Er það ekki bara einlífið sem veldur þessu?

Hvað er það sem veldur því að kaþólska kirkjan lendir í svona harmleik? Á undanförnum árum hafa komið upp mál þar sem prestar hafa gerst uppvísir af barnamisnotkun eða einhvers konar óeðlilegri kynhegðun.  Hér höfum við Írland; einhverntíma alls ekki fyrir löngu höfðum við Bandaríkin.

Það er kannski eitt sem vert er að benda á í þessu samhengi og það er einlífi presta. Ástæða þess að kaþólskir prestar eru skírlífir fylgir þeirri trú að Jesús Kristur hafi verið það og hann kvæntist ekki. Prestarnir gegna erindum hans og ganga inn í stöðu hans, eru í hans hlutverki við messugjörð og  að þeir eiga að lifa með hann sem fyrirmynd. Það er ekki rétt sem einhver sagði við mig í gær að kaþólsk trú horfi framhjá Kristi og einblíni á dýrlinga. Sú trú er fyrir hendi að Kristur sé lifandi hluti kirkjunnar og það sé horft tll hans og hann meðtekinn í heilögu sakramenti þ.e.a.s. við altarisgöngu.  

Vegna þess að Jesús var karlmaður þá hefur konum ekki hlotnast sá heiður að verða prestar innan kaþólsku kirkjunnar.  Aðeins karlmenn fá að gegna því hlutverki. Þar að auki er ekki litið á þetta sem starf eða vinnu heldur sem lífstíl, ákveðið líferni sem presturinn hefur verið kallaður til. Þetta er köllun til þjónustu, ekki ráðning í starf og launin eru ekki neitt gríðarleg eins og einhver hafði áhyggjur af nú fyrir ekki svo löngu síðan.   

Þá er von að maður spyrji hvers vegna í ósköpunum fara menn í þessu hlutverki út í það að misnota börn?   Það er ekki auðvelt að svara því með beinum hætti. E.t.v. er það einlífið sem fer ekki vel í menn.  Það að prestar séu almennt séð kvæntir er að mínum dómi ábyggilega hollara fyrir þá en þá um leið þarf að verða einhver viðhorfsbreyting innan kaþólsku kirkjunnar varðandi einlífið og á þessari trúarlegu sýn á Krists-hlutverki presta. Ég er ekki viss um að slíkar breytingar verði í bráð eða jafnvel nokkurn tímann en sjáum samt til með það. 

Skrítið samt að biskupar, bæði á Írlandi og í Bandaríkjunum hafa þagað um misnotkun presta í staðinn fyrir að taka á málunum með einhverjum áþreifanlegri hætti. Hvort það er kjarkleysi, þeir trúa þessu ekki eða það er logið stanslaust að þeim skal ósagt látið. 

  


mbl.is Annar írskur biskup segir af sér
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Reputo

Hér höfum við Írland; einhverntíma alls ekki fyrir löngu höfðum við Bandaríkin.

Skrítið samt að biskupar, bæði á Írlandi og í Bandaríkjunum hafa þagað um misnotkun presta í staðinn fyrir að taka á málunum með einhverjum áþreifanlegri hætti.

Ekki gleyma Íslandi. Það sem gerir þetta enn verra er að sú stofnun (kirkjan) sem telur sig vera siðferðisáttaviti almennings, hylmir yfir þessi brot í stað þess að vera í farabroddi þess að fordæma og refsa fyrir slíka hegðun.

Reputo, 23.12.2009 kl. 22:33

2 identicon

Takk fyrir svarið Reputo. Ég var og er í þessu tilfelli ekki að tala um lúthersku þjóðkirkjuna heldur kaþólsku kirkjuna útí heimi.  Ég man ekki eftir því að kaþólska kirkjan á Íslandi hafi lent í svona málum.

thg (IP-tala skráð) 23.12.2009 kl. 22:38

3 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Ég trú því ekki að einlífi geri menn að kynferðisglæpamönnum gagnvart börnum.

Einhverntíma var mér sagt að andlega brenglað fólk sæktist eftir því að vinna á geðsjúkrahúsum. Þess vegna þurfa þeir sem sækja um vinnu á slíkum stofnunum að fara í sálfræðitest til þess að hægt sé að sigta svoleiðis einstaklinga frá.

Er ekki líklegra að þeir sem eru haldnir barnagirnd sækist í stöður þar sem þeir eiga hægt um vik að "praktisera" girnd sína... svo sem sálgæslu í kaþólskum sið?

Gunnar Th. Gunnarsson, 23.12.2009 kl. 23:08

4 Smámynd: Reputo

Ég var reyndar að tala svona almennt um skipulögð kristin trúarbrögð.

Reputo, 24.12.2009 kl. 00:06

5 Smámynd: Guðmundur Pálsson

Skynsamleg skrif hjá þér. Þetta eru náttúrulega svakalegir glæpir gagnvart börnunum. Ég held að enginn innan kirkjunnar eigi svo mikið sem reyna að réttlæta þetta. Og það hefur Benedikt XVI páfi heldur ekki gert heldur stendur hann með börnunum og foreldrum þeirra. En hvað veldur þessu? Það er ekki gott að segja, þetta er tilfinningarugl og afvegaleiðing. Blindni; menn missa sjónir á hlutverki sínu. Þetta hefur ekki með trúna að gera heldur breiskleika manna sem vorkenna sjálfum sér og standa ekki sterkir en leita til barna til að fá huggun og stuðning.  Svo er kontrólkerfið innan kirkjunnar er augljóslega ekki virkt og það er hugsanlega ein stærsta orsökin. Þetta getur svo sem gerst meðal heilbrigðisstarfsmanna, barnagæslufólks og kennara en það þarf að vinna gegn þessu með vakandi huga. 

Guðmundur Pálsson, 24.12.2009 kl. 00:25

6 identicon

Einlífið er engin afsökun, hvað með alla þá karla sem ekki ná sér í konur og lifa einir alla ævina, þeir hópast ekki í þann óþvera að nýðast á börnum, nei þessir menn hafa val og vita muninn á réttu og röngu. Einmanna menn geta einnig farið á vændishús ef þeir eru aðfram komnir, en prestarnir með biblíuna í hendinni kjósa frekar að leggjast með börnum.

Tek það fram að ég er á móti vændi og slustöðum, en málið er að vændi er til staðar þar sem þessir prestar búa.

Valsól (IP-tala skráð) 24.12.2009 kl. 00:29

7 Smámynd: Páll Geir Bjarnason

Þó svo að uppgefin ástæða kaþólsku kirkjunnar fyrir einlífi presta sé að Jesú hafi aldrei kvænst er raunveruleg ástæða þess öllum hugsandi mönnum skýr. Ástæðan er sú að með því að meina þjónum sínum um kvonfang og þar með erfingja tryggir kirkjan að veraldlegar eignir þjónsins renni "aftur" til sín. Þetta er s.s. einfaldlega ákvörðun tekin á viðskiptalegum grunni. Græðgisgrunni.

Páll Geir Bjarnason, 24.12.2009 kl. 00:38

8 identicon

Guðmundur Pálsson þú segir að benidikt páfi hafi ekki reynt að réttlæta þetta. Það er rétt, hann hefur ekki reynt að réttlæta óþveran opinberlega, en þess bera að geta og halda til haga að benidikt páfi var í forsvari fyrir nefnd sem sett var á laggirnar til að flytja perra til í starfi og til að fá fjölskyldur fórnarlamba til að falla frá málsókn á hendur krikjunni. Benidikt var sá sem planaði það hvernig menn skyldu færðir til í starfi og hvernig málum þeirra skyldi haldið leyndum og frá fjölmiðlum. Benidikt er þannig samsekur sjálfum gerendunum. Það er undarlegt og vekur upp spurningar hvað það er sem fær fólk til að verja þessa tudda? Þetta er eins og með prestinn á Selfossi sem var að þukla smástelpur, ég lennti í debati við konu sem hefur starfað með þolendum kynferðisbrota en af því hún var í þjóðkirkjunni og trúuð þá tók hún málstað prestsins. Þvílíkt og annað eins, maður á ekki til orð. Svo er íslenska þjóðkirkjan með eitthvert ráð eða nefnd sem á að taka á kynferðisbrotum innan kirkjunnar. Ætli það sé eitthvað í líkingu við nefndina sem benidikt páfi var í forsvari fyrir? Málið er að það eru til barnaverndarlög í landinu og þar er það alveg skýrt í 16. og 17. gr. hvernig á að taka á málum ef þau koma upp hvort sem það er hjá kirkjunni eða einhvers staðar annars staðar.

Valsól (IP-tala skráð) 24.12.2009 kl. 00:46

9 identicon

Páll, þú hittir naglann á höfuðið, það er einmitt græðgishugsjónin sem hefur gert það að verkum að prestar kaþólskir hafa ekki leyfi til að kvænast. Þetta eru eldgömul sannindi og eru frásagnir af þessu til í gömum íslenskum bókmenntum.

Valsól (IP-tala skráð) 24.12.2009 kl. 00:48

10 identicon

Hvað svo sem veldur því að prestar almennt fara út í þann viðurstyggilega glæp, að níðast á börnum ættu yfirvöld prestanna á hverjum stað að sjá sóma sinn í því að víkja þeim frá störfum og sjá til þess að málið sé rannsakað. Sé presturinn fundinn sekur á hann að sjálfsögðu að verða dæmdur eins og hver annar kynferðisafbrotamaður. Greiða miskabætur og dúsa á bak við lás og slá í einhvern óákveðinn tíma. Hann ætti ennfremur að verða sviptur prestembættinu og kirkjan að losa við starfskraftinn undir eins.

En hvað veldur því að kirkjan tekur þannig á málunum að halda hlífiskildi yfir barnaníðingum? Það er ekki gott að segja. Enginn myndi sætta sig við að starfsmenn leikskóla eða sumarbúða sem fundnir væru sekir um barnaníð yrðu aðeins fluttir til í starfi og málið þagað niður. Að mínu viti er kirkjan föst í gamaldags úreltum hugmyndum og getur engan vegin gengið í takt við mannlegt samfélag eins og það er í dag. Hún þarf að losa sig úr fjötrum fortíðar og meiriháttar viðhorfsbreyting að verða. Það gengur ekki að kirkja sem vill láta taka sig alvarlega og á að vera öllum opin, úthrópi samkynhneigða, mótmæli getnaðarvörnum, amist við því að konum sem hefur verið nauðgað séu gefin svokölluð "eftir á pilla " sem og haldi hlífiskildi yfir barnaníðingum, svo eitthvað sé nefnt að nútíma óhæfuverkum hennar.

Sigurður Eðvaldsson (IP-tala skráð) 24.12.2009 kl. 09:28

11 Smámynd: Reputo

Kirkjan hefur auðvitað alltaf verið valdastofnun og hlutverk hennar í dag snýr fyrst og fremst að því að viðhalda fengnum hlut. Það sést á trúboðinu á hvítvoðungum, börnum og unglingum. Þetta með að hylma yfir glæpi sjálfskipaðra umboðsmanna eyðimerkurguðsins er ekkert annað en einn liður í þessu. Það sem almenningur ekki veit skaðar ekki orðsporið. Það hefur hinsvegar orðið erfiðara og erfiðara að hylma yfir þessa glæpi með t.d. tilkomu internetsins þar sem auðvelt er að koma upplýsingum á framfæri. Ég hef reyndar alltaf furðað mig á því að kirkjan hafi ekki fordæmt internetið og hvatt fólk til að nota það ekki, því þekking almennings og upplýsingaflæði hefur aldrei verið kirkjunni í hag. Því upplýstara sem fólk er, því minni líkur eru á að fólk trúi ævintýrunum úr biblíunni, sem flest eru svo ljót og viðurstyggileg að þessi bók ætti að vera bönnuð innan 18.

Reputo, 24.12.2009 kl. 11:02

12 Smámynd: Þórður Guðmundsson

Nú eru prestar ekki að græða nein auðæfi í þjónustu sinni. Þeir eignast ekki nein lönd, hús né garða. Þannig að ef þeir kvænast og skilja þá verður ekki úr því neitt sérstakt fyrir konuna.  Við eigum erfitt um vik varðandi græðgissjónarmið kirkjunnar þarna.  Barnagirnd er eitthvað óskiljanlegt sem sumir menn hafa í sér. Hvort menn fari beinlínis í þjónustu kirkjunnar til þess að svala slíku er ekki hægt að vera viss um á neinn hátt.  

Takk fyrir góða umræðu.  Um að gera að skrifa og láta í sér heyra.  Ég vil sjálfur halda mér við góða skynsemi, það sem ég veit og get fært rök fyrir. Annað læt ég liggja milli hluta.  

Að lokum óska ég ykkur öllum gleðilegra jóla og farsæls komandi árs. 

Kveðja, Þórður.

Þórður Guðmundsson, 24.12.2009 kl. 13:40

13 Smámynd: Páll Geir Bjarnason

Þetta hefur ekki í fyrri tíð snúist um skilnaði Þórður heldur erfðarétt. Kaþólska kirkjan erfir veraldlegar eigur kuflanna sinna. Ókvæntir eignuðust þeir aðeins lausaleikskróga og bastarða sem eðlilega eru arflausir. Í afkimum kaþólska veldisins, eins og Ísland var, óhlýðnuðust sérarnir margir hverjir við illan bifur páfagarðs.
Á ýmsum tímum mannkynssögunnar hafa margir kaþólsku sérarnir haft nóg að bíta og brenna og hagnast vel á starfi sínu. Páfagarður hefur ekki mátt vita til þess að þessi auðæfi sleppi úr greipum sínum. Og þó upphæðirnar séu ekki stjarnfræðilegar hjá hverjum og einum máttu vita að margt smátt gerir eitt stjarnfræðilegt.

Páll Geir Bjarnason, 25.12.2009 kl. 02:13

14 Smámynd: Þórður Guðmundsson

Já já það er hægt að fara um víðan völl í mannkynssögunni og finna þar dæmi um græðgi og ofstopahátt. Nóg er umræðuefnið þar til þess að halda áfram að spjalla um það frá því núna og langt fram á nótt.  Ég er hins vegar að hugsa um nútímann og  þá sérstaklega afhverju barnagirnd er að finna hjá einlífum prestum.

Ég minntist á skilnaði hér síðast.  Það hefði verið hægt að hanka mig á því að ég héldi það um kaþólska menn.  Þeir mega nefnilega ekki skilja. Ef það fer þannig þá fá menn ekki lengur að fara til altaris. Prestur myndi þannig dæmasta frá kjól og kalli, að ég tel allavega. Það er margt í þessu vinir mínir. Kaþólskir prestar eru ekki til vinnu, þeir eru í þjónustu, þetta er köllun sem miðast við ákveðnar hefðir sem hafa mótast í aldanna rás. Þeir eiga ekki og eignast aldrei nein auðæfi. Það eru enginn gróði til þess að líta til hjá þessum blessuðu prestum og prelátum. Við skulum annars ekki segja neitt um græðgi í Páfagarði nema vera alveg viss um að við séum með eitthvað almennilegt í höndunum um það.  

Þórður Guðmundsson, 25.12.2009 kl. 13:47

15 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Það stendur í Bibíunni (Mattheus minnir mig) að hjón megi ekki skilja nema vegna hórdóms og sá sem giftist fráskilinni konu, drýgir hór.

Einnig... ef maður gjóir augum á fallegan kvenmann og hugurinn fer "óvart" á flug, þá drýgir maður hór.

Er ekki óhætt að endurskoða þetta eitthvað í kristinni trú. Kyneðlið verður ekki lamið úr okkur

Gunnar Th. Gunnarsson, 25.12.2009 kl. 16:32

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Þórður Guðmundsson

Þórður Guðmundsson þroskaþjálfi

Nýjustu myndir

  • bill cosby 620x480 cemrf
  • ATI-lower-review-polymer
  • ATI-lower-review-polymer
  • download JFK
  • Aretrov

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (26.4.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 9
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 9
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband