Færsluflokkur: Sjónvarp
4.2.2012 | 00:43
Survivor fyrir einfalt fólk
Það er ábyggilega ekki nokkur maður sem kannast ekki við Survivor. Nú þegar hafa verið framleiddar tuttugu og eitthvað þáttaraðir og sú fyrsta mun hafa skutlast í loftið einhversstaðar í kringum aldamótin. Fyrir þá sem hafa ekki horft á þessa þætti þá flokkast þeir undir raunveruleikaþætti þar sem að hópur fólks fær að húka á einhverri fallegri eyðieyju (vanalegast) og leysa þrautir auk þess sem það kýs einhvern annan í burtu þannig að sá hinn sami vinni ekki leikinn. Einn stendur síðan eftir og vinnur risastórt verðlaunafé.
Hvenær fær fólk leið á svona raunveruleikaþáttum? Þáttum sem snúast um akkúrat þetta, að losa sig við einhvern með því að stinga rýting í bakið á honum og halda svo áfram þar til einn er eftir. Við getum kallað þetta höfnunarleiki. Nóg er reyndar til af þeim ennþá og síðustu ár hafa verið margir í þessum stíl. Við höfum þetta í milli fatahönnuða, dansara, söngvara, fjármálasnillinga, og kokka svo eitthvað sé nefnt.
Samt er engin þáttaröð jafn áberandi hvað varðar plat í þáttagerð og Survivor. Allt á þetta að líta raun verulega út. Þarna er kominn hópur af fólki sem sefur útí villtri náttúrunni og veiðir sér til matar. Þess á milli keppir það hvert við annað og kýs einhvern til þess að yfirgefa staðinn. Ef vel er að gáð þá er fólkið býsna sturtulegt að sjá. Það er ótrúlega hreint í framan. Karlarnir eru flestir með skegg en vel snyrt samt. Enginn er með fitugt eða skítugt hárið. Hvar er úfna, fituga, og flækjuhárið? Raunverulega ef þú værir út í óbyggðum þá myndir þú ekki ná að halda hárinu þínu svona góðu eins og sést þarna. Og skegg þarf að snyrta.
Fyrir eina kvöldstund þar sem þarf að kjósa fólk í burtu, sem dæmi, þarf að snyrta liðið þannig að það komi vel út í sjónvarpi. Svona aðeins að lagfæra og smínka líka (eða er það ekki?). Eða með öðrum orðum þá er hópur af fólki að dytta að þessu liði alveg stanslaust. Í rauninni heyrði ég einu sinni að þarna væri líka sérstakur starfsmaður í því hlutverki að ergja þetta fólk og gera það reitt. Trúi því hver sem vill.
Þarna eru leikir í gangi og margir af þeim teknir út frá mismunandi hliðum, en auðvitað þá sérðu hvergi tökumann eða merki um neinn slíkan, hvað þá hljóðmann eða einhverskonar tæknimann. Sem þýðir að atriði kunna að vera stöðvuð eða tekin upp aftur. Ef það verður einhver mistök við upptöku þá hljóta menn að taka upp aftur ekki satt.
Þegar upp er staðið þá er þetta bara alls ekki raunverulegir þættir. Ofangreint miðast meira eða minna við rökhugsun, hvað með restina sem við sjáum ekki? Þáttaröðin verður að virka og það verður að vera hægt að selja hana.
Svona þáttum fylgir í rauninni ekki mikill raunveruleiki. Það er fyrir einfalt fólk að halda annað. Þetta er í sjálfu sér blekkingarleikur sjónvarpsframleiðslunnar. Og sá sem vinnur er sá sem kemur best út við framleiðsluna, sá sem er flottastur á skjánum, ekki sá sem fólkið sjálft ákveður að kjósa í burtu. Eða er það ekki bara ansi líklegt?
Sjónvarp | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
23.10.2011 | 23:08
Heimsendir - gamanþættir eða alvara?
Heimsendir eru þættir á Stöð 2 sem fjalla um fólk á hæli upp í sveit. Hælið er ætlað fólki með geðsjúkdóma og það hús er ekkert sérstakt; stofnanalegt og hrátt með lélegu starfsliði og reglum sem hjálpa engum neitt sérstaklega. Þetta á allt að gerast árið 1992.
Eru þetta gamanþættir? Margir héldu þegar sami hópur bjó til þætti um nætur-, dag- og fangavaktir að um væri að ræða gamanþætti. Því hafa aðstandendur hins vegar hafnað og talað um efnið sem dramatískt fremur en annað. Vissulega hafa þeir þættir yfir sér kómískt yfirbragð og margur hló sig máttlausan útaf vitleysisganginum í Georgi og þeim félögum. Líkast til halda því sumir að Heimsendir eigi að vera gamanþættir en því er vel hægt að neita miðað við fyrri efnistök og umræðu og þeirri staðreynd að nefndir þættir eru á köflum full óhugnanlegir.
Þeir fara sumir á kostum þarna. Karl Ágúst Úlfsson er t.d. alveg ótrúlega góður í hlutverki geðsjúks manns. Svo vel er hann að ná þessu hlutverki að það varla að það glitti í manninn sem hefur verið að leika í spaugstofuþáttum sl. 22 ár eða svo. Jóhann Sigurðarson nær alveg ferlega vel tröllinu sem biður ekki um annað en sígarettur. Það er auðvelt að ofleika þarna en mér sýnist fæstir gera það. Að sjá Benedikt Erlingsson svona sljóan er alveg ótrúlega sérstakt.
Það sem er annars sérstakt þarna er hversu stofnanalegt þetta allt saman er, hversu lélegt starfsliðið er og undirmannað, og hversu reglurnar eru um leið slakar. Það er t.d. ótrúlega slakt að samþykkja að einn iðjuþjálfi fara í ferðalag með 6 sjúklingum sem hann síðan ræður ekki við aleinn, m.a. þegar fara á í sjoppu eða inná veitingahús þar sem allir nánast fara í sitthvora áttina til þess að fylgja þráhyggju sinni. Á sama tíma ákveður hjúkkan á hælinu að bregðast við mótmælum frá hópi sjúklinga með því að plata þá alla með sér inn í matsal, þar sem hún síðan læsir þá alla inni. Sem á faglegu máli myndi kallast slæm vinnubrögð og gróf valdbeiting. Þessi saga á eftir að enda með ósköpum.
Á svona saga erindi við okkur í dag? Einhver gæti sagt nei. Vegna þess að svona nokkuð er bara óhugnanlegt og vart sýningarhæft. Mín skoðun er samt sú að það eigi ekkert að fela þennan veruleika og hann megi alveg birtast í einhvers konar þáttaröð. Það voru stofnanir hér áður sem voru mikið verri en þessi Heimsendastofnun, með mikið leiðinlegri reglum og alveg jafn undirmannað og finna má þarna. Það er alger óþarfi að þagga þá staðreynd niður og í fínu lagi að sýna mynd þar sem að reglurnar eru brotnar og hlutirnir eru klárlega ekki í lagi. Þessi saga er að vísu ýkt en það er áhugavert að horfa á hana m.a. útfrá sjónarhóli fagmennsku.
Þetta er vel leiknir þættir, svona að mestu leiti, en mig grunar að Pétur Jóhann og Jörundur sem léku svo vel í vaktaþáttunum séu ekki að fara að stela senunni þarna, það sé í höndum annarra. Sem er náttúrulega bara mín skoðun.
Sjónvarp | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
14.7.2011 | 14:50
Extreme makeover þættirnir á Stöð 2
Extreme makeover er að hefja göngu sína á ný á Stöð 2 núna í júlí. Fyrir þá sem ekki hafa fylgst neitt með þessum raunveruleikaþáttum, þá fjalla þeir um fjölskyldur í Bandaríkjunum sem detta í lukkupottinn með þeim hætti að hús þeirra er eyðilagt, rústað, rifið algerlega og nýtt byggt á einni viku. Þessir þættir eru búnir að vera í mörg ár og þáttagerðin sýnist mér ekkert hafa breyst. Sami kynnir, rúta og vinnubrögð.
Þetta eru elskulegir raunveruleikaþættir þar sem fólk grætur í hverjum þætti, allavega tárast og góðverkin eru alveg á fullu. Þeir sem byggja húsið eru 100 manns eða meira og allt voðalega flott þegar upp er staðið. Á meðan er fjölskyldan höfð á hóteli einhversstaðar og getur fylgst með eyðileggingunni í gegnum skype. Hún veit hins vegar ekkert hvað verið er að smíða og sér ekkert fyrr en húsið er tilbúið.
Ég hef velt því fyrir mér hvort að enginn hafi orðið ósáttur við breytingarnar; húsið fellur ekki að smekk, herbergin ekki í réttum lit o.s.fr.v. Sem getur vel verið en slíkt kemur auðvitað ekki fram í svona þætti. Merkilegt hversu rík ein sjónvarpsstöð getur verið, að halda út svona gjafaþáttum ár eftir ár. Það er skollin á kreppa þarna úti en samt eru þessir þætti á fullu.
Hvernig er samt hús sem byggt er í einum grænum hvelli á einni viku? Húsið er byggt með hraði og undir pressu og þegar hús er byggð svona hratt , getur þá ekki verið að eitthvað gleymist? Hvað veit ég, þetta virkar allt svo flott þegar upp er staðið.
Hverju sem því líður þá er það svolítið annað sem hefur vakið athygli mína sem er hið samfélagslega. Það hefur nefnilega komið fyrir að næstu nágrannar og ýmsir aðrir á sama svæði hafi fyllst af öfund vegna þessara flottu raunveruleikaþáttahúsa og neitað að eiga frekari samskipti við fólkið í þeim. Þannig hafi sumir einangrast félagslega.
Svo er annað. Þegar fólk hefur búið lengi í litlu hreysi með biluðu baði og öllu hripleku; hvernig gengur því að sinna fallegu húsi með arin og allskonar íburði? Það þarf að viðhalda húsinu, þrífa það og halda því í horfinu. Hvað veit ég um það hvernig fólki gengur, en það er kannski ekki alltaf allt eins einfalt og auðvelt og það virðist í fyrstu.
Það er annars alltaf hægt að kíkja á þetta til þess að gleðjast og tárast. Vasaklútaþættir.
Sjónvarp | Breytt s.d. kl. 15:53 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
10.7.2011 | 12:06
Eldhúsmartraðir Gordons Ramsay's
Ég hef verið að horfa svolítið á labbitúra Gordon Ramsays milli veitingahúsa undanfarið. Ef þú ert með Stöð 2 um þessar mundir þá geturðu horft á þessa þætti. Þetta eru alveg ferlega spes þættir og gaman að horfa á þá en samt ekki kannski að staðaldri, viku eftir viku, heldur miklu fremur öðru hvoru. Sem er náttúrulega bara mín skoðun og þarf ekki að endurspegla skoðanir þjóðarinnar;)
Í síðasta þætti sem ég sá, þá fór Gordon til Costa del Sol og fann þar brezkan veitingastað í slæmum málum. Í eldhúsinu var einn ungur kokkur og hann var að elda samkvæmt 72 rétta matseðli, gestum hafði fækkað vegna þess að þeir fengu í magann, maturinn illa eldaður, kaldur eða bara frosinn. Á veröndinni var grillmeistari sem grillaði fremur illa matinn, of mikið stundum og geymdi auk þess til næsta dags einhvern hluta þess. Gólfin voru skítug og hægt að finna hundaskít við borð gesta.
Auðvitað fékk Gordon nokkur reiðiköst þarna. Kokkurinn fékk að finna endalaust fyrir því og allt gert til þess að laga staðinn á einni viku. Gólfin þrifin, skipt um grillmeistara, matseðlinum breytt, kokkurinn skammaður aftur og aftur, og tilraun gerð til þess að fá fyrri viðskiptavini til baka enda staðurinn í fjárhagslegri klessu.
Það sem ég er hvað mest að velta fyrir mér er hversu erfitt það hljóti að vera að ætla sér að breyta einhverju sérstöku á einni viku eins og Gordon er að gera þarna. Frábært hversu hann veit alltaf betur og hversu fljótur hann er að fatta vandann á jafnstuttum tíma (sem er mér reyndar til efs, úttekt hlýtur að hafa átt sér stað löngu fyrr).
Hins vegar þá er eitt þarna sem ég er að hnjóta um og það eru aðferðir Gordons, hversu mjög hann getur orðið reiður við fólk og skammast og rifist. Ef við tölum um það sem er hægt að læra í tengslum við stjórnun þá er það iðulega ekki vænlegt til árangurs. Fólk fer margt hvert bara í baklás og vinnur hlutina verr og mun verr en ef einhverri annarri aðferð væri beitt. Sem er þó ekki alltaf. Sumir eflast við skammir, adrenalínið fer út blóðið og það verður duglegra vegna þess að það er bara orðið reitt og reiðin keyrir fólkið áfram. Þetta er því nokkuð tvíbent. Ramsay er býst ég við að miða að hinu síðara ellegar eigi menn bara að yfirgefa eldhúsið.
Það er kraftur í þessu ekki spurning, en þættirnir er bara allir svo svipaðir. Allt í klessu, léleg vinnubrögð, Gordon veit betur, engir kúnnar og reiðiköst. Þess vegna er maður ekki að glápa á þetta nema bara í einhverju letikasti öðru hvoru, þegar maður hefur ekkert betra að gera, en langar til þess að sjá eitthvað kraftmikið sem er ekki svo fjarri manni sjálfum. Svona mannlega hluti sem geta gerst alls staðar.
Sjónvarp | Breytt s.d. kl. 12:22 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
19.2.2011 | 22:21
Dónaskapurinn í Dallas
Ég hef verið að horfa á Dallas undanfarið á dvd og er staddur í 5. seríunni miðri núna. Fyrir þá sem ekki vita þá fjalla þessir þættir um Ewing fjölskylduna sem á risastóran búgarð og öflugt olíufyrirtæki í Dallas Texas. Þessir þættir voru sýndir fyrst fyrir rúmlega 30 árum og eru ennþá vinsælir enda bezta sápuópera sem gerð hefur verið.
Ég man eftir sjálfum mér sem krakka við það að horfa á þetta. Alltaf sýnt á miðvikudagskvöldum og á sama tíma tæmdust göturnar. Þá hafði maður lítið vit á öllum þeim klækjum sem áttu sér stað þvers og kruss í þáttunum en andstyggilegt bros J.R. Ewing sat hins vegar alltaf eftir.
Eitt af því sem ég var ekki að velta fyrir mér hér í gamla daga er hvers sterk kjarnafjölskylda Ewing fjölskyldan í rauninni var. Hvorki J.R. né Bobby einsetja sér nokkurn tíma að fara að heiman. Þeir eiga sér báðir herbergi heima hjá mömmu og pabba og eiginkonurnar flytja bara inná heimili tengdó. Jock gamli vildi heldur ekki að þeir færu neitt í burtu né heldur nokkur sem tilheyrði fjölskyldunni og miss Ellie heldur þeirri stefnu eftir að Jock deyr. Það er ekkert persónulegt sjálfstæði hjá þeim bræðrum, engin tilraun til þess að búa sér og hasla sér völl með sitt eigið. Sem er nokkuð sem þriðji bróðirinn Gary Ewing gerir, sem þó er alla tíð fyrirlitinn sem veikgeðja og ekki eins harður og bræður hans. Nógu sjálfstæður er hann samt til þess að flytja burt og koma sjaldan á búgarðinn. Mér er spurn hvort þetta sé ekki vanmetinn persónuleiki?
Einu sinni fannst mér athyglisvert að fylgjast með framkomu fólks þarna. Það hefur t.d. vakið athygli mína hversu oft fólk er ekki að segja bless þegar það er að kveðja í síma. Það leggur bara niður tólið. Þetta eru jú bara sjónvarpsþættir en það er samt ósjaldan sem fólk gengur bara í burtu án þess að kveðja. Það er eiginlega bara alltaf. Ef vel er að gáð þá er hellings ókurteisi í þessum þáttum sem væri fyrir einhvern e.t.v. gott efni í eina góða ritgerð. Hún gæti heitið dónaskapurinn í Dallas!
J.R. Ewing er skúrkur og skíthæll sem er ekki við eina fjölina felldur í kvennamálum, enda heldur hann við allt kvenfólk sem hann kemst nærri. Hann er samt ekki jafn ofbeldishneigður og Bobby bróðir hans sem er ferlega oft laus höndin auk þess sem hann fær reiðiköst sem J.R. á ekki til. Að mínu mati er Bobby alls ekki eins ljúfur og mig minnti. Hann sem manni fannst að væri alltaf góði strákurinn þarna. Ég myndi samt ekki vilja þekkja mann með hans skapgerð né heldur hinn bróðurinn ef því væri að skipta. Ég man einu sinni eftir Bobby þar sem hann ruddist inn til Cliff Barnes, kýldi hann og lagði hann niður í sófann auk þess sem hann hótaði honum. Afskaplega spennandi maður til þess að þekkja eða þannig. Minnir helzt á handrukkara.
Það er gaman að horfa á þessa þætti aftur en ég efast um að ég myndi nenna að horfa á Dynasty eða Falcon Crest uppá nýtt enda ekkert kvikindislegt J.R. bros þar að finna.
Sjónvarp | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
21.3.2009 | 10:38
Árið hvað fórst flugvélin?
Charles Kingsford Smith hrapaði með flugvél sinni í sjóinn. Árið hvað var það segja menn? Það vantar alveg í fréttina. Reyndar segir að Kingsford hafi sett met árið 1928 þannig að líklegt er að hann hafi hrapað einhverjum árum síðar. Vissi samt ekki að þessi maður hefði verið til. Margur áður frægur hverfur í einhverja móðu og gleymist nema meðal áhugasamra sagnfræðinga eða ættingja sem langar að vita meira um forfeður sína.
Flugvél Smiths í leitirnar? | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Sjónvarp | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
2.6.2008 | 12:24
Sammála. Rúv taki þessa kvörtun til greina.
Það er hárrétt ákvörðun hjá Félagi heyrnarlausra að kvarta undan því að táknmálsfréttir voru felldar niður á fimmtudaginn. Heyrnarlausir ættu aldrei að verða útundan á meðan verið er að miðla mikilvægum fréttum og í rauninni ekki yfirhöfuð hvort sem fréttir eru mikilvægar eður ei. Táknmálsfréttir taka ekki mjög langan tíma í dagsskránni á degi hverjum og það hefði verið fínt ef heyrnarlausir hefðu fengið sitt þetta kvöld líka. Hvers vegna ekki? Einhverjar 10 mínútur í dagsskránni hefði ekki skaðað nokkurn hlut í sjálfu sér. Og það hefði vel verið hægt að hagræða hlutunum með því að ...
... benda öðrum áhorfendum á að fylgjast með mikilvægum upplýsingum á Rás 2 á meðan; að setja inn borða á skjánum hjá táknmálinu með mikilvægum upplýsingum og skilaboðum til fólks eða að setja inn lítinn kassa í öðru hvoru horninu (hjá Boga t.d.) og láta túlk koma þar inn á einhverjum áætluðum tíma. E. t. v. eru einhverjir fleiri möguleikar til sem vert er að skoða í þessu sambandi.
Leyfum heyrnarlausum að vera með í okkar samfélagi þannig að þeir hafi fulla rödd til jafns við okkur hin sem höfum heyrn.
Ósátt við að táknmálsfréttir féllu niður | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Sjónvarp | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
27.5.2008 | 18:50
Vandræðagangur og vitleysa hjá Dr. Phil
Hversu oft hefur maður ekki horft á Dr. Phil og dáðst að því hversu frábær hann er að tala við fólk og hvernig honum tekst að leysa alls konar vanda með gestum sínum. Það hefur þó komið fyrir að hann hefur vísað viðmælanda úr sjónvarpssal. Þetta gerðist einu sinni hjá Dr. Phil:
Svo er það viðtalið þar sem Dr. Phil lendir í hálfgerðum vandræðum og missir viðmælanda sinn alveg frá sér. Ekki bjóst maður við því að sjá eitthvað þessu líkt:
Endemis vandræðagangur! Ætli Oprah Winfrey hafi einhverntíma lent í einhverju svona?
Sjónvarp | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Síður
Tenglar
Mínir tenglar
Eldri færslur
- Júlí 2023
- Maí 2023
- Desember 2014
- Júlí 2014
- Ágúst 2013
- Júlí 2013
- Júní 2013
- Mars 2013
- Janúar 2013
- Desember 2012
- September 2012
- Júlí 2012
- Febrúar 2012
- Desember 2011
- Október 2011
- Ágúst 2011
- Júlí 2011
- Júní 2011
- Maí 2011
- Apríl 2011
- Febrúar 2011
- Janúar 2011
- Desember 2010
- Nóvember 2010
- Október 2010
- September 2010
- Ágúst 2010
- Júlí 2010
- Júní 2010
- Maí 2010
- Apríl 2010
- Janúar 2010
- Desember 2009
- Nóvember 2009
- Október 2009
- September 2009
- Ágúst 2009
- Júlí 2009
- Maí 2009
- Mars 2009
- Janúar 2009
- Október 2008
- Júlí 2008
- Júní 2008
- Maí 2008
- Apríl 2008
- Mars 2008
- Febrúar 2008
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.1.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 4
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 4
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar