Færsluflokkur: Bloggar

Bull og vitleysa

Ég er öðru hvoru að skemmta mér á YouTube, aðallega í leit að góðu fræðsluefni, fyrirlestrum, eða einhvers konar blaðri. Svo er það auðvitað öll tónlistin þarna sem maður hefur getað leitað uppi, eins og þarna sé alveg hreint botnlaust safn en látum það vera í bili og kíkjum á einn athyglisverðan bull og vitleysu fyrirlestur þ.e.a.s. ef þú hefur gaman að slíku.

Það er til fólk sem lifir á því að flytja fyrirlestra og fer víða til þess að halda þá. Sumir eru eins og David Icke sem hefur undanfarin ár þvælst um heiminn og flutt langa fyrirlestra um alls kyns samsæri og fengið stórfé fyrir.  Merkilegt hversu sumt fólk, ef það er nógu sannfærandi getur haldið langa fyrirlestra um eitthvað sem er í rauninni helber steypa, þvæla, tilbúið rugl handa auðtrúa fólki. Látum það aðeins vera í bili að meta áðurnefndan Icke þannig, en kíkjum hins vegar á annan mann sem kann að blaðra í lengri tíma um sitthvað sem á sér enga stoð í raunveruleikanum.

Aretrov

Alexander Retrov heitir maður sem finna má á YouTube (ennþá allavega). Hann hefur kynnt sig sem miðil og spámiðil og mann í tengingu við æðri heima.  Árið 2011 flutti hann nokkuð langan fyrirlestur um tilgang þessa heims, aðra heima og framtíðina (staðsettur í Ástralíu). Það virðist allt vera á leiðinni til andsk. hjá honum. Mannkynið hefur verið hreppt í einhvers konar andlegan þrældóm, lönd eru að fara að sökkva og pólskipti að fara að gerast.  Allt fyrir lok 2012. Á myndinni hér að ofan er hann einmitt staðsettur með tússpenna, tússtöflu og nokkra áhorfendur að ræða þessar merkilegu staðreyndir. 

Þegar svo hins vegar ekkert af spádómum hans rættust þá varð hann fyrir aðkasti hins reiða múgs (sem líkast til upphaflega hafa trúað honum) og lenti hann í þetta líka svakalegum leiðindum.   Þú getur horft á fyrirlestur hans á Youtube en ég mæli ekkert endilega með því nema þú hafir gaman af því að hlusta á til þess gerða þvælu um lífið og tilveruna.  Fyrirlesturinn inniheldur svona upplýsingar:

  •  Það er pláneta sem heitir Nibiru á leiðinni og hún mun nálgast Jörðu fyrir lok árs 2012.
  • Hópur manna  sem kallar sig Illuminati hefur í gegnum tíðina gert ýmislegt sér til dundurs eins og t.d. að búa til hina kristnu trú og tímatalið sem við notumst við í dag. Mannkynssagan sjálf er skáldverk the Illuminati sem hefur verið til frá ómuna tíð. 
  • Sami hópur hefur leitast við að plata fólk með þeirri staðreynd að eitthvað eigi að gerast 21. des. árið 2012.  Það er til þess að draga athyglina frá annarri dagsetningu sem er mun mikilvægari. Það er allt gert til þess að ljúga að mannkyni og þrælka huga þess. 
  • Það er ekkert til sem heitir rétt eða rangt, aðeins alls kyns reynsla af öllu mögulegu.
  • Páfinn Gregorian I endurskoðaði tímatal okkar og byggði þá endurskoðun m.a. á tímatali Maya. (Retrov ruglast í því hvenær þessi maður var uppi og skeikar honum þar um 1000 ár eða svo)
  • Ef við höfum ekki kærleika eða ást, þá kemur ótti sjálfkrafa í staðinn.
  • Það verða gríðarlegar jarðhræringar og mannfall fljótlega. Lönd sökkva hreinlega í sæ. 
Hvers vegna leggur sumt fólk það á sig að bulla svona mikið? Sumt fólk er reyndar með það sem kallast brenglað raunveruleikaskyn, og gerir ekki greinarmun á staðreyndum og vitleysu, réttu eða röngu, eigin ímyndun eða veruleika. Veruleikinn verður að blekkingu og blekkingin að veruleika. Heimurinn snýst í hringi og endar á hvolfi með alvitran speking sér við hlið sem fyrir einhverra hluta sakir veit tilgang lífsins betur en aðrir og þá sérstaklega vegna þess að einhverjar verur frá öðrum hnöttum settu sig í samband við hann fyrir tilstilli þess að hann virtist andlegri og opnari en allir aðrir jarðarbúar samanlagt. 
 
Illt er það að lifa lífinu í haugalygi sem einhver raunveruleikabrenglaður spámaður með mikla athyglisþörf þurfti endilega að fá sínu fullnægt  sturtandi úr sínum eigin rugludallspotti með þetta svaðalegum sannfæringarkrafti yfir auðtrúandi, sem endar að lokum í hringiðu risalygi og tímasóunar sem hefði vel getað verið varið í annað á þetta stuttri mannsævi.  
 

Fyrirlestur Alexanders Retrov heitir 2012 The Truth you´re not being told. Efnið er eins og áður segir uppspuni og þvættingur manns með mikið og stórt ímyndunafl án jarðtengingar við veruleikann eins og hann í rauninni er. 

Niðurstaða handa Konráð: Þó svo að sumir virki sannfærandi, þá er ekki þar með sagt að þeim hinum sama skuli trúað rétt sísona. Heimurinn á til nóg af einskisverðu blaðri um ekkert.  

 


Ótrúlega merkilegur samanburður

Mörgum hefur þótt einkar gaman að bera saman líf tveggja forseta Bandaríkjanna, þeirra Abrahams Lincoln og John F. Kennedy.  Þeir voru báðir forsetar með hundrað ára millibili, báðir myrtir áður en kjörtímabili þeirra lauk, eru með jafnmarga stafi í nafninu sínu sem og morðingjar þeirra, eftirmenn beggja báru eftirnafnið Johnson, listinn er nánast endalaus. Morðingi Lincolns flúði úr leikhúsi og endaði í vöruhúsi; morðingi Kennedy flúði úr vöruhúsi í bíóhús. Það er hægt að finna nokkuð langan lista á netinu þar sem að farið er í alls konar svona eitthvað.  

En það er til fleira svona sem gaman er að skoða. Þær Marylin Monroe og Díana prinsessa eiga líka margt sameiginlegt. Svo margt eiga þær tvær sameiginlegt að það er engu minna sérkennilegt. 

Annex - Monroe, Marilyn (Niagara)_10

Þær eru báðar fæddar að sumri til. Marylin Monroe er fædd 1. júni 1926. Díana er fædd 1. júlí 1961, þannig að þær fæðast báðar við upphaf síns sumarmánaðar.

Þær finnast báðar látnar í ágústmánuði, 36 ára að aldri.  Marylin deyr 5. ágúst 1962. Díana deyr 31 ágúst 1997.

Andlát beggja ber þannig að höndum að búnar hafa verið til samsæriskenningar í kringum dauðdaga þeirra. Ýmsir telja að Marylin hafi verið myrt; sama er um Díönu. Í báðum kenningum er að finna ótta einhverra manna við það að þessar konur væru að fara að uppljóstra einhverju sem almenningur mátti alls ekki vita. Í tilfelli Marylin þá ætlaði hún að hafa blaðamannafund að morgni hins 6. ágúst. Díana gat líka orðið að uppljóstrara í tengslum við breska konungsdæmið.  

Þær voru báðar ljóshærðar stjórstjörnur sem giftust eða voru í tygjum við heimsfræga menn.

Báðar eru þær að lenda í einskonar óhamingju samfara mikilli frægð.  

Þær lenda báðar í höggi við þunglyndi einhvern hluta ævi sinnar.  

Þær reyndu báðar að fyrirfara sér.

Lagið Candle in the Wind með Elton John fjallar upprunalega um Marylin Monroe. Þegar Díana dó þá

058ákvað hann að nota sama lag en breyta hins vegar textanum. Lagið flutti hann við útför Díönu og það er í eina skiptið sem hann hefur flutt þá útgáfu af laginu opinberlega. Viðfangsefnið er hið sama í báðum textum, goðsögnin lifir áfram þó svo að slökknað hafi á kertinu, einum of snemma. 

Það er einkar athyglisvert að lesa bók sem skrifuð var um Díönu prinsessu (gefin út 1992) sem heitir einfaldlega Díana.  Maður veltir fyrir sér hvers vegna í ósköpunum hún í rauninni fer út í þetta hjónaband. Hvers vegna Karl giftist ekki Kamillu. Allavega þá var líf hennar þarna sem hertogaynja af Wales einkar gleðisnautt og greinilega leiðinlegt. Tilfinningalaust og kalt.  

Í sjálfu sér er auðvitað ýmislegt sem er þeim tveim ekki sameiginlegt. Eftir sem áður þá virðist það vera einhvers konar ástleysi sem báðar eru að kvarta undan. Að vera frægar en samt ekki elskaðar, eins og þær vildu sjálfar.

Sem segir okkur í rauninni aðeins eitt, að það lifir enginn án ástar.  

 


Vinsælt merki þessa dagana

Kannast þú við merkið hands of horns?  Svo ég útskýri fyrir þér strax um hvað ég er að tala þá er ég að meina merki þar sem þú lyftir upp hendinni, hefur vísifingur og litlafingur uppí loftið, hefur löngutöng og baugfingur niðri, og síðan annaðhvort með þumalinn út í loftið eða hann staðsettan á baugfingri og löngutöng.  Ef þú ferð á google og slærð inn - hands of horns eða hook em horns þá færðu strax upplýsingar um þetta og ef þú prufar að fara í - images, þá sérðu fjölda skýringarmynda.  

080106eldiablo

Ástæða þess að ég er að tala um þetta merki hér, er vegna þess að hinn ágæti og stórmerkilegi maður George W. Bush hefur verið með það á lofti alveg hreint þó nokkuð. Alveg stórmerkilegt hvað hann vill vera að koma þessu við. Og til hvers?

Þetta tákn getur þýtt allt mögulegt reyndar. Þungarokkarar hafa verið með þetta tákn, eins og m.a. á tónleikum, voða gaman.  Hin blinda og heyrnarlausa Helen Keller notaði þetta tákn sem tákn um ást - I love you. Þetta er háskólamerki sumstaðar í BNA eins og t.d. í háskólanum í Texas.  Þar heitir það Hook em´horns og er oft notað á íþróttaviðburðum. Oft líka sem bless eða um leið og einhverju lýkur. 

Það er notað á Ítalíu í tengslum við hjátrú, ef þú lendir í slæmum aðstæðum, þá ertu með þetta til þess að losna við óheppni. Sumum finnst þetta bara flott, fjöldi frægra hefur sést með þetta á takteinum. Það er lítið mál að sjá alls kyns fólk með hendurnar svona.  Meira að segja páfinn fyrrverandi (sem var að enda við að segja af sér) hefur sést veifandi þessu. Kannski er hann bara að fylgja hinni ítölsku hjátrú eða það hefur einhver verið að fikta við myndirnar af honum. Það skal ósagt látið hér.  

En svo er eitt í viðbót sem er sú staðreynd að djöfladýrkendur hafa líka verið að sýna merkið, þú getur rétt ímyndað þér hvers vegna.  Það eru til fleiri merki sem tilheyra þessari dýrkun en hér verður aðeins talað um þetta eina. Anton S. Lavey kom eitt sinn fram í sjónvarpsþætti og sýndi sjálfur táknið. Auðvelt er að finna það að á YouTube.  

 Nú er George Bush ekki Ítali og býr ekki þar, hann er ekki þungarokkari, en hann var líklega í háskólanum í Texas og heldur vafalaust upp á þann skóla. Hvers vegna er hann samt með þetta merki einhversstaðar erlendis?  Kannski fylgir hann Helen Keller að málum í sambandi við hvað hann sé að meina með þessu. En öll hans fjölskylda er með þetta reyndar líka. Þegar dóttir hans Jenna fór til Noregs 1985 þá kom táknið alveg umsvifalaust með henni, en um leið  urðu þar í landi nokkuð hörð viðbrögð vegna hugsanlegrar tengingar við djöfladýrkun. Ýmsir vilja tengja nefnda fjölskyldu við þann möguleika en það verður ekki gert með neinum sérstökum hætti hér. Hver getur dregið sýnar ályktanir á eigin ábyrgð.  

bush_satan_hand

 Ef við miðum við að þessi mynd sé tekin í Texas í tengslum við einhvers konar íþróttaviðburð, þá er vel skiljanlegt hvers vegna þau tvö eru með hendurnar svona á lofti. Afturámóti hinsvegar ef við ætlum það að þetta sama fólk sé í rauninni staðsett einhvers staðar annars staðar eins og t.d. við opinbera heimsókn í Evrópu, þá vandast málið aðeins. Þá skilja fæstir hvað þau eru að meina. Hugmyndin sjálf fellur inn í tilgangsleysi ef aðstæðurnar eru ekki réttar og fólk er ekki til staðar sem í rauninni skilur skilaboðin. 

 Svo er önnur mynd sem gæti kannski verið eitthvað fiff en ég efast samt um það. George fór eitt sinn í opinbera heimsókn til Englandsdrottningar og það var tekin mynd af því tilefni. Hver hefði svo sem ekki verið uppi með sér að fá eina slíka í safnið, nema kannski einhverjir sem eru lítt hrifnir af slíku prjáli, en látum það samt vera.

sign

 Þessi mynd er ekki neitt ýkja stór. Ef þú stækkar hana aðeins upp, þá sérðu að Bush er þarna standandi við hliðina á drottningunni og með þetta tákn. Þetta er ekki slæmar aðstæður til þess að vera í, hann er ekki meðal þungarokkara, háskólinn í Texas er langt í burtu, Bush er ekki Ítali og þarna er hann ekki við Miðjarðarhafið, og svo annars... við hvern vill hann segja I love you, ef það er málið? 

Til þess að stækka texta eða efni á skjá, haltu niðri ctrl og ýttu á ö. Til þess að fara til baka og gera textann eins og hann var, haltu ctrl takkanum niðri og ýttu á 9.  Þannig geturðu aðeins stækkað þessa mynd.  

Þá er ekki margt eftir til þess að segja, nema kannski einn möguleika sem tengist einfaldlega Kölska sjálfum. Fyrir því höfum við í sjálfu sér engar sannanir. Okkur skortir hreint og beint frekari upplýsingar. Hið skemmtilega við þetta aftur á móti er hversu óljós skilaboð þetta eru. Ef þú hins vegar veist svarið við spurningunni þá endilega komdu með það. 


Athyglisvert logó með smá breytingum

Ég var nýverið að leika mér á netinu, hangandi á Youtube og alls konar síðum sem er ekki frásögum færandi nema hvað stundum rekur maður augun í hluti sem eru nokkuð athyglisverðir. Nú ætla ég ekki að fara neitt mikið lengra en það sem ég hef í höndunum og held mig við hina faglegu iðju rannsóknarmanns að efast þangað til hann getur það ekki lengur, verandi fullur röksemda, trúa ekki hverju sem er o. s. frv.   

Gott og vel. Það sem ég er að hugsa um núna í þessari grein er þetta logo hér:

mynd (1)

Þetta merki tilheyrir Republicana flokknum bandaríska. Litríkt merki og flott. Því miður eða sem betur fer, hvort heldur sem er,  þá komst þess flokkur ekki til valda núna síðast, né heldur þar síðast, Obama er demókrati. Hann og sá flokkur er ekki til umræðu hér þannig að þar við situr í bili. 

Nema hvað þetta merki vekur undrun mína þessa stundina og ég velti því sérstaklega fyrir mér afhverju ákveðið var að breyta merkinu. Í rauninni þá var þessu ekki merki ekki mikið breytt, smávægilegt fiff, varla að maður taki eftir því við fyrstu sýn.

Horfðu á stjörnurnar á þessu listaverki.  

 

Svo langar mig til þess að koma með aðra mynd sem ég fann einnig á netinu og vekur vissulega athygli mína og þá sérðu strax um hvað ég er að tala.  Það er búið að breyta stjörnunum, 

mynd 2á þessari mynd hér er búið að snúa þeim á hvolf. Þær snúa einfaldlega öfugt miðað við fyrri myndina og einmitt það minnir á svolítið annað. Kem með það síðar.  Til þess að vera viss um að vera ekki að fara með fleipur vegna þess að sumir eiga það til að föndra við myndir, breyta þeim öðrum til leiðinda eða þaðan af verra, þá fór ég inn á heimasíðu þessa flokks (þar hafa þeir þetta svona), og þaðan inn á facebook og þar er þetta merki líka í einhverri mynd, allavega svona stjörnur og þær snúa á hvolfi.  

Ætli þetta sé hugmynd komin frá  Bush yngri?  

 Þegar við horfum beint á þetta núna þá sér maður umsvifalaust eitthvað sem minnir mann á hann kölska. Ég ætla samt ekki að hengja þann stimpil á þessar myndir hér eða draga einfaldar ályktanir. Kannski fannst einhverjum þetta bara flott og datt í hug að hafa þetta svona án þess að vera nokkuð að spá í því meira eða með neitt dýpri hætti. Hvað veit ég. Ætli nokkur maður sé að spá í þess neitt alvarlega.  


Leiðin til lífsgleði

Það er nóg til af alls kyns leiðindum í þessum heimi. Ef við t.d. bara kveikjum á fréttunum þá er iðulega hægt að finna fylli sína af stríðssögum, hamförum, svindli, svikum, morðum og glæpum. Svo er hægt að halda áfram út kvöldið við þá iðju að horfa á glæpi, morð og svik. Á meðan er maður auðvitað sófadýr. 

Ef þú hefur einhverntíma eytt tíma í að horfa á sófadýr þá er lítið mál að upplifa svoleiðis, horfðu bara á einn sem er að horfa á sjónvarpstækið sitt. Ekki það að ég telji það yfirhöfuð neikvætt að horfa á sjónvarp, það er bara þegar fólk eyðir einum of miklum tíma í það, að það fer að verða neikvætt.

Í staðinn fyrir að horfa svona mikið á sjónvarp og vera algjör móttakari; hvers vegna ekki að snúa hlutunum aðeins við?  Þá er ég að meina það að leyfa hlutunum að byrja hjá okkur sjálfum. Að vera sjálfum sér nógur og þurfa ekki á því að halda að leggjast niður öll kvöld og verða um leið að sófa.

Lífið er stutt. Við vitum ekkert um morgundaginn, hvort hann komi og hvort við lifum hann. Stundin sem við eigum er einmitt núna, þetta augnablik og það er okkar að gera eitthvað úr því. Skapa eitthvað, gera eitthvað með það. Til hvers að safna hlutum og allra handa dóti þegar við deyjum frá því hvort eð er. Það sem ég er að meina er að hamingja okkar ætti ekki að byggja á ytri hlutum heldur því sem við eigum innra með okkur sjálfum. 

Við höfum val um hvað við gerum. Við getum valið það að gera ekki neitt, lítið, ýmislegt eða heilmikið. Við getum valið okkur viðhorfin til lífsins og valið viljann til þess að hafa góð áhrif, valið að leita lausna á hinu og þessu, að leysa ýmiss vandamál, að fara af stað, læra eitthvað eða búa til eitthvað skemmtilegt.  Við getum valið það að hrósa sérstaklega á morgun, að brosa, gera eitthvað óvænt og skemmtilegt, eitthvað nýtt sem við höfum aldrei gert áður, og við getum valið það að segja eitthvað gott um okkur sjálf. Eitthvað bara. 

Við getum líka valið að vera óvirk, sitjandi, bíðandi eftir því að einhver komi og tali við okkur, setið við símann og beðið eftir því að einhver hringi, beðið eftir almennilegu sjónvarpsefni, valið að láta okkur leiðast, valið að horfast ekki í augu við raunveruleikann, valið að flýja veruleikann, valið að leysa engin vandamál og fara hvergi. Valið það að gagnrýna okkur sjálf og rifið okkur niður, og við getum hæglega farið og hlusta á einhverja dapurlega tónlist sem styður okkur í eigin leiðindum með sæmilega dapurlegum texta og samskonar dauflegum tónum. 

Við getum verið skapandi sjálf og sleppt sjónvarpsglápinu mun oftar. Þess vegna gætum við valið að skapa skemmtileg góð augnablik með öðrum. Við getum valið okkur sjálf og eigin vináttu. Um leið getum við valið það að gefa öðrum eitthvað, virðingu, vináttu, ást; eitthvað annað en sjónvarpsgláp. Augnablik, andartök, mínútur, klukkustundir, sem verða seinna að dýrmætum minningum.  Sem síðan flokkast hæglega undir andleg auðæfi þegar margt nær að safnast saman. 

 


Yfirmátaindælisþakklætislíferni

Eitt af því sem getur gert mann virkilega hamingjusaman er það viðhorf að viðhafa þakklæti í lífi sínu. Ef við erum stöðugt í leit að hamingju þá er nokkuð ljóst að við erum ekki þakklát fyrir það sem við höfum. Hamingjuleit leiðir okkur framhjá öllu mögulegu sem við eigum og ekki eigum.  

Við teljum okkur í trú um að ef við getum átt ýmiss konar hluti eins og t.d. sportbíla og stórar fasteignir, þá verðum við ósjálfrátt hamingjusöm, sem gæti allt eins verið en samt ekkert endilega. Ef við kunnum ekki að vera þakklát fyrir það sem þó eigum, þá kunnum við allt eins ekkert að meta það sem við höfum. Allt verður svo innantómt og við höldum áfram að versla eitthvað. Tómleikinn er innra með okkur sjálfum, ef við spáum í því. 

Það er fjölmargt til þess að þakka fyrir. Að eiga tannbursta er þakkarefni, kæliskáp eða frystikistu. Að geta farið út í búð og verslað sér hollt að borða, drukkið vatn úr krananum, farið í sturtu, átt falleg föt og m.fl. Það er hægt að halda áfram með þakkarefnin svo til endalaust.  Takk fyrir líf og heilsu, vini, fjölskyldu, heimili, bíl, áhugamál ...

Ég hef legið yfir fjölda bóka og skoðað ótal vefsíður í tengslum við þetta umræðuefni. Eitt af því sem mælt er með er að búa til þakklætislista og skoða hann oft, helst á morgnana. Skoða þetta svo aftur og aftur og ef maður er ekki hamingjusamur fyrir, þá getur þetta akkúrat ýtt manni af stað í gleðina. Listinn þarf ekki að vera langur, kannski einhver 7 atriði eða svo til að byrja með.

Sú hugmynd hefur læðst að mér að þakklæti væri hægt að iðka í botn og þakka þannig fyrir allan #$%&.  Þegar maður hins vegar hefur ekkert til að þakka fyrir, eða m.ö.o finnst maður ekki hafa neitt til þess að þakka fyrir, þá vantar vissa gleði inn í lífið.  Sönn gleði leiðir af sér hamingju.  

Takk fyrir þetta og hitt. Lífið sjálft,  liti og ljós, hlýju og yl, svefn og drauma. 

 

images?q=tbn:ANd9GcR0bdIex8sTwmb8D1Pvd4NMemMKu9GZ8vyNSuairDw4YbILwxfM

  


Að elska sjálfan sig = sjálfselskur?


Sem barn fékk maður að vita í hverju það feldist að vera sjálfselskur.  Skilgreiningin á því var býsna neikvæð. Sjálfselskur er sá maður sem elskar sjálfan sig og engan annan.  Út frá því mátti allt eins velta því fyrir sér hvort að það væri rangt að elska sjálfan sig. Ef það kæmi þá einatt niður á öðrum. Hvar liggur svo munurinn og hvenær er rétt og hvenær rangt? Líklega veist þú svarið við þessu en hér að neðan langar mig til þess að varpa fram nokkrum rökum þar sem mig langar til þess að sundurgreina einmitt þetta.
 
Sjálfselskur maður elskar í rauninni ekki sjálfan sig. Langanir hans beinast út á við. Vilji hans er að fylla upp í líf sitt á kostnað annarra. Hann er stöðugt að reyna að skara eld að sinni köku. Aðrir verða því fyrir barðinu á ósvífni hans, hnupli, svikum og óheiðarleika. Sjálfselskur maður kann ekki að bera virðingu fyrir öðrum, kann ekki að elska aðra og svífst jafnvel einskis til þess að koma sjálfum sér vel fyrir.  
 
Hann getur líka haft hlutina þannig að hann geri svo mikið til þess að hljóta viðurkenningu annarra að ýmsir aðrir eru hlunnfarnir í leiðinni. Óseðjandi græðgi í það sem aðrir eiga, á að gera þennan mann hamingjusaman, hvað svo sem það kann að vera. En hann verður það ekki og aldrei. Þessi manngerð verður aldrei hamingjusöm þó svo að hún telji sér í trú um það.  
 
Að elska sjálfan sig. Hér komum við að allt öðrum hlut, sem er svo ólíkur hinu fyrra að það er eins og svart og hvítt. Svo ólíkt er með þessu, að við gætum allt eins talað um himnaríki og helvíti. Sérstaklega líka vegna þess að nú getum við farið að tala um hamingjusaman mann.
 
Sá sem elskar sjálfan sig hefur jákvætt mat á sjálfum sér sem tengist um leið eigin sjálfsvirðingu og góðri sjálfsmynd.  Að elska sjálfan sig er að viðhafa góð orð um sjálfan sig á hverjum degi, jákvæð orð, falleg orð en án þess þó að hafa þörf fyrir að tala um það við aðra.  Að elska sjálfan sig er að upplifa jákvæðar tilfinningar innra með sér og vilja þá um leið nota þær til þess að gefa af sér gott til annarra.
 
Að elska sjálfan sig er að vera þess reiðubúinn að fyrirgefa sjálfum sér mistök, fyrirgefa öðrum þeirra og óska öðrum alls góðs í lífinu.  Einnig að óska sjálfum sér alls góðs. Sá sem elskar sig þannig á því mun auðveldara með að elska aðra. Hvernig getur nokkur maður sem ekki lætur sér þykja vænt um sjálfan sig, látið sér þykja vænt um nokkurn mann?
 
Gott er að geta sagt ég elska þig og það er ennþá betra að heyra sömu orð sögð til baka - ég elska þig líka. Bara þetta eitt er heilmikið; hlutir sem byrja hjá okkur sjálfum. 
 
happy-people

Um hamingjuna

Ert þú í leit að hamingjunni eða viltu skapa þína eigin?  Ég ætla ekki að spyrja þig að svara öðru hvoru, hvort heldur sé. Sjálfur hafna ég báðum forsendum og fyrir því vil ég færa nokkur rök.  Eflaust hefur þú myndað þér þína eigin skoðun á þessu fyrir löngu síðan og kannski ekki. Hvað veit ég.

Með því að leita að hamingjunni, þá er í rauninni hægt að leita endalaust.  Eins og hamingjan eigi það til að leggja á flótta frá manni, og það um leið og maður fer að leita að henni. Allt eins gæti svo líka verið að maður einfaldlega leiti framhjá henni eða jafnvel hafni tækifærum sem einmitt gætu leitt mann til meiri gæfu; bara vegna þess að leitin er komin svo mikið á fullt, þú skilur mig. 

Betra hlýtur að vera að skapa sína eigin. Hver er sinnar gæfu smiður segir í máltækinu; sem er í sjálfu sér alveg satt.  Við getum verið á fullu við að skapa eitthvað, annaðhvort efnislega hluti eða óefnislega eins og góðar minningar.  En er það samt endilega málið að vera stöðugt að búa eitthvað til?  Eins og við þurfum á einhvers konar skilyrðum að halda svo við séum glöð og hamingjusöm með lífið. Vissulega getur margt verið okkur til hamingju eins og t.d. hús, bíll og börn, en þá erum við aftur farin að tala um skilyrði hamingjunnar. Allt það sem við sköpum getur líka verið fallvalt; þegar við eigum ekki lengur það sem við áttum, sköpuðum í upphafi, hvað þá? 

Þar með hef ég fundið mér leið til þess að hafna spurningunni hér að ofan með einföldu nei-i. Eftir sem áður þá langar mig til þess að benda á aðra leið, sem ég er sjálfur mjög spenntur fyrir.  En áður en ég bendi á hana þá langar mig til þess að vitna í einn ágætan mann: 

 Hver maður er eins hamingjusamur og hann ásetur sjálfum sér að vera sagði Abraham Lincoln eitt sinn.  Með þeim orðum vakna ég og fer á fætur.

Ég rís upp, teygi út hendurnar, faðma sjálfan mig og vel hamingjuna.  Ég vel mér viðhorf gagnvart tilverunni, þakka fyrir það að vera til, og ég vel daginn sjálfan til þess að njóta hans. Ég vel það að framundan sé góður dagur og fer bjartsýnn af stað.  Þar með er hamingjunnar hvorki leitað né hún sköpuð, hún er einfaldlega valin með jákvæðu og bjartsýnu hugarfari. 

Það er svo auðvelt að hafa neikvæð viðhorf gagnvart lífinu. Mörgum hættir til þess að einblína á mistökin, þessi örfáu í einhverju stóru verkefni, en gleyma síðan því sem gekk vel.  Að hugsa sér líka að á einu kvöldi séum við að hitta 20 manns og 2 af þeim eru hreinlega leiðinlegir, þá því miður, standa þessir 2 þarna uppúr eftir kvöldið, mjög oft og iðulega verður það þannig. Hvers vegna ekki að snúa því við og velja þetta æðislega sem skeði, það sem heppnaðist fullkomlega :) 

Þegar upp er staðið þá getur maður samt að kvöldi dags, þakkað fyrir daginn, allar góður stundirnar, öll brosin, góðu sporin sem voru stigin, og sofnað með bros á vör.     

  

 

 

 


Að hugsa jákvætt :)

Það er til þó nokkuð af síðum á netinu sem innihalda upplýsingar um það hvernig eigi að fara að því að hugsa svo og svo jákvætt.  Nú er hægt að þræða sig í gegnum heilu leiðbeiningarnar um það hvernig eigi að vera bjartsýnn og lífsglaður hugsandi jákvætt umfram neikvætt.  Þessar síður sem ég fann eru allar á ensku en þér til hagsbóta þá langar mig til þess að varpa fram nokkrum trixum af þessum síðum.

Að morgni er fínt að vakna með bjartsýni og ákveða það með sjálfum sér að dagurinn verði góður. Síðan er ágætt að lofa sjálfum sér því að brosa og meina það í öll skiptin. 

Þegar neikvæðnin gýs upp þá annaðhvort að skipta henni út fyrir jákvæðari hugsanir ellegar láta hana bara fljóta áfram og berjast ekki gegn henni.

Um að gera að temja sér jákvæð orð í hugsun og orðum. Skipta út ljótum orðum og hafa jákvæð í staðinn. Maður á að eiga fjölda jákvæðra orða um sig og láta sig þykja vænt um sig án nokkurra skilyrða. 

Veldu þér jákvætt fólk til þess að umgangast. Fólk sem er bjartsýnt, jákvætt og eyðir ekki tíma sínum í illt umtal og geðvonskuköst.

Ekki sitja og gera ekki neitt. Þá streymir allt mögulegt leiðinlegt að í huganum og neikvæðni gæti tekið völdin.

Finndu leiðir til þess að fá aðra til þess að brosa. Ein góð leið er að gera sér far um að koma öðrum á óvart með einhvers konar uppátæki. Um daginn t.d. setti ég á mig risastóra svarta hárkollu og kom skyndilega að góðum vini sem átti sér einskis von. Úr varð hlátur og mjög gaman.

Bros getur dimmu í dagsljós breytt segir í Einræðum Starkaðar eftir Einar Ben. Sem er orð að sönnu, bros smitar út frá sér og getur reddað deginum fyrir öðrum, þó svo að við séum sjálf ekki alveg með á því.  Ein sniðug aðferð er að vera með svona bros-dagbók. Í hana eru skráð öll brosin sem tókst að ná fram yfir daginn og síðan er bókin lesin oft, til gleði og ánægju. 

Undir lok dags þá er gott að vera þakklátur fyrir allt það jákvæða sem skeði yfir daginn. Sumir skrá hjá sér allt það jákvæða í dagbókina sína.

Og allir dagar eru góðir dagar. Allir þeir dagar sem við lifum og erum ofar moldu. Slæmir dagar eru bara þegar að bílnum okkar er stolið og honum er keyrt út í sjó eða eitthvað álíka.   

Njóttu dagsins minn kæri vinur :)  


Úti er ævintýri :)

Áttu kost á því að ganga í vinnuna? Sumir hjóla reyndar, aðrir taka strætó og fjöldinn allur af fólki keyrir þangað. Sjálfur hef ég gert allt þetta nema hvað ég hef aldrei verið sóttur heim til mín til þess að fara í vinnuna.

Ég gekk í vinnuna í morgun og var lagt af stað ca. 7:15 að heiman. Kominn var ég yfir í Hamraborg liðlega klukkutíma síðar. Veðrið var ágætt, svell hér og þar, skammdegismyrkur, engar stjörnur á himnum og smá andgustur.

Ég gekk einnig heim úr vinnu og það var einnig liðlega klukkutími sem fór í það. Ætlaði að koma við í Nettó í Mjódd en hætti við það og fór í Bónus í Hólagarði í staðinn.

Það sem ég var að hugsa á leiðinni til og frá vinnu er hversu hægt er að velja sér viðhorf til hlutanna. Fyrir mér í morgun yrði dagurinn lítið ævintýri, ég vissi ekki hvað biði mín og hvernig dagurinn yrði, vonandi yrði hann góður. Sem hann reyndar varð. Einhversstaðar á leiðinni kynni ég að hitta eitthvert fólk, svona handan við hornið, fólk sem ég þekkti, sem gerðist líka. Og hugurinn verður hress af svona labbi :)

Lífið er það sem maður gerir úr því :)


« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Þórður Guðmundsson

Þórður Guðmundsson þroskaþjálfi

Nýjustu myndir

  • bill cosby 620x480 cemrf
  • ATI-lower-review-polymer
  • ATI-lower-review-polymer
  • download JFK
  • Aretrov

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 4
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 4
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband