Bloggfærslur mánaðarins, febrúar 2011

Dónaskapurinn í Dallas

Ég hef verið að horfa á Dallas undanfarið á dvd og er staddur í 5. seríunni miðri núna. Fyrir þá sem ekki vita þá fjalla þessir þættir um Ewing fjölskylduna sem á risastóran búgarð og öflugt olíufyrirtæki í Dallas Texas. Þessir þættir voru sýndir fyrst fyrir rúmlega 30 árum og eru ennþá vinsælir enda bezta sápuópera sem gerð hefur verið.  

Ég man eftir sjálfum mér sem krakka við það að horfa á þetta. Alltaf sýnt á miðvikudagskvöldum og dallasá sama tíma tæmdust göturnar. Þá hafði maður lítið vit á öllum þeim klækjum sem áttu sér stað þvers og kruss í þáttunum en andstyggilegt bros J.R. Ewing sat hins vegar alltaf eftir. 

Eitt af því sem ég var ekki að velta fyrir mér hér í gamla daga er hvers sterk kjarnafjölskylda Ewing fjölskyldan í rauninni var.  Hvorki J.R. né Bobby einsetja sér nokkurn tíma að fara að heiman. Þeir eiga sér báðir herbergi heima hjá mömmu og pabba og eiginkonurnar flytja bara inná heimili tengdó. Jock gamli vildi heldur ekki að þeir færu neitt í burtu né heldur nokkur sem tilheyrði fjölskyldunni og miss Ellie heldur þeirri stefnu eftir að Jock deyr. Það er ekkert persónulegt sjálfstæði hjá þeim bræðrum, engin tilraun til þess að búa sér og hasla sér völl með sitt eigið. Sem er nokkuð sem þriðji bróðirinn Gary Ewing gerir, sem þó er alla tíð  fyrirlitinn sem veikgeðja og ekki eins harður og bræður hans. Nógu sjálfstæður er hann samt til þess að flytja burt og koma sjaldan á búgarðinn. Mér er spurn hvort þetta sé ekki vanmetinn persónuleiki?  

Einu sinni fannst mér athyglisvert að fylgjast með framkomu fólks þarna. Það hefur t.d. vakið athygli mína hversu oft fólk er ekki að segja bless þegar það er að kveðja í síma. Það leggur bara niður tólið. Þetta eru jú bara sjónvarpsþættir en það er samt ósjaldan sem fólk gengur bara í burtu án þess að kveðja.  Það er eiginlega bara alltaf.  Ef vel er að gáð þá er hellings ókurteisi í þessum þáttum sem væri fyrir einhvern e.t.v. gott efni í eina góða ritgerð. Hún gæti heitið dónaskapurinn í Dallas!

J.R. Ewing er skúrkur og skíthæll sem er ekki við eina fjölina felldur í kvennamálum, enda heldur hann við allt kvenfólk sem hann kemst nærri.  Hann er samt ekki jafn ofbeldishneigður og Bobby bróðir hans sem er ferlega oft laus höndin auk þess sem hann fær reiðiköst sem J.R. á ekki til.  Að mínu mati er Bobby alls ekki eins ljúfur og mig minnti. Hann sem manni fannst að væri alltaf góði strákurinn þarna. Ég myndi samt ekki vilja þekkja mann með hans skapgerð né heldur hinn bróðurinn ef því væri að skipta. Ég man einu sinni eftir Bobby þar sem hann ruddist inn til Cliff Barnes, kýldi hann og lagði hann niður í sófann auk þess sem hann hótaði honum. Afskaplega spennandi maður til þess að þekkja eða þannig. Minnir helzt á handrukkara.

Það er gaman að horfa á þessa þætti aftur en ég efast um að ég myndi nenna að horfa á Dynasty eða Falcon Crest uppá nýtt enda ekkert kvikindislegt J.R. bros þar að finna. 


Örvænting í arabalöndunum yfirhöfuð

Ég tel að með tilkomu internetsins þá hafi orðið þvílík upplýsingabylting að engu lagi er líkt.  Það sem við sjáum í arabalöndunum núna er gríðarlegur fjöldi af ungu fólki sem fer inn á facebook og leggur síðan þaðan af stað í mótmæli. Það vill betri kjör.  Með því að halda upplýsingum frá fólki, með því að ritstýra fjölmiðlum, blaðaútgáfu, sjónvarpi og útvarpi þá er hægt að halda fólki niðri. Það veit enginn neitt almennilega. Með interneti þar sem er ekki hægt að ritskoða endalaust þá hverfur sá möguleiki.

Ég óttazt að það eigi eitthvað mikið eftir að gerazt í arabalöndunum á næstunni. Það á allt eftir að fara í bál og brand þarna. 


mbl.is Örvænting í Marokkó
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Mannasiðir Gillz - að mæta í partý

 Ég sá þátt númer tvö um daginn sem fjalla um mannasiði Gillz. Eitthvað var þarna af ágætis hugmyndum en svo komu aðrar sem ja eru ekki alveg samkvæmt minni bók. En svona myndi ég hafa þetta. 

images?q=tbn:ANd9GcT6jau7_BuUXDBtDUjTlsbxfdQDPAyoTu70vGEo2JAe2474pPnSZQÍslendingar eru alveg ferlega hræddir við að mæta fyrstir í partý. Þess vegna mæta þeir of seint miðað við þann tíma sem partýið átti að byrja. Maður getur því gefið sér að ef partýið átti að hefjazt um níu þá sé enginn mættur fyrr en í fyrsta lagi hálf ellefu.  Sjálfur mæti ég oft og iðulega snemma. Það er í sjálfu sér rétt hjá Gillz að kvenfólkið er að búa sig fyrr um kvöldið og það er ekkert gaman að koma of snemma og koma þegar verið er að punta sig (sem er allt eins klukkan níu þegar partýið á að hefjast).  Önnur hugmynd í þessum efnum er að koma seint og fara snemma. Ef maður þekkir fáa á staðnum í ofanálag, þá bara mæta eiturhress heilsa liðinu og fara síðan fljótlega. Slíkt vekur athygli gesta og þeir fara að spá i því hver þetta hafi verið. 

 Aldrei að koma með einhver ósköpins öll af áfengi í partý. Ein flaska er alveg nóg eða ein kippa af bjór. Svo ætti enginn að iðka það að drekka sig alveg útúr. Það er bara ekkert gaman og ef þú ert í þokkabót ekki því mun betur meðal vina, þá er voðinn vís. 

Merkilegt hversu fólk finnur sig öruggt og með, ef það hefur glas í hendinni með einhverju í.  En svo er bara að spjalla við sem flesta.  Ég er alveg á móti því sem Gillz er að segja að þegar einhverjar sætar stelpur mæta til svæðis þá ætti maður helzt að fara og heilsa uppá ófríðar stelpur og fá þær til þess að hlæja. Með því að fá þær til þess að hlæja þá myndi það vekja athygli sætu stelpnanna. Fyrir mitt leiti þá er slíkt óheiðarlegt og kallast að nota aðra til þess að ná öðru markmiði. Fókusinn ætti bara að vera á þessar ófríðu stelpur... maður á ekki að flokka kvenfólk bara eftir því hvort það er frítt eða ófrítt í útliti. Innri manneskja skiptir miklu meira máli.  Sæt stelpa sem er alveg tóm er minna áhugaverð en stelpa sem er engin gella, en er með því mun meira heilakonfekt :) 

images?q=tbn:ANd9GcQhYXTBEGZvdND3parstkunc7mfepJma94zX2Eo1M9QGbi624qHSegjum að  maður sé staddur í partýi og inn komi einhverjar ofboðslega sætar gellur. Ef það er ekki hægt að ganga beint að þeim, bjóða þeim í glas eða segja skál með einhverju spjalli, þá eru þær einskis virði. Skiptir engu hversu líkar þær eru miss world. Útlitið er ekki allt. Það er þroskinn og andlegi hlutinn sem er miklu athyglisverðari hlutur.  Því eldri sem maður verður því mun betur gerir maður sér grein fyrir því.  

 Útúrdúr: Ég er farinn að hatazt við orðalag Gillz sem er að lima sig upp. Eitthvað hef ég það á tilfinningunni að skyndikynni sé bara sjálfsagður hlutur í þessum þáttum. Fyrir mér þá er skyndikynni alger viðbjóður og maður á að hafa þá sjálfsvirðingu að vera ekki með hverjum sem er. Munurinn á því að ríða og elskast verður ekki útskýrður hér (of langt mál) en ég sakna þess að mannasiðabók skuli ekki geta gert greinarmun á slíku og þættirnir ekki heldur í ofanálag. 

Að lokum vil ég nefna að maður á aldrei að eyða tíma sínum í eitt einasta partý þar sem fólk drekkur eins og svín, tekur inn dóp, reykir innandyra eins og strompar eða er farið að brjóta hluti (svona helzt til óvart). Ef manni aftur á móti er bara farið að leiðazt og það er enginn spennandi til þess að spjalla við lengur, þá á maður bara að fara.  Maður á alltaf að nota partý, veizlur, kaffiboð o.s.frv. til þess að blanda geði við annað fólk.  Annars að segja eins og Patrick Bateman (American Psycho), jæja ég verð víst að drífa mig, þarf að skila nokkrum vídeóspólum...

 


Fyrirlestur um Guð í Bókasafni Kópavogs

Þetta er búinn að vera annasamur dagur. Eftir vinnu fór ég beint í að skila bókum og hlusta á fyrirlestur númer tvö um Guð. Í þetta skiptið talaði séra Auður Eir Vilhjálmsdóttir og sem fyrr var salurinn meira eða minna skipaður fólki komið yfir sjötugt.  Auður talaði blaðlaust í hartnær þrjú korter og hafði ekkert fyrir því. Fyrirfram hélt ég að hún myndi leggja áherzlu á að tala um kvennaguðfræðina en það gerði hún hins vegar ekki.  Fyrir þá sem ekki vita þá stofnaði Auður kvennakirkjuna fyrir einhverjum árum síðan þar sem m.a. er lagt áherzlu á það að kvenkyns nefna Guð. Þannig er í daglegu tali t.d. sagt Hún Guð en ekki Hann Guð.

Auður byggði ræðu sína upp á því að byrja á sköpunarsögunni og síðan þræddi hún sig áfram í gegnum söguna þar til hún var komin að Páli Postula. Hana Guð sjáum við í sögunni, m.a. í því þegar Ísraelsmenn voru 40 daga í eyðimörkinni og Guð sýndi þeim umhyggju og ræktarsemi eins og móðir myndi gera við börn sín. 

Það var gaman að hitta Auði þarna, hún er ósköp elskuleg að hitta, vel fróð í guðfræðinni og gaman að hlusta á hana tala. Hún hélt athygli minni allan tímann og veitti mér ekki færi á að láta hugann reika. En það er nú svo að stefna hennar í guðfræðinni hefur ekki verið vinsæl meðal allra. Fyrir mitt leiti þá finnst mér það sjálfum engu skipta hvort sagt er Hún eða Hann. Allt það er aukaatriði miðað við þá staðreynd að sá sem boðar, leiðir, hversu fróður sem hann kann að vera, og meistaralegur í lítúrgíu (helgisiðafræðum) o.s.frv. er hjóm eitt,  ef hann hefur ekki hjartað á réttum stað. 

  ...eða með öðrum orðum; það er kærleikurinn sem skiptir mestu máli, ekki einhverjar tiktúrur eða einhverjar sérstakar áherzlur í tengzlum við strauma eða stefnur innan guðfræðinnar. 

Að lokum þá er ein staðreynd sem mig langar til þess að nefna fyrir þá sem ekki vita. Séra Auður Eir er fyrsta konan á Íslandi til þess að hljóta prestsvígslu en það var árið 1974. 


Hvenær drepur maður mann og hvenær drepur maður ekki mann?

Meðan ég lá lasinn af þetta ofsalega leiðinlegum kvef-flensuvírus, liggjandi marflatur upp í sófa með tvöfalt teppi yfir mér þá birtizt mér á sjónvarpsskjánum maður sem býður dóms vegna morðs. Réttarhöldin hófuzt á mánudaginn, en maðurinn sást í handjárnum þar sem hann kom gangandi inn og síðan út aftur.  Ekki það að mig langi til þess að velta mér uppúr þessum þvílíka harmleik. Sumt á maður ekki að fjalla um á neti.

Hins vegar þá kemur upp í hugann, og við vorum að tala um þetta í dag, það að drepa einhvern. Hvernig tilfinning ætli það sé. Hvernig líður fólki sem drepur aðra. Það hlýtur að fá samvizkubit er það ekki.   Að mínu mati reyndar þá er það alltaf rangt að drepa einhvern. Einhver kann að nefna að það væri réttlætanlegt að gera slíkt í sjálfsvörn, en samt þá verður slíkur verknaður aldrei fullkomlega að ásættanlegri niðurstöðu eða m.ö.o.  ég drep mann til að verja mitt eigið líf en samt þá verð ég aldrei sáttur við að hafa þurft að gera það. 

Hér komum við að samvizkunni. Raskolnikov í bók Dostojevskis Glæpur og refsing, ákvað að drepa mann. Það gerði hann bæði vegna þess að hann taldi sig geta grætt  á því og vegna þess og kannski sérstaklega vegna þess að öll stórmenni hafi byrjað á slíkum verknaði sem síðan leiddi þá áfram veginn að mikilmennsku og frægð.  Raskolnikov tók ekki eigin samvisku með í reikninginn. Ekki heldur það að hann myndi þola þjáningar vegna þess að upp um hann gæti komist og hann gæti lent í fangelsi.  Við sjáum hann svo í rusli útaf þessu blaðsíðu eftir blaðsíðu. Ef þú hefur ekki lesið þessa bók þá er hún ein besta bók Fjodors Dostojevskis. 

Raskolnikov hefur samvisku og það alveg heilmikla þegar upp er staðið.Macbeth_illustration14_001_mid Nokkuð sem Makbeð í samnefndu verki Shakespeares hefur ekki.  Makbeð drepur mann. Til þess að komast upp með það að hafa drepið manninn þá drepur hann alla þá sem gætu hugsanlega afhjúpað glæpinn og vandinn vex og vex... Nokkuð sem við getum kallað siðlausa martröð.  Makbeð er siðblindur. Hann sér ekki að hann hafi gert eitthvað rangt og hann heldur áfram sama veginn til þess að geta að lokum komizt upp með upphaflega glæpinn. 

Hver hefur drepið mann og hver hefur ekki drepið mann? Hvenær drepur maður mann og hvenær drepur maður ekki mann? Fari í Helvíti sem ég drap mann. Og þó.   Þannig talar Jón Hreggviðsson eftir að hafa verið ákærður fyrir morð á böðli nokkrum.   Athyglisvert að skoða svar John Locke í þessu samhengi þ.e. til þess að svara spurningum Jóns. Hann segir að ef einhver vilji ná algeru valdi yfir manni og svipta burtu því frelsi sem grundvallarmannréttindi eru byggð á, þá hafi sá hinn sami lýst yfir stríði og sé þá um leið réttdræpur (sjá Ritgerð um Ríkisvald). 

Ef við notum þetta sem niðurlag  til þess að svara spurningum Jóns almennilega og þá sérstaklega þeirri sem sett hefur verið sem fyrirsögn þessarar greinar, þá vil ég segja að ég geti ekki verið Locke sammála nema  að því leitinu til að hjá því verði ekki komizt að drepa manninn og það til að verja eigið líf eða líf einhvers, en samt geti aldrei orðið heil sátt um það að hafa orðið að gera það.  Að drepa mann er voðaverk. Ef hægt er að komast hjá slíku þá skuli sú leið ávallt farin.

 

 


Karlmaðurinn er veikara kynið

Það hefur komið fyrir hingað og þangað í gegnum tíðina að konur hafa haldið því fram við mig að karlmenn væru veikara kynið. Jú þessu er jafnvel mikið haldið fram þvers og kruss. Og meginrökin eru iðulega þau að karlmenn myndu aldrei þola mesta sársauka allra tíma sem á sér stað á hverri sekúndu árið um kring. 

Aumingja karlpeningurinn. Þegar hann verður veikur, þá verður hann líka svo mikið veikur. Það er lagzt í rúmið. Svo er legið þar og allt er svo slæmt. Ó guð hvað ég er veikur.  Svo kemur konan og færir manninum alles í rúmið og greyið liggur bara. Slíkur maður gæti ábyggilega ekki þolað ofangreindar kvalir. Hvernig yrði hann þá?!

Mikið hvað það hefur verið gaman að lenda í líflegri umræðu við uppvaskið þar sem tönglast hefur verið á því að ef karlmenn gengju með börnin og myndu þurfa að þola þjáningu fæðingarinnar þá myndu þeir deyja! Allir saman!  Þar með væru þeir veikara kynið.  Raðandi diskunum og glösunum fannst mér ágætt að benda á þá staðreynd að auðvitað myndu þeir drepast, einhverjir af þeim allavega. Náttúruval yrði þá þar eins og annars staðar í þessari náttúru. Þeir gætu þetta á endanum...     (út frá staðreyndum um æxlun þá er þessi umræða auðvitað algert bull).

Blessaður karlpeningurinn sem hefur kúgað kvenfólkið í árhundruði, bannað því að eiga sjálfstætt líf, taka þátt í lýðræði, kosningum, að mennta sig, ráða því hverjum skuli giftast, hvar skuli búa og þar fram eftir götunum er allt í einu ekki lengur í slíkri oddastöðu og það eftir meirihluta Íslandssögunnar.  Þær ráða þessu öllu núna og þráin er  e.t.v. sú að snúa þessu kannski bara við næstu árhundruðin. 

 


Gleðileikurinn guðdómlegi eftir Dante - Inferno

Dante Alighieri var ítalskt skáld sem upp var á 13. öld og fram á þá 14. Hann fæðist um 1265 og birtir sitt fyrsta verk 1293.  13. öldin var öld mongóla og sturlunga, tími hins heilaga Francis frá Assisi og Tómasar Aquinas.  Dante sem hét réttu nafni Durante degli Alighieri orti sitt frægasta verk ekki á þeirri öld heldur hinni komandi þá líklegast um fertugt. Það er Divina Commedia eða Gleðileikurinn guðdómlegi sem skipta má í þrjá bókarhluta. 

Fyrsta hlutann langar mig til þess að fjalla um hér en hann heitir Inferno eða Víti.  Dante sjálfur er aðalpersóna sögunnar og ferðast hann um helvíti, ásamt Virgli sem aðstoðar hann, þaðan yfir í Purgatory sem er ferð um hreinsunareld en endar loks  í Paradiso sem er himnaríki sjálft. 

Texti dante_alighieribókarinnar er þungur. Þú lest þessa bók ekki hratt og þú lest ekki mikið í einu. Ástæða þess er sú að efnistök eru það þung að það er torvelt að taka við miklu af þessu í einu, ekki sízt þegar farið er í gegnum Inferno.  Þeir sem hafa virkilegan áhuga á bókmenntum ættu að lesa þessa bók. En það er nokkuð ljóst að hún er ekki fyrir alla að lesa.

Dante hefur að förunaut eins og áður segir Virgil sem leiðbeinir honum um einstigi, yfir ár og dali, meira að segja á bak skrýmslis sem flýgur með þá stuttan spöl. Það hvarflar að manni hvort Dante hafi haft áhrif á Hringadróttinssögu Tolkiens en það skal ósagt látið. Víti er margskiptur staður með alls kyns viðbjóði. Þar finnur Dante alls kyns fólk sem hann áður þekkti og hann spyr sjálfur hvort einhver frá Toscana sé þarna einhversstaðar.  Svo er ratað áfram innanum einhverja sem sitja fastir á hvolf eða hinssegin, fláðar sálir og demóna. Ég beið iðulega eftir því að rekazt á einhvern svona frægan í víti og fann þó einn sem er heimspekingurinn Epikúr. En eftir heillanga viðburðarríka skoðunarferð í gegnum helbert ógeð hlutu menn svo að lokum að finna  Júdas við ákveðnar aðstæður og það all sérstakar (hér skil ég eftir forvitni handa þér lesandi góður). Ég beið reyndar einnig eftir því að sjá minnst á dauðasyndirnar sjö á einhverri blaðsíðunni en þær voru hvergi sjáanlegar. 

Eftir á að hyggja velti ég fyrir mér áhrif Inferno á kvikmyndir og þá sérstaklega What Dreams may Come með Robin Williams í aðalhlutverki. Þar fer aðalpersónan niður til helvítis í þeim tilgangi að leita konu sinnar sem hafði fyrirfarið sér. Til fararinnar hefur hann með sér mann sem leiðbeinir honum, einskonar Virgil. Það sem þeir sjá er keimlíkt Inferno Dantes eins og t.d. staðurinn þar sem fjöldi hausa standa uppúr leðju í einum stórum hnapp eða þá allt rokið og sálirnar sem hvolfa bát þeirra. Áhrif Dantes gætu einmitt verið þar að verki sem og annars staðar ef betur er að gáð.

Hugmyndir um helvíti hafa haft áhrif á fjölda bóka og kvikmynda. Það er alveg klárt, eins og t.d. Kantaraborgarsögur Chauchers.  Paradísamissir eftir John Milton er einnig bók sem er af slíkum meiði en heldur ljóðrænni en Dante og torveld til lesturs. Látum staðar numið með það hér.

Ég var feginn þegar ég loks hafði komist í gegnum helju með þeim Virgli. Næst er það Purgatory sem mig langar að blogga um, sem verður þó ekki alveg strax. 

 

 


Silas Marner eftir George Eliot

Bókin Silas Marner eftir George Eliot kom út nú rétt fyrir jólin.  Höfundurinn George Eliot var í raun kona sem hét Mary Anne Evans (1819-1880). Hún ákvað að skrifa ekki bækur undir eigin kvenheiti George Eliotheldur hafa karlkyns skáldskaparnafn. Það gerði hún bæði til þess að geta verið tekin alvarlega sem rithöfundur og til þess að losna við ákveðinn stimpil þess efnis að konur geti bara skrifað léttar ástarsögur. Hún hefur síðan verið sett á sama stall og Jane Austen og Brönte systur.

Silas Marner er þriðja bók Eliot af sjö og fjallar hún um gamlan vefara sem býr afskekkt fyrir utan lítið þorp í Englandi.  Það líkar engum við hann og hann heldur sig út af fyrir sig. Með tímanum hafði honum tekizt að eignazt hrúgu af gullpeningum sem hann geymir á góðum stað en leikur sér með og handfjatlar öðru hvoru.  Það sem hann veit ekki þá og síðar á eftir að verða, er að hann á eftir að verða fyrir talsverðu óláni og afstaða fólksins í þorpinu á eftir að breytazt gagnvart honum. Þá á eftir að berazt  dyrum hans fólk sem á eftir að breyta lífi hans. En í þorpinu hins vegar finnum við óðalseigendur og vel stætt fólk sem hefur ýmislegt að fela; líka menn sem eru ekki ábyrgir gerða sinna.  Þar á meðal er Godfrey Cass sem á sér leyndarmál sem hann telur að geti ógnað sambandi sínu við heitkonu sína Nancy Lammeter. 

Flétta þessarar sögu er í raun góð þó svo að sagan virðist hæg á köflum. Hún er vel þess virði að lesa hana. Persónusköpunin er góð og ég upplifði stundum raddirnar segjandi hlutina á ensku með ákveðnum tóni.  Þetta er ekki ástarsaga eða rómans, ekki spennusaga og ekki harmleikur. Miklu fremur er þetta saga um fólk, heilindi þess og réttlætiskennd. Bókin er 312 bls að lengd.


Dauði Ásu eftir Edward Grieg

Dauði Ásu úr tónverkinu Pétri Gaut eftir Edward Grieg er ein angurværasta tónsmíð sem ég hef heyrt. Það er langt síðan ég heyrði það fyrst. Þá virkaði það einungis dapurlegt og öðruvísi tilfinning fylgdi því að hlusta á það.  

Edward Grieg samdi þetta tónverk árið 1888.  Það vekur ávallt hjá mér einhverja tilfinningu í ætt við bækur Selmu Lagerlöf, fyrstu konunnar sem varð nóbelsverðlaunahafi. Gösta Berlingssaga er bók sem allir velunnarar góðra bókmennta ættu að lesa.  Þar eins og í Pétri Gaut, er skógur og fjöll, ómalbikaðir vegir sem hestakerrur rata um í gegnum dimma skóga, ljóstýrur til þess að lesa við og skuggar og ljós blandast saman við kuldalega stemmningu, þá jafnvel við návist dauðans sem er einsog áður óútskýranlegur, sérstaklega þegar ungt fólk deyr. 

Hvers vegna deyr ungt fólk, hvers vegna deyr nokkur maður spyr grikkinn Zorba í bók Kazantsakis. Eina svarið sem hann fær er einfaldlega ég veit það ekki. Allar bækur sem ég á segja mér frá kvöl manna sem geta ekki svarað slíkum spurningum.  Að spyrja eða vilja svara er manninum eðlislægt. Hér í gamla daga heyrði ég af æðruleysi sjófólksins sem vissi aldrei fyrir víst hvort fyrirvinnan kæmi heim eftir sjóðróður.  Þegar bátur fórst varð viðkvæðið oft Drottinn gaf, Drottinn tók. Þetta átti að gerast, þetta átti að fara svona. 

En svo gengur illa að sættast við meinleg örlög.  Fyrir löngu sagði ég við mann einn einfaldan hlut í tengslum við sorgina. Ekki reyna að gleyma, komast yfir, jafna sig á, ýta frá sér, og ekki heldur að sættast við heldur það eitt að læra að lifa með.  Sumir hafa ort ljóð, safnað saman ljósmyndum, skrifað bækur, eða bara haldið dagbók. En jafnvel þar er fátt eitt sagt. Ekkert er einfalt í sjálfu sér í þessum efnum. 

Bók Selmu Lagerlöf - Gösta Berlingssaga er ein bezt skrifaðasta bók sem ég hef lesið. Einhverra hluta vegna einnig draugalegasta og kuldalegasta bókin. Dauðinn birtist þar líka, að nóttu til, á sveitavegi sem hlykkjast í gegnum skóglendi. Og það er kalt eins og í verki Griegs. 

 Selma Lagerlöf hefur skrifað fleiri bækur en nefnda bók. Hún var sænsk og sögur hennar gerast í Svíþjóð. Knut Hamsun er einnig höfundur sem vert er að gefa gaum að.  Ef þú hins vegar ert að leita að virkilega góðri bók til þess að lesa þá mæli ég með William Heinesen - Glataðir snillingar. 

 


Fyrirlestraröð um Guð í Bókasafni Kópavogs nú í febrúar

Nú er í gangi fyrirlestraröð í Bókasafni Kópavogs þar sem umræðuefnið er Guð.  Þessir fyrirlestrar eru auglýstir nú í febrúar á fimmtudögum klukkan 17:15.  Alls eru það fjórir fyrirlesarar sem stíga á stokk. Sá fyrsti var í dag og talaði þá guðfræðingurinn og fjölmiðlamaðurinn Ævar Kjartansson um Guð og hvernig hann birtist í fjölmiðlum. Sérdeilis ágætur fyrirlestur. Fannst mér ég vera manna yngstur á staðnum en þó sá eini sem ákvað að standa upp og tala í smástund útfrá þeim forsendum kannski helzt að hafa lært guðfræði og telja mig geta svarað einhverjum vangaveltum í tengslum við hina heilögu þrenningu. 

Eftir viku þann 10. febrúar kemur séra Auður Eir Vilhjálmsdóttir og verður efalaust áhugavert að hlusta á hana en hún hefur eins og margir vita orðið að einhverju leiti umdeild vegna kvennaguðfræði sinnar þar sem Guð er settur í kvenkyn og kyngreint þannig hvernig svo sem á að tala um Guð. Á þann fyrirlestur langar mig að mæta. Ekki það að ég setji mig á móti kvennaguðfræði hennar, sem ég þó aðhyllist ekki neitt sérstaklega. 

Þann 17. febrúar verður Reynir Harðarson formaður félagsins Vantrúar með sinn fyrirlestur. Þangað langar mig einnig að mæta.  Maður rekst mest á fólk þessa félags á netinu sem mér finnst sjálfum persónulega synd því ég er alveg til í að hlusta ýmis sjónarmið þó þau kunni að vera og verða önnur en mín. Ég er spenntur auðvitað að sjá og heyra í Reyni en af þeim manni hef eg ekki vitað af fyrr og veit ekkert hvað hann kann að segja mér nema það helzt að Guð sé ekki til. Annars væri hann auðvitað ekki formaður þessa félags (né heldur í því auðvitað). 

Svo hinn 24. febrúar stígur á stokk maður sem ég þekki betur en þau hin en það er vefpresturinn Árni Svanur Daníelsson. Ég er nokkuð viss um að ekki verði komið að tómum kofanum þar frekar en fyrri daginn enda er Árni víðlesinn og sprenglærður í Biblíufræðum. Við hófum guðfræðinám á sama tíma undir lok síðustu aldar. En ég veit lítið um hlutverk vefprests. Er Árni vígður til starfa á internetinu!? Virkar undarlega fyrir mér ef ég er ekki því mun betur að misskilja hlutverk hans. En ætli Árni útskýri þetta ekki bara sjálfur þegar þar að kemur. 

Salur Bókasafns Kópavogs er ekki stór. Hann var fullur í dag. Ætli það hafi ekki verið 60 til 70 manns þessa klukkustund sem fyrirlesturinn stóð.  Sumt vissi ég ekki sem kom fram hjá Ævari. Ég vissi ekki að hér áður hefðu jarðarfarir verið útvarpaðar á gömlu gufunni. Heldur ekki að Ævar sjálfur hefði verið að fá guðfræðinga og presta til sín í spjall. Það gat svo sem verið. Ekki það að ég telji mig vera missandi af einhverju. Ævar er gamall útvarpsmaður og athyglisvert að hann skyldi velja sér þá leið að verða guðfræðingur. En hvað ég hef ekki verið að hlusta á hann í útvarpi undanfarið eða jafnvel bara yfirhöfuð. Því miður.

Hvort ég hafi hug á því að standa upp á svona fyrirlestrum og tala veit ég ekki. Ég bara greip tækifærið til þess. Stundum koma augnablik, tækifæri sem maður verður endilega að grípa ellegar glata því og hugsa um eitthvað annað allar götur síðan. 


Næsta síða »

Höfundur

Þórður Guðmundsson

Þórður Guðmundsson þroskaþjálfi

Nýjustu myndir

  • bill cosby 620x480 cemrf
  • ATI-lower-review-polymer
  • ATI-lower-review-polymer
  • download JFK
  • Aretrov

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 4
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 4
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband