Bloggfærslur mánaðarins, desember 2010
25.12.2010 | 13:19
Stutt tilkynning
Forðist jólaþrengslin og finnið ykkur sæti í kirkjunni snemma í desember! :)
160 guðsþjónustur í Reykjavík | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
24.12.2010 | 12:59
Jólahugleiðing
Einu sinni voru fjárhirðar út í haga. Fullt af sögum byrja svona. Einu sinni var ... og svo heldur sagan áfram og leiðir okkur áfram inn í veröld sem við vissum ekki að væri til neins staðar nema bara í bókum. Eða þá að sagan leiðir okkur inn í heim sem við vitum að var einu sinni, fyrir mörgum árum eða öldum. Hvað svo sem sagan segir okkur þá bregður hún fyrir okkur hugmynd, hugmynd um eitthvað.
Einu sinni voru fjárhirðar út í haga sem höfðu ekki hugmynd um neitt sérstakt og áttu ekki von á neinu. Það er eins með okkur hin. Við erum stödd í lífi okkar og eigum ekki von á neinu sérstöku. Ekki neinu sem er öðruvísi en venjulega. Nema hvað óvæntar fréttir geta alltaf borist. Góðar eða slæmar. Ein gleður meðan önnur skelfir. Á einu augabragði getur allt breyst, þó svo að hvorki ég nei nokkur annar vilji það. En svo geta óvæntar breytingar líka verið fagnaðarefni.
Svo segja menn að allt hafi breyst á Betlehemsvöllum fyrir margt löngu síðan. Það fæddist barn inn í þennan heim. Það átti eftir að alast upp og verða 33 ára eða svo. Sem er ekki langur tími. Það er reyndar búið að segja þessa sögu margoft. Hún er bæði gömul og ný. Og þú spyrð hvað sé nýtt. Það eru alltaf að fæðast börn inn í þennan heim. Á hverri mínútu fæðist barn eða jafnvel sekúndu. Það deyr líka fólk á hverri mínútu. Hús eru byggð og þau eyðilögð. Það lifnar við og fellur í sífellu. Ekkert virðist lifa að eilífu.
Nema hvað það það verður alltaf til birta, ljós einhversstaðar frá. Einmitt það er svo gleðilegt. Ég þrái birtu og yl eins og allir aðrir. Án húsaskjóls, ljóssins heima og án þess að geta glaðst með öðrum er mikils farið á mis. Jólin eiga að benda okkur á það sem við í raun höfum. Við höfum fullt af hlutum. Stærsti hluturinn er að við höfum hvert annað. Í því er stærsta ljósið fólgið.
Í myrkri erum við týnd. Við vitum ekki hvar við erum nákvæmlega og við vitum ekki hvar aðrir eru. Nema hvað sem glámskyggn sjáum við kannski útlínur og þekkjum raddir. Við heyrum talað um hið sanna ljós sem kom í heiminn. Það er kertið sem tendrað er í myrkrinu. Sem lýsir upp og um leið þekki ég þig og viðurkenni sem minn vin og jafnvel aðeins meira en það.
Lífið er fullt af atvikum, góðum og slæmum. Inn í það blandast myrkur, ljós og skuggar. En þar innanum höfum við tækifæri til þess að skapa. Þó að við séum misjafnlega góðir smiðir, þá er eitt besta og skemmtilegasta sköpunarverk lífsins það sem við gerum nú á líðandi stundu, nákvæmlega það sem verður að góðum minningum seinna meir.
Það er auður að eiga góða minningar úr lífinu. Ef þú minnist margs sem er gott og ánægjulegt má segja að þú eigir margt. Til er fólk sem minnist ekki margs sem kalla má skemmtilegt, en þó alltaf einhvers. Líka það er til að hugsa um. Hvað vitum stundum ekki hversu mikið við eigum fyrr en einhver bendir okkur á það eða við speglum okkur í því sem er okkur andstætt.
Sagan um Jesúbarnið er gömul saga og ný. Gömul vegna þess að hún hefur verið margoft sögð í gegnum aldirnar. Ný vegna þess að hún minnir okkur á um hver jól hver við erum og hvað við eigum. Við eigum fullt af hlutum en þeir eiga það til að hverfa okkur í önn hversdagsins. Við eigum hvert annað en okkur hættir svo til þess að taka því öllu hversdagslega. Það er gleðin yfir lífinu sem sagan segir okkur frá. Sagan er ný vegna þess að hún fjallar um undur og gleði lífsins. Þannig verður hún tímalaus.
Og hamingjan sjálf er ekki fólgin í peningum heldur góðum hugmyndum. Að skapa og gleði og hamingju fyrir aðra er góð hugmynd. Megir þú eiga góð jól.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 13:19 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
22.12.2010 | 05:35
Að nota facebook
Hvernig notar þú facebook? Á mbl.is er nú frétt um lögreglumann sem notar facebook þannig að hann segir frá starfi sínu og hugmyndum sínum um það, oft á neikvæðan og vafasaman hátt. Um það langar mig ekki að fjalla sérstaklega um hér, nema hvað ef þú ferð að hugsa um það þá hlýtur að vera þagnarskylda einhver í störfum lögreglu í tengslum við hluti eða atvik sem skaðað gætu hagsmuni hennar eða annarra ef kæmust í fjölmiðla. Facebook eru fjölmiðlar hversu marga vini sem þú kannt að eiga.
Ég á um 800 vini og þekki þá ekki nærrum því alla. Hluti af þeim hópi eru ýmis fyrirtæki hvers á bakvið er fólk sem ég þekki yfirhöfuð ekki með nafni. Þetta fólk eins og aðrir fylgjast með færslum mínum. Þess vegna ber manni að vanda sig og draga mörkin. Ekki þar fyrir utan þá er ég í viðkvæmu starfi eins og nefndur í fréttinni. Ef ég setti í statusinn allt það sem mér finndist óæskilegt eða gortaði af eigin verðleikum í starfi þá myndi ég verða litinn hornauga, lenda í félagslegum erfiðleikum á vinnustað eða jafnvel bara rekinn.
Góð samskipti eru ekki sjálfsögð. Það þarf að vinna að þeim og styrkja tengsl. Það að einhverjum líki við þig eða mig er ekki eitthvað sem einfaldlega er hægt að velja sér rétt sísona. Stundum kemur það fyrir að fólki líkar ekki við mann. Það veit e.t.v. ekki sjálft hvers vegna eða þá að það er eitthvað í fari manns sem því einfaldlega líkar ekki. Nær ekki lengra en það. Og það gæti verið erfitt að breyta því eða bara varla. Það er líka eins og við vitum hægt að búa til óvini og fólk sem líkar ekki við mann. Það er minnst málið. Til þess þarf ekki meira en óvarleg skrif sem geta virkað skítleg á viðkomandi, eða baktal sem skilar sér áfram.
Aftur að facebook. Það er svo um hvort heldur sem er facebook eða blogg að margur verður að gæta sín á því að fá ekki útrás fyrir tilfinningar sínar með því að nota netið. Netið er ekki til þess að kasta fram neikvæðum tilfinningum sínum. Betra er að eiga sér stílabók sem enginn kemst í og eyða henni svo seinna. Það sem þú segir verður ekki endilega skilið með sama hætti og þú skilur það. Viðhorf fólks er mismunandi og gildismat einnig. Það sem einum finnst allt í lagi að gera og skrifa um á status facebook síðu sinnar kann að vera fyrir neðan allar hellur fyrir öðrum. Jafnvel grín eins getur orðið að háalvöru fyrir öðrum.
Betra er að segja frá jákvæðum hlutum á facebook fremur en neikvæðum. Ef manni dettur eitthvað skemmtilegt í hug, um að gera að skella því fram. Það gæti komið til umræðu næst þegar fólk hittist á vinnustaðnum. Þú skilur, eitthvað jákvætt og skemmtilegt. Samt ekki um fólkið sem unnið er með eða þá persónuleg mál sem engum kemur við. Oft er gott að hrósa fólki en þá bara allra helst inn á þeirra síðu. En fyrir jólin datt mér í hug að grínast smá og setti eftirfarandi inn á status. Smá léttleiki er allt í lagi í drunga þessa mánaðar. Þetta er auðsjáanlega bara grín og til skemmtunar. Þetta er vitanlega skáldsskapur en samt betra en margt annað eins og að vitna í allar leiðinlegu fréttirnar endalaust eða reyna að vera svo voðalega gáfaður...
Maður hefur ekki við út af öllu þessu jólasveinaflóði ofan úr fjöllum! Þetta guðar á gluggann hjá manni, setur vitlaust í skóinn, skellir hurðum og neyðir mann til þess að setja hengilás á ísskápinn og búrið. Svo þarf ég að muna eftir því að læsa niðri öllum kertum út af einum sem er að koma! Hvað gerði ég til þess að verðskulda allan þennan ófögnuð!!
Að lokum vil ég óska lesendum þessa bloggs gleðilegra jóla með þökk fyrir árið sem er að líða.
Með kærri kveðju,
Þórður
Yfirheyrsla án tára er ekki yfirheyrsla | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Vefurinn | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
20.12.2010 | 00:51
Hinn grátbroslegi söngur
Það ánægjulegt að hlusta á góðan söng. Það að syngja vel er alveg yndislegt að geta gert. Að geta sungið fyrir áhorfendur og fá lof fyrir er þess heldur alveg dásamlegt. Sumir er þannig að þeir hafa alveg undursamlega rödd af náttúrunnar hendi meðan aðrir eyða því mun meiri tíma til þess að þjálfa upp röddina. Þetta er ekki það fólk sem mig langar til þess að fjalla um hér núna enda fær þetta fólk iðulega fyllilega sitt af lofi og húrrahrópi árið um kring. Það eru annars konar söngvarar sem mig langar rétt aðeins til þess að kíkja á.
Það er fólkið sem getur alls ekki sungið. Fólkið sem heldur að geti sungið en getur það ekki. Það er falskt með eindæmum, man ekki textann, fylgir ekki laginu og söngurinn kemst ekki til skila þó svo að lagið sé frægt og allir ættu að kannast við það. Ekki bætir úr skák þegar umrætt fólk mætir í sjónvarp með undirleik og upphefur söng sinn. Sumir kannast ekki við það að þeir geti ekki sungið en telja sér þó í trú um það og jafnvel hefur því tekist að telja aðra í trú um að það geti sungið. Það versta sem fólk getur í raun gert öðrum er að segja þeim að söngur þess sé góður þegar hann er það ekki. Sá sem er laglaus ætti ekki að segja öðrum sem einnig er laglaus að söngurinn sé góður, en það fer oft svo að blindur leiðir blindan.
Mig langar að taka hér dæmi um slæman söng. Það að maðurinn getur ekki sungið er afgerandi. Hann kann heldur ekki textann og skáldar hann upp á köflum. Píanóleikurinn er of hraður fyrir hann og hentar honum ekki. Ég velti því fyrir mér hvort ekki hefði verið betra fyrir hann að hafa textablað fyrir framan sig, skjávarpa eða eitthvað bara. Þetta er ekki grínatriði. Það er hluti af skemmtiþætti með fleiri söngatriðum, háalvarlegum.
Ég verð að viðurkenna að ég hef fengið algert hláturskast yfir þessu atriði. Það er þó ekki svo að ég telji að aðrir geri endilega slíkt hið sama. Þvert á móti. Þetta er grátbroslegt. En það er bara eitthvað við þetta sem er svo sérstakt og hálf barnslegt. Hvernig hann fylgir ekki spilinu en heldur samt alltaf áfram að reyna að vera með.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 01:23 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
14.12.2010 | 18:19
Hin athyglisverða Fésbók
Samskiptavefir eins og facebook hafa á undanförnum árum orðið æ vinsælli. Fyrir ca. 4 árum þegar ég fór inn á facebook í fyrsta skipti þá voru þar u.m.b. 100 manns. MySpace var þá einnig í örum vexti. Svo einhvernveginn sprakk þetta út og bókstaflega allir tóku að skrá sig inn. Meira að segja afarnir og ömmurnar. Í fyrstu virtist þetta vera einvörðungu bundið við fólk á þrítugsaldrinum en merkilegt hvað það átti eftir að breytast og er enn að breytast. Vefurinn hefur breyst alveg hrikalega síðan ég sá hann fyrst.
Það heyrir í dag til undantekninga ef einhver er ekki á facebook. Sumir eru tölvublindir og ná þess vegna ekki þarna inn. Aðrir eru einhvern veginn ekki inn á þeirri línu að fólk almennt séð viti yfirhöfuð skapaðan hlut um sig. Ég hef bara ekki sans fyrir svona hlutum segir einn á meðan annar segir að þetta sé bóla eða bara drasl. Sem í sjálfu sér viðhorf í sjálfu sér. Enginn er neyddur til þess að taka þátt í þessu. Það er val hvers og eins.
Að öðru leiti þá er athyglisvert hversu margir hafa fundið gamla skólafélaga í gegnum facebook. Vegna þess að svo margir eru þarna inni þá verður það því mun auðveldara að grafa upp heilu bekkina. Þeir sem muna ekki einhver nöfn geta líka farið niður á Þjóðskjalasafn, fengið ljósrit af gömlum bekkjarlistum fyrir slikk og byrjað síðan að leita. Reunion eins og það kallast hefur komið í röðum ár eftir ár eftir að fólk hefur áttað sig á þessari staðreynd. Skemmtilegt hversu margir hafa endurnýjað gömul kynni í gegnum þetta. Reyndar hefur það einnig orðið að ókosti þegar gamlar ástir hafa kviknað burtséð frá öðrum skuldbindingum. Hjónaskilnaðir hafa orðið vegna facebook.
Facebook er samt ekki endilega svo persónulegur staður, þ.e. eitthvað sem taka þarf hátíðlega eða gera að miðpunkt lífsins. Þetta er ágæt afþreying ef ekkert annað er í gangi og fínt til þess að bæði fylgjast með viðburðum og því sem er að gerast meðal ættingja og vina. Einnig bara til þess að byggja upp samskipti. Fyrir mér er best að nota vefinn jákvætt, til að benda á eitthvað skemmtilegt, tala vel um aðra, hrósa öðrum, deila skemmtilegu efni og þess háttar. Þó er vel hægt að loka sig af í einhverjum leiknum en einnig þar er allt eins líklegt að rekast á einhvern sem er einnig í sama leik.
Svo er það að hvernig maður eignast vini á vefnum. Ég hef stundum farið út í það að adda grimmt. Margir svara játandi en svo eru það aðrir sem vilja alls ekki vera vinir. Mín vegna er það allt í lagi líka. Það hafa allir val og það er mismunandi hvernig fólk notar vefinn. Ég t.a.m. góðan vin sem neitar að vera vinur á facebook vegna þess að hann vill bara hafa þetta útaf fyrir sig og allra nánustu í fjölskyldunni. Ég á líka vini sem ég þekki í raun ekki neitt en vildu endilega vera vinir mínir og ég leyfði það alveg. Hvers vegna ekki ef maður vill kynnast fleira fólki.
Svo er það þessir sem neita því að vera vinir manns. Í einn stað hef ég litið á það alveg eins og að hringja í einhvern sem svarar ekki í símann sinn einhverra hluta vegna. Ekki merkilegra en það. Eða partýboð sem er afþakkað í það skiptið en samþykkt kannski seinna. Svo þegar einhver tekur til á vinalistanum sínum og eyðir þér sem vini má segja að hann hafi yfirgefið partýið. Eins og gengur og gerist í lífinu. Vinir koma og fara eins og farandverkamenn.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 18:25 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
5.12.2010 | 10:10
Hvað er sannleikur?
Ég fór í bæinn í gær og hitti mann. Alveg dæmigert að gera svoleiðis. Lífið er að má segja vegferð milli manna, þú hittir einn, síðan þann næsta og svo koll af kolli. Nema þegar þú skoppar inn á eitt stykki fund, þá ertu að hitta marga í einu, en síðan kemur að því að fundi líkur og þú ferð af stað aftur og hittir næsta mann eða talar við hann í síma, og svo koll af kolli.
En aftur að þessum manni sem ég hitti. Málið er að ég fer stundum í bæinn eftir miðnættið og labba inn á skemmtistaði. Ekki til þess að fá mér í glas heldur til þess að gá hvort þar séu e.t.v. einhverjir skemmtilegir til þess að endurnýja kynni við, eða hreinlega til þess að kynnast. Stundum ber vel í veiði og á barnum eru einhverjir snillingar sem ég spjalla við í lengri tíma eða stelpur sem ég síðan dansa við allsgáður. Þessi maður var ekki inni á skemmtistað heldur fyrir utan. Við erum vel málkunnugir og tölum oft saman. Hann er einn af þeim mönnum sem tilheyra frjálsum söfnuðum í Reykjavík. Það var fáranlega hlýtt í gær miðað við árstíma. Ég gat leyft mér að vera gangandi um í stökum jakka með svörtum bol við og það án þess að verða neitt of kalt. Þess vegna gátum við staðið þarna á götuhorni og spjallað í lengri tíma án þess að frjósa. En allavega vinur minn hafði frá ýmsu að segja og fljótlega kom að máli málanna, Gunnari í Krossinum.
Vinur minn sagði mér þarna að þetta væri allt saman uppspuni um Gunnar blessaðan. Til þess gert að koma honum frá sem forstöðumanni. Markmiðið væri að koma öðrum að í hans stað, sem væri þá fyrrum forstöðumaður Vegarins hér í eina tíð. Sá hafði reyndar verið í Krossinum í fyrra og talsvert við það að prédika en virðist nú hafa horfið á braut eftir sumarið. Allt snérist þetta um safnaðarpólítík og ekkert annað. Kvaðst hann vera innsti koppur í búri við að skoða þessi mál og vita heilmargt. Meira að segja kvaðst hann hafa verið hægri hönd Gunnars að einhverju leiti. Á endanum kvaðst hann alveg geta farið í blöðin og losað Gunnar undan vandanum í eitt skipti fyrir öll ef þetta héldi svona áfram eins og verið hefur.
Það sem maður heyrir sagt af götunni getur verið æði sérkennilegt. Fyrir mér þá er ég ekki viss um allt það sem þessi maður er að segja mér. Ég vissi t.a.m. ekki til þess að hann væri í Krossinum, heldur einmitt í öðrum söfnuði. Og sá sem stendur Gunnari næst og er bersýnilega hægri hönd hans er eldri dóttir hans sem jafnframt er framkvæmdastjóri safnaðarins. Það er rétt að nefndur prédikari hvarf eftir sumarið en hvort það er vegna þessa eða hins veit ég ekki. Hingað til hefur hann ekki verið bendlaður við málið á neinn hátt. Þá vilja þær konur sem standa fyrir ásökunum þeim sem um er rætt hafnað því að um safnaðarpólítík sé að ræða (er ég þá ekki að vitna í sjónvarpsviðtöl einvörðungu). Málið er þess heldur flóknara en svo að hægt sé að leysa það með einni blaðagrein. Hún þyrfti þá að vera alveg ferlega góð og marktæk fyrir alla; afhverju er hún þá ekki bara þegar komin!?
Það er ekki hægt að taka mark á öllu sem manni er sagt. Mér fannst til dæmis ekki hægt að taka fyllilega mark á Kastljósinu um daginn þar sem þær komu fram systurnar og ásökuðu Gunnar. Eitt af því sem sló mig var hversu léttar þær gátu orðið á settinu. Þegar spurt var um safnaðarpólítíkina þá fóru þær bara að hlæja rétt svona aðeins. Önnur þeirra átti auk þess í örlitlum vandræðum með að útskýra samskipti sín við Gunnar undanfarið. Hvorug þeirra ætlaði síðan upphaflega að rifja þetta mál upp. Þarf ekki aðeins þá að spá í því að verið er að rústa bæði lífi og ævistarfi viðkomandi, og kannski hjónabandi líka með hartnær 25 ára gömlum minningum? Já og á sama tíma segist fólk bera virðingu fyrir manninum og leitin að föðurímynd standi yfir!
Maður á að gagnrýna með sjálfum sér það sem manni er sagt. Sumt fólk er þannig að það lýgur alveg stanslaust. Ekki vegna þess að það ætli sér það heldur vegna þess að það er þannig að upplagi. Sumir búa sannleikann einfaldlega til. Stundum til þess að forðast eitthvað sem er sárt að hugsa um eða einfaldlega vegna þess að það er þægilegra. Í annan stað getur ákveðinn sannleikur orðið til þess að sumum finnst þeir hafa ákveðin völd umfram aðra. Sá sannleikur gæti þess vegna verið í reynd alveg haugalygi en gefið viðkomandi samt eitthvað. Það sjá ekki allir heiminn með sömu gleraugunum og það sem er sannleikur fyrir einum er það hreint ekki fyrir öðrum.
Það er til í dæminu að fólk ljúgi til þess að komast út úr hlutunum, losna við þá, helst umræðuna alla eða bara einfaldlega til þess að losna út úr samtali. Þannig lagað séð þá getur verið flókið að skyggnast inn í mannlegt eðli. Ef þú kafar nógu djúpt þá munt þú alveg pottþétt finna eitthvað vont og það hjá hverjum sem er.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
4.12.2010 | 18:54
Afsökunarbeiðni móttekin
Ágætt hjá flokknum að viðurkenna mistök sín og vanmátt. Líka það að vilja setja skýrar línur varðandi framtíðina. Með því er flokkurinn þó ekki að segja að bankahrunið hafi verið honum að kenna, til þess koma margir samverkandi þættir. Samfylkingin brást ekki nægilega vel við. Sjálfur vissi ég og reyndar fleiri að eitthvað slæmt var í aðsigi sumarið 2008, samt er ég enginn pólítíkus. Eitthvað klikkaði algerlega hjá Samfylkingu. Mun flokkurinn ná að rífa sig upp úr þessu? Ég segi já en þá þarf að vera samstillt átak.
Einmitt núna er tíminn fyrir aðra flokka að ná fótfestu í stjórnmálum. Við sáum hvernig Besti flokkurinn kom og vann í borgarstjórnarmálum. Nú er einnig sá tími þar sem nógu sterkir pólítíkusar geta haft löngun til þess að hrifsa til sín öll völd. Hitler kom upp á krepputíma og komst til valda löglega, á krepputíma. Allir voða glaðir þá. Ef við sameinum forsetaembættið og forsetisráðherraembættið þá gæti einmitt orðið til jarðvegur fyrir slíka menn til að blómstra í. Fjórflokkarnir verða að hisja upp um sig buxurnar ef þeir ætla að lifa almennilega af í hinu pólítíska landslagi.
Annars þá fer maður að verða leiður á afsökunarbeiðnum þvers og kruss af hendi stjórnmálamanna. Eins og það sé voðalega lítil tilfinning í þessu en samt einhver.
Samfylkingin biðst afsökunar | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Síður
Tenglar
Mínir tenglar
Eldri færslur
- Júlí 2023
- Maí 2023
- Desember 2014
- Júlí 2014
- Ágúst 2013
- Júlí 2013
- Júní 2013
- Mars 2013
- Janúar 2013
- Desember 2012
- September 2012
- Júlí 2012
- Febrúar 2012
- Desember 2011
- Október 2011
- Ágúst 2011
- Júlí 2011
- Júní 2011
- Maí 2011
- Apríl 2011
- Febrúar 2011
- Janúar 2011
- Desember 2010
- Nóvember 2010
- Október 2010
- September 2010
- Ágúst 2010
- Júlí 2010
- Júní 2010
- Maí 2010
- Apríl 2010
- Janúar 2010
- Desember 2009
- Nóvember 2009
- Október 2009
- September 2009
- Ágúst 2009
- Júlí 2009
- Maí 2009
- Mars 2009
- Janúar 2009
- Október 2008
- Júlí 2008
- Júní 2008
- Maí 2008
- Apríl 2008
- Mars 2008
- Febrúar 2008
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.1.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 4
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 4
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar