Bloggfærslur mánaðarins, júlí 2012
23.7.2012 | 20:25
Prédikun flutt í Grafarvogskirkju sunnudaginn 24. júní 2012
Bæn: Ó, Jesú, gef þinn anda mér,
allt svo verði til dýrðar þér
uppteiknað, sungið, sagt og téð.
Síðan þess aðrir njóti með.
Náð sé með yður og friður frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi. Amen.
Því hefur verið fleygt að dýr velti ekki hugsunum sínum fyrir sér, að þau hugsi ekki um hugsanir sínar. Það geri menn hins vegar og jafnvel í stórum mæli, þeir eigi það til að flækja hlutina og hafa þá svo gáfulega að það gengur illa fyrir ýmsa aðra að skilja listaverk þeirra. Leikrit Shakespeare eru t.a.m. mörg hver flókin og það þarf ákveðið grúsk til þess að skilja flækjurnar þar. Nokkrar aldir eru síðan þau verk voru rituð. Bækur James Joyce eru einnig þannig, sérstaklega Ódysseifur Ulysses, sem margir hafa gefist upp á að lesa. Bækur Dostojevski eru líka flóknar og erfitt að rýna í þær.
Dæmisögur Jesú eru miklu eldri, hann skráði þær reyndar ekki sjálfur á bókfell, það gerðu lærisveinar hans. Þær eru myndrænar, og tengjast iðulega nánasta umhverfi hlustandans.
Við sjáum fyrir okkur fjöll, dali, tún og garða. Sauði innan girðingar, og fólkið sem dvelur þarna á þessu tiltekna svæði. Eðlisávísun er hægt að rækta með sér, tengsl við náttúruna en svo virðist samt oft vera að sumir séu náttúrubörn að upplagi, á meðan aðrir eru það ekki.
Hefur þú einhverntíman villst? Í stórborg? Ókunnu landi? Eða kannski einhversstaðar þar sem enginn er, þ.e. í óbyggðum? Hvort heldur sem er, þá er það býsna ónotaleg tilfinning að vita ekki lengur hvar maður er staddur, hvaða leið skuli fara, í hvaða átt. Dæmi er um að maður leggi af stað frá einum reit í frumskógi, gangi í þó nokkurn tíma en endi síðan á sama reitnum eða m.ö.o. hann gekk í hring án þess að gera sér grein fyrir því.
Í stórborg er það sínu betra að vera villtur, miðað við þá staðreynd að hægt er að spyrja til vegar, kannski að finna sér leigubíl og fá hann til að hjálpa sér, eða finna sér vegakort. Málið vandast reyndar í Kína þar sem fáir kunna ensku og allt stafaletur er með öðrum hætti.
Sem minnir mig á nóttina sem mér sjálfum tókst að villast svo um munaði. Einhvernveginn tókst mér að velja ranga götu á leiðinni heim frá næturrölti á Spáni og vissi síðan ekkert hvert kominn var. Að halda áfram að ganga virtist stöðugt auka á villuna því engin leið til baka virtist vera sú rétta. Þarna birtist einhverntíma leigubíll en hann vildi ekki taka mann um borð einhverra hluta vegna, hins vegar vildi hann segja mér með vegakorti hvert ætti að fara, sem hjálpaði mér í sjálfu sér ekkert. Veður var milt, húsin flestöll hvítmáluð, eða svo að segja öll eins. Himininn var stjörnubjartur og það sást öðru hvoru hvar ströndin lá, eða var þetta kannski einhver allt önnur strönd en ég hafði farið á deginum áður. Eftir meira en klukkutíma gang birtist annar leigubíll sem tók farþega og takk, minn komst heim.
Að vera týndur upp á fjalli er allt annað mál. Í guðspjallinu í dag finnum við dæmisöguna um týnda sauðinn og hirðinn sem fer að leita að honum. Margir smalar, kotbændur, landsbyggðarmenn, menn með rollur, hljóta á liðnum öldum að hafa geta tengt sig við þannig frásagnarmáta.
Og margur hefur ábyggilega upplifað aðra hluti en þá gleði að finna sauðinn, setja hann á herðar sér og halda heim á leið. Á Íslandi eins og við munum hafa menn t.a.m. þurft að fara upp á fjall, þetta fjall þarna og eða hitt fjallið. Fara einstigi, niður í gil, dældir, niður í snarbrattar hlíðar. Alls staðar hafa rollur getað komist. Stundum hefur mátt finna þær dauðar (það hrapaði til bana eða það drap það eitthvað), slasaðar, eða ekki nokkur leið að nálgast þær, (hlíðin er of brött til að fara á eftir henni). Þá hefur verið gott að hafa trúna sér til huggunar.
Á hendur fel þú honum sem himna stýrir borg, það allt er átt í vonum og allt er veldur sorg, hann bylgjur getur bundið og bugað stormaher, hann fótstig getur fundið sem fær sé handa þér. Sb.38.
Þannig má allt eins lýsa trúnni í örfáum orðum eins og sálmaskáldið gerir í sálmi 38, sem finna má í sálmabókinni. Að vera einn á ferð í myrkri, þoku, vita ekki alveg áttirnar, en upplifa samt hið innra að æðri máttur sé samferða, með í för, og trúa því að það sé lausn framundan, var til að komast í, skjól, leið úr vandanum, það hlýtur að geta hjálpað.
Óvissutilfinning er ekki góð tilfinning. Hana getum við einnig fundið í daglega lífinu. T.d. í óvissu um framtíðina, við vitum reyndar ekkert hvað hún ber í skauti sér. Daglega stöndum við frammi fyrir vali. Vali um hvað skuli gera og við búum við ýmsa kosti. Af slæmum kosti getur seinna birst eitthvað gott. Eða við veljum það sem við teljum góðan kost, en síðar kemur í ljós eitthvað sem við annars vildum ekki.
Stundum er erfitt að vera manneskja eins og skáldið sagði forðum. En ef við horfum til Krists þá sjáum við kærleikann holdi klæddan sem hvetur okkur til þess að vera hugrökk og gleðjast yfir því sem við í raun höfum. Boðskapur Krists er handa öllum mönnum, á öllum tímum. Hann birtir einnig mynd af Guði sjálfum sem leitar mannsins fyrir tilstilli kærleika , til þess að vera samferða, og vera með í bæði raunum og gleði.
Nú hefur margur ferðamaðurinn farið upp á fjall og týnst. Slíkt virðist gerast einum of oft á Íslandi. Fólk finnur sér fjallabíl, fer upp á fjall, festir bílinn, villist, veit ekki hvar það er statt og síðan er kölluð út björgunarsveit. Hversu oft hefur slíkt ekki gerst?
Þeir sem villast þannig eru samt ekki svo margir miðað við þann fjölda sem er að ferðast um landið á hverju ári. Að vera týndur þannig er samt annað en að vera týndur hið innra.
Það er að kunna ekki lengur að láta sér líða vel með sjálfum sér án þess að þurfa að notast við hjálpartæki til þess eins og sjónvarp, tónlist, tónleika, ýmiss konar afþreyingu í tómstundum, allt það sem gert er til þess að lyfta sér upp. Ekki það að ég sé að segja að allt það sé rangt heldur hitt að allt það virðist lífinu svo yfirmáta mikilvægt að án þess væri lífið tilgangslaust eða hræðilega leiðinlegt.
Að upplifa kærleikann innra með sér er góð eftirsóknarverð tilfinning sem ber að varðveita ef fyrir er. Að hafa góð orð um sjálfan sig, góða umsögn, velvild, gleði og geta jafnvel gert grín að sjálfum sér á köflum þannig höfum við líka eitthvað að gefa öðrum og hjálpa í kærleikanum sem Jesús boðaði. Öll erum við Guðs börn.
Týndur er sá sem sér hvorki eigin kosti,né annarra , eða vill forðast að sjá þá, sem er stöðugt á flótta frá sjálfum sér og öðrum týndur á eigin fjalli, eða bara eigin hól, sem hangir yfir einskis verðri afþreyingu, til þess að vera fjarverandi frá sjálfum sér. Allt er gert til þess að deyfa sjálfið.
Einhver gæti sagt að trúin sé allt eins flóttaleið líka. En þannig ætti hún einmitt ekki að vera heldur miklu fremur leið til góðs samfélags, bæði við sjálfan sig og við aðra. Það er góð tilfinning að manns sé leitað af Guði sjálfum, eins og Jesús vill birta hann. Af Guði sem vill að maður sé frjáls til þess að vera maður sjálfur og sú mannvera sem maður vill vera, sú manneskja sem er reiðubúinn til þess að horfast í augu við sjálfan sig hefur kjark og þor og það sem mest er um vert trú á það góða, á Guð Almáttugan og Jesú Krist sem kom til okkar mannanna að boða okkur kærleiksboðskapinn.
Eigi stjörnum ofar, á ég þig að finna, meðal bræðra minna, mín þú leitar Guð.
Amen
Takið postullegri blessun: Náðin Drottin vors Jesú Krists og kærleiki Guðs og samfélag heilags anda sé með oss öllum. Amen.
Síður
Tenglar
Mínir tenglar
Eldri færslur
- Júlí 2023
- Maí 2023
- Desember 2014
- Júlí 2014
- Ágúst 2013
- Júlí 2013
- Júní 2013
- Mars 2013
- Janúar 2013
- Desember 2012
- September 2012
- Júlí 2012
- Febrúar 2012
- Desember 2011
- Október 2011
- Ágúst 2011
- Júlí 2011
- Júní 2011
- Maí 2011
- Apríl 2011
- Febrúar 2011
- Janúar 2011
- Desember 2010
- Nóvember 2010
- Október 2010
- September 2010
- Ágúst 2010
- Júlí 2010
- Júní 2010
- Maí 2010
- Apríl 2010
- Janúar 2010
- Desember 2009
- Nóvember 2009
- Október 2009
- September 2009
- Ágúst 2009
- Júlí 2009
- Maí 2009
- Mars 2009
- Janúar 2009
- Október 2008
- Júlí 2008
- Júní 2008
- Maí 2008
- Apríl 2008
- Mars 2008
- Febrúar 2008
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.1.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 4
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 4
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar