Ég fór á Thorvaldssen í gær á alveg stórglæsilegt salsakvöld, þú veist þar sem fjöldi fólks hittist reglulega og hefur gaman af þessum stórskemmtilega dansi. Nema hvað að ég lenti á spjalli við fólk í tengslum við hvað væri áhugaverður dans. Margt kom uppúr dúrnum hvað væri áhugaverður dans margt var týnt til, allt getur kallast áhugavert nánast, nema hugsanlega...steppdans. Jú steppdans er dans þar sem fæturnar eru bara notaðir en ekki allur búkurinn! Ok dókí og ég fer strax að tala um eigin áhuga á þessu. Ekki það að ég hafi orðið neitt móðgaður, síður en svo. Það skiptir í sjálfu sér engu hvað maður iðkar í lífinu, hvaða list maður leggur fyrir sig og hvað maður vill sýna öðrum, það eru ætíð líkur á því að einhverjum muni ekki líka það. Af hundruðum manna sem hafa séð mig sýna steppdans þá hefur vafalaust einhverjum ekki líkað það og dæmt það harðlega en í gegnum tíðina hefur mér samt fundist mjög mörgum hafa fundist þetta skemmtilegt og gaman að þessu. Hvað veit ég, ég hef aldrei horft sjálfur á eigin atriði innan um mannfjölda.
Einhverntíma árið 1992 að mig minnir þá var ég að lesa Morgunblaðið og fann þar smáauglýsingu þar sem að boðið var upp á kennslu í steppdansi. Kennarinn skyldi vera frá Rússlandi og hefði auk þess próf í ballett. Nafni hennar er ég fyrir löngu búinn að gleyma. Ég ákvað bara að skrá mig og fór. Þá mun ég hafa verið rétt um 22 ára eða svo. Námskeiðið fór fram í aðstöðu listdansskóla Þjóðleikhússins uppá Engjateigi og þangað mætti ég galvaskur, tók 6 tíma í þessu að mig minnir og ég mætti auðvitað alltaf einu sinni í viku á þriðjudögum. Skelfing hvað mér gekk oft illa á þessu námskeiði. Sporin voru erfið, ég botnaði oft ekkert í þessu, þurfti að finna taktinn í lifandi píanóleik og kennslan fór fram með hraði. Þá þótt mér kennarinn strangur og manni var pískað áfram í klukkutíma eða einn og hálfan annað hvort. Ef mér mistókst sporin þá var umsvifalaust bent á mig. Einnig ef ég var ekki beinn í bak eða horfði niður.
Með þetta fór ég heim og æfði mig eins og ég gat enda fannst mér þetta bráðskemmtilegt. En stálið vantaði samt undir skónna. Ég spurðist fyrir hingað og þangað. Talaði við fólk í skólanum en það vissi einhvernveginn enginn neitt. Ég fór fljótlega í skóbúðir til að finna hentuga skó og fann eina sem mér leist vel á sem voru þesslegir að ekki þyrfti að reima þá; ég hélt líka áfram við að spyrjast fyrir um hvar hægt væri að finna stál undir skó. Fólk yppti öxlum. En auðvitað á maður alltaf góða að. Úr varð að pabbi skyldi slá stálið undir skónna sem hann og gerði. Hann eyddi mörgum kvöldum í að slá stálið undir sem kallast auðvitað að vera hagleiksmaður enda duga skórnir mér enn 18 árum síðar. Að vísu hefur þurft að festa stálið betur einu sinni en ég kem að því síðar.
Veturinn 1992-1993 hamaðist ég við að æfa mig og vorið ´93 ákvað ég svo að koma með eitthvað af þessu þegar kom að því að leika í skólaleikriti. Það voru samt ekki mörg spor. Tikki takk - tikki takk, tá - hæll - tá, tá- hæll - tá. Mig dreymdi í rauninni alltaf um að geta gert eitthvað með þetta en sjálfstraust er auðvitað mikilvægt að hafa ef á að dansa svona fyrir aðra. Er maður til í að taka gagnrýni fyrir svona dans? Það hef ég þurft að gera. Ég man reyndar eftir sjálfum mér á sviðinu í íslensku óperunni (fullur salur af fólki) þar sem við vorum að sýna atriði úr leikritinu - Sjúk í Ást hét það eftir Sam Shepard. Það var undirbúningur fyrir árshátíð FÁ að mig minnir. Ég tók örfá spor en færðist samt ekki til á sviðinu, þá bar mér að segja nokkur orð sem tilheyrðu hlutverkinu. Eftir á að hyggja var ég ekkert sérstaklega ánægður þá með innkomu og fannst eitthvað. Auðvitað gott að vera gagnrýnin á eigin frammistöðu en samt ekki um of.
En jæja, sagan heldur áfram. Ég hamaðist við að dansa fram og til baka (aleinn í einrúmi) og hafði til þess afnot af söngsal Laugarnesskólans. Mátulega stór salur þar sem ég gat verið í friði á kvöldin. Ef hægt er að brenna mikilli orku líkamlega þá er það við svona iðju. Svo var að vera beinn, horfa ekki niður á skónna, nota hendurnar rétt, hreyfa allan líkamann, tjá sig, og ég fór sjálfur að semja einhver spor.
Samt vantaði mig innblástur. Ég leitaði uppi allar steppdansmyndir sem ég gat fundið. Ég lá yfir dansmyndum, sérstaklega með Fred Astaire. Top hat er mynd sem ég horfði milljón sinnum á og geri enn. Sérstaklega atriðið þar sem hann er að dansa eins og vitleysingur á hótelherbergi og Ginger Rogers getur ekki sofið fyrir hávaðanum. Ég fann einnig Gregory Hines í myndinni Taps. Sá er ekkert líkur Fred Astaire, en með honum í þeirri mynd er hópur áttræðra gamalmenna að dansa steppdans! Alveg stórkostlegt að horfa á það.
Þannig lá ég yfir sporunum, fór og æfði mig, spólaði fram og til baka, æfði mig og þannig liðu heil tvö ár í stanslausu puði. Námskeið í steppdansi hef ég ekki orðið var við eftir þetta eða þá að það hefur farið rækilega fram hjá mér.
Svo kom að því að ég teldi mig nógu góðan til þess að gera alvöru skemmtiatriði úr þessu. Frá því langar mig að segja næst þegar ég held áfram að blogga um þetta, einhverjum til skemmtunar vonandi, ekki til þess að gorta af einhverjum svaðalegum danshæfileikum heldur miklu fremur til þess að deila einu af mörgum áhugamálum og svona smásögu ;)
Framhald fljótlega...
Flokkur: Bloggar | 30.10.2010 | 00:30 (breytt 18.1.2013 kl. 20:48) | Facebook
Síður
Tenglar
Mínir tenglar
Eldri færslur
- Júlí 2023
- Maí 2023
- Desember 2014
- Júlí 2014
- Ágúst 2013
- Júlí 2013
- Júní 2013
- Mars 2013
- Janúar 2013
- Desember 2012
- September 2012
- Júlí 2012
- Febrúar 2012
- Desember 2011
- Október 2011
- Ágúst 2011
- Júlí 2011
- Júní 2011
- Maí 2011
- Apríl 2011
- Febrúar 2011
- Janúar 2011
- Desember 2010
- Nóvember 2010
- Október 2010
- September 2010
- Ágúst 2010
- Júlí 2010
- Júní 2010
- Maí 2010
- Apríl 2010
- Janúar 2010
- Desember 2009
- Nóvember 2009
- Október 2009
- September 2009
- Ágúst 2009
- Júlí 2009
- Maí 2009
- Mars 2009
- Janúar 2009
- Október 2008
- Júlí 2008
- Júní 2008
- Maí 2008
- Apríl 2008
- Mars 2008
- Febrúar 2008
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.1.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 4
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 4
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar