Bloggfærslur mánaðarins, ágúst 2010

Atvik í kirkju - barn við altari

Mér var eitt sinn sögð saga sem er mér enn í fersku minni. Hún er stutt og það er alls ekki margt að gerast; í rauninni ekki neitt en samt heill hellingur.  Það er enginn að hreyfa sig neitt sérstaklega og það er allsendis friður. Sagan gerðist í kirkju eitt sinn.

Svo var að kirkjan var tóm en samt opin öllum sem þangað vildu koma. Presturinn var þarna á ferli eitthvað að stússast, sá hinn sami og sagði mér söguna, grandvar og góður maður, reyndar ekki staddur á Íslandi þarna heldur útí heimi. Í eitt skipti þegar hann leit fyrir horn inn í kirkjuna sá hann litla stúlku sem kraup alein og bað fyrir framan altarið. Hendurnar hafði hún útbaðaðar, hnén voru á nöktu gólfinu og hún var á bæn. Það var mikil kyrrð í kirkjunni, sólin skein í gegnum rúðurnar og það koma falleg birta yfir kirkjubekkina.  En vinur minn hreyfði sig ekki. Það var eitthvað svo fallegt og heilagt við þetta. Eitthvað svo mikil auðmýkt, barnsleg auðmýkt. Hann lét aldrei vita af sér og stúlkan fór á endanum án þess að vita að prestur hafi litið inn og séð til hennar. Í huga hans var engin vilji til þess að trufla þessa andakt. Ekki nokkur.  Svo kom þessi friður sem lagðist yfir allt.  Þögn.


Sammála að mestu leiti

Eins og ég benti á í pistli mínum hér á undan þá tel ég að fólk hafi margt hvert ekki verið tilbúið til þess að trúa þessu öllu upp á Ólaf.  Að hugsa sér hið háheilaga biskupsembætti, eins og það var þá og vonandi enn í hugum fólks, að þar geti hugsanlega verið einhver kynferðisafbrotamaður, maður sem grípur ótrúlegustu tækifæri til þess að káfa á öðrum og jafnframt eitthvað meira á þess vegna alveg fáránlegum augnablikum og stöðum.  

 Biskup yfir Íslandi á að vera maður sem sem fólk hlustar á og tekur mark á. Virðulegur og siðsamur, vandur að virðingu sinni, rólegur og íhugull, maður sem fólk almennt ber virðingu fyrir, og hefur þann hæfileika að ná til annarra og tala til þess af virðingu, sama hvaðan það kemur eða hverju það trúir.  Það er þessi ímynd sem býður hnekki í biskupstíð Ólafs.  Nokkuð sem enginn vildi sjá að mínu mati. Þess vegna tel ég að svo margir, stjórnkerfið allt, eins og Guðbjörg minnist réttilega á, hafi staðið með Ólafi, ekki bara honum heldur biskupsímyndinni sem átti að vera á þessum stað, hinni réttu biskupsímynd.  Það stóð með hlutverki biskupsins.  

Sú skoðun að allt samfélagið hafi staðið með biskupi er ég samt ekki alveg viss um. Það voru ýmsir sem vildu hjálpa þessu konum en höfðu til þess hvorki kjark né hugrekki, vitandi vits að mannorð sitt væri e.t.v. í húfi auk starfsmöguleika í framtíðinni.  Sjálfur var ég í guðfræðideild á þessum tíma ásamt Guðbjörgu og mörgum öðrum sem nú eru komnir í prestastétt. Þá hvarflaði það ekki að nokkrum manni að skrifa blaðagreinar í tengslum við þessi mál né nokkuð annað nálægt því, vitandi vits að það hefði gríðarleg áhrif á það hvort menn yrðu prestar eður ei. 

Þetta mál er erfitt viðfangs og viðkvæmt að mörgu leiti. En það verður að fjalla um það. Umræðan verður að halda áfram. Ekki það að biskupinn okkar núna eða einhver eigi að segja af sér að. Fyrir mér leysir það ekki neinn vanda. Þessi umræða þarf sinn tíma. 

 

 

 

 


mbl.is Segir allt stjórnkerfið hafa stutt Ólaf
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sá þetta viðtal

  

Ég sá Sigrúnu í Kastljósinu í kvöld og mér fannst hún komast nokkuð vel frá þessu viðtali. Þvílík hörmung sem hún hefur gengið í gegnum á þessum umliðnum árum. Það vakti t.d. sérstaka athygli mína þegar hún talaði um að hafa lent í leiðindum niðrí bæ, eins og að fólk hefði gengið á hana og sagt dónalega hluti.  Flóki Kristinsson segist einnig,  í viðtali við DV, hafa lent í svipuðum hlut en hann studdi Sigrúnu á sínum tíma eins og hann gat og var Ólafi ekki vilhallur. Svo segir Sigrún að það hafi verið talað  inn á símsvarann alls konar óþverra og dónaskap.  Allt vegna þess að fólk stóð með biskupi Íslands herra Ólafi Skúlasyni.  

Og menn gátu þar fyrir utan greinilega ekki staðið upp í hárinu á Ólafi né komist neitt áleiðis með hann. Til þess var Ólafur of harður maður og of karismatiskur. Sumir menn eru þannig. Þú kemur inn í herbergi og þekkir engan en tekur samt eftir einhverjum einum umfram annan. Ólafur var slíkur maður sem allir tóku eftir þó svo að menn þekktu hann ekki fyrir í tengslum við neina frægð. Útgeislun fólks er misjöfn en sterkir leiðtogar hafa að öllu jöfnu mikla útgeislun. Að ganga inn í eitthvað herbergi og ætla að sannfæra slíka menn um eitthvað bara gengur ekki.  Hitler var alveg eins, menn ætluðu að sannfæra hann um hitt og þetta og urðu strax komnir á öndverða skoðun (þá er ég að tala um dæmi um karisma, ekki að bera þá Ólaf almennt saman). Alveg eins væri hægt að taka Davíð Oddsson sem dæmi um slíkan leiðtoga. En fyrst að Ólafur valdi þá braut að verða prestur þá má kannski segja að það hefði alls ekkert komið í veg fyrir það að hann yrði biskup. 

Áður en Ólafur mætir til leiks sem biskup þá er fólk í rauninni vant öðru. Sigurbjörn Einarsson hafði verið andlegur leiðtogi til fjölda ára, dýrkaður og dáður. Síðan kemur Pétur Sigurgeirsson, bæði rólegur og elskulegur. Og svo er það Ólafur sem sest í embætti sem forverar hans höfðu sinnt af þvílíkum heilagleika, ekki síst Sigurbjörn sem hafði gríðarleg áhrif á mótun kirkjunnar á 20. öldinni.  Þá allt í einu er biskupinn Ólafur sakaður um að hafa nauðgað einhverju fólki!  Á þeim tíma vildu margir heldur ekki trúa þessu enda alveg gjörsamlega úr takt við Sigurbjarnar-heilagleikann.  Maður í þessu helga embætti og ásakanir um eitthvert kynferðislegt ofbeldi er líkast til meira en margur gat þolað. Eða með öðrum orðum: þetta gat ekki farið saman. E.t.v. skýrir það viðbrögð sumra gagnvart Sigrúnu og öðrum konum; ekki það að ég vilji verja gerðir fólks þannig, en sitthvað í sögunni kann að skýra ferlið þannig.

Svo er það þetta með völdin. Menn í háum stöðum eiga sér net vina og skiptir þá engu hvað eða hvað kemur uppá, það er hægt að bjarga  málunum fyrir horn, dæmigert fyrir Ísland. Og Ólafur Skúlason var orðinn of voldugur til þess að hægt væri að sigra hann með ákærum um kynferðisglæpi rétt sísona. Margir studdu hann enda karismatiskur (sterkur leiðtogi) með afbrigðum sem hafði hæfileika til þess að stjórna öðru fólki all hressilega í kringum sig. Ætli það hafi ekki verið hvað helst árásir dagblaða sem gengu frá hans ferli sem biskup þannig að hann hætti fyrr en hann hafði ætlað sér. 

Það var samt engin hetja sem stóð upp og mótmælti biskupi nema ef vera skyldi Geir Waage. En Pálina leitaði aldrei til hans. Hún leitaði til manna sem gátu einhverra hluta vegna ekki hjálpað henni.  Sú tegund af manni sem stendur fast á meiningu sinni, hvikar ekki frá henni og hættir öllu fyrir skoðun sína, trú og sannfæringu, hún fannst ekki hjá kirkjunni á þessum tíma (kannski núorðið,  hvað veit ég).  Marteinn Lúter og nafni hans King voru báðir þannig,  Sókrates og Jesús Kristur.  Manstu líka eftir unga fólkinu sem mótmælti nasismanum og Hitler og kölluðu sig Hvítu Rósina, en voru síðan tekin af lífi fyrir mótmæli sín (tek það samt skýrt fram að ég er ekki að líkja kirkjunni saman við nasista).  En það vildi engin fórna sér fyrir Sigrúnu Pálínu eða málstað þeirra. Ef einhver hefði gert það þá, þá væri hann eða sá hetja í dag eða hvað heldur þú? 

Í dag er það á tæru meðal allavega flestra að Sigrún Pálina var að segja satt um afbrot biskups gagnvart sér og hún nefnir 6 aðrar konur sem hafa sams konar reynslu að segja. Ég trúi henni alveg og þeim öllum.   

 


mbl.is Veit um sex aðra þolendur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sáttur við þessi málalok

Þetta er ég sáttur við og ég var að bíða eftir einmitt þessu. Sættir, góð málalyktan, mál klárað, það skiptir miklu máli, hér sem alltaf.  Stundum er það samt sem það ætli alls ekki að nást. Menn verða reiðir og hörð og þung orð eru látin falla. Svo fara menn í blöðin og ýmislegt er sagt. Skoðanaskipti eru ágæt, of mikil harka er óþægileg og linkind leyfir hinu slæma að vaða uppi. En það þarf ávallt að vera til réttlæti í okkar heimi sem er eitthvað sem við þurfum stöðugt að vera að takast á við.

 Sumum fannst og finnst e.t.v. enn að Geir Waage hefði átt að víkja vegna hugmynda sinna. Því er ég ósammála þ.e. ef hægt er að fara leið sem sé sársaukaminni þá skuli sú leið ávallt valin.  Það á sér einmitt stað hér. Hvort að biskup áminnti Geir vegna þess sem undan er gengið veit ég ekki og þarf ekki að vita það. Ef máli er lokið endanlega með sátt þá er fínt. Það væri samt gott, svona í framtíðinni að  yfirlýsingagleði hjá prestum, eins og var raunin hjá Geir, verði ekki framvegis á forsíðu dagblaða. Það mátti heyra öskrað og æpt hér og þar og út um allt ekki meir Geir, ekki meir!

 

 


mbl.is Mun hér eftir sem hingað til hlýða tilkynningaskyldu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ósammála Geir Waage

Prestar verða að kunna að þegja. Það er sannleikur í sjálfu sér. Kynferðisafbrot er hins vegar enginn venjulegur hlutur. Nú fer maður til prests og segist hafa misnotað barn og vilji ekki gera slíkt en ráði ekki við sig og vilji hætta þeirri iðju.  Hvað myndi presturinn gera í slíku máli? Er hann fær um að hjálpa manninum út úr vandanum einn og óstuddur án annarra fagaðila. Væri ekki betra fyrir hann að fá aðstoð frá öðrum sem vita hvernig eigi að taka á slíkum málum? 

Síðan er það börnin sem maðurinn hefur misnotað. Presturinn vill ekki rjúfa trúnað en samt verður hann að gá að sálarheill þessara barna ekki satt? Hvernig ætlar hann að gera það án þess að hafa aðra fagaðila með sér og án þess að ræða við aðstandendur viðkomandi barna þannig að þeir viti um hvað málið snúist? 

Segjum að ég vilji leita til prests með eitthvað allt annað mál. Persónulegt vandamál sem enginn veit um en tengist depurð eða einhverjum andlegum erfiðleikum. Þar myndi ég segja að presturinn þyrfti ekki á öðrum að halda, ég hefði hann einan og hann gæti leiðbeint mér með einhverjum hætti. Hann gæti líka vísað mér annað til annarra góðra fagaðila sem hann teldi að gætu hjálpað mér betur (tek þetta bara sem dæmi).  Ef ég vildi ekki að hann segði frá okkar samtölum þá yrði hann að virða það. Hinsvegar ef hann teldi víst að ég færi mér að voða, dræpi mig eða annan mann? Hvað þá? Hér læt ég staðar numið með þessa umræðu en vísa því til þín lesandi minn að svara þessari spurningu þó ég hafi sjálfur svarað henni í eigin huga. 

Fagleg vinnubrögð prests eru ekki bundin við eitthvað svart og hvítt. Kristin kirkja getur ekki lifað bara í einhverju regluverki. Hún verður að vera lifandi og þjóna fólkinu sem til hennar leitar með réttum hætti. Prestur verður að hafa dómgreind til þess að vega og meta aðstæður. Ef hann situr einvörðungu í trúnaði, sama hvað, þá er hann um leið að girða sig af frá öðrum fagstéttum og um leið er jafnvel sá möguleiki fyrir hendi að hann læri ekki af öðrum í tengslum við ýmis mál. 

Prestur einn og sér á að búa yfir getu til að takast á við ýmis erfið mál, sum mál er hins vegar þess eðlis að vegna stærðar þeirra og alvarleika getur presturinn ekki höndlað þau einn og sér. Kynferðisafbrotamál eru þar á meðal.  Ég hafna því alfarið og er því ósammála að trúnaður við presta verði að engu ef trúnaðarskylda við presta sé ekki algjör.  Fólk mun ekki hætta að leita til presta með trúnaðarmál. En það gæti að vísu gert það gagnvart einstaka presti sem kann ekki fagleg vinnubrögð og kann ekki að þegja þegar hann á að gera það. 

Það skiptir máli fyrir kirkjuna að hún sé þess meðvituð hvaða fagleg vinnubrögð hún ætlar að viðhafa í kynferðisafbrotamálum. Líka að þeir sem koma nýir inn sem prestar viti hvernig þeir eigi að bregðast við gagnvart slíkum málum. Eftir sem áður verða menn að kunna að þegja og ræða um það sem máli skiptir við rétta aðila. 

Að lokum vil ég óska Geir Waage velfarnaðar og ég vil nefna að ég kýs málefnalega umræðu. 

 


mbl.is Ríkari trúnaðarskylda samkvæmt lögum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Spurning Geirs Waage er óásættanleg að öllu leiti

 Það var svo sem ekki ætlunin hjá mér að fara að fjalla um þetta mál, nema hvað að ég hnaut um þessa spurningu hér hjá Geir Waage:

 Hvert á brotamaður að leita ef hann getur ekki lengur einu sinni leitað til prests, og treyst því að hann fari ekki með allt til lögreglunnar? 

 Jæja já segir maður nú bara og það sem kemur upp í hugann er ýmislegt eins og: 

 Af hverju ætti kynferðisafbrotamaður að leita til Geirs Waage? Þessir menn eru nú í því að fela þessa hluti og reyna að komast upp með þá sem allra lengst. 

Gerir Geir Waage virkilega ráð fyrir því að brotamaður ætli sér eða vilji  yfirhöfuð leita eitthvert með glæp sinn til þess að fjalla um hann?

Sú staðreynd að með því að þegja yfir kynferðisafbroti verður maður í raun samsekur með glæp. Þú leyfir honum að halda áfram og viðgangast með því að þegja. 

Það er ekki hægt að fara í prédikunarstól og prédika um réttlæti og rétta breytni meðan maður á sama tíma er að hylma yfir því sem er rangt og eyðileggur, eins og hér, börn fyrir lífsstíð þannig að þau verði ALDREI hamingjusamir einstaklingar. 

Þagnarskylda í huga Geirs Waage skiptir meiru máli en sál barns sem verið er að rústa einhversstaðar í nágrenninu. 

Ef ég fer nú til Geirs og segi honum að ég hafi misnotað barn og sé  enn að, geti ekki hamið mig gagnvart börnum, lemji barnið mitt og önnur börn, já og láti þau jafnvel hafa vímuefni, bara eitthvað af þessu. Þá væri ég að tala um, hvað svo sem ég nefndi af þessu, alveg heljarinnar óréttlæti í verki sem miðaði að því að sprengja fjölda fólks í loft upp. Vilja menn hafa það á samviskunni að hafa vitað af slíku en ekkert gert til þess að sporna við því? Allt í nafni einhverrar þagnarskyldu sem á þá að hafa meira vægi. 

Spáðu svo í því ef þú værir sóknarbarn Geirs og þú kæmist að því að einhver bóndi í sveitinni hefði misnotað barnið þitt kynferðislega til fjölda ára og Geir Waage af öllum hefði vitað af því allan tímann og ekkert gert né sagt til að sporna við því.  

 Það er rosalega margt rangt við þessa spurningu hjá Geir. Hún er óásættanleg að öllu leiti og á ekki heima neins staðar. Hvorki í starfi prests né í fjölmiðlum. Bara hvergi. 

 


mbl.is Þagnarskyldan er algjör
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ósáttur bara

 Svona eins og svo oft þegar ég er á netinu að sýsla eitthvað þá fer ég inn á fréttaveiturnar. Í morgun fór ég inn á DV.is sem er ekki frásögu færandi nema hvað að við mér blasti stærðarinnar mynd af rauðhærðum gaur, sem var nafngreindur sem... og hafði verið tekinn fastur, var í greipum lögreglunnar en látinn laus rétt í þessu!! 

Þetta er bara ekki frétt.  Á piltinn sannaðist ekkert; ekki dæmdur í varðhald né ákærður fyrir eitt né neitt.  Það að lögreglan hafi verið að spjalla við hann segir mér ekki nokkurn skapaðan hlut. Hann er saklaus uns sekt hans er sönnuð og hér hefur ekkert verið sannað, ennþá allavega. 

Svo er það hitt að DV er að tengja fréttina sína við dramatískan ástarþríhyrning og úr því verður auðvitað djúsí frétt.  Pilturinn fór á YouTube og setti inn myndband af sér þar sem hann var að játa ást sína á konu sem vildi hann jafnframt ekki. Hún reynist síðan tengjast hinum látna og telur DV þá að um ástríðumorð gæti hugsanlega  hafa verið að ræða. En þá erum við komin út í slúður, vangaveltur og ímyndunarafl. Við vitum sannleikann upp að ákveðnu marki, eftir það tekur við einhver rannsókn til þess að vita meira. Ef við gerum það ekki, þá getur ímyndunaraflið tekið við og við finnum greinilega blað eins og DV á þeim bási. 


mbl.is Fordæmir nafn- og myndbirtingu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gaman að þessu

 Það var fyrir eitthvað tveimur árum sem ég var að skemmta mér við að leysa þessa þraut. Til þess að leysa kubbinn fannst mér handhægast að fara á YouTube og athuga hvort að þar væri ekki einhver snillingur sem kynni þetta. Júbb eins og svo margt annað þá var þar að finna kennslumyndband í því að leysa kubbinn. Svo horfði maður í smá stund og var kominn með þetta á engri stund.

Þegar ég var krakki þá eignaðist ég svona kubb og hékk yfir honum og tókst ekki að leysa utan einu sinni að ég tók hann í sundur og raðaði honum rétt saman aftur við ekki nokkra einustu hrifningu hjá einum né neinum.  Þá fór ég strax og ruglaði honum aftur og tókst einhverra hluta vegna að raða honum saman á ný samkvæmt einhverri slembilukkuaðferð.  Þá hélt ég reyndar að maður ætti að ná hornunum fyrst og svo restinni.  Sem er ekki kennt á YouTube svo ég viti til. 

En allavega þá byrjar maður á því að ná einni hlið, svo miðjunni og síðan síðustu hliðinni. Aðferðin er einföld og ferlega gaman að kunna þetta, sérstaklega þegar maður kemur eitthvert í heimsókn sér svona kubb - æpir upp yfir sig og segir nei rúbbík kubbur! Svo raðar maður honum saman, skellir honum í hilluna aftur og fer að tala um eitthvað annað! 


mbl.is Töfratala Rúbik-kubbsins fundin
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Reynslusaga af facebook

 Það kom fyrir einhverntíma um daginn að ég var að bisa við að setja upp sitthvað nýtt á facebook. T.d. fannst mér spennandi að prufa annan lit í staðinn fyrir bláa facebook litinn, vera með bakgrunnsveggfóður (svona eins og er eða var hægt að finna á MySpace) og prufa alls kyns fítusa eins og að geta verið með skáletraðan texta, yfirstrikaðan, feitletraðan og fleira auk þess sem hægt væri að vera með dislike hnappinn.  Þannig að ég fann viðbætur fyrir tölvuna til þess að setja þetta upp. 

Þetta varð allt saman alveg ferlega mislukkað eitthvað. Sérstaklega vegna þess að það reyndist bara vera ég sem sá eitthvað skáletrað eða litað o.s.frv. og það bara í minni tölvu.  Síðan fór ég að taka eftir nokkru sem ég var lítt spenntur fyrir en það voru litlar auglýsingar sem ég var alls ekki að biðja um að fá og voru þær staðsettar inn á milli þess sem kom frá vinunum. Alveg nauðaómerkilegar auglýsingar í þokkabót.

Svo var ekki hægt að losna við þessa óáran  nema að taka allt uppsetta draslið út sem ég og gerði.  Ég nota alltaf firefox, fór bara í tools og þar er staður sem heitir viðbætur. Lítið mál að þurrka í burtu svona dót.  En til þess að dislike hnappur eins og þarna var virki þá þurfa allir að vera með hann uppsettan hjá sér í gegnum staðlað form hjá facebook. Svona viðbætur hins vegar eru eftir þetta fyrir mér bara algert bull. 

Að öðru leiti þá finnst mér dislike/líkar ekki við - hnappur á facebook ekki nauðsynlegur. Mín skoðun á þessum vef er sú að hann sé til þess að mynda jákvæð samskipti við annað fólk, styrkja tengsl og þess háttar. Annað sem manni líkar ekki ætti maður að bara láta liggja milli hluta. 


mbl.is „Dislike“ hnappurinn er svindl
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Höfundur

Þórður Guðmundsson

Þórður Guðmundsson þroskaþjálfi

Nýjustu myndir

  • bill cosby 620x480 cemrf
  • ATI-lower-review-polymer
  • ATI-lower-review-polymer
  • download JFK
  • Aretrov

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (19.3.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku:
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku:
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband