Bloggfærslur mánaðarins, janúar 2011

Rokland - kvikmyndagagnrýni. 4 stjörnur

Það er ekki auðvelt verk að ráðast í bækur Hallgríms Helgasonar og ætla sér að búa til bíómynd. Til þess er Hallgrímur djúpur og fullur af táknum og merkjum sem ekki er auðvelt að sjá.  Myndin 101 Reykjavík tókst ágætlega en fáir vita hversu mjög Hallgrímur sækir í Hamlet í því verki.  101 Er yfirfull af nöfnum, hugmyndum og atvikum sem eiga sér rætur í Hamlet Shakespeares.

Rokland er í raun harmleikur. Ef við myndum taka þessa bók og skoða hana ofan í kjölinn myndum við á endanum finna hina miklu vél sem einkennir verk Shakespeares. Þar er t.d. framvindan uppá við þar sem aðalpersónan nær völdum en ræður ekki við þau,  eða aðalpersónan hrekst af stalli og leiðin liggur niður á við í stanslausum ósigri. Allt það með tilheyrandi fléttum. Makbeð er til að mynda ekki harmleikur heldur martröð hyldýpis sem aðalpersónan fellur dýpra og dýpra í. Ríkharður III er aftur á móti harmleikur þar sem konungurinn hrekst áfram í ósigri og leggur að lokum á flótta. Sem minnir ögn meira á Rokland en þó ekki að öllu leiti.

Aðalpersónan  í Roklandi Böddi er maður sem finnur sér illa stað í tilverunni. Hann hrekst áfram eins og í vondu veðri og hver einasta stoppistöð er mörkuð einhversskonar áfalli og vonleysi eða firringu. Í sjálfu sér minnir hann svolítið á Hamlet sem missir fótanna í tilverunni og verður vitfirringu og stjórnleysi að bráð. 

Það er einstaklega gott að sjá að handritshöfundar Roklands hafa áttað sig á einmitt eðli og framvindu harmleiksins í verki Hallgríms. Sagan hefst í Drangey þar sem Böddi er með skólakrökkum í skoðunarferð. Hvað gerist þar á undan skiptir í raun ekki máli. Svartklæddir skólakrakkar í skólastofu eru táknmynd þess harmleiks sem framundan er þar sem fyrsta áfallið hefst  með brottvikningu Bödda úr starfi og leiðin liggur niður á við smátt og smátt.  Handrit myndarinnar er að mestu leiti gott. Framvindan sögunnar er góð nema hvað einstaka atvik virka órökrétt sem truflar þó ekki söguna neitt sérstaklega.

Böddi er eitthvert sambland af trúði, hallærispeyja, og skáldi. Hann verður að trúði þegar hann er notaður án þess að átta sig á því, að skáldi þegar hann yrkir ljóðin sín og hallærispeyja með úfna hárið sitt sem hann nennir ekki að hirða.  Ólafur Darri nær þessu nokkuð vel og ber myndina uppi allan tímann án þess að missa niður dampinn.  Elma Lísa á næst stærst hlutverkið sem gellan á staðnum sem sefur hjá öllum. Fínn leikur hjá henni en ég hefði viljað sjá hana aðeins sjúskaðri. Allir leikarar standa sig annars vel að mínu mati. 

Myndatakan er góð og sviðsmyndin er fín. Skemmtilegt hvernig teiknimynd er skeytt inn í atburðarrásina til þess að tjá reiði Bödda. Þá um leið birtist athyglisverður böðull (sem líklegast á að hafa ákveðna tilvísun í Gretti Ásmundarson) sem heggur hausinn af hinum og þessum. Grettir er í sögunni eins konar ímynd einhvers konar hetjuskaps sem Böddi á í raun ekki til og þessi ímynd er það eina sem hann í rauninni á og heldur í, einskonar hálmstrá, ásamt ímynduðum hugmyndum um það að hann sé í sjálfu sér eitthvert bloggskáld.

Svo fer Böddi ríðandi af stað í áttina til Reykjavíkur. Vel getur verið að Hallgrímur hafi fengið þá hugmynd frá Ríkharði III sem verður stöðugt veikari og veikari sem persóna og endar á því að flýja burt frá aðstæðum sínum á hestbaki. Leið hans liggur niður á við, alveg eins og gerist í raun hjá Bödda. Hér verður ekki meira sagt enda er myndin mun innihaldsmeiri en sagt hefur verið hér.

  

 


Höfundur

Þórður Guðmundsson

Þórður Guðmundsson þroskaþjálfi

Nýjustu myndir

  • bill cosby 620x480 cemrf
  • ATI-lower-review-polymer
  • ATI-lower-review-polymer
  • download JFK
  • Aretrov

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.11.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku:
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku:
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband