Færsluflokkur: Bloggar

Bucket list

Hefur þú búið til Bucket list þ.e. lista yfir allt mögulegt sem þig mynd langa til þess að gera í lífinu? Það eru til síður á netinu sem aðstoða mann við að setja slíkt upp, með myndum og öllu. Mér nægir allt eins að skrifa niður á blað.  Minn lá yfir þessu á nýársnótt og úr urðu ýmsar hugmyndir. 

 Manstu eftir mynd sem gerð var fyrir nokkrum árum sem fjallar um tvo eldri menn sem vita að þeir eiga stutt eftir og ákveða að búa til Bucket list. Svo fara þeir út um allt, í fallhlífarstökk, safarí, kappakstur,  ferðalög, einsog til Indlands, og allskonar eitthvað... Ég horfði á þessa mynd aftur í kvöld og hún er bæði falleg og þægileg mynd, e.t.v. þriggja klúta fyrir suma. 

220px-Bucket_list_poster

Það hefur annars komið mér virkilega á óvart hversu möguleikarnir geta verið miklir í lífinu. Maður á það til að hreinlega gleyma því. Það er hreint út sagt óteljandi hvað hægt er að gera.  Á móti kemur hversu frjáls maður er og hvað fjárhagurinn í rauninni. Þessir tveir hérna til hliðar hafa úr nægum peningum að spila, þannig að það er í sjálfu sér ekki mikið að marka þá. Þarf samt svona áhugalisti endilega að kalla á mikla peninga? 

 Það er ekki fyrir alla að fara í fallhlífarstökk og svo er það svolítið dýrt sport.  En allavega minn listi er svona:  

 Læra Bachata - mjög skemmtilegur dans sem er að ryðja sér til rúms núna í bænum.   

Klífa Esjuna. Sem ég minntist á hérna að ofan. Mikið svakalega er spenntur fyrir útsýninu þarna uppi. Sjáumst á toppnum.  
 
Prufa sjósund. Ég hef reyndar verið varaður við þessu sporti...
 
Taka þátt í Jónsmessuhlaupi, og hinu og þessu hlaupinu yfir árið. Talandi annars um Jónsmessunótt, ég hef aldrei prufað að velta mér uppúr dögginni. Hefur þú prufað það?
 
 
Síðan, að fara í spinning - nokkuð sem ég hef aldrei prufað að gera.
 
 Fara í riverrafting - hlýtur að vera spennandi, sigla með Norrænu, skoða Noreg, fara í finnskt sauna, fara á sjóskíði, skoða París, Róm, píramídana í Egyptalandi.... það er endalaust hægt að upplifa á ferðalögum. 
 
Annað væri allt eins hægt að hafa á svona lista, sem er að endurnýja samskipti við einhvern sem maður hefur ekki séð lengi, gera sér far um að reisa við það sem áður virkaði brotið, eða biðjast afsökunar þótt seint sé. Það er allt hægt ef viljinn er fyrir hendi. 
 
Njótum lífsins meðan við höfum það :)  
 

 


Jákvæðir hlutir

Þegar við leggjum af stað að morgni dags, keyrum bílnum í vinnuna, tökum strætó eða göngum, hvernig svo sem því er háttað, þá vitum við svo til ekkert um hvað dagurinn kann að bjóða okkur uppá. Það er alltaf þessi óvissa þarna. Þó svo að dagarnir virki allir eins á stundum, þá getur alltaf skotist að okkur dagur sem er allt öðruvísi.

Við erum stöðugt að upplifa eitthvað, góða hluti, býsna jákvæða, neikvæða, eða jafnvel ekkert af áðurnefndu. Verst með þetta neikvæða, það er alltaf að gerast og því miður, þegar við búumst ekki við því. Þá spyr ég hversu auðvelt það sé að vera jákvæður í heimi sem er virkar svo oft svo ferlega neikvæður. Mig langar að benda á ýmsar leiðir og fyrst þessa hér:

Þegar dagurinn verður strembinn, dimmur, leiðinlegur og neikvæður, þá hafa sumir prufað að vera með positive triggers eða svona jákvæða hluti. Sem getur verið mynd af einhverju eða einhverjum sem manni er kær, innblásin orð á miða, eða hlutir sem veita góðar minningar. Ég er sjálfur að hugsa um að hafa fleiri myndir í veskinu mínu :)


Um gleðina

Hversdagsleikinn er voðalega mikið eins, svona frá degi til dags. Við förum á fætur, morgunmatur, klára morgunverkin, drífa sig í vinnu, aftur heim, sjónvarp eða námskeið. En er gleði í þínu lífi? Eitthvað sem er og hægt er að viðhalda eða trekkja af stað. 

Mér hefur dottið sumt í hug varðandi þetta. Eins og það að fara rösklega af stað á morgnana. Opna hurðir með gleðisvip, þ.e. að velja sér að vera glaður um leið og hurðin er opnuð. Síðan að bara valsa inn. Prufa jafnvel að labba glaðlega og brosa í leiðinni. Bjóða góðan daginn glaðlega. Allt þetta þó svo að maður sé ekkert sérstaklega glaður. Málið væri einungis að keyra hlutina í gang.

Hvers vegna ekki að prufa eitthvað svona :) 


Um meðvirkni

Ég hef verið að velta fyrir mér hugtakinu meðvirkni. Það hefur mikið til verið notað meðal fólks sem hefur með einhverju móti tengst alkóhólisma eða einhverri annarri fíkn, hvort heldur sem það sjálft er fíkillinn eða einhver aðstandandi. Hér koma nokkrar hugmyndir um meðvirkni sem ræddar hafa verið og margur kannast e.t.v. við eitthvað af þessu.

Meðvirkur sveiflast með geði annarra. Hann verður glaður þegar annar er glaður og alveg eins leiður þegar hinn er leiður. Meðvirkur vill gjarnan segja nei við hinu eða þessu en á í vandræðum með það og verður innst inni reiður yfir því að hafa ekki staðið með sjálfum sér.

Meðvirkur getur verið svo upptekinn af þörfum annarra að hann er búinn að glata ákveðinni tilfinningu fyrir sjálfum sér. Hver er ég, hvað finnst mér gott, hvað langar mig til, hvað vil ég?

Meðvirkur veltir mikið fyrir sér svipbrigðum og hegðunarmynstri annarra og finnst iðulega að þessi eða hin hegðunin tengist sjálfum sér, þ.e.a.s að aðrir séu að hugsa um sig þegar þeir eru ekki að því.

Meðvirkur býr til leikrit í kringum sig þar sem hann sjálfur er aðalleikarinn og aðrir ættu að fylgja hans forskrift (vera svona eða hinssegin) annars fari allt í klessu, leikritið ónýtt og vont að lifa.

 

Til þess að forðast þetta er að mínu mati gott að æfa sig í ákveðnum hlutum:

1) Að eiga til jákvæða umsögn um sjálfan sig og nota daglega góð og jákvæð orð um sig.

2) Að safna saman lista yfir allt mögulegt það sem maður er stoltur af. Lesa hann síðan oft.

3) Að eiga trúnaðarvin sem hægt er að treysta, sem hlustar og tala um allt mögulegt við. Það er gott líka að tappa af annað slagið.

4) Að taka einn dag í einu og slappa af "einhvern veginn" á hverjum degi.

5) Að gera reglulega hluti sem maður hefur aldrei gert áður, þarf ekki að vera merkilegt, eitt væri að fara annars staðar inn eða út, fara þangað í fyrsta skipti, skipta einhverju út, setja annað inn o.s.frv.

6) Svo er að sleppa tökum á öðrum fólki, fari sá sem fara vill, komi sá sem koma vill, mér og mínum að meinalausu. Það fólk ætti að vera í lífi þínu sem á raunverulega heima þar, aðrir ættu að vera annarsstaðar.

7) Að æfa sig í sjálfsstjórn. Að vera ekki að velta öðru fólki of mikið fyrir sér.

8) Að slappa enn og aftur af og leyfa öðru fólki að lifa og hafa sínar eigin skoðanir. Heimurinn er einn risastór skoðanagrautur akkúrat núna. Best er að hafa sínar eigin skoðanir á hlutunum.

9) Um að gera að eiga uppbyggilega og góða vini. Ef vinurinn brýtur þig niður, finndu þér annan vin. Betra er jafnvel að vera einn fremur en að eiga kjána fyrir vin.

10) Að æfa sig í einveru. Að upplifa sjálfan sig einan og æfa sig í því að geta verið einn. Það geta ekki allir verið einir. Sumu fólki er það nær ómögulegt.

11) Vertu sú manneskja sem þig langar til að vera eða verða.

Taktu það sem þér líkar af þessu, láttu annað liggja milli hluta ;)


Ég var á Gay Pride og tók þátt í göngunni, hvar varst þú?

Mikið svakalega var gott veður á Gay Pride þetta árið. Eftir marga hundleiðinlega skýjaða daga birtist alveg yndislegur sólardagur og um leið svona svakalegt stórt húllumhæ eins og raun ber vitni.

Það var alveg hárrétt ákvörðun að færa gönguna til eins og gert var. Miðað við allan þann mannfjölda sem kom núna til að fylgjast með þá hefði það alls ekki verið gerlegt að fara niður Laugaveginn. Ekki þar fyrir utan þá voru tæplega 40 atriði á leiðinni sem er meira en í fyrra en þá fóru 30 af stað.  Þessi leið finnst mér hafa verið góð vegna þess að þarna var miklu meira pláss fyrir allt fólkið sem vildi fylgjast með. Fyrir bara þetta 7 árum síðan þá var farið niður Laugaveginn og þá var alls ekki svona mikið af fólki. Þetta  hefur vaxið á alveg gríðarlega bara á nokkrum árum.  Á þeim tíma fór enginn í gönguna nema hann væri í raun og vera samkynhneigður en ég tel það hafa breyst mikið og núna er fjöldi gagnkynhneigðra í þessari göngu, og samkynhneigðir sem fylgjast með af gangstéttinni. 

Það var geysilega gaman að labba með einu atriðinu þarna. Þvílíkur mannfjöldi sem staðsetti sig þarna við götuna alls staðar og Arnarhóllinn var þakinn fólki. Annar hver maður var með myndavél þannig að maður er á fjölda mynda út um allan bæ núna.  Áætlað er að um 100.000 manns hafi verið þarna. Sem er bara þriðjungur þjóðarinnar og stór hluti bæjarbúa. Var nokkur maður heima hjá sér meðan á þessu stóð?  Sjálfur þekkti ég ekki svo marga af þessum mikla fjölda og mann rekur auðvitað í rogastans gagnvart öllu þessum aragrúa og þeirri staðreynd að það þekkir mannn eiginlega enginn eða óskaplega fáir. 

Þessi ganga er í rauninni ekki lengur bara ganga samkynhneigðra. Fyrir mér er hún eitthvað stærra og meira en það.  Þetta er ganga þar sem staðfest er ákveðið frelsi. Það er frelsið til þess að vera sú manneskja sem mann langar til þess að vera án þess að þurfa að liggja undir fordómum.  Fordómar tengjast í rauninni þröngsýni. For-dómur, að hafa ekki skoðað málið til hlýtar, frá sem flestum sjónarhornum, og dæmt fyrirfram án þess að hugsa um hlutinn neitt dýpra en það. 

Það eru fordómar alls staðar, gagnvart öllu mögulegu, ekki bara gagnvart hommum og lesbíum, heldur gagnvart alls kyns fólki eins og t.d. feministum, fólki frá Asíu og Afríku, öryrkjum, fötluðum, geðsjúkum, kleppi, dvergum, fólki í sértrúarsöfnuðum, islam, guðfræðideildum, og jafnvel gagnvart bankafólki.  Alls kyns minnihlutahópar sem fylla ekki uppí eitthvert norm meirihlutans eiga oft bara erfitt uppdráttar. Þröskuldar eru búnir til af einmitt þessum meirihluta sem samt er sundurgerður hópur manna. Samfélagið sjálft getur búið til fatlaðra fólk en það er í raun og veru, fleiri öryrkja en þurfa að vera, eða fólk sem er áætlað skrítið en er í raun ekkert skrítið, það er bara búið að stíga á það með klossuðum stígvélum og dæma það sem öðruvísi. Á sama tíma erum við öll svo ólík og enginn sér heiminn með nákvæmlega sömu augum. 

Við viljum hafa samfélag fyrir alla, fjölbreytilegt hafandi svigrúm til þess að fá að vera sú manneskja sem mann langar til að vera.  Það eru bara öll þessi viðhorf sem við erum að kljást við alla daga, árið um kring. Eftir sem áður þá eru alltaf takmörk gagnvart öllu frelsi eins og að það er bannað að ganga um nakinn þó svo að það hafi verið leyfilegt í Barcelona til margra ára.


Þjóðkirkja í kreppu II

 Ég fór ekki á hið aukalega kirkjuþing sem haldið var í Grensáskirkju um daginn. Almenningur getur vel farið og fylgst með umræðu þar.  Líklega hefði ég náð að heilsa ýmsum þar, m.a. biskupnum sjálfum sem hefur fyrir mitt leiti alla tíð virkað vinalegur og heilsað elskulega.  Biskupinn sat kirkjuþing til þess að axla ábyrgð og vera bæði áhorfandi og hlustandi, spyrjandi og svarandi. Ýmsum meðal guðfræðinga hefur reyndar fundist eftir þetta að biskupinn hefði einmitt axlað ábyrgð ef hann hefði ákveðið að víkja af fundi strax eftir ræðu sína eða mæta einfaldlega ekki.   Merkilegt hversu menn geta verið á skjön hver við annan.

 

 

 

 


Þjóðkirkja í kreppu

Það er ýmislegt að gerast hjá Þjóðkirkjunni núna. Undanfarið hefur hvert málið eftir annað orðið til þess að skekja hana. Eiginlega er vart hægt að horfa upp á þetta lengur án þess að úr verði einhver alveg ótrúlegur dapurleiki. Það vilja samt flestir tjá sig um þessa hluti og hver hefur sína skoðun sem er ósköp eðlilegt. 

Eyjan.is gerði könnun um daginn um það hvort fólk vildi fremur, að Karl biskup sæti áfram eða hætti. Meira en helmingur vildi að hann hætti eða 54%, aðeins meira en fjórðungur var ekki viss en einvörðungu 21% vildi að hann héldi áfram.  Sjálfur ætlar Karl að halda áfram eða svo sagði hann í síðasta viðtali. Úrtakið var rúmlega 800 manns. 

 

 

 


Ég er neysluvara og er til í hillu :)

Við búum í neyslusamfélagi. Þegar við tölum um neyslu þá dettur mér helst í hug eitthvað matarkyns. Neyslan í dag sem slík er samt miklu stærra fyrirbrigði og inniheldur allt það sem við kaupum og notum frá degi til dags þannig að við getum verið ánægð og liðið vel.  Efnislegir hlutir eru þeir hlutir sem hugsum helst um í þessum efnum. En nei við erum óseðjandi að mörgu leiti. 

Við erum stöðugt að kaupa og henda.  Eftir að kreditkortin komu þá hefur margur misst skynbragð á það hversu mikið hann í rauninni á. Það er ekki neitt talið lengur með höndunum, heldur er plastkort rétt fram og við getum fengið það sem við erum að biðja um. Þetta ferli er hægt að endurtaka á hverjum einasta degi árið um kring.  

Síðan þegar við höfum nýtt hlutinn sem við keyptum til hins ýtrasta þá er honum hent og annað fengið í staðinn. Á hverjum einasta degi er verið að henda alveg gríðarlega miklu magni af sorpi. Sem betur fer er sumt sett í endurvinnslu þannig að hægt sé að nýta þá aftur. 

Svo er annað sem kemur einnig til kasta neyslunnar. Það er skemmtiefni og öll sú afþreying sem hægt er að sækja í.  Vont er að vera tónlistarmaður sem lendir í því að gefa út tónlist sem síðan gengur manna á milli ókeypis í tölvutæku formi. Það er einnig vont að vera tónlistarmaður sem nær vinsældum í einhvern ákveðinn tíma en lendir síðan í því að áhugi fólks breytist eftir mánuði eða ár og enginn kveðst muna eftir honum lengur.  

Sem uppistandari get ég verið allt eins einsog einhvers konar neysluvara. Fólk kemur og finnst atriðið fyndið og vill meira. Áhuginn vex og allt er gaman uns áhuginn dvínar aftur og uppistandið á ekki lengur uppá pallborðið hjá fólki vegna þess að það er orðið leitt á manni. 

Tökum sem dæmi Gillz.  Hann á sinn tíma núna í skemmtanaheiminum sem ég er nokkuð viss um að hann vill fá sem mest út úr. Eftir einhverja mánuði eða ár kaupir hann e.t.v. enginn, hvað veit ég. En allt sem svona menn gera er handa neysluheimi sem er óseðjandi og biður stöðugt um eitthvað nýtt til þess að seðja þörf sína fyrir gleði og notalegheit, í heimi sem býður uppá endalausa möguleika til þess að gera eitthvað skemmtilegt. 

Ég hvorki þekki né skil Gillz persónulega, né heldur marga aðra sem sjást í sjónvarpinu. Svo held ég að sé um flesta aðra. Þarna er skemmtiefni sem verður um leið ansi hlutlægt. Áhrif þess alls verður samt svo að við skynjum heiminn eins og hann er sem neysluheim án þess að kannski beinlínis að spá í því. Við spáum í hlutunum miðað við hversu mikið við getum fengið út úr hlutunum. Við spáum í öðru fólki út frá því hversu mikið við getum fengið frá því eða út úr því.  Annað fólk verður þannig hluti af þessum neysluheimi. Þannig verður ein manneskja allt eins einsog neysluvara í þessum stóra heimi, og um leið og  innihaldið samræmist ekki lengur eftirspurn, þá er vörunni ýtt til hliðar eins og hverjum öðrum hlut og annað tekið inn í staðinn sem virkar meira spennandi uns sá hlutur hefur einnig misst gildi sitt. Þannig geta mörg hjónabönd endað.

 Það er ekki algilt að fólk hugsi svona en kapphlaupið um góðgæti þessa heims hefur blindað fjölda fólks. Það er ekki öll hamingja fólgin í því að eignast hluti eða fá handa sjálfum sér; heldur einnig í því að kunna að slaka á og meta það sem maður raunverulega hefur og á. Grasið er ekki grænna hinum megin þó svo að það líti út fyrir það. Þú veist ekki hversu mikið þú hefur fyrr en þú hefur misst það. 


Þvílík skelfing (færsla ekki ætluð börnum)

Að krossfesta mann er ein sú viðurstyggilegast aðferð sem hægt er að hugsa sér. Ef þú ert viðkvæm sál þá skaltu ekki lesa lengra. Ef á að fara að lýsa krossdauða eins og hann var á tímum Krists, bæði fyrir og eftir, þá er farið út í að lýsa þvílíkum óskapnaði að það er vart hægt að bjóða fólk upp á slíkar lýsingar frá ræðupúlti. Gagnvart slíkur situr eða stendur áhorfandinn gjörsamlega berskjaldaður. Sérstaklega ef lýsingarnar á dauðdaga manna á krossi eru settar fram á því mun verri veg. Hér er þó hægt að vara menn við.  Eftirfarandi kemur út frá því sjónarmiði að það sé allt í lagi að fólk viti um þessa aftökuaðferð, og hversu ósiðleg hún í rauninni var.  Framundan er oj barasta texti og þú getur ennþá hætt við, bara lokað og gert eitthvað annað. 

Hugsaðu þér ef þú gengir út um borgarhlið snemma morguns, fuglar syngja, allt er kyrrt og hljótt, einstaka maður er vaknaður til að sinna morgunverkefnum en framundan er vegur, skógar, landsbyggðin. Handan við litla hæð sést vegurinn liggja í sveig framhjá trjám sem eru öðru megin vegar en hinum megin við veginn eru margir krossar og á þeim hanga menn. 

Þegar nær er komið þá má sjá að sumir eru þegar dauðir en aðrir ekki. Allir eru mennirnir allsnaktir, skítugir og blóðugir. Fuglar hafa sest á einn manninn og hafa hafist handa við að kroppa í hann dauðan. Daunninn er óbærilegur á þessum stað.  

Þarna má sjá mann sem enn er á lífi. Alveg greinilega lifandi þar sem hann er að berjast við að anda. Það er blóð á líkamanum eftir barsmíðar sem urðu áður en hann var hengdur upp, auk þess er blóð á höndum og fótum og niður allan staurinn.  Neðri partur staursins er ataður samblandi af saur og blóði. Líkast til hefur maðurinn fengið niðurgang.  

Skyndilega kemur spræna frá manni sem hangir á krossi aðeins fjær.  Þvílík skelfing, þvílíkur ódaunn.  Ennþá fjær má greina hermenn sem eru að brjóta fótleggi manna svo þeir deyi fyrr. Því fylgja sársaukafull hljóð úr mönnunum sem finna ofboðslega mikið til í líkamanum á meðan þeir eru að berjast við að reyna að anda. Líkaminn sígur alltaf meira og meira niður og það sker í neglda útlimina. Dauðir menn með brotna fótleggi sjást kross eftir kross.

Seinna sama dag fjölgar á veginum og fjöldi fólks kemur til þess að virða fyrir sér þessi manngrey sem eru að deyja, margir fótbrotnir á báðum, lafandi í sársauka sínum.  Sumir þeirra sem koma gangandi þarna að, eiga  á krossunum vini eða jafnvel ættingja. Það er nekt, það líkamlegur sársauki og það er niðurlægjandi tilfinning að vera nakinn og berskjaldaður fyrir framan alla sem á vilja horfa. Og að verða að sinna frumþörfunum allsber og kvalinn fyrir framan aðra, jafnvel nána ættingja, er í ofanálag andlegur sársauki. 

Svona er þessi aftökuaðferð. Hún er viðbjóðsleg. Mun viðbjóðslegri en flestar aðrar aftökuaðferðir sem framkvæmdar hafa verið. Sérstaklega vegna þess hversu niðurlægjandi hún er.  Að hálshöggva einhvern eða hengja er ekki eins niðurlægjandi ef horft er til þess að það tekur fljótt af. En svona á krossi er hægt að hanga lifandi í nokkra daga.  Svo koma skordýr og finna sér bústað eða fuglar koma og kroppa í skrokkinn.  Skordýr kunna að vera nösk við að finna sér leið inn í þvagrás og fuglar koma og narta í andlit og það er ekki hægt að verjast því. Jarðarför fer ekki fram, líkum er kastað í fjöldagröf eða bara eitthvert afsíðis þar sem hungruð villidýr koma ráfandi til þess að éta.

Frægastur allra til þess að þola þessa aftökuaðferð er Jesús Kristur, nema hvað fætur hans eru ekki brotnir og hann deyr nokkuð snemma, aðeins á örfáum tímum. Þá fær hann gröf til þess að liggja í. Hann er bara lánsamur miðað við marga aðra. Fleiri þúsundir manna voru drepnir svona og meira að segja margir í einu og það meðfram vegum í endalausri röð. 6000 manns voru krossfestir eitt sinn í einum rykk.

Þvílík skelfing að vera krossfestur. Aðferðin er bæði villimannsleg og siðlaus, eins og það sé ekki hægt að fara verr með fólk.  Markmiðið með þessu var félagslegt taumhald; að hræða fólk frá því að fremja lögbrot, en þá myndi það vera drepið með þessum hætti. Enginn rómverskur borgara átti að vera neyddur í þessi örlög en gyðingarnir lentu margir hverjir umvörpum í þessu, en einnig allskonar þrælar og fólk frá skattlöndum Rómverja. 

 Að drepa annað fólk er ljótur verknaður. Það er ekki hægt að gleðjast yfir krossdauða en það er hægt að gleðjast yfir upprisu frá dauðum.  Með upprisu Krists er hægt að segja að allt ofangreint hafi verið sigrað. 


Að vera skuldasafnari og borga skuldir annarra alveg endalaust

 Þjóðin vill ekki semja. Hún vildi það ekki áður og vill það ekki núna. Að hluta til kann það að vera vegna þess hversu þungir þessir samningar eru og það hvílir ákveðin óvissa gagnvart þeim en að öðru leiti þá hlýtur að vaka fyrir fólki einhver tilfinning óréttlætis sem margur er búinn að fá nóg af. 

 Hefðum við átt að segja bara já og fara samningaleiðina? Með því móti tækjum við strax á okkur skuldir til að greiða, samþykktar skuldir. Nóg er samt af þeim fyrir. 

 Það sem við erum að horfast í augu við í dag er sú staðreynd að við erum nú þegar að borga miklar skuldir. Það er ekki lengur hægt að segja að við séum ekki að borga skuldir óreiðumanna eða að við viljum það ekki. Við erum einmitt að því nú þegar og þær skuldir eru fleiri fleiri milljarðar. Hæsta tala sem ég hef séð á prenti er 540 milljarðar. Sú tala kann að hækka verulega á næstu árum. 

 Við þetta á eftir að bætast vandi Orkuveitunnar en þar á bæ ganga hlutirnir ekkert sérstaklega vel. Einnig þar getum við talað um skuldir manna sem eyddu um efni fram. Álögur vegna Orkuveitunnar eru því vel til þess fallnar að ergja landsmenn.  Ef minnst er á vanda þessa fyrirtækis þá dæsir fólk iðulega og segir svo minnstu ekki á það. 

 Svo er það Icesave. Þar dugar í rauninni ekki einhver einföld speki einsog að öll dýrin í skóginum eigi að vera vinir.  Oft verður maður að gæta sín á því að til manns kemur fólk eða maður fer sjálfur og hittir einhvern, ákveðið er að semja um eitthvað en þegar á hólminn er komið þá er samningurinn ekki þess eðlis að hægt sé að sætta sig við hann. Á maður samt alltaf að semja, bara vegna þess að lærdómurinn frá ömmu í æsku hljóðaði upp á það eða að það skuli alltaf halda friðinn. 

 Miðað við allar þessar greiðslur sem verið er að demba á fólk þá er ekki of sögum sagt að fólk verði þreytt á slíku og er þegar orðið það fyrir löngu. Á sama tíma er millistéttin að þurrkast út.  Það er vegna þess (engin ný sannindi í sjálfu sér) að skattbyrði og greiðslálögur eru of miklar, bensín er of dýrt, matvæli líka, allt mögulegt er of dýrt, laun hækka að sama skapi lítið sem ekkert, en lán hinsvegar hækka.  Fólk verður fátækara og fátækara. Á sama tíma er einhver hópur fólks að græða peninga á fullu, er á ofurlaunum, og eyðir peningum eins og því langar til. Manni finnst varla að það sé hægt að ergja sig á slíku alveg endalaust.

 Hver hlustar og hver heyrir. Hroki og ásókn í peninga er upphaf falls. 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Þórður Guðmundsson

Þórður Guðmundsson þroskaþjálfi

Nýjustu myndir

  • bill cosby 620x480 cemrf
  • ATI-lower-review-polymer
  • ATI-lower-review-polymer
  • download JFK
  • Aretrov

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (1.5.): 2
  • Sl. sólarhring: 2
  • Sl. viku: 19
  • Frá upphafi: 29622

Annað

  • Innlit í dag: 2
  • Innlit sl. viku: 19
  • Gestir í dag: 2
  • IP-tölur í dag: 2

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband