8.7.2023 | 21:32
Af stórbruna í Kópavogi sumarið 1987
Sumarið 1987, fyrir réttum 36 árum síðan, brann verksmiðjuhúsnæði Málningar hf í Kópavogi. Þetta var stórt reisulegt hús, staðsett við Marbakkabrautina; stutt var niður að fjöru og hinum megin við víkina Fossvogskirkjugarðurinn en aðeins fjær Nauthólsvíkin hvar margur í dag stundar sjósund ellegar nýtir sér manngerða baðströnd.
Það veit enginn afhverju kviknaði í þessu húsi. Það var bara fallegur þriðjudagur í júlímánuði eða með réttu þriðjudagurinn 14.júlí 1987. Það er auðvelt að gúggla fréttir um þetta atvik, það var fjallað um þetta í öllum fréttamiðlum á sínum tíma. Þar er sagt frá því að enginn hafi látið lífið en einn maður hafi þó slasast lítillega. Sá maður var víst ég, sá eini af 36 starfsmönnum sem þurfti að fara meiddur niður á bráðamóttöku, reyndar ásamt öðrum manni en hann fór vegna reykeitrunar. Við fórum tveir saman en þó ekki í sjúkrabíl. Það er saga að segja frá því.
Þegar ég var 16 ára gamall (bráðum 17) þá bauðst mér sumarvinna í málningarverksmiðju. Þetta var vinna við að fylla dósir af málningu, og tappa á ýmsa brúsa auk þess að loka þeim. Við gerðum þetta á neðri hæðinni. Á þeirri efri var málningin blönduð saman með ýmsum hráefnum og svo var hún látin fljóta niður hvar við strákarnir færðum málninguna í dósirnar. Gott og vel.
Þennan nefnda þriðjudag þá fannst mér andrúmsloftið mettaðra en ég var vanur. Það var eitthvað öðruvísi en vanalega. Við vorum tveir strákar á sama aldri að vinna við að fylla á dósir í vestari hluta hússins þegar við sjáum mann í hvítum slopp með vatnsslöngu sem hann beinir að miklum þykkum gulum reyk. Við hlupum í áttina til hans en þegar hann sér okkur þá skipar hann okkur að yfirgefa húsið strax. Hann var kallaður Músi þessi maður, mun eldri en við líklega um fertugt.
Við hlupum út en sú leið sem við fórum var ekki sú allra besta, við vissum hreinlega ekki betur, vorum ungir og völdum nærtækustu leiðina sem er ósköp eðlilegt. Við fórum út með því að opna tvær stórar stálhurðir sem voru iðulega opnaðar þegar vörur á brettum þurftu að fara beint út í flutningabíla. Þannig að þegar út var komið þá vorum við komnir út á smá pall. Þegar ég var rétt kominn út þá sný ég mér við til þess að gá að Músa. Við það kemst súrefni inn í húsið og úr varð sprenging innandyra, þó ekki með eldspúningu en krafturinn var þó alveg rosalegur.
Stálhurðirnar fóru báðar af hjörunum og skall önnur þeirra á mér. Við það skutlast ég um 20 metra burtu frá húsinu yfir heilt bílaplan. Þarna var ómalbikað bílaplan hvar oft voru einhverjir bílar, það var samt enginn bíll þennan dag og fjær voru iðulega einhverjir gámar. En fyrir einhverja ótrúlega lukku þá lendi ég hvorki á bíl eða gámi heldur möl og missi meðvitund í eitt augnablik. Í minningunni man ég þó eftir því að þegar ég er að skutlast þetta frá húsinu þá sé ég hvar hópur starfsmanna er þegar kominn út og er á leiðinni frá húsinu. Sá hópur sér hvar hurðir fara af hjörum og menn eru að kastast frá húsinu.
Planið fylltist allt af reyk og þar lá ég einhversstaðar í miðjum reyk nálægt einhverjum gámi sem ég lenti sem betur fer ekki á, nema hvað að ég sé hvar Músi kemur hlaupandi frá húsinu, hann rífur mig upp hálf vankaðan og við hlaupum báðir niður í fjöru. Margir af starfsmönnunum hlupu niður að fjöruborðinu á þessum tímapunkti og voru þar fyrst í stað, dauðhræddir um að húsið myndi springa í loft upp hvað úr hverju þar sem þarna voru heilu tankarnir af mjög eldfimum efnum. Ég man eftir sjálfum mér þarna við fjöruborðið hugsandi um það að þarna væri maður kominn að endapunkti lífsins. Svo horfði maður uppí mötuneytið þarna á efstu hæðinni sem stóð alveg í ljósum logum. Skyldi gamla konan, matráðurinn hafa náð að komast útúr húsinu? Það var víst svo, hún hafði þurft að bregða sér aðeins af bæ.
En svo kom í ljós að þessi ótti, að allt myndi springa í loft upp var ástæðulaus og við fikruðum okkur frá fjörunni framhjá brennandi húsinu og allt í einu var maður kominn handan við gulan borða,og handan við götuna fyrir ofan verksmiðjuna. Eins og gerist oft og iðulega þegar hús brenna þá drífur að fullt af fólki sem þarna þurfti að girða af og halda í skefjum. Já einmitt og þar stóð ég í einhverntíma. En áður en til þess kom þá höfðu komið tveir sjúkrabílar og þeim sagt umsvifalaust að enginn hefði slasast eða dáið og fóru þeir þá strax aftur. Um það vissi ég ekki neitt. Ég sá aldrei neinn sjúkrabíll mæta þarna til svæðis. Ég standandi þarna í mannfjöldanum fór hins vegar smám saman að finna til í hægri olnboga og bretti þá upp ermina til þess að gá. Reyndist þar vera stórt svöðusár. Við hliðina á mér stóð þá bandarískur maður, Bill að nafni, sem sér þetta sár um leið og ég og tekur mig strax með sér til forstjóra fyrirtækisins og annarra hærri settra starfsmanna sem tilheyrðu nefndri verksmiðju.
Þar sem sjúkrabílarnir voru farnir og víst að þeir kæmu ekki aftur, þá var tekin ákvörðun um það að við færum tveir niður á bráðamóttöku, ég og Músi. Forstjórinn keyrði okkur í sínum einkabíl. Músi fór vegna reykeitrunar, ég fór vegna sársins á olnboganum en fleira átti eftir að koma í ljós þegar komið var niður á spítala. Ég var einnig með stóra rispu á hægra læri hvar ég átti eftir að vera með ör til margra ára en blessunarlega hefur það horfið með tímanum og olnboginn beið ekki skaða af þessu atviki.
Það var engin áfallahjálp til á þessum tíma. Hún var bara ekki til á neinn hátt. Bara alls ekki. Það var enginn sem spurði að því hvort væri allt í lagi með strákinn sem fékk stóru stálhurðina á sig og kastaðist þarna eitthvert yfir heilt bílaplan. Það var enginn sem ákvað að fara að gá að drengnum, bara upp á hans eigin sálarheill. Foreldrarnir voru staddir á Rhodos þannig að það var enginn til þess að spjalla við þegar heim var komið. Og það hringdi enginn til þess að spyrja neinnra spurninga þó svo að margur vissi að ég hefði verið að vinna þarna. Það sem strákur hins vegar gerði var að hann fann sér sjálfur eyru til þess að spjalla við, og hann fór í tvígang að rústunum. Það er í minningunni gott að hafa gert. Ég man að ég fann þar brosandi elskulegan lögreglumann og við skoðuðum þetta saman sem var óskaplega gott. Hver það var veit ég ekki en bestu kveðjur til hans.
Sjokkið vegna þessa er ennþá til staðar. Hvað ef maður hefði hreinlega fengið hurðina bara hreinlega í hausinn! Þá væri ekki sökum að spyrja. Ef það hefðu verið bílar á planinu eða gámarnir staðið öðruvísi...!! Ef ég hefði staðið öðruvísi á pallinum, nær eða fjær, örlítið meira til vinstri eða hægri.. Þarna munar bara alveg óskaplega litlu að illa hefði getað farið. Hitt undrar mig hins vegar alltaf hvernig Músi lifði þessa sprengingu af!!? Tími hvorugs okkar var kominn þarna, það er það eina sem við getum sagt. Annað ekki.
Það sem ég vildi segja í lokin er einfaldlega mikilvægi áfallahjálpar þegar fólk lendir í svona. Það að hafa lent í atviki sem þessu verður aldrei tekið frá manni. En það hjálpar að tala öðru hvoru um það.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
23.5.2023 | 21:42
Góð manneskja eða einfaldlega bara ljúfmenni
Margur myndi halda að góður maður geti einnig verið ljúfmenni og á því sé í raun enginn munur. Því verður þó neitað í þessari grein út frá ákveðnum gefnum forsendum en samt ekki svo að um eitthvað svart og hvítt sé að ræða né heldur að ekki sé til einhverjar undantekningar þar sem þetta tvennt geti ekki farið saman.
Ljúfmennið, hvort heldur sem það er karl eða kona, er manneskja sem í rauninni kýs það að lifa innan ákveðins þægindaramma. Ljúfmennið er ekki baráttumanneskja fyrir neinu. Aðalatriðið er komast hjá því að lenda í átökum, rifrildi og öllu veseni yfirhöfuð. Það er ekki staðið með sjálfum sér nema síður væri, betra sé að lúffa en að standa á sínu, og það er ekki staðið með öðrum vegna þess að það gæti þýtt eitthvað óþægilegt ferli sem betra væri að komast hjá. Fyrir vikið verður ljúfmennið óheiðarlegt gagnvart sjálfu sér vegna þess að það stendur ekki fast á neinni skoðun og óheiðarlegt líka vegna þess að það er líka að samþykkja síðasta ræðumann og enginn veit þannig hvar ljúfmennið í rauninni stendur. Og það gerir ljúfmennið varla sjálft. Þó svo að æpandi óréttlæti sé í gangi gerir ljúfmennið ekkert (þó það sé í góðri stöðu til þess) vegna þess að það vill ekki lenda í vandræðum. Þannig geta slæmir hlutir gerst vegna þess ljúfmennið gerir ekkert til það að berjast gegn því.
Svo er það að hinn góði maður. Hér höfum við týpu sem er til í það að fara út fyrir þægindarammann og berjast fyrir réttlæti í hvaða mynd sem er. Góði maðurinn (eða konan) er til í átök og veigrar sig ekki við að taka þátt í slíku. Hann stendur fast á sínu og skiptir ekki um skoðun þótt að aðrir séu ósammála honum. Það er staðið með sjálfum sér í hvívetna og með öðrum líka eins og réttlætiskenndin býður hverju sinni. Í því öllu þá kann þessi týpa að virka hörð, ákveðin, ekkert endilega indæl, og allt eins hálf óþolandi áður en hún fær sitt í gegn eftir harða baráttu. Ef þú spáir í því þá er fullt til af svona fólki í mannkynssögunni ef vel er að gáð. Gott dæmi um einn slíkan er einfaldlega Jesús Kristur.
Svo er annað mál að við viljum oft á tíðum velja það sjálf hvaða stríð við viljum fara útí eða að einhverju leiti taka þátt í, og við ákveðum þess vegna líka á stundum að kannski sé best akkúrat núna að vera bara innan einhvers þægindaramma, betra sé að hafa sig ekki í frammi á einhverjum augnablikum og þar fram eftir götunum. Þess vegna getur margur sveiflast á milli anda ljúfmennis og þess að vera baráttumanneskja. Hinu verður samt ekki á móti mælt að það er líka fullt til af fólk sem er bara annað hvort góðar manneskjur eða einfaldlega bara ljúfmenni.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 22:01 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
29.12.2014 | 00:38
Fyrirmyndarfaðirinn Bill Cosby
Bill Cosby var í miklu uppáhaldi hjá mér hér í eina tíð. Á níunda áratugnum var hann vikulega á skjánum, alltaf á laugardagskvöldum klukkan átta. Það voru í nokkur ár sem þættirnir hans voru í sýningu á Rúv. Hann var fyrirmyndarfaðirinn og læknirinn William H. Huxtable, sem átti fullt af krökkum og var sífellt að leggja þeim lífsreglurnar eða að hafa áhyggjur af þeim. Vinalegur náungi í alla staði.
Svo talaði hann fyrir Fat Albert líka sem voru teiknimyndir sem gerðar voru um svipað leiti og Cosby þættirnir. Feiti Albert var vinalegur góður strákur sem vildi öllum vel og leysti alls kyns vandamál fyrir vini sína.
Ekki hefði mann grunað á þessum árum að Bill Cosby ætti eftir að vera ásakaður um lostafullt athæfi og nauðganir. Nú hafa 26 konur stigið fram og sakað hann um kynferðislega misnotkun. Sem er talsverður fjöldi. Flest þessara mála eru gömul og mörg þeirra fyrnd samkv. lögum. Einhver örfá mál eru ekki fyrnd og fara líklega fyrir dóm.
Bloggar | Breytt 18.2.2022 kl. 11:11 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
27.7.2014 | 09:09
Af kaffihúsi
Ég fer oft á kaffihús. Stundum fer ég þangað með vinum mínum og stundum fer ég þangað bara sjálfur, les tímarit, fæ mér kaffi latte og leysi krossgátur milli þess sem ég horfi út um gluggann og virði fyrir mér mannlífið. Ég er farinn að verða æ hrifnari af kaffi latte en af venjulegu kaffi. Te drekk ég reyndar oft. Í gegnum tíðina hefur sítrónute oft orðið fyrir valinu, og hunang með finnst mér gómsætt.
Bloggar | Breytt 18.2.2022 kl. 11:10 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
23.8.2013 | 21:56
Áhugaverðir vefir á netinu
Internetið er hreint út sagt æðislegt og það verður alltaf betra og betra. Núna um daginn tókst mér að uppgötva tónlistarsíðu sem inniheldur talsvert af skemmtilegri tónlist og það án þess að þurfi að greiða neitt fyrir. Ég er að hlusta á rólega jazztónlist meðan þetta er skrifað. Sjá https://play.spotify.com.
Þarna er hægt að finna sitthvað um tónlistarfólk. Ég varð reyndar smá hugsi eftir að hafa lesið um David Bowie. Sá hefur ávallt reynt að vera einskonar kamelljón og breytt útlitinu miðað við tíðarandann hverju sinni. Madonna hefur verið þekkt fyrir þetta líka, en hún hefur margoft breytt útliti sínu, hári, klæðnaði, og yfir heildina framsetningu á sjálfri sér til þess að einhvernveginn endurnýja sig og höfða til aðdáenda sinna eða til þess að krækja í nýja.
Fann annan vef um daginn sem heitir goodreads.com. Þetta er svona bókavefur sem er býsna skemmtilegur. Þú segir frá því hvaða bækur þú viljir lesa, ert að lesa, eða ert búin að lesa. Svo sér maður hvaða bækur vinirnir eru að lesa og hvað þeir gefa fyrir þær eða segja um þær. Eitthvað er af íslenskum bókum þarna, mætti vera meira. Þessi vefur er fínn fyrir þá sem hafa gaman af bókalestri. Nú á ég mikinn fjölda af bókum þannig að þessi vefur hefur náð að kveikja í mér allavega.
Svo er það fleira. Hefurðu áhuga á að læra annað tungumál? Babbel.com er einkar skemmtilegur vefur á netinu sem hjálpar manni að nema nýtt mál. Það kostar eitthvað um 1600kr. á mánuði í áskrift að vera þar inni en þú færð fínar leiðbeiningar þarna, talkennslu, málfræðiæfingar, upplýsingar um landið og m.fl. Ég mæli eindregið með þessu.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
22.8.2013 | 13:17
Hugleíðing um hamingju, lífsgleði, trú og bjartsýni
Það þarf hugrekki til þess að ætla sér að leggja af stað með svo til ekki neitt og ætla sér að gera eitthvað mikið. Eins og að vera með mustarðskorn í hendinni. Smæst er það allra sáðkorna. Svo lítið er það að það er alveg fáránlegt. Með það legg ég af stað og ætla að sigra heiminn eða þannig.
Sá sem hefur trú á við mustarðskorn. Ég hef velt þessum orðum fyrir mér síðan ég var krakki. Við hvað er átt og hvað svo? Er hægt að flytja fjöll? Væri það eftirsóknarvert? Sú myndlíking að sá sem hafi trú á við mustarðskorn geti sagt við fjall þetta að færa sig, fjallar ekki um það beinlínis og bókstaflega. Hún er einungis að benda á hið smæsta sem hægt er að hafa í lófanum og þess stærsta sem hægt er að sjá í umhverfinu. Restin er vitið þar á milli. Vitið til þess að gera eitthvað úr því sem maður hefur, hversu smátt sem það er.
Enn og aftur legg ég af stað með eitt svona mustarðskorn og ætla að gera eitthvað mikið og hvað finn ég?
Einhver stór markmið til þess að stefna að. Ég fer af stað með svo til ekkert og set mér markmið. Hægt er að setja sér skammtímamarkmið til að byrja með. Einhver stutt skref til þess að framfylgja. Fyrst þetta, síðan þetta hér og svo þetta. Allt það gæti leitt að langtímamarkmiði. Markmiðinu sem ætlað er að ná. Mér dettur í hug peningasparnaður. Að leggja fyrir ákveðinn pening, alltaf á útborgunardegi og byrja á því að leggja hann fyrir. Svo safnast saman og úr verður eitthvað stórt.
Eða ég finn hamingju. Sá sem ætlar að flytja fjöll er bjartsýnn og opinn. Hann trúir því að honum muni takast ætlunarverkið. Hann er jákvæður og segir ég get, ég get það sem mig langar til þess að gera. Ég get það vegna þess að ég trúi því að ég geti það. Guð hjálpar þeim sem hjálpa sér sjálfir lærði ég sem barn. Það er allavega lítið fólgið í því að gera ekki neitt og með því að segja við eitthvað fjall, færðu þig, þá er maður vissulega lagður af stað.
Af því sem komið er. Ég set mér markið, skammtíma sem langtíma, hugsa jákvætt, er bjartsýnn, en legg af stað með lítið og trúi því að mér gangi það vel.
Svo er það eitt í viðbót sem er að hafa einhvern góðan ásetning. Til hvers að ætla sér eitthvað án þess að hafa nokkurn hag af því sjálfur og ef maður hefur ekki hag af því sjálfur heldur miklu fremur einhverjir aðrir, þá er maður einungis fórnfús, hversu lengi endist það til lengri tíma séð.
Í grautinn vantar síðan lífsgleðina, að finnast þetta allt saman gaman. Þegar manni finnst eitthvað skemmtilegt, þá er heilmiklu náð þá og þegar. Lífið getur verið eins skemmtilegt og maður gerir það að. Maður er stanslaust að skapa eigin hamingju. Verst af öllu er hins vegar stefnulaust líf án nokkurra markmiða og án nokkurs ætlunarverks.
Njóttu þess sem þú hefur og ég hvet þig til þess að gera eitthvað gott og skemmtilegt úr því.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
16.8.2013 | 00:33
Hugleiðing um lífið og tilveruna
Síðasta freistingin eftir Nikos Kazantzakis fannst á Bókasafni Kópavogs í dag fyrir tilviljun. Það var auðvitað ég sem fann hana og byrjaði umsvifalaust að blaða í henni. Bókin fjallar um Jesú Krist og eitthvað allt annað en það sem stendur í Biblíunni um hann. Bókin var kvikmynduð og um leið og einhverjir áhugasamir sáu hana þá vildu þeir upp til hópa banna hana og á Íslandi var myndin sýnd í Laugarásbíó við lítinn fögnuð fjölda fólks. Nóg um það.
Formáli bókarinnar er einungis þrjár blaðsíður en hann hefur nú þegar reynst mér það magnaður að guðfræðilegur þankagangur minn hefur snarbreyst og umbreyst í eitthvað annað. Samt var ég bara að lesa þrjár blaðsíður. Andinn vill glíma við kröftugt hold, sem veitir öflugt viðnám (bls 6).
Þar með var ég lentur í einhverri glímu sem ég átti ekki von á. Guð elskar ekki veikgeðja sálir eða lingert hold. Nú veistu hvernig ég hendi þessari bók frá mér og hleyp í burtu.
Framundan getur allt eins verið vonbrigði, óþægilegar aðstæður, óheppni, og kannski vinslit. Það er ein góð leið til þess að takast á við slíkt, sem er fólgin í eigin hugsun. Að það sé alltaf til einhver leið, möguleiki, og það sé hægt að koma aftur og byrja uppá nýtt þangað til hlutirnir takast.
Er þetta það sem ég hef mestar áhyggjur af hugsa ég stundum. Er þetta stærsta vandamálið? Margt gæti verið verra. Aðalatriðið er að gefast ekki upp á veruleikanum. Hann getur verið eins skemmtilegur og maður leyfir honum að vera.
Þar með tek ég bókina upp aftur sem ég áðan fleygði frá mér og les hana. Einhver sagði að maður yrði ekki vitur af því að lesa bækur. Það er fyrir mér alls ekki satt. Maður verður einmitt vitur af því að lesa bækur. Þær geta sagt manni heilmargt. Þær geta líka sagt okkur frá mönnum sem áttu ekki til svörin og gátu engan veginn svarað erfiðustu spurningunum. Sumum spurningum verður aldrei svarað, sem getur allt eins verið allt í lagi og stundum er gott faðmlag miklu betri kostur.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 12:23 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
14.8.2013 | 18:19
Til eru fræ sem fengu þennan dóm
Ég fór í eina af þessum stóru verkfæraverslunum í dag. Við vorum þarna reyndar tveir saman. Hann á undan mér, þessi ungi áhugasami maður um verkfæri og ég sem var að leita að einhverju sem var allt annarsstaðar í húsinu. Meðan ég var að elta vin minn þá heyrði ég hvernig Haukur Morthens hljómaði í salnum. Til eru fræ er afskaplega angurvært lag. Til eru fræ sem fengu þennan dóm, að falla í jörð og verða aldrei blóm... Í þann mund var vinur minn kominn í garðyrkjudeildina og nærri sestur á viðkvæman bekk sem ég vissi að gat ekki borið hann.
Hann vinur minn fæddist með ofvirkni, einhverfu, athyglisbrest og þroskahömlun ásamt einhverju fleiru sem ég fer ekki að telja upp hér. Veruleikann sér hann með sínum augum, eins og hann þekkir hann og skilur hann. Það er eins og með okkur öll, ekkert okkar sér veruleikann með sama hætti. Við upplifum heldur ekki alltaf það sama. Þarna sá hann e.t.v. eitthvað sem ég sá ekki og varð ekki var við en var fyrir honum kannski mikilfenglegt.
Að fæðast heilbrigður er ekki sjálfsagt mál. Að hafa sjón, heyrn, lyktarskyn, að geta talað og tjáð sig er nokkuð sem við skynjum sem alveg sjálfsagt. En til er fólk sem á erfitt með að tjá sig og getur illa talað um það hvernig því líður. Hversu gott er það ekki að geta verið opinn og geta tjáð sig um hvaðeina í ræðu eða riti. Þar kemur möguleikinn til tjáningar inn og það sem kallast tjáningarfrelsi.
Ég hef kynnst mörgum í gegnum tíðina sem hafa átt erfitt með að tjá sig, fólki við alls kyns aðstæður, í hjólastólum, sem hefur þurft að mata, klæða, baða, nota táknmál með, sem hefur þurft að sprauta, halda í hendina á, og fara með í löng ferðalög. Aldrei að dæma heldur skilja að við erum lánsöm ef við getum átt góða heilsu og valið okkur sjálf það líf sem við viljum lifa.
Bloggar | Breytt 24.8.2013 kl. 11:10 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
18.7.2013 | 18:03
Ég bara nenni ekki að skoða þessa þjóðgarða. Takk.
Það er fullt til af fallegum stöðum í heiminum sem eru ekki friðaðir þjóðgarðar. Sjálfur ætla ég bara ekki að sjá þessa fjóra þjóðgarða sem mælt er með þarna fyrir utan okkar þjóðgarð á Þingvöllum sem maður er oft búinn að sjá. Það er vegna ehhh nei ekki nenna hugsunarháttar og vegna þess að ég tími því bara ekki.
Mæli annars með þjóðgarði á Íslandi sem allir Íslendingar ættu endilega að skoða áður en þeir fara undir græna torfu en það er Ásbyrgi. Sá staður er alveg hreint magnaður og þvílík upplifun sem það er að vera þar, horfandi á þessa veggi, gangandi innst inn eftir á göngustigunum og dvelja við tjörnina sem er þar. Tilfinningin er alveg eins og að vera staddur einhversstaðar í útlöndum - svei mér þá.
5 þjóðgarðar sem þú verður að sjá áður en þú deyrð | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
10.7.2013 | 20:24
Nokkrar athugasemdir
Það sem mig langar til þess að segja um þetta atvik er í formi nokkurra athugasemda, og það eru vissir hlutir sem mig langar til þess að ræða nánar. Eftirfarandi pistill er byggður á málefnalegum röksemdarfærslum þar sem rök eru færð fyrir því að nefnd handtökuaðferð sé fjarri því að vera nógu góð og að það hljóti að vera hægt að gera betur en þetta.
Til að byrja með þá er það ekki réttlætanlegt að veist sé að lögreglu, í þessu tilfelli þá er það í formi hráka og mjög líklega fylgja einhver ljót orð með. Okkur vantar orðasennur inn í myndina, hvað það var sem sagt var við mennina í bílnum. Hvað sögðu þeir við hana? Var verið að segja eitthvað við hana sem æsti hana síðan upp í það að hrækja. Hvað veit ég.
Dyr bílstjóramegin á lögreglubílnum opnast og hún notuð til þess að stjaka við konunni. Nú spyr ég að því hvort það sé virkilega heppilegt að nota bílhurð til þess að stjaka við fólki? Hefði ekki einhver önnur aðferð verið heppilegri? Hvað um það, þarna vantar eins og áður segir - samtalið! Burtséð frá því þá er handtakan sjálf illverjanleg. Hún hefur verið varin af mönnum sem segjast þekkja til, en samt þá eru þarna ákveðnar spurningar og vangaveltur sem ekki er hægt að líta framhjá svo auðveldlega.
Þarna er staðsettur gulur bekkur sem konan lendir á meðan verið er að handtaka hana. Hvað ef það hefði verið eitthvað annað þarna? Þegar menn eru að beita viðurkenndum handtökuaðferðum, er þá ekki tekið með í reikninginn að aðstæður kunni að vera breytilegar og að brotaþoli kunni að lenda á einhverju eða utaní eitthvað á meðan á handtöku stendur? Nú er nefndur bekkur ekkert lítill og það fer ekki framhjá vakandi lögreglumanni að hann er þarna. Það er ekki hægt að segja að þessi hlutur hafi því miður óvart verið þarna fyrir. Þar með væri hægt að segja að því miður þá var barnavagn þarna, stólpi, girðing, tré hvað sem er... Við skellum fólki bara á hvað sem fyrir verður verður þá svarið og á sama tíma fara menn að tala um einhverja viðurkennda handtökuaðferð.
Er það viðurkennd handtökuaðferð að draga fólk eftir götunni? Nú langar mig bara til þess að fá að vita meira um slíkar aðferðir. Konunni er sveiflað yfir bekkinn og niður á jörðina þaðan sem hún dreginn smáspöl. Var nauðsynlegt að draga hana svona? Ég meina að um leið og konan er komin niður á jörðina þá hefði verið hægt að handtaka hana þar ekki satt.
Með nefndri handtökuaðferð, ef þetta atvik er viðurkennt svo af lögreglu, þá er manneskjan á einu augnabliki svipt þeim rétti sínum að vera ekki kastað utan í eitthvað, eða dregin eftir jörðinni. Málefnalega séð þá er alveg ómögulegt að vera sammála slíkum aðferðum og alveg ótrúlegt að svoleiðis sé almennt viðurkennt. Það er alltaf hægt að gera betur, er það ekki?
Beitti viðurkenndri handtökuaðferð | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt 11.7.2013 kl. 23:35 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Síður
Tenglar
Mínir tenglar
Eldri færslur
- Júlí 2023
- Maí 2023
- Desember 2014
- Júlí 2014
- Ágúst 2013
- Júlí 2013
- Júní 2013
- Mars 2013
- Janúar 2013
- Desember 2012
- September 2012
- Júlí 2012
- Febrúar 2012
- Desember 2011
- Október 2011
- Ágúst 2011
- Júlí 2011
- Júní 2011
- Maí 2011
- Apríl 2011
- Febrúar 2011
- Janúar 2011
- Desember 2010
- Nóvember 2010
- Október 2010
- September 2010
- Ágúst 2010
- Júlí 2010
- Júní 2010
- Maí 2010
- Apríl 2010
- Janúar 2010
- Desember 2009
- Nóvember 2009
- Október 2009
- September 2009
- Ágúst 2009
- Júlí 2009
- Maí 2009
- Mars 2009
- Janúar 2009
- Október 2008
- Júlí 2008
- Júní 2008
- Maí 2008
- Apríl 2008
- Mars 2008
- Febrúar 2008
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.1.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 4
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 4
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar