Bloggfærslur mánaðarins, september 2010

Verður seint bannað hér á landi

 Ekki veit ég hversu mikið fólk almennt veit um kaþólskar jarðarfarir en þær eru frábrugnar því sem maður sér í lúterskum kirkjum.  Það er nefnilega alltaf altarisganga.  Lúterskar jarðarfarir eru ekki þannig eins og allir vita.  En talandi um kaþólskuna þá finnst mér í sjálfu sér nokkuð sérstakt að hafa altarisgöngu, jarðarfararathöfnina sjálfa og popptónlist. Fyrir mér þá er það nokkuð sérkennileg blanda.  Það er heldur engin líkræða í kaþólskum kirkjum. Það telst ekki við hæfi að prestur flytji einhverja tölu svoleiðis um hinn látna.  

Hingað til hefur verið eðlilegt að hafa ýmiss konar tónlist í kirkjunum okkar eins lengi og tónlistin er við hæfi. Engum dytti í hug að hafa lag eins og Komdu og skoðaðu í kistuna mína við jarðarför og enginn prestur myndi leyfa það býst ég við. Það gerðist þó fyrir einhverjum árum að líkfylgd átti sér stað einhversstaðar fyrir norðan, veður var kalt og menn tóku að skvetta í sig á leiðinni til kirkju. Þegar komið var að kirkjunni með kistuna þá voru menn orðnir vel hífaðir og byrjaðir að syngja nefnt lag og það alveg hástöfum. Þannig ultu menn út úr bílunum og svaka fjör hlaupið í menn. Það datt hins vegar engum í hug að syngja lagið í kirkjunni þegar þangað kom inn. Þar kunnu menn sig.

Það er hægt að velja sér hvaða prest sem er nánast fyrir athöfn. Velja kirkjuna og söngfólkið, allt svona nokkuð eftir smekk en það eru takmörk samt í kirkjunni hvaða tónlist þú velur að hafa, hvort heldur sem á að vera hjónavígsla eða jarðarför. Eitt sinn vildi par nokkurt hafa lagið Einskonar ást með Brunaliðinu við hjónavígsluathöfn.  Jú það byrjar alveg hrikalega vel. Þig vil ég fá til að vera mér hjá....vertu nú vænn og segðu já....(hljómar brúðkaupslega)....því betra er að sjást en kveljast og þjást af eins konar ást.... en svo þegar tekur að líða á textann þá fer hann að hætta að vera brúðkaupslegur ....þar sem við tvö! Getum vakið upp draug, af eldgömlum haug....hættum að slást og reynum að finna einskonar ást!  Málinu var vísað frá. Textinn passaði ekki við nefnda athöfn. Fjöldi laga býst ég við að hafi ekki hlotið náð hjá sóknarprestum í gegnum tíðina hvernig svo sem átti að nota tónlistina. 

 Sum lög í dag eru orðin sígild við jarðarfarir eins og When I think of Angels með KK.  Við breytum líkast til seint slíkri menningu. Svo eru það tónlistarmenn sem hafa lifibrauð af þessu sem og eru þekktir í poppbransanum. En það máttu vita að það verður rýnt í textann ef þér dettur í hug eitthvað lag sem engum hefur dottið í hug áður. 


mbl.is Popptónlist bönnuð í jarðarförum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Nei við umræðu um afsögn biskups

Það hefur verið talað um það að undanförnu að af ýmsum ástæðum ætti biskup Íslands að víkja. Mér finnst þessi umræða bæði léleg og ómerkileg.   Það er alveg merkilegt hversu kirkjunnar menn geta verið að mæta í bæði útvarp og sjónvarp til þess að koma fram með slíkar hugmyndir

Í fyrsta falli. Hvers vegna í ósköpunum á Karl Sigurbjörnsson að hætta að vera biskup yfir Íslandi? Það að hann mæti í sjónvarpsviðtal og tali við einhverja fréttamenn, á þann veg sem einhverjum líkar ekki, gefur ekki forsendur til afsagnar. Ekkert í biskupsverkum Karls hingað til gefur þess heldur neinar forsendur til afsagnar. 

Talað hefur verið um atvik sem áttu sér stað áður en Karl varð biskup, meðan hann var prestur í Hallgrímskirkju og átti samskipti við nefndar konur í kynferðisafbrotamáli gegn Ólafi biskupi.  Vel getur verið að þar hafi verið staðið klaufalega að málum, en nota bene, það kemur starfi Karls sem biskups í dag ekkert við. Þá var hann ekki með nein sérstök völd (fyrir utan það að vera sóknarprestur) og réði ekki ferðinni.  Málið er að mínu mati, í heild sinni, með full flókna atburðarrás til þess að Karl einn þurfi að blæða fyrir það í dag.

Það að nefndur biskup hafi sýnt af sér klaufaskap hér eða þar (kom illa fyrir í fjölmiðlum, sagði eitthvað ógætilega einu sinni, mistókst eitthvað, var ekki nógu ákveðinn, mundi ekki, o.m.fl.) er ekki nægileg ástæða til þess að hann hætti sem biskup. Til þess þarf meira að koma til. Það sem ég nefni hér innan sviga er hluti af því að vera jú bara mannlegur. Sá yðar sem syndlaus er kasti fyrsta steininum í Karl biskup!

 

Athyglisvert

Það er hægt að skemmta sér alveg sérstaklega við að hugsa um þetta. Sérhver trúmaðurinn hugsar sér nú að það hafi verið Guð og ekkert annað sem skapaði heiminn. Látum það aðeins vera í bili. Þessar hugmyndir Hawkings eru athyglisverðar en vissulega er hægt að fá hausverk við að hugsa þær allar til enda. 

Ef við leikum okkur aðeins að röksemdarfærslum. Það sem kom heiminum af stað var ekkert. Ef við hugsum okkur orsök of afleiðingu þá gætum við farið endalaust aftur á bak og það alveg stanslaust þannig að upprunalega þá var það ekkert sem kom öllu af stað.  Þegar fyrirbrigðið ekkert er, algert tóm alveg stanslaust, nei enginn tími heldur, verður það þá ekki að lögmáli? Sem sagt ekkert, algert tóm verður að lögmáli, sem sagt ekkert verður að veruleika í sjálfu sér.  Hvað svo?  Heyr heyr guðfræðinginn tala. En við erum ekkert að tala um trúmál hér, aðeins hugmyndir um tilveruna. Hawking er býsna klár og gaman að velta honum fyrir sér. Hversu rétt hann hefur fyrir sér veit ég ekki, ég kann ekkert í eðlisfræði.  

Tilveran er skrítin og það er hverjum manni ofvaxið að velta fyrir sér tilurð alheimsins. Ýmsir telja sig vita þetta allt út frá Biblíunni eða einhverju innsæi. Hvað svo sem það er sem fólki finnst eða trúir þá er þarna einhver sannleikur sem e.t.v. á eftir að koma í ljós og kannski aldrei, sérstaklega vegna þess hversu takmörkuð við mannfólkið erum. Að hugsa sér að alheimurinn sé endalaus veldur þér alveg pottþétt hausverk ef þú ferð að hugsa um það.  Það er heldur ekkert auðveldara að hugsa sér það að öll þau sólkerfi sem mannkynið er búið að átta sig á og ekki á, að séu til, allar þessar vetrarbrautir, séu líklega bara lítið geimryk í endalausu tómi. Spáðu í því.  Miklihvellur var þá kannski bara eitt agnarlítið búmm.

Svo er hægt að halda áfram og vera með hausverk fram yfir helgi sökum þessa. Algert tóm felur ekki í sér vegalengdir vegna þess að þú ert ekki á leiðinni eitt né neitt. Innan þess erum samt við á lítilli kúlu sem við komumst ekki frá, sem okkur finnst stór, en er samt svo smá í alheiminum að líkja má við  það sem við sjálf sjáum ekki nema í smásjá. Allt þar utanum hangir þar í þyngdarlögmáli Hawkings. Geimryk handa geimverum sem Hawking will ekki að fatti að við séum þarna einhvers staðar. 

Meira ljóta bullið allt saman. 

 

 

 


mbl.is Ljóst að Guð skapaði ekki heiminn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Höfundur

Þórður Guðmundsson

Þórður Guðmundsson þroskaþjálfi

Nýjustu myndir

  • bill cosby 620x480 cemrf
  • ATI-lower-review-polymer
  • ATI-lower-review-polymer
  • download JFK
  • Aretrov

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 4
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 4
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband