Færsluflokkur: Bloggar

Hvað gerir lífið skemmtilegt?

Hvaða leið er hægt að fara ef manni langar til þess að njóta þess að vera til? Mér dettur í hug nokkrir möguleikar og langar aðeins til þess að deila þeim, svona einu sinni.

1. Að taka lífið ekki alltof alvarlega.  Því miður þá tekst þetta ekki alltaf en þetta er ágætis viðhorf samt.  Í þessu felst að leyfa hinu fáránlega sem birtist í lífinu að vera bara og samþykkja það sem hluta af lífinu.  Sumir hlutir er hreint út sagt fáránlegir. Sum samtöl eru asnaleg og sumar uppákomur skrýtnar og háðar tilviljunum. Svo er sumt sem er þess eðlis að það hentar best að setja utan um það sviga ellegar að láta það liggja milli hluta. Vera ekkert að vega það og meta. 

..... en það er gott að velja sér viðhorf. Ég vel mér það viðhorf að lífið sé ekki fullkomið og verði það aldrei. Ekkert er í raun fullkomið nema kannski sumt en það er ekki hægt að krefjast þess að allt sé það.  Svo held ég bara áfram að lifa. 

2. Að halda áfram að lifa.  Það er svo margt í lífinu að það er nóg til að hugsa um. Möguleikarnir eru óteljandi.  En þegar lífið er hins vegar ekkert sérstaklega skemmtilegt þá er ágæt leið að halda bara áfram að lifa og leyfa öðrum að gera það líka.

....stundum lendir maður í leiðinda samtölum,  og atvikum sem eru ekkert sérstaklega skemmtileg. Í staðinn fyrir að velta sér uppúr þeim endalaust og eyðileggja næstu mínútur þá finnst mér ágætt að halda bara áfram að lifa. Að snúa mér að næsta verkefni.  Lífið er samansafn af litlum verkefnum. Maður fer frá einu til annars. 

3. Að leita uppi skemmtilega hluti.  Það að leika sér aðeins þó svo að maður sé orðinn fullorðinn er allt í lagi. Mér finnst að hjón og pör eigi að fara reglulega eitthvert að leika sér, þó það sé ekki nema bara til þess að róla sér eða bara í snjókast. Ég fer í snjókast með vinum mínum, dansa við þá eða fer í bátsferð, ellegar geri eitthvað bara alveg sjálfur, en samt er...

.....fínt að leita uppi eitthvað sem maður hefur ekki gert áður. Ég hef t.d. aldrei prufað að fara í nudd einhversstaðar og ég hef aldrei komið til Parísar. Reyndar þá hef ég aldrei komið við í Vestmannaeyjum en þú lofar að segja ekki neinum frá því ;) 

4. Að endurtaka aldrei neitt sem var sérstakt og skemmtilegt.  Fyrir mitt leiti þá er ég nokkuð inn á þessu. Sumir hlutir eru skemmtilegir aðeins einu sinni meðan hægt er að endurtaka ýmislegt annað mun oftar. 

....þú býrð til minningu úr skemmtilegum atvikum sem þér dettur í hug að framkvæma. Með því að framkvæma suma hluti aftur og aftur, þó að það sé gaman, þá dregur úr gildi upphaflega atviksins sem efalaust var bráðfyndið.    Svo kemur einhverntíma...manstu þegar...? 

5. Að æfa sig í einhverju skemmtilegu.  Hér dettur mér í hug að æfa sig í að spila á eitthvert hljóðfæri (t.d. gítar eða trommur), æfa dans (t.d. salsa), töfrabragð (eitthvað einfalt sem kemur fólki á óvart), tungumál (spænska til að nota óvænt í sólarlandaferðum), eða að lesa vinsæla bók og nota hana til samtals við aðra sem hafa lesið sömu bók (t.d. Ég man þig eftir Yrsu).  Varðandi hið síðastnefnda þá er það ekki vitlaus hugmynd að æfa sig í því að nota bók sem maður hefur til samtals við aðra. 

....þegar maður hittir fólk og hefur eitthvað í farteskinu sem passar inn í aðstæður, að koma með, þá er nokkuð gaman að vera með eitthvað sem maður hefur undirbúið með sjálfum sér. Æft sig aðeins í.  

6. Að vera þakklátur.  Ég er þakklátur fyrir þetta hér: 

...Að vera uppi á þessum tíma í Íslandssögunni, að geta skoppað út í búð og fengið mér eitthvað þegar ég er svangur, eiga góða skó, að geta fengið mér vatn úr krananum, að eiga fullt af góðum vinum, að geta farið á bókasafn og lesið eins og mig langar til, að geta hlustað á alla þessa góðu tónlist, að geta farið til útlanda á þremur tímum eða svo, að geta horft á sjónvarp, að geta valið mér myndefni, að geta farið vikulega og dansað við fullt af skemmtilegu fólki, að eiga góða vinnufélaga, að eiga góða fjölskyldu, að hafa ágætis bragðskyn, að geta keyrt bíl, farið í líkamsrækt, eiga gott húsnæði, hafa farið í háskóla og lært það sem mig langaði til....

Listinn gæti verið miklu lengri og vel getur verið að ég sé að gleyma einhverju. Til mótvægis við þetta þá langar mig til þess að koma með annan lista sem er allt öðruvísi og ekkert skemmtilegur. Allt það sem ég er feginn að skuli ekki vera í lífi mínu og ég býst við að þú sért mér alveg sammála.

.....Að búa ekki í stríðshrjáðu landi, hér skuli ekki vera hungursneyð, ekki þurfi að treysta á uppskeru einhvers akurs, að búa ekki við stanslausan ótta við uppskerubrest, né heldur þrælahald, að ungir menn sé ekki neyddir í herþjónustu, að ekki er neitt minnismerki um fallna íslenska hermenn á Íslandi, að búa ekki við landamæri þar sem hætta er á annarri brjálaðri þjóð sem langar til þess að koma í heimsókn til þess að drepa meirihluta manna og hneppa restinni í þrældóm, að fangabúðir séu ekki sjálfsagður hlutur hjá stjórnvöldum eða geðþótta aftökur, aftökur sé ekki leyfðar á Íslandi, og opinberar flengingar eða aflimanir ekki heldur, að vera laus við einræði og geðþótta handtökur, að búa ekki í landi þar sem ekki má segja skoðanir sínar. Lengi væri ábyggilega hægt að halda áfram.  Sérdeilis frábært að vera laus við þennan pakka. 

7. Að gefa af sér án þess að vænta nokkurs í staðinn.  Heilmikil kúnst stundum, en samt ekki endilega.  Á tímabili þá datt mér í hug að gefa gestum einhverja bók þegar þeir fóru. Samt þá er það að gefa af sér ekki endilega bundið bókum eða einhverjum hlutum.  Gjöf er að finna í orðum líka. 

....einu sinni sat ég í veislu og maður nokkur sagði við mig nokkur orð og ég man þau alltaf. Hann sagði  einfaldlega alltaf hef ég dáðst að þér.  Hann er núna prestur á Laufási, en ég man þetta og mér fannst þessi orð flott og hvernig þau voru sögð. Það er ekki sama hvernig hlutirnir eru sagðir. Einhver augnablik geta verið alveg æðisleg og þau geta verið það fyrir einhverjum þó svo að það hafi verið sagt neitt þá, né heldur síðar, en þeirra atvika er minnst og þeir rifjast e.t.v. upp löngu síðar ellegar geymast í hugskoti góðra minninga. Og það varst þú sem sagðir eða framkvæmdir upphaflega, þú sem gafst af þér. 

Svo er eitt í viðbót sem mig langar að segja þér en það lærði ég í guðfræðinni meðan ég var þar. Ekki segja nokkurntíma að Hebrearnir gömlu hafi verið alslæmir þó svo að textinn í Ritningunni virki stundum fullur af refsingum og manndrápum ;)  Það er hugtakið Hesed. Það er að taka einhvern að sér, af eigin frumkvæði, löngun og vilja, og sjá um hann án þess að hann þurfi að borga neitt tilbaka. Bara aldrei. Það að komast þar að og inn til framkvæmda vekur vissulega ánægju.  Það er mun stærri kirkja en stærsta kirkja og hroki á þar hvergi heima.

Takk fyrir að lesa þetta allt.  Vona að þú hafir notið þess.

Kveðja, Þórður 

 


Fiskur og brauð

Segjum sem svo að þú fengir þær athyglisverðu fréttir að niðrí bæ, nánar tiltekið á Arnarhóli, væri staddur maður nokkur, skeggjaður og skemmtilegur, annálaður fyrir mikla útgeislun, við þá iðju að gefa fullt af fólki brauð að borða og fiska að eta. Hvað myndir þú þá hugsa?

Nú 1. apríl var á föstudaginn þannig að ekki gæti það verið aprílgabb. Miklu fremur gæti þetta verið satt, sérstaklega vegna þess að sést hefði til mannsins áður. Hann hefði reyndar lítið sést í kirkjum en hins vegar miklu oftar meðal útigangsmanna þar sem hann hefði iðulega komið með mat til þeirra. Hann hefði einnig sést á vappi fyrir utan mæðrastyrksnefnd og meðal fatlaðra en á meðal þeirra hefði hann læknað einn eða tvo, en um leið sagt að Guð væri góður og hann elskaði alla menn. 

Upphaflega meðan Jesús var við þessa iðju og fullt af fólki kom til hans, þá gerði hann ekki greinarmun á fólki. Það fengu allir eitthvað hjá honum og það var meira að segja afgangur.  Hann gaf og gaf og gaf. Svo dó hann. 

En hann skyldi ekki eftir sig neinn peningalegan arf. Engin auðæfi sem mæld voru í gulli eða silfri. Maðurinn var í rauninni bláfátækur; hann átti ekki neitt sem einhver á enn þann dag í dag. Sumir vilja meina að kaleikur nokkur sem notaður var við síðustu kvöldmáltíðina hafi verið varðveittur í gegnum tíðina og ýmsir átt hann. Það eru hins vegar bara getgátur eða óskhyggja, annaðhvort. 

 Jesús átti sandala, föt til skiptanna, staf e.t.v. og nokkra góða vini sem fylgdu honum gangandi út um allt.   Hann var svona eins og Sókrates áður. Gangandi um fram og til baka, segjandi hitt og þetta og hvorugur skrifaði einn einasta stafkrók í bók. 

Sumir hlutir eru dýrmætari en gull og silfur. Einhvern veginn samt á allt tal um raunverulega hamingju og hvernig eigi að njóta lífsins orðið að einhvers konar klisjum. Jafnvel margt af því sem Jesús sagði er orðið að klisjum vegna þess að það er búið að tönglast svo mikið á því að það er hætt að eiga einhverja merkingu lengur.  Miðað við allar sjálfshjálparbækurnar þá er eins og það beri í bakkafullan lækinn að tala um það.  En samt það er samt eitt...

Þegar Jesús er að útdeila fiskunum og brauðunum þá er hann bæði gefandi og skapandi. Hann er að búa til augnablik. Augnablik sem er ennþá til.  Mannstu eftir öllum augnablikunum þar sem þú gafst eitthvað af þér og varst skapandi. Öll augnablikin sem þú hugsar um með gleði enn þann dag í dag. Slíka hluti á maður alla ævi. Við köllum það góðar minningar.   

Góðar minningar eru miklu dýrmætari en gull og silfur. 

    


Hvernig hægt er að vera laus við meðvirkni

Ég las einu sinni bók sem heitir Aldrei aftur meðvirkni. Einhver Melodie Beatty skrifaði þessa bók. Ágætis bók fyrir fólk sem vill finna sjálft sig og finnst það vera meðvirkt nema hvað mér fannst skilgreiningin verða alltof víð hjá höfundinum. Ég meina ég las þarna einhvern langan kafla með endalausri upptalningu á meðvirkni. Eru ekki bara allir meira eða minna meðvirkir fór ég að hugsa, en svo kemst maður að öðru þegar skoðun myndast á viðfangsefninu. 

Svo ég dýfi mér beint í viðfangsefnið og eins og ég sé það þá langar mig til þess að varpa fram einni spurningu sem mér finnst gott að spyrja sjálfan mig að öðru hvoru og velta mér uppúr fram og tilbaka. Þetta er í mínum huga miklu fremur sígild spurning heldur en persónuleg:

Hver er sú manneskja sem mig langar til að vera eða verða? 

Ef ég er meðvirk manneskja þá spyr ég ekki að svoleiðis nokk. Í rauninni þá þarf maður ekki að vera neitt mikið meðvirkur til þess að eiga ekki þessa spurningu. Sem er vegna þess að það er auðveldlega hægt að týna því hvað manni finnst gott og líður vel með. Það er hægt að týna því niður hvað manni langar til að gera, og jafn einfaldri spurningu sem - hver vil ég vera? 

Sá sem er voðalega upptekinn af öðru fólki hvort heldur til þess að stjórna því eða þjóna því, velta sér uppúr því, eða lifa fyrir það allsendis getur auðveldlega glatað ákveðnum tilfinningum gagnvart sjálfum sér.   Það er heldur ekki svo auðvelt að elska sjálfan sig ef maður veit lítið um það hvernig eigi að fara að því að elska sjálfan sig. Með hvaða hætti skuli það gert? Með hvaða hætti getur manni liðið vel? Og þá með hvað? Hvað er gott, notalegt, þægilegt, skapar vellíðan, vekur nautn? Það þarf ekki að vera það sama hjá hverjum og einum. Svo er að sjá það fyrir sér. Mynda sér skoðun á því og setja það til hliðar sem passar ekki inní myndina. 

Best finnst mér að sleppa tökum og hafa einskonar - mér er alveg sama viðhorf. Í því felst að vera ekki alltof góður og elskulegur. Að vera tilbúinn til þess að segja nei við hinu og þessu, neita verkefnum, neita því að taka þátt í einhverju, hafna tilboðum, segja nei við sölumenn, neita að umgangast leiðinlegt fólk og fara bara, neita því að hitta sumt fólk eða vilja ekki mæta hér eða þar og vera alveg sama um hvað öðrum finnst eða fannst um það. Ennfremur að neita að leysa verkefni sem öðrum er ætlað að leysa, sem aðrir geta vel leyst og þurfa ekki neina hjálp við (fara jafnvel bara). 

Það væri hægt að halda áfram endalaust að telja upp alls konar tegundir af neitunum við hinu og þessu. En meðvirkt fólk á það til að kunna lítt á slíkt. Sumt fólk segir já við öllu mögulegu og verður síðan reitt við sjálft sig útaf því í tíma og ótíma. Það verður líka sumt of gott og fer að leysa alls kyns viðfangsefni sem það þarf ekkert að leysa.

Þetta viðhorf hentar mér: Ég sagði nei áðan og mér er alveg sama um það hvað manneskjunni fannst um það. Mér líður betur með það sem ég hef nú þegar og þarf ekki þetta tilboð, vil ekki þessa framkomu, þetta vafstur þarna, eða þetta vesen.  Meðvirkur lætur hins vegar allt mögulegt yfir sig ganga. 

Þetta viðhorf hentar mér einnig: Ég gerði það vegna þess að mig langaði til þess. Af því að mér líður betur með það. Þar gildir minn smekkur eins og t.d. að ég vel að vera skegglaus þrátt fyrir að einhverjum finnist að það fari mér betur að hafa skegg.  Meðvirkur er stöðugt að eltast við álit annarra en hefur ekki mikið velt fyrir sér hvað honum langar sjálfan til. 

Svo að lokum kemur aftur sama spurningin og áður. Hver er sú manneskja sem þig langar til að vera eða verða?  Ég vil lifa lífinu svona og með þessum hætti en ekki samkvæmt hugmyndum annarra, smekk eða tísku. Ég er sú manneskja sem mig langar til að vera. Hvað með þig? 

  Að lokum: Meðvirkni er að vita ekki hvað manni sjálfum líður vel með og kunna ekki að setja sjálfum sér eða öðrum mörk. 

 


Mannasiðir Gillz - að mæta í partý

 Ég sá þátt númer tvö um daginn sem fjalla um mannasiði Gillz. Eitthvað var þarna af ágætis hugmyndum en svo komu aðrar sem ja eru ekki alveg samkvæmt minni bók. En svona myndi ég hafa þetta. 

images?q=tbn:ANd9GcT6jau7_BuUXDBtDUjTlsbxfdQDPAyoTu70vGEo2JAe2474pPnSZQÍslendingar eru alveg ferlega hræddir við að mæta fyrstir í partý. Þess vegna mæta þeir of seint miðað við þann tíma sem partýið átti að byrja. Maður getur því gefið sér að ef partýið átti að hefjazt um níu þá sé enginn mættur fyrr en í fyrsta lagi hálf ellefu.  Sjálfur mæti ég oft og iðulega snemma. Það er í sjálfu sér rétt hjá Gillz að kvenfólkið er að búa sig fyrr um kvöldið og það er ekkert gaman að koma of snemma og koma þegar verið er að punta sig (sem er allt eins klukkan níu þegar partýið á að hefjast).  Önnur hugmynd í þessum efnum er að koma seint og fara snemma. Ef maður þekkir fáa á staðnum í ofanálag, þá bara mæta eiturhress heilsa liðinu og fara síðan fljótlega. Slíkt vekur athygli gesta og þeir fara að spá i því hver þetta hafi verið. 

 Aldrei að koma með einhver ósköpins öll af áfengi í partý. Ein flaska er alveg nóg eða ein kippa af bjór. Svo ætti enginn að iðka það að drekka sig alveg útúr. Það er bara ekkert gaman og ef þú ert í þokkabót ekki því mun betur meðal vina, þá er voðinn vís. 

Merkilegt hversu fólk finnur sig öruggt og með, ef það hefur glas í hendinni með einhverju í.  En svo er bara að spjalla við sem flesta.  Ég er alveg á móti því sem Gillz er að segja að þegar einhverjar sætar stelpur mæta til svæðis þá ætti maður helzt að fara og heilsa uppá ófríðar stelpur og fá þær til þess að hlæja. Með því að fá þær til þess að hlæja þá myndi það vekja athygli sætu stelpnanna. Fyrir mitt leiti þá er slíkt óheiðarlegt og kallast að nota aðra til þess að ná öðru markmiði. Fókusinn ætti bara að vera á þessar ófríðu stelpur... maður á ekki að flokka kvenfólk bara eftir því hvort það er frítt eða ófrítt í útliti. Innri manneskja skiptir miklu meira máli.  Sæt stelpa sem er alveg tóm er minna áhugaverð en stelpa sem er engin gella, en er með því mun meira heilakonfekt :) 

images?q=tbn:ANd9GcQhYXTBEGZvdND3parstkunc7mfepJma94zX2Eo1M9QGbi624qHSegjum að  maður sé staddur í partýi og inn komi einhverjar ofboðslega sætar gellur. Ef það er ekki hægt að ganga beint að þeim, bjóða þeim í glas eða segja skál með einhverju spjalli, þá eru þær einskis virði. Skiptir engu hversu líkar þær eru miss world. Útlitið er ekki allt. Það er þroskinn og andlegi hlutinn sem er miklu athyglisverðari hlutur.  Því eldri sem maður verður því mun betur gerir maður sér grein fyrir því.  

 Útúrdúr: Ég er farinn að hatazt við orðalag Gillz sem er að lima sig upp. Eitthvað hef ég það á tilfinningunni að skyndikynni sé bara sjálfsagður hlutur í þessum þáttum. Fyrir mér þá er skyndikynni alger viðbjóður og maður á að hafa þá sjálfsvirðingu að vera ekki með hverjum sem er. Munurinn á því að ríða og elskast verður ekki útskýrður hér (of langt mál) en ég sakna þess að mannasiðabók skuli ekki geta gert greinarmun á slíku og þættirnir ekki heldur í ofanálag. 

Að lokum vil ég nefna að maður á aldrei að eyða tíma sínum í eitt einasta partý þar sem fólk drekkur eins og svín, tekur inn dóp, reykir innandyra eins og strompar eða er farið að brjóta hluti (svona helzt til óvart). Ef manni aftur á móti er bara farið að leiðazt og það er enginn spennandi til þess að spjalla við lengur, þá á maður bara að fara.  Maður á alltaf að nota partý, veizlur, kaffiboð o.s.frv. til þess að blanda geði við annað fólk.  Annars að segja eins og Patrick Bateman (American Psycho), jæja ég verð víst að drífa mig, þarf að skila nokkrum vídeóspólum...

 


Fyrirlestur um Guð í Bókasafni Kópavogs

Þetta er búinn að vera annasamur dagur. Eftir vinnu fór ég beint í að skila bókum og hlusta á fyrirlestur númer tvö um Guð. Í þetta skiptið talaði séra Auður Eir Vilhjálmsdóttir og sem fyrr var salurinn meira eða minna skipaður fólki komið yfir sjötugt.  Auður talaði blaðlaust í hartnær þrjú korter og hafði ekkert fyrir því. Fyrirfram hélt ég að hún myndi leggja áherzlu á að tala um kvennaguðfræðina en það gerði hún hins vegar ekki.  Fyrir þá sem ekki vita þá stofnaði Auður kvennakirkjuna fyrir einhverjum árum síðan þar sem m.a. er lagt áherzlu á það að kvenkyns nefna Guð. Þannig er í daglegu tali t.d. sagt Hún Guð en ekki Hann Guð.

Auður byggði ræðu sína upp á því að byrja á sköpunarsögunni og síðan þræddi hún sig áfram í gegnum söguna þar til hún var komin að Páli Postula. Hana Guð sjáum við í sögunni, m.a. í því þegar Ísraelsmenn voru 40 daga í eyðimörkinni og Guð sýndi þeim umhyggju og ræktarsemi eins og móðir myndi gera við börn sín. 

Það var gaman að hitta Auði þarna, hún er ósköp elskuleg að hitta, vel fróð í guðfræðinni og gaman að hlusta á hana tala. Hún hélt athygli minni allan tímann og veitti mér ekki færi á að láta hugann reika. En það er nú svo að stefna hennar í guðfræðinni hefur ekki verið vinsæl meðal allra. Fyrir mitt leiti þá finnst mér það sjálfum engu skipta hvort sagt er Hún eða Hann. Allt það er aukaatriði miðað við þá staðreynd að sá sem boðar, leiðir, hversu fróður sem hann kann að vera, og meistaralegur í lítúrgíu (helgisiðafræðum) o.s.frv. er hjóm eitt,  ef hann hefur ekki hjartað á réttum stað. 

  ...eða með öðrum orðum; það er kærleikurinn sem skiptir mestu máli, ekki einhverjar tiktúrur eða einhverjar sérstakar áherzlur í tengzlum við strauma eða stefnur innan guðfræðinnar. 

Að lokum þá er ein staðreynd sem mig langar til þess að nefna fyrir þá sem ekki vita. Séra Auður Eir er fyrsta konan á Íslandi til þess að hljóta prestsvígslu en það var árið 1974. 


Karlmaðurinn er veikara kynið

Það hefur komið fyrir hingað og þangað í gegnum tíðina að konur hafa haldið því fram við mig að karlmenn væru veikara kynið. Jú þessu er jafnvel mikið haldið fram þvers og kruss. Og meginrökin eru iðulega þau að karlmenn myndu aldrei þola mesta sársauka allra tíma sem á sér stað á hverri sekúndu árið um kring. 

Aumingja karlpeningurinn. Þegar hann verður veikur, þá verður hann líka svo mikið veikur. Það er lagzt í rúmið. Svo er legið þar og allt er svo slæmt. Ó guð hvað ég er veikur.  Svo kemur konan og færir manninum alles í rúmið og greyið liggur bara. Slíkur maður gæti ábyggilega ekki þolað ofangreindar kvalir. Hvernig yrði hann þá?!

Mikið hvað það hefur verið gaman að lenda í líflegri umræðu við uppvaskið þar sem tönglast hefur verið á því að ef karlmenn gengju með börnin og myndu þurfa að þola þjáningu fæðingarinnar þá myndu þeir deyja! Allir saman!  Þar með væru þeir veikara kynið.  Raðandi diskunum og glösunum fannst mér ágætt að benda á þá staðreynd að auðvitað myndu þeir drepast, einhverjir af þeim allavega. Náttúruval yrði þá þar eins og annars staðar í þessari náttúru. Þeir gætu þetta á endanum...     (út frá staðreyndum um æxlun þá er þessi umræða auðvitað algert bull).

Blessaður karlpeningurinn sem hefur kúgað kvenfólkið í árhundruði, bannað því að eiga sjálfstætt líf, taka þátt í lýðræði, kosningum, að mennta sig, ráða því hverjum skuli giftast, hvar skuli búa og þar fram eftir götunum er allt í einu ekki lengur í slíkri oddastöðu og það eftir meirihluta Íslandssögunnar.  Þær ráða þessu öllu núna og þráin er  e.t.v. sú að snúa þessu kannski bara við næstu árhundruðin. 

 


Fyrirlestraröð um Guð í Bókasafni Kópavogs nú í febrúar

Nú er í gangi fyrirlestraröð í Bókasafni Kópavogs þar sem umræðuefnið er Guð.  Þessir fyrirlestrar eru auglýstir nú í febrúar á fimmtudögum klukkan 17:15.  Alls eru það fjórir fyrirlesarar sem stíga á stokk. Sá fyrsti var í dag og talaði þá guðfræðingurinn og fjölmiðlamaðurinn Ævar Kjartansson um Guð og hvernig hann birtist í fjölmiðlum. Sérdeilis ágætur fyrirlestur. Fannst mér ég vera manna yngstur á staðnum en þó sá eini sem ákvað að standa upp og tala í smástund útfrá þeim forsendum kannski helzt að hafa lært guðfræði og telja mig geta svarað einhverjum vangaveltum í tengslum við hina heilögu þrenningu. 

Eftir viku þann 10. febrúar kemur séra Auður Eir Vilhjálmsdóttir og verður efalaust áhugavert að hlusta á hana en hún hefur eins og margir vita orðið að einhverju leiti umdeild vegna kvennaguðfræði sinnar þar sem Guð er settur í kvenkyn og kyngreint þannig hvernig svo sem á að tala um Guð. Á þann fyrirlestur langar mig að mæta. Ekki það að ég setji mig á móti kvennaguðfræði hennar, sem ég þó aðhyllist ekki neitt sérstaklega. 

Þann 17. febrúar verður Reynir Harðarson formaður félagsins Vantrúar með sinn fyrirlestur. Þangað langar mig einnig að mæta.  Maður rekst mest á fólk þessa félags á netinu sem mér finnst sjálfum persónulega synd því ég er alveg til í að hlusta ýmis sjónarmið þó þau kunni að vera og verða önnur en mín. Ég er spenntur auðvitað að sjá og heyra í Reyni en af þeim manni hef eg ekki vitað af fyrr og veit ekkert hvað hann kann að segja mér nema það helzt að Guð sé ekki til. Annars væri hann auðvitað ekki formaður þessa félags (né heldur í því auðvitað). 

Svo hinn 24. febrúar stígur á stokk maður sem ég þekki betur en þau hin en það er vefpresturinn Árni Svanur Daníelsson. Ég er nokkuð viss um að ekki verði komið að tómum kofanum þar frekar en fyrri daginn enda er Árni víðlesinn og sprenglærður í Biblíufræðum. Við hófum guðfræðinám á sama tíma undir lok síðustu aldar. En ég veit lítið um hlutverk vefprests. Er Árni vígður til starfa á internetinu!? Virkar undarlega fyrir mér ef ég er ekki því mun betur að misskilja hlutverk hans. En ætli Árni útskýri þetta ekki bara sjálfur þegar þar að kemur. 

Salur Bókasafns Kópavogs er ekki stór. Hann var fullur í dag. Ætli það hafi ekki verið 60 til 70 manns þessa klukkustund sem fyrirlesturinn stóð.  Sumt vissi ég ekki sem kom fram hjá Ævari. Ég vissi ekki að hér áður hefðu jarðarfarir verið útvarpaðar á gömlu gufunni. Heldur ekki að Ævar sjálfur hefði verið að fá guðfræðinga og presta til sín í spjall. Það gat svo sem verið. Ekki það að ég telji mig vera missandi af einhverju. Ævar er gamall útvarpsmaður og athyglisvert að hann skyldi velja sér þá leið að verða guðfræðingur. En hvað ég hef ekki verið að hlusta á hann í útvarpi undanfarið eða jafnvel bara yfirhöfuð. Því miður.

Hvort ég hafi hug á því að standa upp á svona fyrirlestrum og tala veit ég ekki. Ég bara greip tækifærið til þess. Stundum koma augnablik, tækifæri sem maður verður endilega að grípa ellegar glata því og hugsa um eitthvað annað allar götur síðan. 


Mannasiðir - Að fara í bíó. Stutt svar við hugmyndum Gillz

 Fór í Egilshöll í kvöld og sá Kings Speech. Nei ég er ekki rasshaus og ég fór ekki að kaupa mér nammi áður  en myndin hófst. Ekki heldur í hléinu reyndar.  Ég sá um daginn mannasiðaþáttinn hans Gillz þar sem hann talar m.a. um bíóferðir.  Orðið rasshaus kemur  einnig fyrir í þættinum svo mér dettur helzt í hug að nota það hérna líka, en bara í smástund af því mér finnst orðið fremur asnalegt.  

Nokkur orð samt um bíóferðir. Gillz þarf svolítið að tala um það hvenær maður fer og verzlar sér nammi í bíóinu og hversu lengi maður ætlar sér að eyða tíma í það. Allavega þá er mitt ráð annað. Aldrei að fara svangur í bíó. Sá sem fer svangur í bíó er líklegastur allra til þess að fara strax að kaupa sér endemis óhollustu sem er rándýr í þokkabót. Miðstærð af kóki og agnarlítill poki af lakkrís kostar núna 700 kall. Ef þú ætlar að kaupa þér einhver ósköp þá ertu að fara vel yfir upphaflega bíóverðið í áttina að 2000 kallinum.  Um að gera að borða bara vel áður en farið er í bíó, vera sæmilega vel saddur og slappa bara af í sætinu. 

Hins vegar þá vilja kærustupör og ástfangið fólk auðvitað splæsa í popp og kók sem er allt í lagi; sumum finnst þetta reyndar ómissandi, en hver á það reyndar við sig. Það er dýrt að fara í bíó núna enda kreppa og allt í lagi að sleppa poppi og kóki. Þegar maður hefur sleppt því að verzla í einhver skipti þá kemst það upp í vana eins og annað.

Hléin er best að nota til þess að fara á salernið. Það eru oft raðir ef maður ætlar að kaupa sér kók eða eitthvað og einmitt þegar kemur að manni þá er myndin bara hreinasta að byrja aftur, þannig að þú ert kannski að missa af einhverjum mínútum, bara vegna þess að einhverjir voru óákveðnir í sjoppunni. Ef þú ætlar að verzla þar þá í guðs bænum ekki fara í neina langa röð. Ef þú kemst fljótt að þá skaltu fara, annars ekki.  Bezt er að fara ekki yfirhöfuð; allt þetta nammifóður er alveg hrikalega óhollt. 

Svo að sýningu lokinni þá er siðsamlegast að henda nammiruslinu sínu ef maður á annað borð var að kaupa eitthvað. Ef þú hendir þessu á gólfið þá ert þú sóði hvort sem þú viðurkennir það eður ei. Það eru stærðar ruslafötur í öllum bíósölum. Sá sem hendir rusli á gólfið í bíóhúsi getur gert það hvar sem er reyndar og með því er maður að sýna af sér ákveðna tegund af kæruleysi og sóðahátt. 

 

 


Stutt tilkynning

 

Forðist jólaþrengslin og finnið ykkur sæti í kirkjunni snemma í desember! :)


mbl.is 160 guðsþjónustur í Reykjavík
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Jólahugleiðing

Einu sinni voru fjárhirðar út í haga.  Fullt af sögum byrja svona. Einu sinni var ... og svo heldur sagan áfram og leiðir okkur áfram inn í veröld sem við vissum ekki að væri til neins staðar nema bara í bókum.  Eða þá að sagan leiðir okkur inn í heim sem við vitum að var einu sinni, fyrir mörgum árum eða öldum.  Hvað svo sem sagan segir okkur þá bregður hún fyrir okkur hugmynd, hugmynd um eitthvað. 

Einu sinni voru fjárhirðar út í haga sem höfðu ekki hugmynd um neitt sérstakt og áttu ekki von á neinu.  Það er eins með okkur hin. Við erum stödd í lífi okkar og eigum ekki von á neinu sérstöku. Ekki neinu sem er öðruvísi en venjulega. Nema hvað óvæntar fréttir geta alltaf borist. Góðar eða slæmar. Ein gleður meðan önnur skelfir.  Á einu augabragði getur allt breyst, þó svo að hvorki ég nei nokkur annar vilji það. En svo geta óvæntar breytingar líka verið fagnaðarefni. 

Svo segja menn að allt hafi breyst á Betlehemsvöllum fyrir margt löngu síðan. Það fæddist barn inn í þennan heim. Það átti eftir að alast upp og verða 33 ára eða svo. Sem er ekki langur tími.   Það er reyndar búið að segja þessa sögu margoft. Hún er bæði gömul og ný.  Og þú spyrð hvað sé nýtt. Það eru alltaf að fæðast börn inn í þennan heim. Á hverri mínútu fæðist barn eða jafnvel sekúndu. Það deyr líka fólk á hverri mínútu. Hús eru byggð og þau eyðilögð. Það lifnar við og fellur í sífellu. Ekkert virðist lifa að eilífu. 

Nema hvað það það verður alltaf til birta, ljós einhversstaðar frá. Einmitt það er svo gleðilegt. Ég þrái birtu og yl eins og allir aðrir.  Án húsaskjóls, ljóssins heima og án þess að geta glaðst með öðrum er mikils farið á mis.  Jólin eiga að benda okkur á það sem við í raun höfum. Við höfum fullt af hlutum. Stærsti hluturinn er að við höfum hvert annað. Í því er stærsta ljósið fólgið. 

Í myrkri erum við týnd. Við vitum ekki hvar við erum nákvæmlega og við vitum ekki hvar aðrir eru. Nema hvað sem glámskyggn sjáum við kannski útlínur og þekkjum raddir.  Við heyrum talað um hið sanna ljós sem kom í heiminn. Það er kertið sem tendrað er í myrkrinu. Sem lýsir upp og um leið þekki ég þig og viðurkenni sem minn vin og jafnvel aðeins meira en það. 

Lífið er fullt af atvikum, góðum og slæmum. Inn í það blandast myrkur, ljós og skuggar. En þar innanum höfum við tækifæri til þess að skapa. Þó að við séum misjafnlega góðir smiðir, þá er eitt besta og skemmtilegasta sköpunarverk lífsins það sem við gerum nú á líðandi stundu,  nákvæmlega það sem verður að góðum minningum seinna meir. 

Það er auður að eiga góða minningar úr lífinu. Ef þú minnist margs sem er gott og ánægjulegt má segja að þú eigir margt. Til er fólk sem minnist ekki margs sem kalla má skemmtilegt, en þó alltaf einhvers.  Líka það er til að hugsa um. Hvað vitum stundum ekki hversu mikið við eigum fyrr en einhver bendir okkur á það eða við speglum okkur í því sem er okkur andstætt. 

Sagan um Jesúbarnið er gömul saga og ný. Gömul vegna þess að hún hefur verið  margoft sögð í gegnum aldirnar. Ný vegna þess að hún minnir okkur á um hver jól hver við erum og hvað við eigum. Við eigum fullt af hlutum en þeir eiga það til að hverfa okkur í önn hversdagsins. Við eigum hvert annað en okkur hættir svo til þess að taka því öllu hversdagslega. Það er gleðin yfir lífinu sem sagan segir okkur frá. Sagan er ný vegna þess að hún fjallar um undur og gleði lífsins. Þannig verður hún tímalaus. 

Og hamingjan sjálf er ekki fólgin í peningum heldur góðum hugmyndum.  Að skapa og gleði og  hamingju fyrir aðra er góð hugmynd. Megir þú eiga góð jól. 

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Þórður Guðmundsson

Þórður Guðmundsson þroskaþjálfi

Nýjustu myndir

  • bill cosby 620x480 cemrf
  • ATI-lower-review-polymer
  • ATI-lower-review-polymer
  • download JFK
  • Aretrov

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (18.5.): 2
  • Sl. sólarhring: 2
  • Sl. viku: 19
  • Frá upphafi: 29676

Annað

  • Innlit í dag: 2
  • Innlit sl. viku: 19
  • Gestir í dag: 2
  • IP-tölur í dag: 2

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband