Af stórbruna í Kópavogi sumarið 1987

Sumarið 1987, fyrir réttum 36 árum síðan, brann verksmiðjuhúsnæði Málningar hf í Kópavogi. Þetta var stórt reisulegt hús, staðsett við Marbakkabrautina; stutt var niður að fjöru og hinum megin við víkina Fossvogskirkjugarðurinn en aðeins fjær Nauthólsvíkin hvar margur í dag stundar sjósund ellegar nýtir sér manngerða baðströnd. 

Það veit enginn afhverju kviknaði í þessu húsi. Það var bara fallegur þriðjudagur í júlímánuði eða með réttu þriðjudagurinn 14.júlí 1987. Það er auðvelt að gúggla fréttir um þetta atvik, það var fjallað um þetta í öllum fréttamiðlum á sínum tíma. Þar er sagt frá því að enginn hafi látið lífið en einn maður hafi þó slasast lítillega. Sá maður var víst ég, sá eini af 36 starfsmönnum sem þurfti að fara meiddur niður á bráðamóttöku, reyndar ásamt öðrum manni en hann fór vegna reykeitrunar. Við fórum tveir saman en þó ekki í sjúkrabíl. Það er saga að segja frá því. 

Þegar ég var 16 ára gamall (bráðum 17) þá bauðst mér sumarvinna í málningarverksmiðju. Þetta var vinna við að fylla dósir af málningu, og tappa á ýmsa brúsa auk þess að loka þeim. Við gerðum þetta á neðri hæðinni. Á þeirri efri var málningin blönduð saman með ýmsum hráefnum og svo var hún látin fljóta niður hvar við strákarnir færðum málninguna í dósirnar. Gott og vel. 

Þennan nefnda þriðjudag þá fannst mér andrúmsloftið mettaðra en ég var vanur. Það var eitthvað öðruvísi en vanalega. Við vorum tveir strákar á sama aldri að vinna við að fylla á dósir í vestari hluta hússins þegar við sjáum mann í hvítum slopp með vatnsslöngu sem hann beinir að miklum þykkum gulum reyk. Við hlupum í áttina til hans en þegar hann sér okkur þá skipar hann okkur að yfirgefa húsið strax. Hann var kallaður Músi þessi maður, mun eldri en við líklega um fertugt. 

Við hlupum út en sú leið sem við fórum var ekki sú allra besta, við vissum hreinlega ekki betur, vorum ungir og völdum nærtækustu leiðina sem er ósköp eðlilegt. Við fórum út með því að opna tvær stórar stálhurðir sem voru iðulega opnaðar þegar vörur á brettum þurftu að fara beint út í flutningabíla. Þannig að þegar út var komið þá vorum við komnir út á smá pall. Þegar ég var rétt kominn út þá sný ég mér við til þess að gá að Músa. Við það kemst súrefni inn í húsið og úr varð sprenging innandyra, þó ekki með eldspúningu en krafturinn var þó alveg rosalegur. 

Stálhurðirnar fóru báðar af hjörunum og skall önnur þeirra á mér. Við það skutlast ég um 20 metra burtu frá húsinu yfir heilt bílaplan. Þarna var ómalbikað bílaplan hvar oft voru einhverjir bílar, það var samt enginn bíll þennan dag og fjær voru iðulega einhverjir gámar. En fyrir einhverja ótrúlega lukku þá lendi ég hvorki á bíl eða gámi heldur möl og missi meðvitund í eitt augnablik. Í minningunni man ég þó eftir því að þegar ég er að skutlast þetta frá húsinu þá sé ég hvar hópur starfsmanna er þegar kominn út og er á leiðinni frá húsinu. Sá hópur sér hvar hurðir fara af hjörum og menn eru að kastast frá húsinu. 

Planið fylltist allt af reyk og þar lá ég einhversstaðar í miðjum reyk nálægt einhverjum gámi sem ég lenti sem betur fer ekki á, nema hvað að ég sé hvar Músi kemur hlaupandi frá húsinu, hann rífur mig upp hálf vankaðan og við hlaupum báðir niður í fjöru. Margir af starfsmönnunum hlupu niður að fjöruborðinu á þessum tímapunkti og voru þar fyrst í stað, dauðhræddir um að húsið myndi springa í loft upp hvað úr hverju þar sem þarna voru heilu tankarnir af mjög eldfimum efnum.  Ég man eftir sjálfum mér þarna við fjöruborðið hugsandi um það að þarna væri maður kominn að endapunkti lífsins. Svo horfði maður uppí mötuneytið þarna á efstu hæðinni sem stóð alveg í ljósum logum. Skyldi gamla konan, matráðurinn hafa náð að komast útúr húsinu? Það var víst svo, hún hafði þurft að bregða sér aðeins af bæ. 

En svo kom í ljós að þessi ótti, að allt myndi springa í loft upp var ástæðulaus og við fikruðum okkur frá fjörunni framhjá brennandi húsinu og allt í einu var maður kominn handan við gulan borða,og handan við götuna fyrir ofan verksmiðjuna.  Eins og gerist oft og iðulega þegar hús brenna þá drífur að fullt af fólki sem þarna þurfti að girða af og halda í skefjum. Já einmitt og þar stóð ég í einhverntíma. En áður en til þess kom þá höfðu komið tveir sjúkrabílar og þeim sagt umsvifalaust að enginn hefði slasast eða dáið og fóru þeir þá strax aftur. Um það vissi ég ekki neitt. Ég sá aldrei neinn sjúkrabíll mæta þarna til svæðis. Ég standandi þarna í mannfjöldanum fór hins vegar smám saman að finna til í hægri olnboga og bretti þá upp ermina til þess að gá. Reyndist þar vera stórt svöðusár. Við hliðina á mér stóð þá bandarískur maður, Bill að nafni, sem sér þetta sár um leið og ég og tekur mig strax með sér til forstjóra fyrirtækisins og annarra hærri settra starfsmanna sem tilheyrðu nefndri verksmiðju. 

Þar sem sjúkrabílarnir voru farnir og víst að þeir kæmu ekki aftur, þá var tekin ákvörðun um það að við færum tveir niður á bráðamóttöku, ég og Músi. Forstjórinn keyrði okkur í sínum einkabíl. Músi fór vegna reykeitrunar, ég fór vegna sársins á olnboganum en fleira átti eftir að koma í ljós þegar komið var niður á spítala. Ég var einnig með stóra rispu á hægra læri hvar ég átti eftir að vera með ör til margra ára en blessunarlega hefur það horfið með tímanum og olnboginn beið ekki skaða af þessu atviki.

Það var engin áfallahjálp til á þessum tíma. Hún var bara ekki til á neinn hátt. Bara alls ekki. Það var enginn sem spurði að því hvort væri allt í lagi með strákinn sem fékk stóru stálhurðina á sig og kastaðist þarna eitthvert yfir heilt bílaplan. Það var enginn sem ákvað að fara að gá að drengnum, bara upp á hans eigin sálarheill.  Foreldrarnir voru staddir á Rhodos þannig að það var enginn til þess að spjalla við þegar heim var komið. Og það hringdi enginn til þess að spyrja neinnra spurninga þó svo að margur vissi að ég hefði verið að vinna þarna. Það sem strákur hins vegar gerði var að hann fann sér sjálfur eyru til þess að spjalla við, og hann fór í tvígang að rústunum. Það er í minningunni gott að hafa gert. Ég man að ég fann þar brosandi elskulegan lögreglumann og við skoðuðum þetta saman sem var óskaplega gott. Hver það var veit ég ekki en bestu kveðjur til hans. 

Sjokkið vegna þessa er ennþá til staðar. Hvað ef maður hefði hreinlega fengið hurðina bara hreinlega í hausinn! Þá væri ekki sökum að spyrja. Ef það hefðu verið bílar á planinu eða gámarnir staðið öðruvísi...!! Ef ég hefði staðið öðruvísi á pallinum, nær eða fjær, örlítið meira til vinstri eða hægri.. Þarna munar bara alveg óskaplega litlu að illa hefði getað farið. Hitt undrar mig hins vegar alltaf hvernig Músi lifði þessa sprengingu af!!? Tími hvorugs okkar var kominn þarna, það er það eina sem við getum sagt. Annað ekki. 

Það sem ég vildi segja í lokin er einfaldlega mikilvægi áfallahjálpar þegar fólk lendir í svona. Það að hafa lent í atviki sem þessu verður aldrei tekið frá manni. En það hjálpar að tala öðru hvoru um það. 

 

 

 

 

 


« Síðasta færsla

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Þórður Guðmundsson

Þórður Guðmundsson þroskaþjálfi

Nýjustu myndir

  • bill cosby 620x480 cemrf
  • ATI-lower-review-polymer
  • ATI-lower-review-polymer
  • download JFK
  • Aretrov

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 4
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 4
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband