturs. Látum staðar numið með það hér.

Ég var feginn þegar ég loks hafði komist í gegnum helju með þeim Virgli. Næst er það Purgatory sem mig langar að blogga um, sem verður þó ekki alveg strax. 

 

 


Silas Marner eftir George Eliot

Bókin Silas Marner eftir George Eliot kom út nú rétt fyrir jólin.  Höfundurinn George Eliot var í raun kona sem hét Mary Anne Evans (1819-1880). Hún ákvað að skrifa ekki bækur undir eigin kvenheiti George Eliotheldur hafa karlkyns skáldskaparnafn. Það gerði hún bæði til þess að geta verið tekin alvarlega sem rithöfundur og til þess að losna við ákveðinn stimpil þess efnis að konur geti bara skrifað léttar ástarsögur. Hún hefur síðan verið sett á sama stall og Jane Austen og Brönte systur.

Silas Marner er þriðja bók Eliot af sjö og fjallar hún um gamlan vefara sem býr afskekkt fyrir utan lítið þorp í Englandi.  Það líkar engum við hann og hann heldur sig út af fyrir sig. Með tímanum hafði honum tekizt að eignazt hrúgu af gullpeningum sem hann geymir á góðum stað en leikur sér með og handfjatlar öðru hvoru.  Það sem hann veit ekki þá og síðar á eftir að verða, er að hann á eftir að verða fyrir talsverðu óláni og afstaða fólksins í þorpinu á eftir að breytazt gagnvart honum. Þá á eftir að berazt  dyrum hans fólk sem á eftir að breyta lífi hans. En í þorpinu hins vegar finnum við óðalseigendur og vel stætt fólk sem hefur ýmislegt að fela; líka menn sem eru ekki ábyrgir gerða sinna.  Þar á meðal er Godfrey Cass sem á sér leyndarmál sem hann telur að geti ógnað sambandi sínu við heitkonu sína Nancy Lammeter. 

Flétta þessarar sögu er í raun góð þó svo að sagan virðist hæg á köflum. Hún er vel þess virði að lesa hana. Persónusköpunin er góð og ég upplifði stundum raddirnar segjandi hlutina á ensku með ákveðnum tóni.  Þetta er ekki ástarsaga eða rómans, ekki spennusaga og ekki harmleikur. Miklu fremur er þetta saga um fólk, heilindi þess og réttlætiskennd. Bókin er 312 bls að lengd.


Göngutúr í rigningu og vangaveltur um bók Eckhart Tolle - A New Earth.

Göngutúrinn í rigningunni geymdi fjölda augnablika þar sem hugsað var um þessa einu bók. Hundurinn skoðaði á sama tíma allan þann gróður sem náð hafði að fanga athygli hans. Hann þefaði, skoðaði betur, pissaði á völdum stöðum og hélt svo áfram í áttina að næsta áhugaverða stað. 

Hugurinn er brjálaður segir Tolle. Hann æðir áfram í sífelldri þörf fyrir allt það sem hann telur að fullnægi þörfum hans, en hann getur ekki staldrað við og notið augnabliksins eða þess að njóta þess einfalda í náttúrunni. 

Hundurinn nýtur þess að staldra við og skoða. Þessi stóri brúni íslenski rakki með hringaða skottið sem er ekkert að spá í því að hann sé að þefa af blómi sem óx um daginn og deyr kannski á morgun.  Né heldur er hann að velta því fyrir sér að þarna sé eitthvað sem hafi eitthvert heiti meðal manna.  Eins og það í rauninni skipti nokkru máli. 

Bókin hans Tolle er aftur og aftur í huga mínum. Tolle hefur bókina á því að tala um fyrsta blómið sem varð til fyrir einhverjum milljónum ára. Eitthvað sem upplifði sólarupprás og sólarlag. Upphaf eilífrar hringrásar sem nær til okkar dags. Og í nútímanum höfum við heiti yfir fleiri þúsundir plantna og öll hafa þau einhver latnesk heiti sem helst má finna í uppflettiritum. Tolle er alveg sama um nöfn. Þau trufla alla upplifun. Það er miklu betra að staldra við og upplifa, finna ilm eða mýkt eins og mýktina af rósablaðinu. Gleyma sér síðan og vera bara.

 


Eckhart Tolle. A New Earth.

Það var kvöld eitt í apríl eftir leikhúsferð að mér var gefin bók. Það var nokkuð hlýtt veður en aðeins tekið að skyggja í einu af þægilegri hverfum þessa heims, hverfinu þar sem allt er alltaf svo rólegt og laust við asa og læti. Þar var mér gefin þessi gjöf frá frænku minni sem á heima í útlöndum. Þetta skyldi vera eins konar skilnaðargjöf þangað til við hittumst næst.  Úr bréfinu kom appelsínugul bók eftir Eckhart Tolle sem heitir A New Earth. Láttu mig vita hvað þér finnst um þessa bók sagði frænka mín við mig um leið og hún kvaddi mig. Fylgi þér alltaf farsældin. 

Tolle! Kom upp í huga minn. Maður sem er á fullu við að segja viturlega hluti. Aðallega í míkrafón. Það er hægt að finna hann á Youtube þar sem hann situr á stól og talar rólega til fólks. Í lengri tíma. Aleinn og enginn með honum.  Mér hafði verið bent á þennan mann einu sinni áður. Það var sl. vetur og þá var kveikt á honum í smástund og slökkt á honum nánast jafnharðan. Svo varð einnig um þessa bók að hún fékk að vera óáreitt í hillu þangað til í fyrir þrem dögum að smá uppgötvun leiddi mig til hennar aftur. 

anewearth_cover_90x90Þetta er bók sem maður les hægt. Suma kafla oftar en einu sinni. Án þess að grípa allt hrátt sem Tolle segir þá er margt mjög athyglisvert. Hann er t. a. m. með ágætan skilning á orðum Krists og hugmyndir hans eru djúpar og hann sér hlutina út frá ákveðinni rósemd. Okkur hættir víst til að vilja fara of hratt og að við náum ekki að njóta augnabliksins. Kannski að það eigi einmitt erindi til nútímamannsins sem alltaf er á fleygiferð og finnur sér aldrei stund til að staldra við vegna þess að það er alltaf svo mikið að gera og í svo mörg horn að líta. 

Youtube. Þar er Eckhart Tolle að tala í míkrafóninn sinn og það oftar en einu sinni. Þar er hann reyndar einnig að gera svolítið annað. Sem kom nokkuð á óvart og varð kveikjan að meiri áhuga hjá mér. Hann er víst í miklu uppáhaldi hjá Oprah Winfrey og þau eru með kennslustundir saman sem hófust í mars og stóðu samfleytt í 10 vikur.  Sem þýðir að það er hægt að sitja nokkuð lengi við tölvuna og fylgjast með kennslustundum þar sem þau tvö sitja í hvítum hægindastólum, spjalla um bókina og svara spurningum frá hlustendum. Það er samt með þetta eins og svo margt annað. Hvernig borðar maður fíl?  Með því að taka einn bita í einu. 


Ævisaga Vigdísar væntanleg 2009

Páll Valsson skrifaði fyrir nokkrum árum mjög góða bók um skáldið Jónas Hallgrímsson. Það er því gleðilegt að frá hans hendi sé nú að koma ævisaga um ekki ómerkari manneskju en Vigdísi Finnbogadóttur. Í heildina á litið var Vigdís góður forseti og alveg yndislegt að hitta hana.  Það er því tilhlökkunarefni að fá að lesa bókina þegar hún kemur út.
mbl.is Ævisaga Vigdísar haustið 2009
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Höfundur

Þórður Guðmundsson

Þórður Guðmundsson þroskaþjálfi

Nýjustu myndir

  • bill cosby 620x480 cemrf
  • ATI-lower-review-polymer
  • ATI-lower-review-polymer
  • download JFK
  • Aretrov

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.11.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku:
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku:
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband