Jólahugleiðing

Einu sinni voru fjárhirðar út í haga.  Fullt af sögum byrja svona. Einu sinni var ... og svo heldur sagan áfram og leiðir okkur áfram inn í veröld sem við vissum ekki að væri til neins staðar nema bara í bókum.  Eða þá að sagan leiðir okkur inn í heim sem við vitum að var einu sinni, fyrir mörgum árum eða öldum.  Hvað svo sem sagan segir okkur þá bregður hún fyrir okkur hugmynd, hugmynd um eitthvað. 

Einu sinni voru fjárhirðar út í haga sem höfðu ekki hugmynd um neitt sérstakt og áttu ekki von á neinu.  Það er eins með okkur hin. Við erum stödd í lífi okkar og eigum ekki von á neinu sérstöku. Ekki neinu sem er öðruvísi en venjulega. Nema hvað óvæntar fréttir geta alltaf borist. Góðar eða slæmar. Ein gleður meðan önnur skelfir.  Á einu augabragði getur allt breyst, þó svo að hvorki ég nei nokkur annar vilji það. En svo geta óvæntar breytingar líka verið fagnaðarefni. 

Svo segja menn að allt hafi breyst á Betlehemsvöllum fyrir margt löngu síðan. Það fæddist barn inn í þennan heim. Það átti eftir að alast upp og verða 33 ára eða svo. Sem er ekki langur tími.   Það er reyndar búið að segja þessa sögu margoft. Hún er bæði gömul og ný.  Og þú spyrð hvað sé nýtt. Það eru alltaf að fæðast börn inn í þennan heim. Á hverri mínútu fæðist barn eða jafnvel sekúndu. Það deyr líka fólk á hverri mínútu. Hús eru byggð og þau eyðilögð. Það lifnar við og fellur í sífellu. Ekkert virðist lifa að eilífu. 

Nema hvað það það verður alltaf til birta, ljós einhversstaðar frá. Einmitt það er svo gleðilegt. Ég þrái birtu og yl eins og allir aðrir.  Án húsaskjóls, ljóssins heima og án þess að geta glaðst með öðrum er mikils farið á mis.  Jólin eiga að benda okkur á það sem við í raun höfum. Við höfum fullt af hlutum. Stærsti hluturinn er að við höfum hvert annað. Í því er stærsta ljósið fólgið. 

Í myrkri erum við týnd. Við vitum ekki hvar við erum nákvæmlega og við vitum ekki hvar aðrir eru. Nema hvað sem glámskyggn sjáum við kannski útlínur og þekkjum raddir.  Við heyrum talað um hið sanna ljós sem kom í heiminn. Það er kertið sem tendrað er í myrkrinu. Sem lýsir upp og um leið þekki ég þig og viðurkenni sem minn vin og jafnvel aðeins meira en það. 

Lífið er fullt af atvikum, góðum og slæmum. Inn í það blandast myrkur, ljós og skuggar. En þar innanum höfum við tækifæri til þess að skapa. Þó að við séum misjafnlega góðir smiðir, þá er eitt besta og skemmtilegasta sköpunarverk lífsins það sem við gerum nú á líðandi stundu,  nákvæmlega það sem verður að góðum minningum seinna meir. 

Það er auður að eiga góða minningar úr lífinu. Ef þú minnist margs sem er gott og ánægjulegt má segja að þú eigir margt. Til er fólk sem minnist ekki margs sem kalla má skemmtilegt, en þó alltaf einhvers.  Líka það er til að hugsa um. Hvað vitum stundum ekki hversu mikið við eigum fyrr en einhver bendir okkur á það eða við speglum okkur í því sem er okkur andstætt. 

Sagan um Jesúbarnið er gömul saga og ný. Gömul vegna þess að hún hefur verið  margoft sögð í gegnum aldirnar. Ný vegna þess að hún minnir okkur á um hver jól hver við erum og hvað við eigum. Við eigum fullt af hlutum en þeir eiga það til að hverfa okkur í önn hversdagsins. Við eigum hvert annað en okkur hættir svo til þess að taka því öllu hversdagslega. Það er gleðin yfir lífinu sem sagan segir okkur frá. Sagan er ný vegna þess að hún fjallar um undur og gleði lífsins. Þannig verður hún tímalaus. 

Og hamingjan sjálf er ekki fólgin í peningum heldur góðum hugmyndum.  Að skapa og gleði og  hamingju fyrir aðra er góð hugmynd. Megir þú eiga góð jól. 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Þórður Guðmundsson

Þórður Guðmundsson þroskaþjálfi

Nýjustu myndir

  • bill cosby 620x480 cemrf
  • ATI-lower-review-polymer
  • ATI-lower-review-polymer
  • download JFK
  • Aretrov

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.11.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku:
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku:
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband