Survivor fyrir einfalt fólk

 Það er ábyggilega ekki nokkur maður sem kannast ekki við Survivor. Nú þegar hafa verið framleiddar tuttugu  og eitthvað þáttaraðir og sú fyrsta mun hafa skutlast í loftið einhversstaðar í kringum aldamótin.   Fyrir þá sem hafa ekki horft á þessa þætti þá flokkast þeir undir raunveruleikaþætti þar sem að hópur fólks fær að húka á einhverri fallegri eyðieyju (vanalegast) og leysa þrautir auk þess sem það kýs einhvern annan í burtu þannig að sá hinn sami vinni ekki leikinn. Einn stendur síðan eftir og vinnur risastórt verðlaunafé. 

425.survivor.council.lc.102110Hvenær fær fólk leið á svona raunveruleikaþáttum? Þáttum sem snúast um akkúrat þetta, að losa sig við einhvern með því að stinga rýting í bakið á honum og halda svo áfram þar til einn er eftir.  Við getum kallað þetta höfnunarleiki. Nóg er reyndar til af þeim ennþá og síðustu ár hafa verið margir í þessum stíl.  Við höfum þetta í milli fatahönnuða, dansara, söngvara, fjármálasnillinga,  og kokka svo eitthvað sé nefnt. 

Samt er engin þáttaröð jafn áberandi hvað varðar plat í þáttagerð og Survivor. Allt á þetta að líta raun verulega út. Þarna er kominn hópur af fólki sem sefur útí villtri náttúrunni og veiðir sér til matar. Þess á milli keppir það hvert við annað og kýs einhvern til þess að yfirgefa staðinn. Ef vel er að gáð þá er fólkið býsna sturtulegt að sjá. Það er ótrúlega hreint í framan. Karlarnir eru flestir með skegg en vel snyrt samt. Enginn er með fitugt eða skítugt hárið. Hvar er úfna, fituga, og flækjuhárið? Raunverulega ef þú værir út í óbyggðum þá myndir þú ekki ná að halda hárinu þínu svona góðu eins og sést þarna.   Og skegg þarf að snyrta. 

Fyrir eina kvöldstund þar sem þarf að kjósa fólk í burtu, sem dæmi, þarf að snyrta liðið þannig að það komi vel út í sjónvarpi. Svona aðeins að lagfæra og smínka líka (eða er það ekki?). Eða með öðrum orðum þá er hópur af fólki að dytta að þessu liði alveg stanslaust.  Í rauninni heyrði ég einu sinni að þarna væri líka sérstakur starfsmaður í því hlutverki að ergja þetta fólk og gera það reitt. Trúi því hver sem vill. 

Þarna eru leikir í gangi og margir af þeim teknir út frá mismunandi hliðum, en auðvitað þá sérðu hvergi tökumann eða merki um neinn slíkan, hvað þá hljóðmann eða einhverskonar tæknimann. Sem þýðir að atriði kunna að vera stöðvuð eða tekin upp aftur. Ef það verður einhver mistök við upptöku þá hljóta menn að taka upp aftur ekki satt. 

Þegar upp er staðið þá er þetta bara alls ekki raunverulegir þættir. Ofangreint miðast meira eða minna við rökhugsun, hvað með restina sem við sjáum ekki? Þáttaröðin verður að virka og það verður að vera hægt að selja hana.  

Svona þáttum fylgir í rauninni ekki mikill raunveruleiki. Það er fyrir einfalt fólk að halda annað. Þetta er í sjálfu sér blekkingarleikur sjónvarpsframleiðslunnar.  Og sá sem vinnur er sá sem kemur best út við framleiðsluna, sá sem er flottastur á skjánum, ekki sá sem fólkið sjálft ákveður að kjósa í burtu. Eða er það ekki bara ansi líklegt? 

 


Jólahugleiðing

Þeir hétu víst Caspar, Melkíor og Baltasar, vitringarnir sem komu frá austurlöndum til þess að færa Jesúbarninu gjafir. Þeir komu með gull, reykelsi og myrru, og hafa að öllum líkindum verið voða fínir og flottir.  Gullið hefur átt að tákna konungdóm, reykelsið vísdóm en myrran þeirra örlaga sem biðu þess.

Alveg hefur það verið yndislegt að þessir menn gátu komið með þetta allt. Ætli þeirri hefðu ekki annars getað verið ákjósanlegt skotmark ræningja þessa tíma. Svona skrautmenni með gull í farangrinum, sem í þokkabót hafa verið svo uppteknir af stjörnu að þeir geta alveg ómögulega hafa verið á varðbergi gagnvart einhverjum hættum.

Svo sjáum við þá alltaf fyrir okkur á úlföldum.  Það er eins og þeir séu einu mennirnir í allri Biblíunni sem séu verandi á úlföldum, allir aðrir eru fótgangandi eða setjast á asna.  En allavega þá komu þeir langt að og sáu stjörnuna einhversstaðar í fjarska og eltu hana.  Ef þeir hafa upphaflega verið staddir í öðru landi, nota bene heima hjá sér,  þá hefur það tekið þá marga daga að fylgja stjörnunni, svo marga að María sjálf hlýtur að hafa verið stödd annars staðar en í Betlehem þegar stjarnan fór að skína, þ.e.a.s. miðað við að þeir þurftu tíma til þess að koma og hitta fyrir hið nýfædda barn.  Sem hljómar einhvernveginn einkennilega.

Það er miklu fremur sem að þarna séu þessar persónur í startholunum, í landinu sjálfu, bíðandi þess að geta fylgt stjörnu, jafnvel mjög auðveldlega, til að finna lítið barn vafið reifum með hraði. Þetta eru jú þrír vitrir menn. Vitringar, snillingar, gáfumenni síns tíma. Eða hreinlega miklar hetjur að vilja leggja á sig alla þessa leið, grýtta braut, framhjá ræningjum og villidýrum, fyrir þetta litla barn. 

Þessir menn eru gjafmildir, til í slaginn, grípa tækifærið þegar þeir sjá það og fylgja innsæi sínu.   En svo hverfa þeir eins og í skyndi. Þeir urðu víst að flýta sér úr landi blessaðir mennirnir og sjást aldrei framar á þessum slóðum. Það kannast allavega enginn við þá meira.  

En mikið svaðalega hafa þessir menn verið ríkir. Í dag vilja fæstir rjúka til og gefa ókunnugum svo mikið.  Í því felst samt boðskapur jólanna, að sýna gæsku, velvild, gjafmildi, að leggja sitthvað á sig til slíks, að mæta til leiks og koma á óvart. Tími gleði og undrunar er ekki liðinn. Sá tími er einmitt núna. 


Heimsendir - gamanþættir eða alvara?

Heimsendir eru þættir á Stöð 2 sem fjalla um fólk á hæli upp í sveit. Hælið er ætlað fólki með geðsjúkdóma og það hús er ekkert sérstakt; stofnanalegt og hrátt með lélegu starfsliði og reglum sem hjálpa engum neitt sérstaklega. Þetta á allt að gerast árið 1992. 

Eru þetta gamanþættir?  Margir héldu þegar sami hópur bjó til þætti um nætur-, dag- og fangavaktir að um væri að ræða gamanþætti. Því hafa aðstandendur hins vegar hafnað og talað um efnið sem dramatískt fremur en annað. Vissulega hafa þeir þættir yfir sér kómískt yfirbragð og margur hló sig máttlausan útaf vitleysisganginum í Georgi og þeim félögum.  Líkast til halda því sumir að Heimsendir eigi að vera gamanþættir en því er vel hægt að neita miðað við fyrri efnistök og umræðu og þeirri staðreynd að nefndir þættir eru á köflum full óhugnanlegir.

Þeir fara sumir á kostum þarna. Karl Ágúst Úlfsson er t.d. alveg ótrúlega góður í hlutverki geðsjúks manns. Svo vel er hann að ná þessu hlutverki að það varla að það glitti í manninn sem hefur verið að leika í spaugstofuþáttum sl. 22 ár eða svo. Jóhann Sigurðarson nær alveg ferlega vel tröllinu sem biður ekki um annað en sígarettur. Það er auðvelt að ofleika þarna en mér sýnist fæstir gera það. Að sjá Benedikt Erlingsson svona sljóan er alveg ótrúlega sérstakt. 

Það sem er annars sérstakt þarna er hversu stofnanalegt þetta allt saman er, hversu lélegt starfsliðið er og undirmannað, og hversu reglurnar eru um leið slakar.  Það er t.d. ótrúlega slakt að samþykkja að einn iðjuþjálfi fara í ferðalag með 6 sjúklingum sem hann síðan ræður ekki við aleinn, m.a. þegar fara á í sjoppu eða inná veitingahús þar sem allir nánast fara í sitthvora áttina til þess að fylgja þráhyggju sinni.  Á sama tíma ákveður hjúkkan á hælinu að bregðast við mótmælum frá hópi sjúklinga með því að plata þá alla með sér inn í matsal, þar sem hún síðan læsir þá alla inni. Sem á faglegu máli myndi kallast slæm vinnubrögð og gróf valdbeiting. Þessi saga á eftir að enda með ósköpum. 

Á svona saga erindi við okkur í dag? Einhver gæti sagt nei. Vegna þess að svona nokkuð er bara óhugnanlegt og vart sýningarhæft. Mín skoðun er samt sú að það eigi ekkert að fela þennan veruleika og hann megi alveg birtast í einhvers konar þáttaröð. Það voru stofnanir hér áður sem voru mikið verri en þessi Heimsendastofnun, með mikið leiðinlegri reglum og alveg jafn undirmannað og finna má þarna.  Það er alger óþarfi að þagga þá staðreynd niður og í fínu lagi að sýna mynd þar sem að reglurnar eru brotnar og hlutirnir eru klárlega ekki í lagi. Þessi saga er að vísu ýkt en það er áhugavert að horfa á hana m.a. útfrá sjónarhóli fagmennsku. 

Þetta er vel leiknir þættir, svona að mestu leiti, en mig grunar að Pétur Jóhann og Jörundur sem léku svo vel í vaktaþáttunum séu ekki að fara að stela senunni þarna, það sé í höndum annarra. Sem er náttúrulega bara mín skoðun.

 

 

 


Ekki líta undan eftir Guðrúnu Ebbu Ólafsdóttur

Bókin Ekki líta undan er komin út. Það þarf kjark, styrk og talsvert þrek til þess að gefa frá sér þvílíka bók. Á undanförnum árum hefur það færst í vöxt að gefnar hafa verið út bækur eftir konur þar sem þær lýsa þungbærum minningum úr lífi sínu. Skemmst er að minnast bókarinnar Myndin af pabba eftir Thelmu Ásdísardóttur sem gefin var út fyrir nokkrum árum. Sú bók lýsir uppvexti Thelmu í Hafnarfirðinum þar sem faðir hennar misnotaði hana ítrekað sem og um leið systrum hennar.

Bók Guðrúnar Ebbu er af sama toga, nema hvað að faðir hennar var Biskup Íslands. Enginn talaði um það að verið væri að sverta minningu föður Thelmu á sínum tíma en sú umræða hefur hins vegar komið upp varðandi bók Ebbu.  Eftir sem áður þá eiga allir sína sögu, sína minningu og sumir eiga ekki skilið lofræður að öllu leiti. Og gagnvart sumum hlutum er ekki hægt að loka augunum. Það verður stundum að horfast í augu við staðreyndir. 

Þegar þú lest þessa bók þá færðu engar lýsingar á afbrigðilegri kynlífshegðun. Þú færð ekkert að vita hvað raunverulega skeði í bíltúrum þeirra Ólafs, hvað það var sem hann gerði raunverulega. Mig grunar að sumir vilji ekki lesa bækur af þessum toga einmitt út af því.  Það er óþarfi að hafa áhyggjur af því að verið sé að fara illa með lesandann með grófum athafnalýsingum. Hins vegar þá fer talsverður tími í að lýsa Ebbu sjálfri, veikindum hennar og neikvæðri framkomu gagnvart öðru fólki; sem hún hefur þegar beðist fyrirgefningar gagnvart. Og þessi bók er ekki bara eitthvað eitt. Hún er einnig fræðilegs eðlis hvað varðar kynferðisofbeldi, hver séu eftirköst kynferðisofbeldis á líf fólks.  

Það er fyrir mér þröngsýn skoðun að segja að falskar minningar ráði för í þessari bók. Það er miklu meira þarna en bara minningarnar. Það eru einnig fjallað ýtarlega um vandamál sem eru bæði sálræn og geðræn. Hvers vegna koma þessu vandamál? Hverju eru þau tengd? Ef um falskar minningar væri að ræða og einvörðungu það, þá myndi vanta tengingar í þessa sögu. Hana verður að skoða sem heild. Það dugar ekki að taka út eitthvað eitt og efast um sannleiksgildið  þess vegna.

Ef þú hafðir ánægju af að lesa  æviminningar Lindu Pé, Erlu Bolla, Ruth Reginalds og Thelmu Ásdísar,  þá er þessi bók eitthvað fyrir þig. 


Ég var á Gay Pride og tók þátt í göngunni, hvar varst þú?

Mikið svakalega var gott veður á Gay Pride þetta árið. Eftir marga hundleiðinlega skýjaða daga birtist alveg yndislegur sólardagur og um leið svona svakalegt stórt húllumhæ eins og raun ber vitni.

Það var alveg hárrétt ákvörðun að færa gönguna til eins og gert var. Miðað við allan þann mannfjölda sem kom núna til að fylgjast með þá hefði það alls ekki verið gerlegt að fara niður Laugaveginn. Ekki þar fyrir utan þá voru tæplega 40 atriði á leiðinni sem er meira en í fyrra en þá fóru 30 af stað.  Þessi leið finnst mér hafa verið góð vegna þess að þarna var miklu meira pláss fyrir allt fólkið sem vildi fylgjast með. Fyrir bara þetta 7 árum síðan þá var farið niður Laugaveginn og þá var alls ekki svona mikið af fólki. Þetta  hefur vaxið á alveg gríðarlega bara á nokkrum árum.  Á þeim tíma fór enginn í gönguna nema hann væri í raun og vera samkynhneigður en ég tel það hafa breyst mikið og núna er fjöldi gagnkynhneigðra í þessari göngu, og samkynhneigðir sem fylgjast með af gangstéttinni. 

Það var geysilega gaman að labba með einu atriðinu þarna. Þvílíkur mannfjöldi sem staðsetti sig þarna við götuna alls staðar og Arnarhóllinn var þakinn fólki. Annar hver maður var með myndavél þannig að maður er á fjölda mynda út um allan bæ núna.  Áætlað er að um 100.000 manns hafi verið þarna. Sem er bara þriðjungur þjóðarinnar og stór hluti bæjarbúa. Var nokkur maður heima hjá sér meðan á þessu stóð?  Sjálfur þekkti ég ekki svo marga af þessum mikla fjölda og mann rekur auðvitað í rogastans gagnvart öllu þessum aragrúa og þeirri staðreynd að það þekkir mannn eiginlega enginn eða óskaplega fáir. 

Þessi ganga er í rauninni ekki lengur bara ganga samkynhneigðra. Fyrir mér er hún eitthvað stærra og meira en það.  Þetta er ganga þar sem staðfest er ákveðið frelsi. Það er frelsið til þess að vera sú manneskja sem mann langar til þess að vera án þess að þurfa að liggja undir fordómum.  Fordómar tengjast í rauninni þröngsýni. For-dómur, að hafa ekki skoðað málið til hlýtar, frá sem flestum sjónarhornum, og dæmt fyrirfram án þess að hugsa um hlutinn neitt dýpra en það. 

Það eru fordómar alls staðar, gagnvart öllu mögulegu, ekki bara gagnvart hommum og lesbíum, heldur gagnvart alls kyns fólki eins og t.d. feministum, fólki frá Asíu og Afríku, öryrkjum, fötluðum, geðsjúkum, kleppi, dvergum, fólki í sértrúarsöfnuðum, islam, guðfræðideildum, og jafnvel gagnvart bankafólki.  Alls kyns minnihlutahópar sem fylla ekki uppí eitthvert norm meirihlutans eiga oft bara erfitt uppdráttar. Þröskuldar eru búnir til af einmitt þessum meirihluta sem samt er sundurgerður hópur manna. Samfélagið sjálft getur búið til fatlaðra fólk en það er í raun og veru, fleiri öryrkja en þurfa að vera, eða fólk sem er áætlað skrítið en er í raun ekkert skrítið, það er bara búið að stíga á það með klossuðum stígvélum og dæma það sem öðruvísi. Á sama tíma erum við öll svo ólík og enginn sér heiminn með nákvæmlega sömu augum. 

Við viljum hafa samfélag fyrir alla, fjölbreytilegt hafandi svigrúm til þess að fá að vera sú manneskja sem mann langar til að vera.  Það eru bara öll þessi viðhorf sem við erum að kljást við alla daga, árið um kring. Eftir sem áður þá eru alltaf takmörk gagnvart öllu frelsi eins og að það er bannað að ganga um nakinn þó svo að það hafi verið leyfilegt í Barcelona til margra ára.


Extreme makeover þættirnir á Stöð 2

Extreme makeover er að hefja göngu sína á ný á Stöð 2 núna í júlí. Fyrir þá sem ekki hafa fylgst neitt með þessum raunveruleikaþáttum, þá fjalla þeir um fjölskyldur í Bandaríkjunum sem detta í lukkupottinn með þeim hætti að hús þeirra er eyðilagt, rústað, rifið algerlega og nýtt byggt á einni viku. Þessir þættir eru búnir að vera í mörg ár og þáttagerðin sýnist mér ekkert hafa breyst. Sami kynnir, rúta og vinnubrögð. 

Þetta eru elskulegir raunveruleikaþættir þar sem fólk grætur í hverjum þætti, allavega tárast og góðverkin eru alveg á fullu. Þeir sem byggja húsið eru 100 manns eða meira og allt voðalega flott þegar upp er staðið. Á meðan er fjölskyldan höfð á hóteli einhversstaðar og getur fylgst með eyðileggingunni í gegnum skype.  Hún veit hins vegar ekkert hvað verið er að smíða og sér ekkert fyrr en húsið er tilbúið. 

images?q=tbn:ANd9GcSK2-485OSKYpJ-niG5Q6iAKOABZ6X-Cmm-hC5KO2JZNuBkYxuyxQÉg hef velt því fyrir mér hvort að enginn hafi orðið ósáttur við breytingarnar; húsið fellur ekki að smekk, herbergin ekki í réttum lit o.s.fr.v.  Sem getur vel verið en slíkt kemur auðvitað ekki fram í svona þætti.  Merkilegt hversu rík ein sjónvarpsstöð getur verið, að halda út svona gjafaþáttum ár eftir ár. Það er skollin á kreppa þarna úti en samt eru þessir þætti á fullu. 

Hvernig er samt hús sem byggt er í einum grænum hvelli á einni viku? Húsið er byggt með hraði og undir pressu og þegar hús er byggð svona hratt , getur þá ekki verið að eitthvað gleymist? Hvað veit ég, þetta virkar allt svo flott þegar upp er staðið. 

Hverju sem því líður þá er það svolítið annað sem hefur vakið athygli mína sem er hið samfélagslega.  Það hefur nefnilega komið fyrir að næstu nágrannar og ýmsir aðrir á sama svæði hafi fyllst af öfund vegna þessara flottu raunveruleikaþáttahúsa og neitað að eiga frekari samskipti við fólkið í þeim. Þannig hafi sumir einangrast félagslega.  

Svo er annað. Þegar fólk hefur búið lengi í litlu hreysi með biluðu baði og öllu hripleku; hvernig gengur því að sinna fallegu húsi með arin og allskonar íburði? Það þarf að viðhalda húsinu, þrífa það og halda því í horfinu. Hvað veit ég um það hvernig fólki gengur, en það er kannski ekki alltaf allt eins einfalt og auðvelt og það virðist í fyrstu. 

Það er annars alltaf hægt að kíkja á þetta til þess að gleðjast og tárast. Vasaklútaþættir. 


Eldhúsmartraðir Gordons Ramsay's

Ég hef verið að horfa svolítið á labbitúra Gordon Ramsays milli veitingahúsa undanfarið.  Ef þú ert með Stöð 2 um þessar mundir þá geturðu horft á þessa þætti. Þetta eru alveg ferlega spes þættir og gaman að horfa á þá en samt ekki kannski  að staðaldri, viku eftir viku, heldur miklu fremur öðru hvoru. Sem er náttúrulega bara mín skoðun og þarf ekki að endurspegla skoðanir þjóðarinnar;)

Í síðasta þætti sem ég sá, þá fór Gordon til Costa del Sol og fann þar brezkan veitingastað í slæmum málum.  Í eldhúsinu var einn ungur kokkur og hann var að elda samkvæmt 72 rétta matseðli, gestum hafði fækkað vegna þess að þeir fengu í magann, maturinn illa eldaður, kaldur eða bara frosinn.  Á veröndinni var grillmeistari sem grillaði fremur illa matinn, of mikið stundum og geymdi auk þess til næsta dags einhvern hluta þess. Gólfin voru skítug og hægt að finna hundaskít við borð gesta. 

Auðvitað fékk Gordon nokkur reiðiköst þarna. Kokkurinn fékk að finna endalaust fyrir því og allt gert til þess að laga staðinn á einni viku.  Gólfin þrifin, skipt um grillmeistara, matseðlinum breytt, kokkurinn skammaður aftur og aftur, og tilraun gerð til þess að fá fyrri viðskiptavini til baka enda staðurinn í fjárhagslegri klessu.

Það sem ég er hvað mest að velta fyrir mér er hversu erfitt það hljóti að vera að ætla sér að breyta einhverju sérstöku á einni viku eins og Gordon er að gera þarna.  Frábært hversu hann veit alltaf betur og hversu fljótur hann er að fatta vandann á jafnstuttum tíma (sem er mér reyndar til efs, úttekt hlýtur að hafa átt sér stað löngu fyrr). 

Hins vegar þá er eitt þarna sem ég er að hnjóta um og það eru aðferðir Gordons, hversu mjög hann getur orðið reiður við fólk og skammast og rifist. Ef við tölum um það sem er hægt að læra í tengslum við stjórnun þá er það iðulega ekki vænlegt til árangurs. Fólk fer margt hvert bara í baklás og vinnur hlutina verr og mun verr en ef einhverri annarri aðferð væri beitt.  Sem er þó ekki alltaf. Sumir eflast við skammir, adrenalínið fer út blóðið og það verður duglegra vegna þess að það er bara orðið reitt og reiðin keyrir fólkið áfram.  Þetta er því nokkuð tvíbent. Ramsay er býst ég við að miða  að hinu síðara ellegar eigi menn bara að yfirgefa eldhúsið. 

Það er kraftur í þessu ekki spurning, en þættirnir er bara allir svo svipaðir.  Allt í klessu, léleg vinnubrögð, Gordon veit betur, engir kúnnar og reiðiköst.  Þess vegna er maður ekki að glápa á þetta nema bara í einhverju letikasti öðru hvoru, þegar maður hefur ekkert betra að gera, en langar til þess að sjá eitthvað kraftmikið sem er ekki svo fjarri manni sjálfum. Svona mannlega hluti sem geta gerst alls staðar. 


Þjóðkirkja í kreppu II

 Ég fór ekki á hið aukalega kirkjuþing sem haldið var í Grensáskirkju um daginn. Almenningur getur vel farið og fylgst með umræðu þar.  Líklega hefði ég náð að heilsa ýmsum þar, m.a. biskupnum sjálfum sem hefur fyrir mitt leiti alla tíð virkað vinalegur og heilsað elskulega.  Biskupinn sat kirkjuþing til þess að axla ábyrgð og vera bæði áhorfandi og hlustandi, spyrjandi og svarandi. Ýmsum meðal guðfræðinga hefur reyndar fundist eftir þetta að biskupinn hefði einmitt axlað ábyrgð ef hann hefði ákveðið að víkja af fundi strax eftir ræðu sína eða mæta einfaldlega ekki.   Merkilegt hversu menn geta verið á skjön hver við annan.

 

 

 

 


Þjóðkirkja í kreppu

Það er ýmislegt að gerast hjá Þjóðkirkjunni núna. Undanfarið hefur hvert málið eftir annað orðið til þess að skekja hana. Eiginlega er vart hægt að horfa upp á þetta lengur án þess að úr verði einhver alveg ótrúlegur dapurleiki. Það vilja samt flestir tjá sig um þessa hluti og hver hefur sína skoðun sem er ósköp eðlilegt. 

Eyjan.is gerði könnun um daginn um það hvort fólk vildi fremur, að Karl biskup sæti áfram eða hætti. Meira en helmingur vildi að hann hætti eða 54%, aðeins meira en fjórðungur var ekki viss en einvörðungu 21% vildi að hann héldi áfram.  Sjálfur ætlar Karl að halda áfram eða svo sagði hann í síðasta viðtali. Úrtakið var rúmlega 800 manns. 

 

 

 


Ég er neysluvara og er til í hillu :)

Við búum í neyslusamfélagi. Þegar við tölum um neyslu þá dettur mér helst í hug eitthvað matarkyns. Neyslan í dag sem slík er samt miklu stærra fyrirbrigði og inniheldur allt það sem við kaupum og notum frá degi til dags þannig að við getum verið ánægð og liðið vel.  Efnislegir hlutir eru þeir hlutir sem hugsum helst um í þessum efnum. En nei við erum óseðjandi að mörgu leiti. 

Við erum stöðugt að kaupa og henda.  Eftir að kreditkortin komu þá hefur margur misst skynbragð á það hversu mikið hann í rauninni á. Það er ekki neitt talið lengur með höndunum, heldur er plastkort rétt fram og við getum fengið það sem við erum að biðja um. Þetta ferli er hægt að endurtaka á hverjum einasta degi árið um kring.  

Síðan þegar við höfum nýtt hlutinn sem við keyptum til hins ýtrasta þá er honum hent og annað fengið í staðinn. Á hverjum einasta degi er verið að henda alveg gríðarlega miklu magni af sorpi. Sem betur fer er sumt sett í endurvinnslu þannig að hægt sé að nýta þá aftur. 

Svo er annað sem kemur einnig til kasta neyslunnar. Það er skemmtiefni og öll sú afþreying sem hægt er að sækja í.  Vont er að vera tónlistarmaður sem lendir í því að gefa út tónlist sem síðan gengur manna á milli ókeypis í tölvutæku formi. Það er einnig vont að vera tónlistarmaður sem nær vinsældum í einhvern ákveðinn tíma en lendir síðan í því að áhugi fólks breytist eftir mánuði eða ár og enginn kveðst muna eftir honum lengur.  

Sem uppistandari get ég verið allt eins einsog einhvers konar neysluvara. Fólk kemur og finnst atriðið fyndið og vill meira. Áhuginn vex og allt er gaman uns áhuginn dvínar aftur og uppistandið á ekki lengur uppá pallborðið hjá fólki vegna þess að það er orðið leitt á manni. 

Tökum sem dæmi Gillz.  Hann á sinn tíma núna í skemmtanaheiminum sem ég er nokkuð viss um að hann vill fá sem mest út úr. Eftir einhverja mánuði eða ár kaupir hann e.t.v. enginn, hvað veit ég. En allt sem svona menn gera er handa neysluheimi sem er óseðjandi og biður stöðugt um eitthvað nýtt til þess að seðja þörf sína fyrir gleði og notalegheit, í heimi sem býður uppá endalausa möguleika til þess að gera eitthvað skemmtilegt. 

Ég hvorki þekki né skil Gillz persónulega, né heldur marga aðra sem sjást í sjónvarpinu. Svo held ég að sé um flesta aðra. Þarna er skemmtiefni sem verður um leið ansi hlutlægt. Áhrif þess alls verður samt svo að við skynjum heiminn eins og hann er sem neysluheim án þess að kannski beinlínis að spá í því. Við spáum í hlutunum miðað við hversu mikið við getum fengið út úr hlutunum. Við spáum í öðru fólki út frá því hversu mikið við getum fengið frá því eða út úr því.  Annað fólk verður þannig hluti af þessum neysluheimi. Þannig verður ein manneskja allt eins einsog neysluvara í þessum stóra heimi, og um leið og  innihaldið samræmist ekki lengur eftirspurn, þá er vörunni ýtt til hliðar eins og hverjum öðrum hlut og annað tekið inn í staðinn sem virkar meira spennandi uns sá hlutur hefur einnig misst gildi sitt. Þannig geta mörg hjónabönd endað.

 Það er ekki algilt að fólk hugsi svona en kapphlaupið um góðgæti þessa heims hefur blindað fjölda fólks. Það er ekki öll hamingja fólgin í því að eignast hluti eða fá handa sjálfum sér; heldur einnig í því að kunna að slaka á og meta það sem maður raunverulega hefur og á. Grasið er ekki grænna hinum megin þó svo að það líti út fyrir það. Þú veist ekki hversu mikið þú hefur fyrr en þú hefur misst það. 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Þórður Guðmundsson

Þórður Guðmundsson þroskaþjálfi

Nýjustu myndir

  • bill cosby 620x480 cemrf
  • ATI-lower-review-polymer
  • ATI-lower-review-polymer
  • download JFK
  • Aretrov

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (29.4.): 2
  • Sl. sólarhring: 6
  • Sl. viku: 16
  • Frá upphafi: 29614

Annað

  • Innlit í dag: 2
  • Innlit sl. viku: 16
  • Gestir í dag: 2
  • IP-tölur í dag: 2

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband