Bloggfærslur mánaðarins, nóvember 2010

Mín sýn á Gunnar

Fyrir mitt leiti þá er það alveg ótrúlegt að Gunnar Þorsteinsson skuli vera borinn þeim sökum að hafa brotið kynferðislega á kvenfólki. Á ýmsu átti maður von en ekki þessu. Í rauninni var ekki að sjá annað en að það væri verulega bjart framundan hjá þeim Jónínu og þau hamingjusömust allra. En svo gerist þetta.

Á þeim 20 árum sem ég hef fylgst með Gunnari, þó svo að ég hafi aldrei verið meðlimur í Krossinum, en samt hlustað á skoðanir hans, í sjónvarpi líka, og oft hitt hann, þá hefur það ekki farið framhjá mér að Gunnar hefur fordæmt kynferðislega lesti, alla kynferðislega lesti, hórdóm og saurlifnað ýmiss konar, og það svo mjög að harðari mann í þeim efnum hef ég ekki getað fundið.  Svo mjög hefur mér fundist hann harður að samkynhneigðir áttu sér ekki viðreisnar von lengi vel.  Og Krossinn hefur í gegnum tíðina verið allverulega harður í tengslum við hvað væri rétt kynferði. Sami söfnuður og Gunnar sjálfur hefur mótað frá upphafi.  Máli sínu til stuðnings hefur hann óspart vitnað í Pál og tekið þar vers sem eru ýmsum kynferðislegum löstum til fordæmingar.  Hvað segiði? Var Gunnar svo að laumast eitthvað á sama tíma? 

Þess vegna virkar það svo furðulegt og útúrsnúið að sami maður skuli hafa, á sama tíma og hann er hvað harðastur í kynferðislegri lastafordæmingu, staðið í einhverju káfi og þukli á fólki.   Þessi skapmikli og harði prédikari sem var jafnvel enn harðari þegar hann var yngri er þannig skotinn niður af færi í fjölmiðlum samkvæmt ásökunum kvenna sem dúkka skyndilega upp hver af annarri.  Og þessar ásakanir eru þar með að segja að þessi trúmaður sé í raun og hafi verið, afskaplega ósamkvæmur sjálfum sér að eðlisfari.  Sem hittir ekki í mark fyrir mér. Nema að einhver vilji meina að hann hafi verið að fela eitthvað og einmitt þetta allan þennan tíma. En það gengur heldur ekki alveg ef tekið er mið af því maðurinn er þrusugóður í guðfræði og því sem stendur í Biblíunni og lifir beinlínis eftir því sem þar stendur eða þannig hef ég kynnst honum allavega. 

 Gunnar hefur einmitt alla tíð verið býsna harður og fylginn sér í skoðunum. Einu sinni var talað um hann í fjölmiðlum hvernig hann hefði orðið ef hann hefði kosið sér stjórnmál í staðinn fyrir trúmál. Hvernig hefði Gunnar orðið á þingi? Þá var talað um mann sem hefði verið flottur og fylginn sér. Sennilega leiðtogi einhvers stjórnmálaflokks.  

Það er mín sýn á Gunnar sem setur mig í það að skrifa þessa grein. Ekki það að ég tilheyri hans vinahópi eða þeim sem standa honum næst. Ekki hefði ég getað skrifað slíka grein um Ólaf Skúlason þó svo að ég reyndi meðan hann sat undir svipuðum ásökunum, né heldur um prestinn sem sakaður var um daginn um kynferðisofbeldi, og fór til Noregs; hann þekkti ég þó persónulega. 

 Ekkert af því sem ég hef heyrt til þessa um sekt Gunnars, sannfærir mig um sekt hans, og þá um leið með tilliti til þess sem ég hef skrifað hér að ofan. Hingað til hef ég þekkt Gunnar af góðu og ég hef kynnt mér safnaðarstarf hans nokkuð vel sem guðfræðingur. 

Nú hefur Gunnar ákveðið að stíga til hliðar sem forstöðumaður. Ef hann hættir sem forstöðumaður Krossins þá tel ég það ákaflega vont fyrir söfnuðinn. Gunnar er nefnilega það sem kallast karismatiskur leiðtogi og slíkir menn eru ekki á hverju strái. 


mbl.is Gunnar stígur til hliðar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þetta er ágætt

Það er óþarfi að gera lítið úr því að þjóðfundur sem þessi eigi sér stað.  Samtal eins og á sér stað á þessum fundi er mikilvægt. Okkar samfélag þarf að velta þessu reglulega fyrir sér. Hver eru t.d. grunngildi samfélagsins. Hvert skal stefna og hvert er æðsta viðmiðið.  Þjóðfundur ætti að eiga sér stað reglulega og festa sig í sessi sem eitthvað ákveðið form sem skiptir máli fyrir samfélagið allt. Mig langar síðan sjálfan að geta lesið með einhverjum hætti afrakstur fundarins. Væri hægt að setja það upp í einskonar bók sem hægt væri að sækja og lesa sér til ánægju? 

Annað er þó til þess að gera afrakstur þjóðfundar erfiðan og það er hvernig eigi að fylgja því eftir sem þar er sagt. Er það hægt? Með hvaða hætti er það hægt? Stjórnmál t. a. m. geta í eðli sínu orðið þess eðlis að fleiri en ein leið getur verið fær og réttlætanleg í ákveðnum málum. Staðan getur einnig verið þannig að til eru segjum tvær leiðir og báðar eru slæmar. Valin er ein leið til þess að leysa eitthvert mál og það er óvinsæla leiðin en samt besta leiðin til þess að leysa málið. Svo kemur einhver utanaðkomandi sem hefur ekki kynnt sér hlutina jafnvel og fer að fjalla um óheiðarleika í stjórnmálum. Það sem ég vil meina er að hlutirnir eru kannski ekki alltaf jafneinfaldir og þeir virðast vera og það er mun auðveldara að sitja við borð á þjóðfundi og fjalla um grunngildi í samfélaginu. 

Sem verður allt eins að gera vegna þess að það er líka og hefur verið óheiðarleiki í stjórnmálakerfinu, fjármálum, bönkum og út um allt. Það verður að halda á lofti mikilvægum hugsjónum og koma með breytingar til þess að laga hlutina til betri vegar. Takk fyrir þjóðfundinn.


mbl.is Staðfestir visku fjöldans
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Dansað í Perlunni

Svo var að árshátíð skyldi verða í vinnunni viku eftir þetta og fara fram á hinum glæsilega veitingastað Perlunnar, nánar tiltekið á föstudagskvöldi. Um það fékk ég tölvupóst og spursmál um skemmtiatriði. Auðvitað langaði mig til þess að mæta með, þú veist, og svaraði því þannig til hvort ekki væri pláss fyrir einmitt þetta, steppdansatriði? Tölvupósturinn var vinnupóstur merktur öllum þannig að það sáu allir svarið - sem þýddi að allir tóku við sér og ég fékk hvergi frið eftir þetta, allt frá lyftunni og út um allt á skrifsstofu fyrirtækisins. Ég var jafnvel beðinn um að taka nokkur spor hér eða þar. 

Damn! Út í hvað var maður búinn að koma sér núna? Ástæðan fyrir æfingaleysi mínu var í sjálfu sér ekki leti heldur aðstöðuleysi og tímaleysi. Skyldi þetta heppnast þrátt fyrir það? Ég lét slag standa á þetta og ákvað að gera eitthvað svona once in a lifetime úr þessu. 

Ég fór og leigði mér ensk herraföt sem kallast jackett, auk þess sem ég fékk mér pípuhatt. Þannig klæddur í silfurlituðu vesti mætti ég til leiks, til þess að skemmta fjölda fólks, undirmönnum sem og yfirmönnum, + auðvitað mátti ég ekki gleyma skónnum góðu. Var ég stressaður? Eins og á leiðinni fyrir aftökusveit? Nei kannski ekki alveg en samt þá leið mér hálfundarlega. Skrítnar kringumstæður. Ég hafði komið fyrr um daginn til þess að skoða staðinn ásamt skipuleggjendum. Ég skyldi dansa þarna, við skyldum færa til stóla og borð...síðan skyldum við...og svo...ta ta ta...

Um kvöldið, þegar allir voru sestir tók ég ákvörðun um hvernig ég skyldi gera þetta. Í raun skipulagði ég dansinn skömmu áður en hann skyldi fara fram.  Hann yrði af fingrum fram fyrir framan barinn og fyrir framan lyftuna.  Þetta áttu eftir að verða erfiðustu aðstæður sem ég gat hugsanlega valið mér.  En ég hafði pláss einhversstaðar á bak við til þess að hita upp sem betur fyrir, fyrir framan einhverja hljómsveitargaura sem botnuðu lítið í hvað ég væri að gera þar. 

Atriðið sjálft. Ég hélt á míkrafóni í annarri hendinni. Fór úr jakkanum og hafði pípuhattinn á hausnum uns ég hélt á honum góðan spöl og lagði hann á barinn.  Barborðið sjálft notaði ég óvænt til þess að slá takt  í hita og þunga leiksins.  Spor voru í þetta skipti fæst samin á staðnum en voru svipuð þeim sem urðu til viku áður, en ég notaði sama lagið enda gott fyrir rennslið að gera það. Þannig var komin prufukeyrsla á atriðið áður (ég hafði ekki hugsað það þannig upphaflega).  Einhverntíma þegar leið á lagið og var vel á veg komið... þá fór fólk að klappa með... sem þýðir aðeins eitt. Nú þarf ég ekki að segja. Þú veist hvað ég meina. En gólfið var hið versta til þess að dansa á. Í raun þá voru þetta hinar allraverstu aðstæður til þess að gera þetta. Hljóð berst illa í svona stórum sal. 

En svo virðist mér samt að þetta hafi í raun heppnast. Atriðið fékk talsvert umtal. Ég mátti hvergi fara án þess að talað væri um það við mig þetta kvöld. Í raun þá var oft talað um þetta atriði við mig af hinum og þessum og það heila árið eftir þetta. Til mín kom maður löngu síðar sem sagði mér að fólk væri enn að tala um þetta, annar sagði mér að þetta væri eitt besta dansatriði sem hann hefði nokkurn tíma séð og þriðji sagði að það hefði allt svínvirkað, frá klæðnaði til alls! Frábært vissulega þegar hlutirnir ganga upp auðvitað. En svo var einhver sem sagðist ekkert hafa heyrt í tónlistinni, hvað þá í tikk takkinu í mér af því hann hefði verið of langt í burtu. Sem segir mér hversu erfiðar aðstæðurnar voru og erfitt að skemmta fólki svona.

Það er ofsalega gaman þegar tekst að skemmta fólki.  En það sem ég verð að viðurkenna er að ég botna lítið í því hversu gaman fólk hefur af þessu. Hvað er það sem gerist og hvaða áhrif hefur þessi taktur á fólk? Oft hefur mig langað til þess að sjá svona atriði hjá sjálfum mér en í rauninni þá hef ég ekki æft mig fyrir framan spegil síðan ég var hjá rússneska ballettdansaranum. Ég hef heldur aldrei tekið mig upp á cameru. Sjálfum finnst mér svona nokk ekkert svo ýkja merkilegt þannig en hins vegar þá er þetta fyrir mér hin mesta skemmtun og ég fæ talsvert út úr því að gera þetta. 

Ég er ekki samt viss um að þú finnir minn stíl neins staðar. Flest sporin eru samin af mér sjálfum. Þau er ekki að finna í neinum dansskólum í rauninni. Það sem ég lærði af þeirri rússnesku eru tvö spor af tuttugu, restin varð bara grunnur fyrir hitt eða með öðrum orðum, ég bjó þetta allt til meira eða minna sjálfur út frá grunni sem ég hafði áður lært, til þess að skemmta öðrum.  Þó svo að mér hafi ekki tekist að skemmta alveg öllum með þessu þá hefur mér tekist að skemmta einhverjum og þar með er markmiðinu með því að stunda þetta náð.  Mér tókst það sem ég ætlaði mér í upphafi og ég get haldið áfram að láta mér takast það. 

 Takk fyrir að lesa um þetta áhugamál mitt. Kannski bæti ég einhverju við. Hver veit :)

 


The Reunion

Það var svokallað reunion á síðasta ári hjá okkur sem vorum saman í barnaskóla og gaggó. Virkilega flott og ógó gaman. Ég vildi auðvitað gefa mig í skemmtiatriðin og var með tvö (nema ekki hvað).  Stemmningin var góð og vonandi hittumst við aftur innan tíðar. Skemmtilegt að hitta aftur svona marga af þeim sem maður var með  í barnaskóla. Hefði ekki viljað missa af þessu tækifæri.

Ég fann lag með Fred Astaire daginn sem við ætluðum að hittast sem heitir Puttin on the Ritz. Mátulega langt lag. Hlustaði á það, skynjaði taktinn, brenndi það á disk og hafði það með mér. Ég æfði mig í raun ekkert fyrir atriði kvöldsins. Skónna hafði ég ekki farið í í tvö eða þrjú ár. Hvort ég kynni þetta ennþá eða gæti þetta nokkurn skapaðan hlut, væri í nógu góðu formi eða myndi sporin, einhver spor, ég vildi bara reyna á það.  Langt var um liðið síðan ég dansaði í risinu eins og vitleysingur og æfingar síðustu 10 árin voru ... engar. 

Í rauninni þá á maður yfirhöfuð aldrei að leggja útí eitthvað svona án þess að vera búinn að æfa sig... rifja eitthvað upp... taka einhver spor. I didn´t.   Þegar á hólminn var komið fann ég samt ekki fyrir neinum kvíða svona sérstökum, ekkert ofboðslegum; um leið og forspilið var búið þá leið mér eins og ég hefði engu gleymt, og ég rann áfram að mér fannst átakalaust. Ég meira að segja samdi helling af sporum á staðnum. 

Eftir á spyr maður sig hvort að svona nokk hafi virkað. Höfðu áhorfendur gaman að þessu. Það er ein leið sem ég sé besta til þess að vita það og það er útfrá umtali. Ef það kemur einhver til mín sem var ekki á staðnum og sá atriðið ekki og fer að tala um það hversu æðislegt það hafi verið og fólk hafi verið að tala um það við sig, þá veit ég að atriðið virkaði fyrir víst (gerðist einmitt þarna).  Hrós er alltaf skemmtilegt og maður á að taka mark á slíku (og njóta þess auðvitað).  Ég fékk fullt af svoleiðis þarna sem ég er þakklátur fyrir og feginn því að atriðið hafi þá gengið upp eftir allt saman. 

Ef skemmtiatriði hefur ekki náð að skemmta fólki... þá þegir fólk vanalegast við mann. Það fer að hugsa um eitthvað annað, talar ekki um atriðið, eins og það vilji gleyma því hið fyrsta. Einhver einn gæti dúkkað upp til að gagnrýna  (kannski). Af slíku hef ég einnig haft einhverja reynslu, þó ekki beinlínis í tengslum við steppið. 

 Viku eftir þetta átti eftir að koma annað tækifæri fyrir svona rennsli og það var í Perlunni - flotta æðislega matsalnum á efstu hæðinni fyrir framan 300 manns!   Það gat svo sem verið að ég æfði mig ekkert í millitíðinni en ég lét slag standa og fór með skóna þangað líka...

 ....Kem aftur með framhald rétt fyrir miðnættið!


Dansaði á bjórkvöldum!

Einhverju sinni tók ég skónna með mér uppí Kennó. Bjórkvöld eru haldin þar öðru hvoru með Karaókí eða einhverju öðru, lifandi tónlist og alls konar. Á svoleiðis kvöld mætti ég og það bjóst í sjálfu sér enginn við mér.  Ég man eftir fullum sal af fólki, fólki að syngja karaókí og ágætis stemmningu. Það var liðið aðeins á kvöldið, einhverjir voru vel í glasi og smók. Og....svo kom ég. Ekkert mál, bara taka við míkrafóninum og hvaða lag ætlarðu að syngja vinur? Nei nei ég ætla ekki að vera með neitt lag sagði ég, bara smá gjörning. Ókei dókei og það sagði ég í míkrafónin. Viljiði vera svo væn að hafa hljótt ég ætla að vera með gjörning hérna! Þetta endurtók ég tvisvar eða þrisvar en aldrei minnkaði skvaldrið í salnum. Þangað til ég ákvað að byrja bara....

Ég skellti niður hægri fætinum og byrjaði á staðnum.  Það varð þögn um leið. Svo hélt ég áfram í smástund, ekkert lengi neitt en fólk hafði gaman af þessu sýndist mér.  Síðan gerist nokkuð sem ég bjóst ekki við.  Við þessa iðju var tekin mynd af mér og birtist hún í næsta stúdentablaði! Ekki á forsíðunni en með klausu af frétt af vel heppnuðu bjórkvöldi kom mynd af mér að mig minnir aftan á blaðinu og að ég hefði sýnt þennan tiltekna dans þarna og hvernig ætti að framkvæma hann!

Ég fór upp aftur seinna á öðru kvöldi á sama stað í Kennó einhverju síðar og mér fannst það ekki eins gaman, fékk reyndar verðlaun fyrir besta atriðið en einhverjum fannst það snubbótt, ekkert lag, stutt og eitthvað ekkert spes.  

Á þessum árum 2004 til 2008 var ég svo til ekkert mikið að þessu. Ég sat í Kennó og var að læra þroskaþjálfan í fjarnámi. Tók fram skónna svona stundum og tók örfá spor hér eða þar án undirleiks og en ég bara er farinn að gleyma þeim stundum mörgum hverjum. 

Verð að segja að milli 1996 og 2004 þá lagði ég þetta meira eða minna á hilluna og lagði ekki stund á þetta að neinu marki og fór sjaldan í skónna.  Það gerist ekkert sérstakt í þessu fyrr en 2009 en þá fór ég að upplifa eitthvað nýtt með einmitt þetta... 

Reyndar verð ég að segja að persónulega þá hef ég ekki átt auðvelt með að skilja hvers vegna fólki finnst þetta skemmtilegt. Einhverjum finnst það ekki, alveg pottþétt. Sjálfum finnst mér gaman að hoppa svona og skoppa en einhvernveginn samt er þetta fyrir mér ekkert stórmerkilegt hvað svo sem öðrum finnst. 

Lokaorðin í þessu koma annað kvöld og þá verð ég að segja það sem hefur komið mér helst á óvart. 


Höfundur

Þórður Guðmundsson

Þórður Guðmundsson þroskaþjálfi

Nýjustu myndir

  • bill cosby 620x480 cemrf
  • ATI-lower-review-polymer
  • ATI-lower-review-polymer
  • download JFK
  • Aretrov

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (19.3.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku:
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku:
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband