Færsluflokkur: Bloggar

Hinn grátbroslegi söngur

Það ánægjulegt að hlusta á góðan söng.  Það að syngja vel er alveg yndislegt að geta gert. Að geta sungið fyrir áhorfendur og fá lof fyrir er þess heldur alveg dásamlegt. Sumir er þannig að þeir hafa alveg undursamlega rödd af náttúrunnar hendi meðan aðrir eyða því mun meiri tíma til þess að þjálfa upp röddina.  Þetta er ekki það fólk sem mig langar til þess að fjalla um hér núna enda fær þetta fólk iðulega fyllilega sitt af lofi og húrrahrópi árið um kring. Það eru annars konar söngvarar sem mig langar rétt aðeins til þess að kíkja á. 

Það er fólkið sem getur alls ekki sungið. Fólkið sem heldur að geti sungið en getur það ekki. Það er falskt með eindæmum, man ekki textann, fylgir ekki laginu og söngurinn kemst ekki til skila þó svo að lagið sé frægt og allir ættu að kannast við það. Ekki bætir úr skák þegar umrætt fólk mætir í sjónvarp með undirleik og upphefur söng sinn.  Sumir kannast ekki við það að þeir geti ekki sungið en telja sér þó í trú um það og jafnvel hefur því tekist að telja aðra í trú um að það geti sungið.  Það versta sem fólk getur í raun gert öðrum er að segja þeim að söngur þess sé góður þegar hann er það ekki. Sá sem er laglaus ætti ekki að segja öðrum sem einnig er laglaus að söngurinn sé góður, en það fer oft svo að blindur leiðir blindan. 

Mig langar að taka hér dæmi um slæman söng. Það að maðurinn getur ekki sungið er afgerandi. Hann kann heldur ekki textann og skáldar hann upp á köflum. Píanóleikurinn er of hraður fyrir hann og hentar honum ekki. Ég velti því fyrir mér hvort ekki hefði verið betra fyrir hann að hafa textablað fyrir framan sig, skjávarpa eða eitthvað bara. Þetta er ekki grínatriði. Það er hluti af skemmtiþætti með fleiri söngatriðum, háalvarlegum. 

Ég verð að viðurkenna að ég hef fengið algert hláturskast yfir þessu atriði. Það er þó ekki svo að ég telji að aðrir geri endilega slíkt hið sama. Þvert á móti. Þetta er grátbroslegt. En það er bara eitthvað við þetta sem er svo sérstakt og hálf barnslegt. Hvernig hann fylgir ekki spilinu en heldur samt alltaf áfram að reyna að vera með.  

 


Hin athyglisverða Fésbók

 Samskiptavefir eins og facebook hafa á undanförnum árum orðið æ vinsælli. Fyrir ca. 4 árum þegar ég fór inn á facebook í fyrsta skipti þá voru þar u.m.b. 100 manns. MySpace var þá einnig í örum vexti. Svo einhvernveginn sprakk þetta út og bókstaflega allir tóku að skrá sig inn. Meira að segja afarnir og ömmurnar. Í fyrstu virtist þetta vera einvörðungu bundið við fólk á þrítugsaldrinum en merkilegt hvað það átti eftir að breytast og er enn að breytast. Vefurinn hefur breyst alveg hrikalega síðan ég sá hann fyrst.

Það heyrir í dag til undantekninga ef einhver er ekki á facebook. Sumir eru tölvublindir og ná þess vegna ekki þarna inn. Aðrir eru einhvern veginn ekki inn á þeirri línu að fólk almennt séð viti yfirhöfuð skapaðan hlut um sig. Ég hef bara ekki sans fyrir svona hlutum segir einn á meðan annar segir að þetta sé bóla eða bara drasl.  Sem í sjálfu sér viðhorf í sjálfu sér. Enginn er neyddur til þess að taka þátt í þessu. Það er val hvers og eins. 

Að öðru leiti þá er athyglisvert hversu margir hafa fundið gamla skólafélaga í gegnum facebook. Vegna þess að svo margir eru þarna inni þá verður það því mun auðveldara að grafa upp heilu bekkina.  Þeir sem muna ekki einhver nöfn geta líka farið niður á Þjóðskjalasafn, fengið ljósrit af gömlum bekkjarlistum fyrir slikk og byrjað síðan að leita.  Reunion eins og það kallast hefur komið í röðum ár eftir ár eftir að fólk hefur áttað sig á þessari staðreynd. Skemmtilegt hversu margir hafa endurnýjað gömul kynni í gegnum þetta. Reyndar hefur það einnig orðið að ókosti þegar gamlar ástir hafa kviknað burtséð frá öðrum skuldbindingum. Hjónaskilnaðir hafa orðið vegna facebook.

Facebook er samt ekki endilega svo persónulegur staður, þ.e. eitthvað sem taka þarf hátíðlega eða gera að miðpunkt lífsins. Þetta er ágæt afþreying ef ekkert annað er í gangi og fínt til þess að bæði fylgjast með viðburðum og því sem er að gerast meðal ættingja og vina. Einnig bara til þess að byggja upp samskipti.  Fyrir mér er best að nota vefinn jákvætt, til að benda á eitthvað skemmtilegt, tala vel um aðra, hrósa öðrum, deila skemmtilegu efni og þess háttar. Þó er vel hægt að loka sig af í einhverjum leiknum en einnig þar er allt eins líklegt að rekast á einhvern sem er einnig í sama leik. 

Svo er það að hvernig maður eignast vini á vefnum. Ég hef stundum farið út í það að adda grimmt. Margir svara játandi en svo eru það aðrir sem vilja alls ekki vera vinir. Mín vegna er það allt í lagi líka. Það hafa allir val og það er mismunandi hvernig fólk notar vefinn. Ég t.a.m. góðan vin sem neitar að vera vinur á facebook vegna þess að hann vill bara hafa þetta útaf fyrir sig og allra nánustu í fjölskyldunni. Ég á líka vini sem ég þekki í raun ekki neitt en vildu endilega vera vinir mínir og ég leyfði það alveg. Hvers vegna ekki ef maður vill kynnast fleira fólki.  

Svo er það þessir sem neita því að vera vinir manns. Í einn stað hef ég litið á það alveg eins og að hringja í einhvern sem svarar ekki í símann sinn einhverra hluta vegna.  Ekki merkilegra en það. Eða partýboð sem er afþakkað í það skiptið en samþykkt kannski seinna.  Svo þegar einhver tekur til á vinalistanum sínum og eyðir þér sem vini má segja að hann hafi yfirgefið partýið. Eins og gengur og gerist í lífinu. Vinir koma og fara eins og farandverkamenn. 


Hvað er sannleikur?

Ég fór í bæinn í gær og hitti mann. Alveg dæmigert að gera svoleiðis. Lífið er að má segja vegferð milli manna, þú hittir einn, síðan þann næsta og svo koll af kolli. Nema þegar þú skoppar inn á eitt stykki fund, þá ertu að hitta marga í einu, en síðan kemur að því að fundi líkur og þú ferð af stað aftur og hittir næsta mann eða talar við hann í síma, og svo koll af kolli. 

En aftur að þessum manni sem ég hitti. Málið er að ég fer stundum í bæinn eftir miðnættið og labba inn á skemmtistaði. Ekki til þess að fá mér í glas heldur til þess að gá hvort þar séu e.t.v. einhverjir skemmtilegir til þess að endurnýja kynni við, eða hreinlega til þess að kynnast. Stundum ber vel í veiði og á barnum eru einhverjir snillingar sem ég spjalla við í lengri tíma eða stelpur sem ég síðan dansa við allsgáður. Þessi maður var ekki inni á skemmtistað heldur fyrir utan. Við erum vel málkunnugir og tölum oft saman. Hann er einn af þeim mönnum sem tilheyra frjálsum söfnuðum í Reykjavík.  Það var fáranlega hlýtt í gær miðað við árstíma. Ég gat leyft mér að vera gangandi um í stökum jakka með svörtum bol við og það án þess að verða neitt of kalt. Þess vegna gátum við staðið þarna á götuhorni og spjallað í lengri tíma án þess að frjósa.  En allavega vinur minn hafði frá ýmsu að segja og fljótlega kom að máli málanna, Gunnari í Krossinum.  

 Vinur minn sagði mér þarna að þetta væri allt saman uppspuni um Gunnar blessaðan. Til þess gert að koma honum frá sem forstöðumanni. Markmiðið væri að koma öðrum að í hans stað, sem væri þá fyrrum forstöðumaður Vegarins hér í eina tíð. Sá hafði reyndar verið í Krossinum í fyrra og talsvert við það að prédika en virðist nú hafa horfið á braut eftir sumarið.  Allt snérist þetta um safnaðarpólítík og ekkert annað.  Kvaðst hann vera innsti koppur í búri við að skoða þessi mál og vita heilmargt. Meira að segja kvaðst hann hafa verið hægri hönd Gunnars að einhverju leiti.  Á endanum kvaðst hann alveg geta farið í blöðin og losað Gunnar undan vandanum í eitt skipti fyrir öll ef þetta héldi svona áfram eins og verið hefur. 

Það sem maður heyrir sagt af götunni getur verið æði sérkennilegt. Fyrir mér þá er ég ekki viss um allt það sem þessi maður er að segja mér.  Ég vissi t.a.m. ekki til þess að hann væri í Krossinum, heldur einmitt í öðrum söfnuði.  Og sá sem stendur Gunnari næst og er bersýnilega hægri hönd hans er eldri dóttir hans sem jafnframt er framkvæmdastjóri safnaðarins.  Það er rétt að nefndur prédikari hvarf eftir sumarið en hvort það er vegna þessa eða hins veit ég ekki. Hingað til hefur hann ekki verið bendlaður við málið á neinn hátt.  Þá vilja þær konur sem standa fyrir ásökunum þeim sem um er rætt hafnað því að um safnaðarpólítík sé að ræða (er ég þá ekki að vitna í sjónvarpsviðtöl einvörðungu).  Málið er þess heldur flóknara en svo að hægt sé að leysa það með einni blaðagrein. Hún þyrfti þá að vera alveg ferlega góð og marktæk fyrir alla; afhverju er hún þá ekki bara þegar komin!?

Það er ekki hægt að taka mark á öllu sem manni er sagt.  Mér fannst til dæmis ekki hægt að taka fyllilega mark á Kastljósinu um daginn þar sem þær komu fram systurnar og ásökuðu Gunnar.  Eitt af því sem sló mig var hversu léttar þær gátu orðið á settinu.  Þegar spurt var um safnaðarpólítíkina þá fóru þær bara að hlæja rétt svona aðeins.  Önnur þeirra átti auk þess í örlitlum vandræðum með að útskýra samskipti sín við Gunnar undanfarið.  Hvorug þeirra ætlaði síðan upphaflega að rifja þetta mál upp.  Þarf ekki aðeins þá að spá í því að verið er að rústa bæði lífi og ævistarfi viðkomandi, og kannski hjónabandi líka með hartnær 25 ára gömlum minningum?  Já og á sama tíma segist fólk bera virðingu fyrir manninum og leitin að föðurímynd standi yfir!

Maður á að gagnrýna með sjálfum sér það sem manni er sagt.  Sumt fólk er þannig að það lýgur alveg stanslaust. Ekki vegna þess að það ætli sér það heldur vegna þess að það er þannig að upplagi. Sumir búa sannleikann einfaldlega til. Stundum til þess að forðast eitthvað sem er sárt að hugsa um eða einfaldlega vegna þess að það er þægilegra.  Í annan stað getur ákveðinn sannleikur orðið til þess að sumum finnst þeir hafa ákveðin völd umfram aðra.  Sá sannleikur gæti þess vegna verið í reynd alveg haugalygi en gefið viðkomandi samt eitthvað. Það sjá ekki allir heiminn með sömu gleraugunum og það sem er sannleikur fyrir einum er það hreint ekki fyrir öðrum.

Það er til í dæminu að fólk ljúgi til þess að komast út úr hlutunum, losna við þá, helst umræðuna alla eða bara einfaldlega til þess að losna út úr samtali. Þannig lagað séð þá getur verið flókið að skyggnast inn í mannlegt eðli. Ef þú kafar nógu djúpt þá munt þú alveg pottþétt finna eitthvað vont og það hjá hverjum sem er. 

 

 


Afsökunarbeiðni móttekin

Ágætt hjá flokknum að viðurkenna mistök sín og vanmátt. Líka það að vilja setja skýrar línur varðandi framtíðina. Með því er flokkurinn þó ekki að segja að bankahrunið hafi verið honum að kenna, til þess koma margir samverkandi þættir. Samfylkingin brást ekki nægilega vel við.  Sjálfur vissi ég og reyndar fleiri að eitthvað slæmt var í aðsigi sumarið 2008, samt er ég enginn pólítíkus. Eitthvað klikkaði algerlega hjá Samfylkingu. Mun flokkurinn ná að rífa sig upp úr þessu?  Ég segi já en þá þarf að vera samstillt átak.

Einmitt núna er tíminn fyrir aðra flokka að ná fótfestu í stjórnmálum. Við sáum hvernig Besti flokkurinn kom og vann í borgarstjórnarmálum. Nú er einnig sá tími þar sem nógu sterkir pólítíkusar geta haft löngun til þess að hrifsa til sín öll völd. Hitler kom upp á krepputíma og komst til valda löglega, á krepputíma. Allir voða glaðir þá.  Ef við sameinum forsetaembættið og forsetisráðherraembættið þá gæti einmitt orðið til jarðvegur fyrir slíka menn til að blómstra í. Fjórflokkarnir verða að hisja upp um sig buxurnar ef þeir ætla að lifa almennilega af í hinu pólítíska landslagi. 

Annars þá fer maður að verða leiður á afsökunarbeiðnum þvers og kruss af hendi stjórnmálamanna. Eins og það sé voðalega lítil tilfinning í þessu en samt einhver. 


mbl.is Samfylkingin biðst afsökunar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Dansað í Perlunni

Svo var að árshátíð skyldi verða í vinnunni viku eftir þetta og fara fram á hinum glæsilega veitingastað Perlunnar, nánar tiltekið á föstudagskvöldi. Um það fékk ég tölvupóst og spursmál um skemmtiatriði. Auðvitað langaði mig til þess að mæta með, þú veist, og svaraði því þannig til hvort ekki væri pláss fyrir einmitt þetta, steppdansatriði? Tölvupósturinn var vinnupóstur merktur öllum þannig að það sáu allir svarið - sem þýddi að allir tóku við sér og ég fékk hvergi frið eftir þetta, allt frá lyftunni og út um allt á skrifsstofu fyrirtækisins. Ég var jafnvel beðinn um að taka nokkur spor hér eða þar. 

Damn! Út í hvað var maður búinn að koma sér núna? Ástæðan fyrir æfingaleysi mínu var í sjálfu sér ekki leti heldur aðstöðuleysi og tímaleysi. Skyldi þetta heppnast þrátt fyrir það? Ég lét slag standa á þetta og ákvað að gera eitthvað svona once in a lifetime úr þessu. 

Ég fór og leigði mér ensk herraföt sem kallast jackett, auk þess sem ég fékk mér pípuhatt. Þannig klæddur í silfurlituðu vesti mætti ég til leiks, til þess að skemmta fjölda fólks, undirmönnum sem og yfirmönnum, + auðvitað mátti ég ekki gleyma skónnum góðu. Var ég stressaður? Eins og á leiðinni fyrir aftökusveit? Nei kannski ekki alveg en samt þá leið mér hálfundarlega. Skrítnar kringumstæður. Ég hafði komið fyrr um daginn til þess að skoða staðinn ásamt skipuleggjendum. Ég skyldi dansa þarna, við skyldum færa til stóla og borð...síðan skyldum við...og svo...ta ta ta...

Um kvöldið, þegar allir voru sestir tók ég ákvörðun um hvernig ég skyldi gera þetta. Í raun skipulagði ég dansinn skömmu áður en hann skyldi fara fram.  Hann yrði af fingrum fram fyrir framan barinn og fyrir framan lyftuna.  Þetta áttu eftir að verða erfiðustu aðstæður sem ég gat hugsanlega valið mér.  En ég hafði pláss einhversstaðar á bak við til þess að hita upp sem betur fyrir, fyrir framan einhverja hljómsveitargaura sem botnuðu lítið í hvað ég væri að gera þar. 

Atriðið sjálft. Ég hélt á míkrafóni í annarri hendinni. Fór úr jakkanum og hafði pípuhattinn á hausnum uns ég hélt á honum góðan spöl og lagði hann á barinn.  Barborðið sjálft notaði ég óvænt til þess að slá takt  í hita og þunga leiksins.  Spor voru í þetta skipti fæst samin á staðnum en voru svipuð þeim sem urðu til viku áður, en ég notaði sama lagið enda gott fyrir rennslið að gera það. Þannig var komin prufukeyrsla á atriðið áður (ég hafði ekki hugsað það þannig upphaflega).  Einhverntíma þegar leið á lagið og var vel á veg komið... þá fór fólk að klappa með... sem þýðir aðeins eitt. Nú þarf ég ekki að segja. Þú veist hvað ég meina. En gólfið var hið versta til þess að dansa á. Í raun þá voru þetta hinar allraverstu aðstæður til þess að gera þetta. Hljóð berst illa í svona stórum sal. 

En svo virðist mér samt að þetta hafi í raun heppnast. Atriðið fékk talsvert umtal. Ég mátti hvergi fara án þess að talað væri um það við mig þetta kvöld. Í raun þá var oft talað um þetta atriði við mig af hinum og þessum og það heila árið eftir þetta. Til mín kom maður löngu síðar sem sagði mér að fólk væri enn að tala um þetta, annar sagði mér að þetta væri eitt besta dansatriði sem hann hefði nokkurn tíma séð og þriðji sagði að það hefði allt svínvirkað, frá klæðnaði til alls! Frábært vissulega þegar hlutirnir ganga upp auðvitað. En svo var einhver sem sagðist ekkert hafa heyrt í tónlistinni, hvað þá í tikk takkinu í mér af því hann hefði verið of langt í burtu. Sem segir mér hversu erfiðar aðstæðurnar voru og erfitt að skemmta fólki svona.

Það er ofsalega gaman þegar tekst að skemmta fólki.  En það sem ég verð að viðurkenna er að ég botna lítið í því hversu gaman fólk hefur af þessu. Hvað er það sem gerist og hvaða áhrif hefur þessi taktur á fólk? Oft hefur mig langað til þess að sjá svona atriði hjá sjálfum mér en í rauninni þá hef ég ekki æft mig fyrir framan spegil síðan ég var hjá rússneska ballettdansaranum. Ég hef heldur aldrei tekið mig upp á cameru. Sjálfum finnst mér svona nokk ekkert svo ýkja merkilegt þannig en hins vegar þá er þetta fyrir mér hin mesta skemmtun og ég fæ talsvert út úr því að gera þetta. 

Ég er ekki samt viss um að þú finnir minn stíl neins staðar. Flest sporin eru samin af mér sjálfum. Þau er ekki að finna í neinum dansskólum í rauninni. Það sem ég lærði af þeirri rússnesku eru tvö spor af tuttugu, restin varð bara grunnur fyrir hitt eða með öðrum orðum, ég bjó þetta allt til meira eða minna sjálfur út frá grunni sem ég hafði áður lært, til þess að skemmta öðrum.  Þó svo að mér hafi ekki tekist að skemmta alveg öllum með þessu þá hefur mér tekist að skemmta einhverjum og þar með er markmiðinu með því að stunda þetta náð.  Mér tókst það sem ég ætlaði mér í upphafi og ég get haldið áfram að láta mér takast það. 

 Takk fyrir að lesa um þetta áhugamál mitt. Kannski bæti ég einhverju við. Hver veit :)

 


The Reunion

Það var svokallað reunion á síðasta ári hjá okkur sem vorum saman í barnaskóla og gaggó. Virkilega flott og ógó gaman. Ég vildi auðvitað gefa mig í skemmtiatriðin og var með tvö (nema ekki hvað).  Stemmningin var góð og vonandi hittumst við aftur innan tíðar. Skemmtilegt að hitta aftur svona marga af þeim sem maður var með  í barnaskóla. Hefði ekki viljað missa af þessu tækifæri.

Ég fann lag með Fred Astaire daginn sem við ætluðum að hittast sem heitir Puttin on the Ritz. Mátulega langt lag. Hlustaði á það, skynjaði taktinn, brenndi það á disk og hafði það með mér. Ég æfði mig í raun ekkert fyrir atriði kvöldsins. Skónna hafði ég ekki farið í í tvö eða þrjú ár. Hvort ég kynni þetta ennþá eða gæti þetta nokkurn skapaðan hlut, væri í nógu góðu formi eða myndi sporin, einhver spor, ég vildi bara reyna á það.  Langt var um liðið síðan ég dansaði í risinu eins og vitleysingur og æfingar síðustu 10 árin voru ... engar. 

Í rauninni þá á maður yfirhöfuð aldrei að leggja útí eitthvað svona án þess að vera búinn að æfa sig... rifja eitthvað upp... taka einhver spor. I didn´t.   Þegar á hólminn var komið fann ég samt ekki fyrir neinum kvíða svona sérstökum, ekkert ofboðslegum; um leið og forspilið var búið þá leið mér eins og ég hefði engu gleymt, og ég rann áfram að mér fannst átakalaust. Ég meira að segja samdi helling af sporum á staðnum. 

Eftir á spyr maður sig hvort að svona nokk hafi virkað. Höfðu áhorfendur gaman að þessu. Það er ein leið sem ég sé besta til þess að vita það og það er útfrá umtali. Ef það kemur einhver til mín sem var ekki á staðnum og sá atriðið ekki og fer að tala um það hversu æðislegt það hafi verið og fólk hafi verið að tala um það við sig, þá veit ég að atriðið virkaði fyrir víst (gerðist einmitt þarna).  Hrós er alltaf skemmtilegt og maður á að taka mark á slíku (og njóta þess auðvitað).  Ég fékk fullt af svoleiðis þarna sem ég er þakklátur fyrir og feginn því að atriðið hafi þá gengið upp eftir allt saman. 

Ef skemmtiatriði hefur ekki náð að skemmta fólki... þá þegir fólk vanalegast við mann. Það fer að hugsa um eitthvað annað, talar ekki um atriðið, eins og það vilji gleyma því hið fyrsta. Einhver einn gæti dúkkað upp til að gagnrýna  (kannski). Af slíku hef ég einnig haft einhverja reynslu, þó ekki beinlínis í tengslum við steppið. 

 Viku eftir þetta átti eftir að koma annað tækifæri fyrir svona rennsli og það var í Perlunni - flotta æðislega matsalnum á efstu hæðinni fyrir framan 300 manns!   Það gat svo sem verið að ég æfði mig ekkert í millitíðinni en ég lét slag standa og fór með skóna þangað líka...

 ....Kem aftur með framhald rétt fyrir miðnættið!


Dansaði á bjórkvöldum!

Einhverju sinni tók ég skónna með mér uppí Kennó. Bjórkvöld eru haldin þar öðru hvoru með Karaókí eða einhverju öðru, lifandi tónlist og alls konar. Á svoleiðis kvöld mætti ég og það bjóst í sjálfu sér enginn við mér.  Ég man eftir fullum sal af fólki, fólki að syngja karaókí og ágætis stemmningu. Það var liðið aðeins á kvöldið, einhverjir voru vel í glasi og smók. Og....svo kom ég. Ekkert mál, bara taka við míkrafóninum og hvaða lag ætlarðu að syngja vinur? Nei nei ég ætla ekki að vera með neitt lag sagði ég, bara smá gjörning. Ókei dókei og það sagði ég í míkrafónin. Viljiði vera svo væn að hafa hljótt ég ætla að vera með gjörning hérna! Þetta endurtók ég tvisvar eða þrisvar en aldrei minnkaði skvaldrið í salnum. Þangað til ég ákvað að byrja bara....

Ég skellti niður hægri fætinum og byrjaði á staðnum.  Það varð þögn um leið. Svo hélt ég áfram í smástund, ekkert lengi neitt en fólk hafði gaman af þessu sýndist mér.  Síðan gerist nokkuð sem ég bjóst ekki við.  Við þessa iðju var tekin mynd af mér og birtist hún í næsta stúdentablaði! Ekki á forsíðunni en með klausu af frétt af vel heppnuðu bjórkvöldi kom mynd af mér að mig minnir aftan á blaðinu og að ég hefði sýnt þennan tiltekna dans þarna og hvernig ætti að framkvæma hann!

Ég fór upp aftur seinna á öðru kvöldi á sama stað í Kennó einhverju síðar og mér fannst það ekki eins gaman, fékk reyndar verðlaun fyrir besta atriðið en einhverjum fannst það snubbótt, ekkert lag, stutt og eitthvað ekkert spes.  

Á þessum árum 2004 til 2008 var ég svo til ekkert mikið að þessu. Ég sat í Kennó og var að læra þroskaþjálfan í fjarnámi. Tók fram skónna svona stundum og tók örfá spor hér eða þar án undirleiks og en ég bara er farinn að gleyma þeim stundum mörgum hverjum. 

Verð að segja að milli 1996 og 2004 þá lagði ég þetta meira eða minna á hilluna og lagði ekki stund á þetta að neinu marki og fór sjaldan í skónna.  Það gerist ekkert sérstakt í þessu fyrr en 2009 en þá fór ég að upplifa eitthvað nýtt með einmitt þetta... 

Reyndar verð ég að segja að persónulega þá hef ég ekki átt auðvelt með að skilja hvers vegna fólki finnst þetta skemmtilegt. Einhverjum finnst það ekki, alveg pottþétt. Sjálfum finnst mér gaman að hoppa svona og skoppa en einhvernveginn samt er þetta fyrir mér ekkert stórmerkilegt hvað svo sem öðrum finnst. 

Lokaorðin í þessu koma annað kvöld og þá verð ég að segja það sem hefur komið mér helst á óvart. 


The story of my tapdance - coming to a theater near you!

Ég hef síðustu kvöld verið að skrifa um eigin reynslu af steppdansi á þessu bloggi. Mig langar til þess að doka aðeins við og hvetja fólk endilega til þess að lesa það sem ég er búinn að skrifa nú þegar. Það besta og ótrúlegasta á enn eftir að koma.

ok. Þetta er stíll í lagi.

 

 


Bloggað um steppdans - Árshátíðin í Garðinum

Það að hlusta á tónlist er eitt, annað er að ætla sér að dansa samhliða og ná takti. Sum lög eru þannig að mér finnst ég þurfa að hlusta aðeins áður en ég næ að heyra taktinn. Diskólög finnst mér þægileg að því leitinu til að takturinn er augljós. En maður dansar ekki steppdans eftir þannig lögum. Skemmtilegast hefur mér þótt að hlusta á gömul lög eins og jafnvel Singing in the rain en ég verð að játa að ég það er gríðarlega erfitt að dansa samhliða því lagi og mér hefur eiginlega ekki tekist það hingað til svo vel fari (svona bara sjálfur aleinn).

Að ná stepptakti með lagi er ekki auðvelt. Kemur auðvitað með æfingunni. Þegar lagið er bara með einfaldri strengjasveit þá verður það ekki svo auðvelt. Gaman þegar það tekst og tvöfalt gaman þegar aðrir upplifa hið sama. Upprunalega var ég mikið til að leika mér með þetta. Kannski jafnvel enn, til ánægju og skemmtunar. Það síðasta sem strangi rússneski danskennarinn sagði við hópinn var að nú hefði hann lært helling af sporum sem hægt væri að nota. Með það fór ég og ég veit ekki hvað hann hefði sagt ef hann hefði séð mig í Garðinum á Álftanesi nokkrum árum síðar við þessa iðju. 

Ég stakk upp á því algjörlega sjálfur að fara með atriði og leyfa öðrum að sjá það. Þá var ég kominn í guðfræðideildina og staddur á 3. ári í náminu. Vorið ´96 var ágætt. Þá var ég 25 ára gamall og grennri en ég er í dag (auðvitað), en samt finnst mér að ég hafi kunnað miklu fleiri spor síðar (sem er önnur saga).  Það var haldin árshátíð þetta árið þegar leið að vori. Ætli það hafi ekki verið hátt í 100 manns þarna? Mér láðist að telja en það voru allavega langflestir úr deildinni á þeim tíma.

Ég lenti í smá vandræðum samt þennan dag. Sem betur fer tók ég eftir því í tíma. Járnið á skónum var farið að losna. Ef ég hefði farið þannig þá hefði auðvitað skoppast undan skónum. Sem betur fer var hægt að koma skónum að hjá skósmiðnum við Sundlaugarveginn sem bauðst til að laga þá á örskotsstund. Þér voru svo sóttir rétt áður en rútan lagði af stað. Hjúkk og púff.

Ég hafði valið mér lag sem ég hafði með mér á diski og var með Fred Astaire. Þá hafði ég hreinlega með mér heilan disk með honum.  Á honum var eitt lag sem ég hafði verið að æfa og valdi sérstaklega fyrir þetta - You are so easy to dance with - sem ég og notaði.  Púff það lag er 3 og hálf mínúta í flutningi. Býð ekki í svo langt í dag.  Ég held að ég hafi ekki hlustað á lagið nema einu sinni eftir þetta. 

Gólfið var gott til þess að dansa á og miðsvæðis. Í raun er það eitt besta gólf sem ég hef verið á. Svo var bara að bruna af stað. Nei bíddu aðeins, maður verður fyrst að bíða eftir því að forspili ljúki og síðan byrja. Reyndar tók ég nokkur spor í upphafi án lags, bara til þess að prufa gólfið. Þetta atriði var æft (auðvitað), en samt ekki frá skrefi til skrefs. Ég hafði það einfaldlega þannig að ég ákvað það á sekúndubroti hvað ég myndi gera næst. Þannig skipti ég milli skrefa eftir geðþótta og notaði salinn allan.  Þvílík skemmtun, þvílíkt fjör. Eftir á sýndist mér á öllu að atriðið sjálft hefði heppnast ágætlega, eða hvað? Ég man eftir fólki rísandi úr sætum og lófaklappi. Sjálfur var ég alveg uppgefinn og endaði einhversstaðar en var ekki við skál eins og svo oft á lífsstíðinni. Það er enn verið að minnast á þetta atriði við mig enn þann dag í dag af fólki sem var þarna. Frábært með tilliti til þess að fólk vill gleyma hlutum eða þaga í hel. 

Það varð aldrei neitt annað svona atriði í guðfræðideildinni eftir þetta. Þó svo að ég væri þar í 5 ár og kláraði námið. Ég bara endurtók þetta ekki. Eftir á finnst mér að fólk hafi verið að bíða eftir þessu á næstu árshátíðum.  Það hefur oft verið talað um þetta við mig í gegnum tíðina á hinni og þessari árshátíðinni, hér þar og annars staðar (af fólki sem hefur aldrei séð mig gera þetta jafnvel) en einhverra hluta vegna átti ég það til að missa  áhugan á þessu milli ára. En steppsögunni er ekki lokið, næst færumst við mun nær í tíma og ég á m.a. eftir að tala um árshátíðina í Perlunni. 

Framhald... 

 


Með óbragð í munninum

Ég tel að ....

.....rannsóknarskýrslan stóra sem allir voru að lesa hér í fyrra sé ruslpappír.

.....þeir sem þar eru nefndir sleppi allir, skiptir engu hvað þeir hafi gert. 

....Geir Haarde verði ekki dæmdur af landsdómi. 

....mótmæli og átök við alþingishúsið eigi eftir að aukast í vetur.

....auðmenn eigi Ísland. 

....það skipti engu máli þótt boðað verði til nýrra kosninga. Við fáum aldrei ríkisstjórn sem tekur á málunum af neinu réttlæti vegna þess að það er ríkt fólk sem stýrir landinu eða m.ö.o. á það.

....mótmæli séu tilgangslaus og þýði bara það að vera dreginn fyrir dóm ef í hart fer. 

....fátækt eigi eftir að verða alvarlegt vandamál á Íslandi, jafnvel verði hungursneyð meðal lágstétta.

...Ísland sé margfalt spilltara en almenningur gerir sér grein fyrir. 

...að það besta sem við hin getum gert sé að standa saman og hjálpa hvert öðru eins og við getum.


mbl.is Auðmenn græða á uppboðum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Þórður Guðmundsson

Þórður Guðmundsson þroskaþjálfi

Nýjustu myndir

  • bill cosby 620x480 cemrf
  • ATI-lower-review-polymer
  • ATI-lower-review-polymer
  • download JFK
  • Aretrov

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (19.4.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 2
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 2
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband