Færsluflokkur: Vefurinn
22.12.2010 | 05:35
Að nota facebook
Hvernig notar þú facebook? Á mbl.is er nú frétt um lögreglumann sem notar facebook þannig að hann segir frá starfi sínu og hugmyndum sínum um það, oft á neikvæðan og vafasaman hátt. Um það langar mig ekki að fjalla sérstaklega um hér, nema hvað ef þú ferð að hugsa um það þá hlýtur að vera þagnarskylda einhver í störfum lögreglu í tengslum við hluti eða atvik sem skaðað gætu hagsmuni hennar eða annarra ef kæmust í fjölmiðla. Facebook eru fjölmiðlar hversu marga vini sem þú kannt að eiga.
Ég á um 800 vini og þekki þá ekki nærrum því alla. Hluti af þeim hópi eru ýmis fyrirtæki hvers á bakvið er fólk sem ég þekki yfirhöfuð ekki með nafni. Þetta fólk eins og aðrir fylgjast með færslum mínum. Þess vegna ber manni að vanda sig og draga mörkin. Ekki þar fyrir utan þá er ég í viðkvæmu starfi eins og nefndur í fréttinni. Ef ég setti í statusinn allt það sem mér finndist óæskilegt eða gortaði af eigin verðleikum í starfi þá myndi ég verða litinn hornauga, lenda í félagslegum erfiðleikum á vinnustað eða jafnvel bara rekinn.
Góð samskipti eru ekki sjálfsögð. Það þarf að vinna að þeim og styrkja tengsl. Það að einhverjum líki við þig eða mig er ekki eitthvað sem einfaldlega er hægt að velja sér rétt sísona. Stundum kemur það fyrir að fólki líkar ekki við mann. Það veit e.t.v. ekki sjálft hvers vegna eða þá að það er eitthvað í fari manns sem því einfaldlega líkar ekki. Nær ekki lengra en það. Og það gæti verið erfitt að breyta því eða bara varla. Það er líka eins og við vitum hægt að búa til óvini og fólk sem líkar ekki við mann. Það er minnst málið. Til þess þarf ekki meira en óvarleg skrif sem geta virkað skítleg á viðkomandi, eða baktal sem skilar sér áfram.
Aftur að facebook. Það er svo um hvort heldur sem er facebook eða blogg að margur verður að gæta sín á því að fá ekki útrás fyrir tilfinningar sínar með því að nota netið. Netið er ekki til þess að kasta fram neikvæðum tilfinningum sínum. Betra er að eiga sér stílabók sem enginn kemst í og eyða henni svo seinna. Það sem þú segir verður ekki endilega skilið með sama hætti og þú skilur það. Viðhorf fólks er mismunandi og gildismat einnig. Það sem einum finnst allt í lagi að gera og skrifa um á status facebook síðu sinnar kann að vera fyrir neðan allar hellur fyrir öðrum. Jafnvel grín eins getur orðið að háalvöru fyrir öðrum.
Betra er að segja frá jákvæðum hlutum á facebook fremur en neikvæðum. Ef manni dettur eitthvað skemmtilegt í hug, um að gera að skella því fram. Það gæti komið til umræðu næst þegar fólk hittist á vinnustaðnum. Þú skilur, eitthvað jákvætt og skemmtilegt. Samt ekki um fólkið sem unnið er með eða þá persónuleg mál sem engum kemur við. Oft er gott að hrósa fólki en þá bara allra helst inn á þeirra síðu. En fyrir jólin datt mér í hug að grínast smá og setti eftirfarandi inn á status. Smá léttleiki er allt í lagi í drunga þessa mánaðar. Þetta er auðsjáanlega bara grín og til skemmtunar. Þetta er vitanlega skáldsskapur en samt betra en margt annað eins og að vitna í allar leiðinlegu fréttirnar endalaust eða reyna að vera svo voðalega gáfaður...
Maður hefur ekki við út af öllu þessu jólasveinaflóði ofan úr fjöllum! Þetta guðar á gluggann hjá manni, setur vitlaust í skóinn, skellir hurðum og neyðir mann til þess að setja hengilás á ísskápinn og búrið. Svo þarf ég að muna eftir því að læsa niðri öllum kertum út af einum sem er að koma! Hvað gerði ég til þess að verðskulda allan þennan ófögnuð!!
Að lokum vil ég óska lesendum þessa bloggs gleðilegra jóla með þökk fyrir árið sem er að líða.
Með kærri kveðju,
Þórður
Yfirheyrsla án tára er ekki yfirheyrsla | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Vefurinn | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
16.8.2010 | 17:28
Reynslusaga af facebook
Það kom fyrir einhverntíma um daginn að ég var að bisa við að setja upp sitthvað nýtt á facebook. T.d. fannst mér spennandi að prufa annan lit í staðinn fyrir bláa facebook litinn, vera með bakgrunnsveggfóður (svona eins og er eða var hægt að finna á MySpace) og prufa alls kyns fítusa eins og að geta verið með skáletraðan texta, yfirstrikaðan, feitletraðan og fleira auk þess sem hægt væri að vera með dislike hnappinn. Þannig að ég fann viðbætur fyrir tölvuna til þess að setja þetta upp.
Þetta varð allt saman alveg ferlega mislukkað eitthvað. Sérstaklega vegna þess að það reyndist bara vera ég sem sá eitthvað skáletrað eða litað o.s.frv. og það bara í minni tölvu. Síðan fór ég að taka eftir nokkru sem ég var lítt spenntur fyrir en það voru litlar auglýsingar sem ég var alls ekki að biðja um að fá og voru þær staðsettar inn á milli þess sem kom frá vinunum. Alveg nauðaómerkilegar auglýsingar í þokkabót.
Svo var ekki hægt að losna við þessa óáran nema að taka allt uppsetta draslið út sem ég og gerði. Ég nota alltaf firefox, fór bara í tools og þar er staður sem heitir viðbætur. Lítið mál að þurrka í burtu svona dót. En til þess að dislike hnappur eins og þarna var virki þá þurfa allir að vera með hann uppsettan hjá sér í gegnum staðlað form hjá facebook. Svona viðbætur hins vegar eru eftir þetta fyrir mér bara algert bull.
Að öðru leiti þá finnst mér dislike/líkar ekki við - hnappur á facebook ekki nauðsynlegur. Mín skoðun á þessum vef er sú að hann sé til þess að mynda jákvæð samskipti við annað fólk, styrkja tengsl og þess háttar. Annað sem manni líkar ekki ætti maður að bara láta liggja milli hluta.
Dislike hnappurinn er svindl | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Vefurinn | Breytt 18.8.2010 kl. 00:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
29.7.2010 | 13:25
Twitter er ósköp einfalt
Athyglisvert að sjá að elsti Twitter bloggari heims hafi verið orðinn svona gamall. Margir sem eru komnir á aldur og af þessari kynslóð eru ekki beinlínis að tengjast tölvum. En þessi gat það.
Ég held að Twitter formið sé ekkert sérstaklega vinsælt á Íslandi miðað við önnur lönd og þá staðreynd að facebook er ferlega vinsæll samskiptavefur þess heldur. Svo ég aðeins útskýri hvað um er að vera þegar talað er um að konan hér hafi haft 57.000 fylgjendur þá er það samkvæmt þessum reglum hér:
Annað hvort ert þú fylgismaður einhvers (follower) eða einhver er fylgismaður þinn (following). Ég sem nýr í fyrsta skipti á Twitter ætti ekki í neinum erfiðleikum með að elta einhvern. Ég gæti eytt einhverjum tíma í það. Hins vegar að fá einhvern til að fylgja mér er ekki eins auðvelt, það tekur lengri tíma. Það að fá 57.000 fylgismenn tekur talsvert langan tíma miðað við að vera þarna, skrifa eitthvað inn og tengjast fólki. Auðvitað ef maður er frægur þá ganga hlutirnir mun hraðar.
Þetta er örblogg eins og það kallast. Þarna hefur maður ekki nema 140 orða dálk til að skrifa í. Það er eiginlega allt og sumt. Engir leikir eða fítusar þarna eins og á facebook. Á Twitter er þó hægt að komast mun nær fólki eins og ég get orðið fylgismaður frægra leikara sem nota vefinn sumir hverjir heilmikið og það er hægt að svara þeim. Fæstir setja höft á það að það sé hægt að fylgja þeim. Samþykki fyrir fylgi við einhvern er ekki yfirhöfuð eins og á facebook.
Að lokum á skal nefna að vinsælasti Twitterinn á Íslandi er Björk Guðmundsdóttir, það er rösklega 104.000 manns sem eru að fylgjast með henni. Sjálf er hún að fylgjast með 56 manns. Sá sem kemur á eftir henni í vinsældum heitir Hjörtur Smárason og hann er staddur í 5000 manns á báða vegu. Annars sýnist mér að Ísland sé lítið á þessum vef.
Elsti Twitter-bloggari heims látinn | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Vefurinn | Breytt s.d. kl. 13:50 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
8.7.2010 | 07:05
Svona auglýsing og þessi vefsíða.
Hér fyrir neðan er auglýsing sem ég setti inn fyrir nokkrum dögum. Ég gerði það reyndar aðeins til þess að kanna áhuga. Það er svo sem vel hægt að melda sig inn á þetta og borga einhvern pening í eitthvert internet fyrirtæki - og hvað svo? Von að spurt sé.
Þessi síða er í sjálfu sér aðeins agnarlítið brot af því sem internetið hefur að geyma varðandi síður þar sem hægt er að kaupa sig inn, fá einhverja þjónustu og verða síðan að fá aðra með til þess að úr verði einhver hagnaður af því að vera með. Til er margur sem efast um ágæti þess að vera með í þessu. Það eru líka þeir sem hafa ekki skoðað möguleikana og hvað hægt er að gera með þetta. Möguleikarnir eru nefnilega ýmsir og meira að segja alveg stórskemmtilegir.
Ég er ekki viss um að mbl.is sé staður fyrir svona auglýsingar og ég ætla ekki að setja inn aðra svona auglýsingu. Það er vegna þess að ég einfaldlega þarf þess ekki.
Vefurinn | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
6.9.2009 | 18:53
Það þarf að herða reglur í tengslum við blogg
Burtséð frá því hvernig Björgvin hefur staðið sig í starfi þá gefur það ekki einhverjum nafnlausum bloggara (ekki undir nafni heldur) rétt til þess að búa til þvættingssögur um hann, níða hann eða kalla hann ljótum nöfnum. Sama er með aðra ráðherra, þingmenn, þekktar persónur eða fólk í þjóðfélaginu yfirhöfuð. Það má ekki gleyma því að blogg lesa börn og unglingar og gagnvart þeim er orðljótt níðingsblogg ekki til fyrirmyndar. Skemmst er að minnast eineltismála sem komið hafa upp í skólum í tengslum við blogg.
Það þarf að herða reglur um blogg og það þarf að vera hægt að sækja fólk til saka fyrir skrif á neti. Ef bloggarinn er nafnlaus þá ætti að lögsækja bloggvefinn sjálfan eins og gert hefur verið í Bandaríkjunum. Þetta getur ekki gengið svona endalaust.
Björgvin G.: Ný vídd í nafnlausu níði | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Vefurinn | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
6.9.2009 | 17:46
Hugleiðing um facebook.
Það má vel segja að facebook sé ein skemmtilegasta bóla sem komið hafi upp á undanförnum árum. Fyrir tilstilli þessa samskiptavefs hefur fjöldi fólks endurnýjað kynni sín við gamla vini eða myndað tengsl við áður ókunnugt en áhugavert fólk. Fyrir vikið hefur vefurinn orðið ávanabindandi. Mörgum finnst þetta það skemmtilegt að þeir dvelja þarna öllum stundum við allt mögulegt. Að finna gamla vini, skólafélaga, starfsfélaga, eða að segja frá sér og sínum. Ef ekkert er um að vera þá er hægt að finna sér einhverja skemmtilega leiki til þess að fara í.
Vefurinn dregur upp mynd af þeim sem notar hann. Passamynd er í horninu eða af börnunum, allt eftir smekk. Áhugamál, trúar og stjórnmálaskoðanir eru e.t.v. rétt fyrir neðan ásamt hjúskaparstöðu. Það sem ergir þó margan er að allar þær upplýsingar sem lagðar eru fram í sakleysi gagnvart vinum geti tvístrast og lent á vefsvæði annarra, annars staðar í heiminum, í einhvers konar upplýsingasafni.
Það er nú samt svo að þegar milljónir manna nota þetta vefsvæði á hverjum degi með milljóna uppfærslum og sögum um hvað var gert í gær eða á að gera á morgun, þá virðist sem upplýsingarnar séu það miklar að það sé happadrætti þegar og ef einhver lendir í því að verið sé að misnota á einhvern hátt upplýsingar um sig. Þó er aldrei að vita.
Einhverntíma hverfur áhuginn fyrir svona samskiptavef eins og facebook, eða nýrri og flottari vefir taka við. Fyrir tíu árum voru margir á spjallrásum (mIRC) og hjónabönd urðu til út frá spjalli þar. Þannig spjall þótti ávanabindandi, en fleira hefur komið á vefnum síðan eins og msn, blogg, myspace, facebook og twitter. Sjálft irkið með sínum spjallgluggum var í gamla daga jafnvinsælt og facebook er núna. Spurning hvort að örlög facebook verði ekki eins. Þar verði örfáir áhangendur eftir en flestir farnir eitthvað annað að leika sér.
Að vera á facebook hefur sína kosti og galla. Í heimi þar sem ekkert mál er að hverfa í fjöldann, týnast innan um fólk, eða vera "nobody" sem enginn þekkir eða kannast við, skipta einhverjar upplýsingar á facebook alveg eins máli. Það að segja frá sjálfum sér, koma sér á framfæri við aðra er ekki óvitlaust og jafnvel sóknarfæri ef eitthvað er. Þó að einhverjar upplýsingar berist eitthvert breytir það litlu í þessum heimi ofboðslegs fjölda ókunnugra, sérstaklega miðað við þá staðreynd að fólk sem þekkir ekki marga fær tækifæri til þess að vera til og tengjast öðrum. Aðrir þurfa ekki á slíku að halda svona eins og gerist og gengur með flóru mannlífsins.
Vefurinn | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
29.2.2008 | 06:00
Í fangelsi og einangrun fyrir að blogga
Út í hinum stóra heimi hins er það farið að gerast að farið er að setja menn í fangelsi fyrir að blogga. Vel er hægt að tala í útvarp, sjónvarp eða skrifa í blöðin og lenda í veseni og kærumálum vegna ummæla, en núna greinilega eru slík kærumál einnig farin að snúast um bloggskrif.
Í Sádí Arabíu þessa dagana er allt að verða vitlaust út af bloggskrifum en þar í landi ákveðu menn að taka einn harðan bloggara fastan rétt fyrir jólin og setja í einangrun. Stjórnvöld þar í landi hafa verið einkar þögul um þessa handtöku, en maðurinn, Fouad al-Farhad (32), fór hörðum orðum um stjórnarmenn landsins, og ýmsa aðra mektarmenn af viðskipta og fjölmiðlasviðinu, stuttu áður en hann var handtekinn.
Í fangelsi dúsir því maðurinn og gæti átt eftir að sitja áfram inni allavega næstu þrjá mánuðina en þannig eru víst lögin í Sádí-Arabíu að hægt er að hneppa menn í fangelsi í sex mánuði án ákæru. Fouad er nú þegar búinn að sitja af sér helming þess tíma og á þeim tíma hefur hann aðeins einu sinni fengið heimsókn.
Annar bloggari, Ahmed al-Omran, er farinn af stað með herferð til þess að sleppa Fouad og hafa 1000 manns staðið baráttu fyrir því að fá Fouad lausan. Al-Omran segir óskiljanlegt hvers vegna Fouad sé í raun í haldi og hvers vegna hann hafi ekki verið ákærður. Hvort síðan Fouad verði nokkurn tíma látinn laus er algerlega óvíst.
Menn geta verið nokkuð rólegir á Íslandi að svona lagað gerist sennilega aldrei en kærum hins vegar vegna bloggskrifa gætu aftur á móti átt eftir að fjölga umtalsvert á komandi árum.
Vefurinn | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
25.2.2008 | 17:50
YouTube ekki alls staðar vinsælt
YouTube.com er ekki leyfileg vefsíða hvar sem er í heiminum. Nú hefur Pakistan ákveðið að loka aðgangi að YouTube á grundvelli þess að á síðunni sé efni sem sé móðgun við íslam. Vel getur verið að Pakistan fái að njóta þess að skoða YouTube aðeins lengur á grundvelli þess að dónalega efnið verði fjarlægt, en fjöldi landa hafa hins vegar bannað YouTube; þar á meðal Brasilía, Kína, Íran, Marókkó, Sýrland, Búrma og Tailand. Ástæðurnar eru ekki allar þær sömu. Írönum finnst vera siðferðisbrestur í þessu á meðan Brasilíubúar sjá þetta sem vandræðalegt fyrir vel þekkt fólk þar í landi. Í Pakistan aftur á móti segja sumir hverjir að á YouTube sé að finna efni sem sé skaðlegt fyrir börn.
Það eru ekki nema ca. 3 ár síðan YouTube fór af stað og núna spannar þetta net allan heiminn. Allir geta nú sett inn heimagert vídeó af sjálfum sér eða einhverju sem þeir tóku myndir af. Það þarf þó ekki að leita lengi til að finna upptökur, þar sem talsmenn íslam er að tala gegn kristinni trú, kristnir menn eru að fjalla um kristna trú eða trúleysingjar eru að tala um það hvað kristin trú sé vond. Nóg er af alls konar boðskap gegn hinu og þessu og til þess að finna þannig efni þarf ekki endilega að fara og leita í search. En þegar svo skopmyndir af Múhameð spámanni fara að birtast þarna, þá er ekki sökum að spyrja að einhverjir í arabaheiminum verði alveg brjálaðir.
YouTube er vissulega skemmtilegur vefur og sömuleiðis bloggið með öllu sínu blaðri og stundum alveg hrikalegu skítkasti. Það eina sem er við þetta, er að þetta allt saman getur á stundum virkað svo hamslaust og brjálað, að öðru hvoru hleypur fólk um emjandi og æpandi. Eiginlega í hverri viku, og það á Íslandi, ekki bara í Pakistan.
Vefurinn | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Síður
Tenglar
Mínir tenglar
Eldri færslur
- Júlí 2023
- Maí 2023
- Desember 2014
- Júlí 2014
- Ágúst 2013
- Júlí 2013
- Júní 2013
- Mars 2013
- Janúar 2013
- Desember 2012
- September 2012
- Júlí 2012
- Febrúar 2012
- Desember 2011
- Október 2011
- Ágúst 2011
- Júlí 2011
- Júní 2011
- Maí 2011
- Apríl 2011
- Febrúar 2011
- Janúar 2011
- Desember 2010
- Nóvember 2010
- Október 2010
- September 2010
- Ágúst 2010
- Júlí 2010
- Júní 2010
- Maí 2010
- Apríl 2010
- Janúar 2010
- Desember 2009
- Nóvember 2009
- Október 2009
- September 2009
- Ágúst 2009
- Júlí 2009
- Maí 2009
- Mars 2009
- Janúar 2009
- Október 2008
- Júlí 2008
- Júní 2008
- Maí 2008
- Apríl 2008
- Mars 2008
- Febrúar 2008
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (21.11.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku:
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku:
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar