Spurning Geirs Waage er óásættanleg að öllu leiti

 Það var svo sem ekki ætlunin hjá mér að fara að fjalla um þetta mál, nema hvað að ég hnaut um þessa spurningu hér hjá Geir Waage:

 Hvert á brotamaður að leita ef hann getur ekki lengur einu sinni leitað til prests, og treyst því að hann fari ekki með allt til lögreglunnar? 

 Jæja já segir maður nú bara og það sem kemur upp í hugann er ýmislegt eins og: 

 Af hverju ætti kynferðisafbrotamaður að leita til Geirs Waage? Þessir menn eru nú í því að fela þessa hluti og reyna að komast upp með þá sem allra lengst. 

Gerir Geir Waage virkilega ráð fyrir því að brotamaður ætli sér eða vilji  yfirhöfuð leita eitthvert með glæp sinn til þess að fjalla um hann?

Sú staðreynd að með því að þegja yfir kynferðisafbroti verður maður í raun samsekur með glæp. Þú leyfir honum að halda áfram og viðgangast með því að þegja. 

Það er ekki hægt að fara í prédikunarstól og prédika um réttlæti og rétta breytni meðan maður á sama tíma er að hylma yfir því sem er rangt og eyðileggur, eins og hér, börn fyrir lífsstíð þannig að þau verði ALDREI hamingjusamir einstaklingar. 

Þagnarskylda í huga Geirs Waage skiptir meiru máli en sál barns sem verið er að rústa einhversstaðar í nágrenninu. 

Ef ég fer nú til Geirs og segi honum að ég hafi misnotað barn og sé  enn að, geti ekki hamið mig gagnvart börnum, lemji barnið mitt og önnur börn, já og láti þau jafnvel hafa vímuefni, bara eitthvað af þessu. Þá væri ég að tala um, hvað svo sem ég nefndi af þessu, alveg heljarinnar óréttlæti í verki sem miðaði að því að sprengja fjölda fólks í loft upp. Vilja menn hafa það á samviskunni að hafa vitað af slíku en ekkert gert til þess að sporna við því? Allt í nafni einhverrar þagnarskyldu sem á þá að hafa meira vægi. 

Spáðu svo í því ef þú værir sóknarbarn Geirs og þú kæmist að því að einhver bóndi í sveitinni hefði misnotað barnið þitt kynferðislega til fjölda ára og Geir Waage af öllum hefði vitað af því allan tímann og ekkert gert né sagt til að sporna við því.  

 Það er rosalega margt rangt við þessa spurningu hjá Geir. Hún er óásættanleg að öllu leiti og á ekki heima neins staðar. Hvorki í starfi prests né í fjölmiðlum. Bara hvergi. 

 


mbl.is Þagnarskyldan er algjör
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ósáttur bara

 Svona eins og svo oft þegar ég er á netinu að sýsla eitthvað þá fer ég inn á fréttaveiturnar. Í morgun fór ég inn á DV.is sem er ekki frásögu færandi nema hvað að við mér blasti stærðarinnar mynd af rauðhærðum gaur, sem var nafngreindur sem... og hafði verið tekinn fastur, var í greipum lögreglunnar en látinn laus rétt í þessu!! 

Þetta er bara ekki frétt.  Á piltinn sannaðist ekkert; ekki dæmdur í varðhald né ákærður fyrir eitt né neitt.  Það að lögreglan hafi verið að spjalla við hann segir mér ekki nokkurn skapaðan hlut. Hann er saklaus uns sekt hans er sönnuð og hér hefur ekkert verið sannað, ennþá allavega. 

Svo er það hitt að DV er að tengja fréttina sína við dramatískan ástarþríhyrning og úr því verður auðvitað djúsí frétt.  Pilturinn fór á YouTube og setti inn myndband af sér þar sem hann var að játa ást sína á konu sem vildi hann jafnframt ekki. Hún reynist síðan tengjast hinum látna og telur DV þá að um ástríðumorð gæti hugsanlega  hafa verið að ræða. En þá erum við komin út í slúður, vangaveltur og ímyndunarafl. Við vitum sannleikann upp að ákveðnu marki, eftir það tekur við einhver rannsókn til þess að vita meira. Ef við gerum það ekki, þá getur ímyndunaraflið tekið við og við finnum greinilega blað eins og DV á þeim bási. 


mbl.is Fordæmir nafn- og myndbirtingu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gaman að þessu

 Það var fyrir eitthvað tveimur árum sem ég var að skemmta mér við að leysa þessa þraut. Til þess að leysa kubbinn fannst mér handhægast að fara á YouTube og athuga hvort að þar væri ekki einhver snillingur sem kynni þetta. Júbb eins og svo margt annað þá var þar að finna kennslumyndband í því að leysa kubbinn. Svo horfði maður í smá stund og var kominn með þetta á engri stund.

Þegar ég var krakki þá eignaðist ég svona kubb og hékk yfir honum og tókst ekki að leysa utan einu sinni að ég tók hann í sundur og raðaði honum rétt saman aftur við ekki nokkra einustu hrifningu hjá einum né neinum.  Þá fór ég strax og ruglaði honum aftur og tókst einhverra hluta vegna að raða honum saman á ný samkvæmt einhverri slembilukkuaðferð.  Þá hélt ég reyndar að maður ætti að ná hornunum fyrst og svo restinni.  Sem er ekki kennt á YouTube svo ég viti til. 

En allavega þá byrjar maður á því að ná einni hlið, svo miðjunni og síðan síðustu hliðinni. Aðferðin er einföld og ferlega gaman að kunna þetta, sérstaklega þegar maður kemur eitthvert í heimsókn sér svona kubb - æpir upp yfir sig og segir nei rúbbík kubbur! Svo raðar maður honum saman, skellir honum í hilluna aftur og fer að tala um eitthvað annað! 


mbl.is Töfratala Rúbik-kubbsins fundin
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Reynslusaga af facebook

 Það kom fyrir einhverntíma um daginn að ég var að bisa við að setja upp sitthvað nýtt á facebook. T.d. fannst mér spennandi að prufa annan lit í staðinn fyrir bláa facebook litinn, vera með bakgrunnsveggfóður (svona eins og er eða var hægt að finna á MySpace) og prufa alls kyns fítusa eins og að geta verið með skáletraðan texta, yfirstrikaðan, feitletraðan og fleira auk þess sem hægt væri að vera með dislike hnappinn.  Þannig að ég fann viðbætur fyrir tölvuna til þess að setja þetta upp. 

Þetta varð allt saman alveg ferlega mislukkað eitthvað. Sérstaklega vegna þess að það reyndist bara vera ég sem sá eitthvað skáletrað eða litað o.s.frv. og það bara í minni tölvu.  Síðan fór ég að taka eftir nokkru sem ég var lítt spenntur fyrir en það voru litlar auglýsingar sem ég var alls ekki að biðja um að fá og voru þær staðsettar inn á milli þess sem kom frá vinunum. Alveg nauðaómerkilegar auglýsingar í þokkabót.

Svo var ekki hægt að losna við þessa óáran  nema að taka allt uppsetta draslið út sem ég og gerði.  Ég nota alltaf firefox, fór bara í tools og þar er staður sem heitir viðbætur. Lítið mál að þurrka í burtu svona dót.  En til þess að dislike hnappur eins og þarna var virki þá þurfa allir að vera með hann uppsettan hjá sér í gegnum staðlað form hjá facebook. Svona viðbætur hins vegar eru eftir þetta fyrir mér bara algert bull. 

Að öðru leiti þá finnst mér dislike/líkar ekki við - hnappur á facebook ekki nauðsynlegur. Mín skoðun á þessum vef er sú að hann sé til þess að mynda jákvæð samskipti við annað fólk, styrkja tengsl og þess háttar. Annað sem manni líkar ekki ætti maður að bara láta liggja milli hluta. 


mbl.is „Dislike“ hnappurinn er svindl
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Twitter er ósköp einfalt

 

Athyglisvert að sjá að elsti Twitter bloggari heims hafi verið orðinn svona gamall. Margir sem eru komnir á aldur og af þessari kynslóð eru ekki beinlínis að tengjast tölvum. En þessi gat það. 

Ég held að Twitter formið sé ekkert sérstaklega vinsælt á Íslandi miðað við önnur lönd og þá staðreynd að facebook er ferlega vinsæll samskiptavefur þess heldur.  Svo ég aðeins útskýri hvað um er að vera þegar talað er um að konan hér hafi haft 57.000 fylgjendur þá er það samkvæmt þessum reglum hér:

Annað hvort ert þú fylgismaður einhvers (follower) eða einhver er fylgismaður þinn (following).  Ég sem nýr í fyrsta skipti á Twitter ætti ekki í neinum erfiðleikum með að elta einhvern. Ég gæti eytt einhverjum tíma í það. Hins vegar að fá einhvern til að fylgja mér er ekki eins auðvelt, það tekur lengri tíma.  Það að fá 57.000 fylgismenn tekur talsvert langan tíma miðað við að vera þarna, skrifa eitthvað inn og tengjast fólki. Auðvitað ef maður er frægur þá ganga hlutirnir mun hraðar. 

Þetta er örblogg eins og það kallast. Þarna hefur maður ekki nema 140 orða dálk til að skrifa í. Það er eiginlega allt og sumt. Engir leikir eða fítusar þarna eins og á facebook. Á Twitter er þó hægt að komast mun nær fólki eins og ég get orðið fylgismaður frægra leikara sem nota vefinn sumir hverjir heilmikið og það er hægt að svara þeim. Fæstir setja höft á það að það sé hægt að fylgja þeim. Samþykki fyrir fylgi við einhvern er ekki yfirhöfuð eins og á facebook.  

Að lokum á skal nefna að vinsælasti Twitterinn á Íslandi er Björk Guðmundsdóttir, það er rösklega 104.000 manns sem eru að fylgjast með henni. Sjálf er hún að fylgjast með 56 manns.  Sá sem kemur á eftir henni í vinsældum heitir Hjörtur Smárason og hann er staddur í 5000 manns á báða vegu.  Annars sýnist mér að Ísland sé lítið á þessum vef. 

 

 


mbl.is Elsti Twitter-bloggari heims látinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Svona auglýsing og þessi vefsíða.

 

Hér fyrir neðan er auglýsing sem ég setti inn fyrir nokkrum dögum. Ég gerði það reyndar aðeins til þess að kanna áhuga.  Það er svo sem vel hægt að melda sig inn á þetta og borga einhvern pening í eitthvert internet fyrirtæki - og hvað svo? Von að spurt sé. 

Þessi síða er í sjálfu sér aðeins agnarlítið brot af því sem internetið hefur að geyma varðandi síður þar sem hægt er að kaupa sig inn, fá einhverja þjónustu og verða síðan að fá aðra með til þess að úr verði einhver hagnaður af því að vera með.  Til er margur sem efast um ágæti þess að vera með í þessu. Það eru líka þeir sem hafa ekki skoðað möguleikana og hvað hægt er að gera með þetta. Möguleikarnir eru nefnilega ýmsir og meira að segja alveg stórskemmtilegir. 

Ég er ekki viss um að mbl.is sé staður fyrir svona auglýsingar og ég ætla ekki að setja inn aðra svona auglýsingu. Það er vegna þess að ég einfaldlega þarf þess ekki. 

 


Juugo er vaxandi á Íslandi!

Register TODAY!

Til hvers?

Þetta er alveg stórfurðuleg frétt. Hvers vegna að hafa lokaða guðsþjónustu? Hvað gæti gerst ef hún væri ekki opin? Hvað ber nú að varast að mati lögreglunnar?  Guðfræðilega séð þá er ekki hægt að viðhafa guðsþjónustu þar sem að búið er að loka dyrunum fyrir almenningi þar sem hann geti ekki verið með einhverra hluta vegna. Þá á ég við að til er nokkuð sem heitir almennur  prestsdómur, að það tilheyra allir kirkjunni sem þangað vilja koma og hafa verið teknir inn í samfélagið með blessun og bæn, en einn er frátekinn til sérstakrar þjónustu og það er presturinn sjálfur. Kirkjan á að vera öllum opin og skjól þeim sem þangað leita. Að loka henni einhverra hluta vegna fyrir fáa útvalda til þess að vera þar er aðför að kirkjulegum athöfnum. 

Ef gert er ráð fyrir of miklum mannfjölda þá verða menn bara að ráða dyraverði og sjá til þess að hægt sé að koma öllum fyrir sómasamlega. Það er því ekki áhyggjuefni í sjálfu sér. Það væri þá einnig hægt að hafa sal í nágrenninu og stóran skjávarpa þar fyrir fólk sem vill fylgjast með og útvarpa þessu svo líka.  Hingað til hefur þetta ekki verið vandamál. Það hlýtur að vera önnur skýring á þessu framferði. 

Þá dettur mér annað í hug en það er að í kirkjunni verði ríkisstjórnin og allir merkilegustu stjórnmálamennirnir mættir til guðsþjónustu og þeir gætu orðið fyrir aðkasti þar. Ekki er ríkisstjórnin vinsæl núna sýnist mér. Sérstaklega meðal þeirra sem eru komnir í skuldavandræði og eru að missa húsin sín, og meðal þeirra sem upplifa aðgerðarleysi í veigamestu þáttunum, svikin loforð og margt fleira. Góð leið yrði þá fremur að hafa nokkurn slatta af óeinkennisklæddum lögreglumönnum í kirkjunni sem staðsettir yrðu á mikilvægum stöðum.  Það teldi ég faglegra en einfaldlega að loka kirkjunni sem er út frá trúarlegum skilningi alveg út í hött. 

 


mbl.is Verður Dómkirkjunni lokað?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þvílík hörmung

Þetta er það versta við kreppuna. Það þarf að spara og það bitnar á þeim sem minna mega sín í þjóðfélaginu. Þar með talið fötluðu fólki. Þvílík hörmung að hugsa til þess að spillingin sem átt hefur sér stað að undanförnu með öllu sínu fjármálasukki skuli á endanum skila sér í verri þjónustu gagnvart einstaklingum, sem þarfnast annarra (með jafnvel bara allt) og sem geta hvorki varið sig né heldur séð sér farborða án aðstoðar.
mbl.is Velferðarþjónustan skorin niður
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þessi maður fékk einu sinni hina íslenzku fálkaorðu

Eitt er að vera beðinn um að mæta í yfirheyrslu hjá sérstökum saksóknara en að vera eftirlýstur af Interpol, það er sérlega vont.  Þar með er æran farin veg allrar veraldar út um öll lönd og það þó svo að hann yrði ekki dæmdur.  Ferlega vont hreinlega fyrir æruna og  þá er betra að hafa heitið Magnús Guðmundsson og farið bara beint inn.  En að hafa verið eftirlýstur svona hefur í för með sér  afskaplega óspennandi stimpil svo meira sé nú ekki sagt. Ekki það að ég vorkenni manninum, síður en svo. 

Svo er það annað mál sem mig langar meira til þess að tala um hér en það er að þessi maður fékk einu sinni hina íslenzku fálkaorðu. Leiðin lá víst á Bessastaði einhverntíma fyrir hrun og þar var hann sæmdur þessari orðu fyrir framgöngu sína í viðskiptum og útrás eða hvernig sem það var nú orðað. Mitt mat er það að sú ákvörðun forseta Íslands hafi verið slæm mistök. Reyndar hvíslaði lítill fugl því að mér að Sigurður hafi verið beðinn um að skila orðunni en Sigurður hafi neitað þeirri bón. Sel það ekki dýrara en ég keypti það.  

Sem breytir því ekki að eftir þetta þá langar mig ekkert til þess að vera sæmdur fálkaorðunni fyrir eitt né neitt. Mér finnst full frjálslega hafa verið farið með veitingu á þessari orðu í tíð Ólafs Ragnars Grímssonar sem forseta. Þegar veittar eru fálkaorður og stórriddarakrossar þá finnst mér að það eigi að gæta virðingar gagnvart slíku og að þær séu veittar að vel yfirlögðu ráði. Þegar stökkið er til og orða fest á einhvern sem gengur vel að eignast peninga þetta árið, þá er ekki verið að gæta virðingar gagnvart þessari heiðursgjörð að mínu mati. Það gerir orðuna heldur ekki eftirsóknarverða fyrir aðra.   

 


mbl.is Interpol lýsir eftir Sigurði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Þórður Guðmundsson

Þórður Guðmundsson þroskaþjálfi

Nýjustu myndir

  • bill cosby 620x480 cemrf
  • ATI-lower-review-polymer
  • ATI-lower-review-polymer
  • download JFK
  • Aretrov

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (20.4.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 2
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 2
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband